Ertu stundum andvaka?

Ertu stundum andvaka?

Það kemur fyrir flest okkar að erfiðar hugsanir og spurningar sækja á okkur á þeim tíma sólarhringsins sem við erum berskjölduðust. Við getum ekki sofið, förum fram úr og göngum um gólf, eða lesum bók, eða horfum á sjónvarpið eða bara liggjum í rúminu með galopin augun og störum út í rökkurgrámann.
fullname - andlitsmynd Ingólfur Hartvigsson
20. ágúst 2008

Hefur þú legið andvaka um nætur? Hefur þú legið í rúminu heilar og hálfar nætur vegna einhvers sem sækir að huga þínum? Hugsanlega vegna of mikils álags, of mikillar kaffidrykkju eða kannski einhvers sjúkdóms sem kvelur þig?

SofandiÞað kemur fyrir flest okkar að erfiðar hugsanir og spurningar sækja á okkur á þeim tíma sólarhringsins sem við erum berskjölduðust. Við getum ekki sofið, förum fram úr og göngum um gólf, eða lesum bók, eða horfum á sjónvarpið eða bara liggjum í rúminu með galopin augun og störum út í rökkurgrámann.

Ég fór að velta andvökum fyrir mér þegar ég tók eftir því að hundurinn minn virðist geta sofnað hvar og hvenær sem er. Ég veit ekki hvað rannsóknir segja um svefnvenjur hunda en að minnsta kosti virðist hundurinn minn ekki eiga erfitt með að sofna. Kannski vegna þess að hann er ekkert að velta hlutunum fyrir sér.

Manneskjan er aftur á móti hugsandi vera. Og eftir langan dag getur hugur okkar verið fullur af óleystum verkefnum eða upplifunum sem við höfum ekki náð að vinna út. Þá geta erfiðleikar dagsins leitað á hugann þegar við göngum til náða.

Í 77. Davíðssálmi lýsir skáldið andvökunóttum sínum: Ég er hugsi um nætur hugleiði í hjarta mínu, grandskoða hug minn. Skáldið hefur legið margar nætur andvaka og íhugað tilvistarspurningar um Guð. Það er Guð almáttugur sem heldur augum hans opnum. Það er Guð sjálfur sem veldur því hugarangri. Skáldið íhugar fyrri daga og spurningar koma upp í huga þess. Það óttast að Guð hafi yfirgefið sig fyrir fullt og allt. Það óttast að Guð hafi breyst á einhvern hátt. Að hann hafi gleymt loforðum sínum og fyrirheitum. Og að hann sé ekki lengur miskunnsamur og að kraftur hans sé ekki til staðar fyrir skáldið.

Sálmaskáldið fer að hugsa tilbaka. Fer að íhuga fyrri daga og löngu liðin ár. Það minnist einnig verka Guðs. Íhugar stórvirki Guðs og þá sérstaklega þegar Guð frelsaði Ísraelþjóðina og leiddi hana út úr Egyptalandi. Þar bænheyrði Guð Móse og leiddi hann og hina útvöldu þjóð í gegnum Rauðahafið.

Skáldið sefar áhyggjur sínar með því að rifja upp stórvirki Guðs. Það áttar sig á því að Guð er ekki sýnilegur Guð heldur ósýnilegur og hátt upp hafinn. Það breyttist í Jesú Kristi þegar Guð fæddist inn í heiminn á sama hátt og sérhver manneskja. Sem lítið barn. Guð hefur tengst mannkyni órjúfanlegum böndum vegna Jesú Krists, líf hans, dauða og upprisu.

Jesús sagði við okkur að við getum varpað öllu því sem er að þjaka okkur yfir á hann.

Ef þú getur ekki sofið af áhyggjum þá skaltu orða þær áhyggjur í bæn og biðja Guð um að kyrra hugann þannig að þú geti hvílst. Hver veit nema að lausnin á því vandamáli sem þjakar þig komi upp í vel hvíldan hugann þegar þú vaknar úthvíld(ur).