Allt gott?

Allt gott?

Hvernig hefði það annars verið ef myrkrið hefði skyndilega ljómað upp, himneskar hersveitir komið að ofan – og englarnir hefðu sagt eitthvað á þessa leið – „Jæja, er ekki bara allt gott?“

Gleðileg jól!

Við eigum svo margar kveðjur sem nýtast vel þegar við hittum fólk á förnum vegi eða viljum hita okkur upp fyrir ánægjulegt spjall: „Góðan daginn“, „blessaður/blessuð“, „hæ“, „hvað segirðu?“, „Er ekki allt gott?“ Auðvitað þessi séríslenska: „Alltaf nóg að gera?“ Þær eru víst fleiri kveðjurnar og þær eiga sér ýmsa skírskotun í verkefni okkar og viðfangsefni. Þær tengjast velfarnaði í lífinu almennt eða þá á tilteknum degi sem fæðist og deyr. Sumar eru leiðandi spurningar, jafnvel algjörlega út í bláinn. Hvernig er hægt að vænta þess af breyskum og dauðlegum mönnum – að allt sé gott! Hvílíkt og annað eins!

Gleði

En kveðjan sem við berum hvert til annars á hinni helgu hátíð er alveg sérstök og engri lík: Gleðileg jól! Hún segir svo mikið um þennan tíma sem nú er genginn í garð. Jólin eru tími gleðinnar, ekki bara gleði þeirra sem komast nálægt því að „allt sé gott“ í þeirra lífi heldur líka gleði allra hinna. „Gleð þig særða sál“ og „Í dag er glatt í döprum hjörtum“ segir í sálmunum og það er jú í þessum sama anda.

Ótal dæmi má nefna um það hvernig gleðileg jól lífga upp særðar sálir og varpa ljósi á það umhverfi sem virðist svo afskekkt og umkomulaust. Þessi sama gleði hefur ótrúleg áhrif, gefur framkallað gleði og sátt þar sem síst skyldi, jafnvel frið á vígvöllum.

Gleðileg jól. Kveðjan er stór og merkileg og hún horfir inn í sálina á okkur.

Innihald

Gleðin er þó ekki neitt sem kemur af sjálfu sér, hún kemur ekki eftir pöntun. Við vitum, að til þess að geta brosað þarf ákveðið hugarþel ef brosið er ekta og það sem að baki því býr. Þjóðþekktur maður sem þykir vera meðal þeirra fyndnustu hér á landi sagði eitt sinn – „grín er ekkert gamanmál“ og við getum sagt það sama um gleðina. Ef hún er einlæg þá er hún þarf hún að byggja á einhverju traustu og öruggu rétt eins og allt það annað sem einhvers virði er í okkar lífi. Yfirborðslegt bros er ekki gleði og jól sem hvíla á slíku eru ekki gleðileg.

Jólakveðjan okkar fallega horfir einmitt til þess að við kunnum að fanga þann sanna boðskap sem jólin hafa fram að færa.

Ljósið lýsir upp mykrið

Við hlýddum á hann hér í guðspjallinu áðan. Sagan af kraftaverkinu í Bethehem er einmitt lýsing á því hvernig ljósið lýsir upp myrkrið þar sem hið guðlega og mannlega mætast.

Sannarlega geyma jólin margar andstæður, þessi er ein þeirra: Fátækir hjarðmenn fá engla í heimsókn og af viðbrögðum hinna síðarnefndu hefur hirðunum ekki orðið um sel, „Verið óhræddir“ segja englarnir. Hvernig hefði það annars verið ef myrkrið hefði skyndilega ljómað upp, himneskar hersveitir komið að ofan – og englarnir hefðu sagt eitthvað á þessa leið – „Jæja, er ekki bara allt gott?“ Ég held að blessaðir smalarnir hefðu ekki lifað fleiri nætur. Enda væri kveðjan sú, svo órafjarri öllum veruleika.

Nei, þessir menn höfðu það ekki „allt gott“ frekar en aðrir, en þeir fengu engu að síður fyrstu jólakveðjuna: „Sjá ég boða yður mikinn fögnuð“ eða með orðunum sem við flytjum hvert öðru á þessu töfrakvöldi: „Gleðileg jól.“ Gleðin og fögnuðurinn sem hér er boðuð er ekki innantóm hrifning eða þvingað bros. Hún á ekkert skylt við síbyljuna sem yfir okkur dynur og er stundum jafn merkingarlaus og kveðjurnar sem við köstum hvert á annað í dagsins önn. Hún er óháð því hvort menn búa að auði og fjársjóðum sem ryðgar og fúnar, eða eiga enga slíka. Jafnvel hinar særðu sálir gleðjast og þeir sem búa afskekkt og búa við lík skilyrði hirðunum sem sátu úti í nóttinni á Bethlehemsvöllum.

Langvinn jólagleði

Jólagleðin á að lifa í hjörtum okkar lengi. Hún fjallar um það sem er raunverulegt og ekta og getur verið svo sterkt að það lýsir upp tilveru fólks sem býr jafnvel við hin erfiðust kjör. Það er gleðin og bjartsýnin sem birtist okkur í hinu nýfædda barni á jólunum fyrstu. Þegar við kyrrum hugann og ýtum frá okkur óþarfa áreiti eins og við ættum öll að gera reglulega og þá auðvitað á jólunum líka – fer vel á því að hugleiða hin dýpstu verðmæti. Hvað skiptir þig mestu máli? Það virðist ekki skipta höfuðmáli við hvaða kjör fólk býr eða í hverjum aðstæðum það er.

Fólk leitar hamingju sem byggir á innihaldi. Það vill gera vel við aðra og það vill gjarnan skilja eitthvað eftir sig. Allt þetta birtist okkur einmitt svo sterkt í aðdraganda hinna gleðilegu jóla. Fólk vill færa gjafir til ókunnugs fólks – sem það veit að mun aldrei gefa því gjöf á móti, af þeirri einföldu ástæðu að það veit ekki hver gefandinn er. En það að gleðja aðra manneskju er einmitt það sem er svo gleðilegt, að vita það og finna það að við höfum með ómaki okkar bætt eitthvað, kallað fram bros og ánægju er svo dýrmætt.

Þessar gjafir verða ekki síður tilefni gleði en allir þeir pakkar sem við fáum afhenda í kvöld og hitta svo beint í hjarta okkar.

Svo kemur kyrrðin

Og svo þegar allt er um garð gengið. þegar undurnarhljóðin hafa hljómað, þakklætiskosum smellt á okkar nánustu og pappírnum er komið fyrir til hliðar, þá setjum við niður, horfum í kringum okkur og gefum hugsunum okkar frelsi. Þá ættum við að hugleiða það sem okkur er dýrmætast. Ekki það að „allt sé gott“ í okkar lífi eða annað sem ekki er raunhæft – heldur einmitt að líf okkar sé gleðilegt vegna þess sem við eigum og þrátt fyrir það sem að okkur steðjar.

Jólagleðin birtist í svo margvíslegri mynd en heitust er hún og sönnust þar sem hún býr í hjarta okkar. Og það er einmitt þangað sem kveðjunni fallegu er beint. Megi hún lýsa upp hjörtu okkar á helgum jólum og um alla framtíð.

Gleðileg jól.