Kirkjan í fjölmiðlum

Kirkjan í fjölmiðlum

Nokkrir fjölmiðlar leita logandi ljósi að tilefni til að flytja neikvæðar fréttir af kirkjunni, en lítið fer fyrir tíðindum af blómlegu starfi hennar.
fullname - andlitsmynd Gunnlaugur S Stefánsson
18. mars 2016

Nokkrir fjölmiðlar leita logandi ljósi að tilefni til að flytja neikvæðar fréttir af kirkjunni, en lítið fer fyrir tíðindum af hinu blómlega starfi hennar.

Ríkisútvarpið flutti t.d. frétt um að einn hafi mætt í messu í tiltekinni kirkju og gaf í skyn, að það væri prestinum að kenna. Nú sjá allir að æra myndi óstuðugan, ef Ríkisútvarpið færi í síbylju að hella yfir landsmenn í fréttatímum aðsóknartölum af ýmsum félagslegum viðburðum. Enda var hér aðeins flutt forspil í „leikriti“.  Litlu síðar „upplýsti“ Ríkisútvarpið í stórfrétt og endurtók dögum saman, að sami prestur hefði fengið greiddar margar milljónir í akstursgreiðslur úr sóknarsjóði og gaf í skyn að væri illa tekið fé. Við nánari grennslan kom í ljós, að greiðslan nam innan við milljón á ári. Lítið var gert með útskýringar sóknarnefnda, að presturinn þjónar í fjölmennasta einmenningsprestakalli landsins með þremur sóknum sem sannarlega útheimta viðkomandi akstursþörf, átti ekki frumkvæði að aksturssamningnum, en sóknarnefndir vildu að hann nyti sömu kjara og forveri hans gerði, og hafði oft á undanförnum árum verið til umræðu fyrir opnum tjöldum, bæði á safnaðarfundum og í fjölmiðlum. Því síður kom til hugar að upplýsa, að prestar aka óhjákvæmilega mikið vegna starfa sinna, og langt umfram fastar akstursgreiðslur, verða að leggja til embættisþjónustunnar eigin bifreið og sjá um rekstur hennar;- og er ólíku saman að jafna við aksturskjör fréttafólks á Ríkisútvarpinu. Var tilgangurinn með fréttaflutningnum að koma höggi á prestinn og kirkjuna?

Dögum saman hömuðust nokkrir fjölmiðlar á kirkjunni vegna „gruns“ um, að einhverjir prestar myndu neita samkynhneigðum um hjónavígslu á grundvelli samviskufrelsis. Fréttaflutningurinn fór út um víðan völl, en alltaf var í forgrunni getgátan, að innan kirkjunnar væri að finna fólk sem væri illa við samkynhneigða. Svo loksins, þá kom blaðamönnum á Fréttablaðinu í hug að hringja í alla presta landsins og spyrja hvort þeir myndu vígja samkynhneigð hjón. Niðurstaðan var skýr. Það fannst enginn prestur sem myndi neita samkynhneigðum um hjónavígslu. Umræðan þagnaði. Var tilgangur fréttaflutningsins að koma höggi á kirkjuna?

Í október árið 2012 var boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur að nýrri stjórnarskrá. Þar lagði stjórnlagaráð til, að ákvæðið um Þjóðkirkjuna yrði tekið út úr stjórnarskrá. Í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar höfðu háværar raddir haft góðan aðgang að fjölmiðlum með áróður sinn gegn kirkjunni, alls konar sleggjudóma um misvitra ríkiskirkju sem væri afæta á ríkissjóði, og fullyrt að atkvæðagreiðslan fjallaði um aðskilnað ríkis og kirkju sem allar skoðanakannarnir vildu. Þjóðaratkvæðagreiðslan var því aðeins formsatriði. Þjóðkirkjan átti ekki upp á pallborð vinsældatorgsins.  En svo kom niðurstaðan. Þjóðin hafnaði einni tillögu stjórnlagaráðs með afgerandi meirihluta. Hún vildi hafa sína Þjóðkirkju í stjórnarskrá. Það kom engum meira í opna skjöldu en fjölmiðlum og vantrúarfólki. Enda var hljótt með það farið.

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar sagði mikið um hug almennings til Þjóðkirkjunnar, stöðu hennar og störf, gildi kristins siðar í landinu og trúfesti fólksins við kirkjuna sína og þrátt fyrir hamagang fjölmiðla gegn kirkjunni. Vinsældakannanir mæla stundarhrifningu og ráða ef til vill fréttamati undir álagi dagsins annar. En staðreyndir um traustið tala sínu máli. Fólkið treystir á þjónustu kirkjunnar, ekki síst þegar á reynir og mikið er í húfi.  95% útfara eru í Þjóðkirkjunni, börnin eru borin til skírnar og fermast, og Siðmennt heimtar að nota kirkjurnar fyrir athafnir sínar, sem söfnuðurnir byggja og eiga, en ekki ríkið. Við sem störfum á akri Þjóðkirkjunnar finnum gjörla, að fólkinu finnst vænt um kirkjuna sína og svíður þegar á hana er hallað með ómaklegum fréttaflutningi. En fólkið gerir kröfur til allra, sem starfa í þjónustu kirkjunnar, að leggja sig fram, vanda til verka, standa þéttan vörð málefni hennar og láta ekki hrekjast undan lýðskrumi tíðarandans, þó stundum hátt fari.