Ég ætlaði ekki...

Ég ætlaði ekki...

„Þetta er spurning um skipulag,“ voru prédikunarviðbrögð þrautreynds forstjóra í messulok. Trúin er ekki utan við lífið heldur varðar allt líf manna, líka skugga, illsku og afbrot. Jesúsagan er um tvo hópa meyja - sem brugðust ólíkt við - en líka um okkur. Hvernig er skipulagið?

Fyrir liðlega hundrað árum voru hjón vígð í húnvetnskri kirkju. Brúðguminn var stressaður og ruglaðist þegar presturinn bar fram hjónavígsluspurninguna. Og þeirri spurningu á að játa. En brúðguminn sagði óvart “Nei,” sem heyrðist vel í kirkjunni. Það kom fát á prestinn. Hann hafði ekki verið þjálfaður í klerklegum neyðarúrræðum í svo sérstökum aðstæðum. En meðhjálparinn var skjótráður og sagði hátt og snjallt. “Hann sagði já ... það er búið.” Svo hélt athöfnin áfram!

Brúðguminn fékk ekki annað tækifæri til að segja já og meðhjálparajáið var látið gilda. Hann hefur væntanlega kunnað að segja við konu sína „ég elska þig“ og sýnt ást sína í verki því þau tvö sem stóðu fyrir altarinu bjuggu saman – sem hjón - alla ævi og að því er best var vitað, nutu hamingju og ástríkis.

Hvenær er nei nei og já já? Já - af munni meðhjálpara varð já safnaðar og fyrir hönd mannsins. Það er auðvitað harla merkilegt og hefur félagslega vídd og merkingu, en það er mikilvægt að maður segi sitt já sjálfur og ekki þurfi aðrir að tala fyrir mann.

Biðin eftir brúðinni Hjónavígsluathöfn í kirkju er opinbert atferli. Þar játa hjónaefnin trúnað og ásetning. Já-ið hefur lögformlega hlið, sem er handsalið, þegar brúðhjónin taka höndum saman sem tákn um sáttmála hjúskaparins. Sá þáttur breytist ekki þótt tískan breytist varðandi umgjörð, veisluhald, kjóla og annað sem fólk vill nýta til að gera daginn sem eftirminnilegastan.

Það fyrirkomulag hjónavígslu sem við þekkjum í okkar samfélagi setur brúðina í forgrunn. Það er ekki aðeins kjóllinn, vöndurinn, fylgdarfólk hennar sem er stíliserað. Jafnvel biðin eftir brúðinni er tímasett. Ég hef beðið í kirkju í nærri klukkutíma eftir að daman mætti. Það var farið að fara um brúðgumann. Svo kom í ljós að hún ætlaði ekki alveg að koma á mínútunni en svo gleymdist vöndurinn heima og brúðurinn vildi hafa hann svo allt dróst. En hún kunni og sagði sitt já, brúðgumanum var létt og allir voru glaðir. En organistinn var búinn að lofa að spila í annarri athöfn. Hann átti verulega bágt!

Biðin eftir brúðguma Giftingarsagan úr Austur-Húnavatnssýslu er öðru vísi saga og Jesúsagan í guðspjalli dagsins er líka saga um furðulegt mál tengt hjónavígslu. Jesúsagan lýsir bið. Hið gyðinglega samfélag setti ekki brúðina í forgrunn. Það var karlstýrt, karlmiðlægt samfélag og það var beðið eftir brúðgumanum en ekki brúðinni. Auðvitað komu fjölskyldur hjónaefna við sögu. Rómantísk ást var ekki það, sem stýrði hver varð hvers. Það skemmdi ekki ef hjónaefnin báru hlýjan hug til hvors annars, en tilfinningar voru ekki aðalhjúskaparskilyrði. Trúlofun var fyrsta skeiðið og hjónaefnin hlupu ekki saman heldur biðu og stundum lengi. Þegar komið var að deginum mikla fór brúðguminn á heimili brúðarinnar og gekk frá hinum praktísku málum, fjármálum og öðru, sem ræða þurfti. Þegar samist hafði var allt til reiðu og þá fór brúðguminn af stað heim, brúðurin með honum og fólk, sem sótti brúðkaupsveisluna.

Þetta er samhengi sögu Jesú um meyjarnar tíu, sem biðu og duttu svo útaf og sofnuðu. Þær voru ekki brúðarmeyjar heldur brúðgumameyjar. Þær voru af heimili brúgumans eða tengdust honum. Þær fóru hluta leiðarinnar til móts við brúðgumann. En enginn vissi nákvæmlega hversu lengi tæki að semja um fjármálin sem tengdust hjónavígslunni. Því var ekki ljóst hversu lengi þær þyrftu að bíða. En biðin í sögunni var lengri en venjulega.

Jesús dregur athygli að meyjunum sem biðu. Þær komu úr sama samhengi, en brugðust ólíkt við. Helmingurinn var forsjáll, tók með sér kolur og líka eldsneyti í ferðapakkningu! En helmingurinn var óviðbúinn hinni löngu bið. Þegar undanfari brúðgumans kom hlaupandi til að kynna komu hersingarinnar og veislan færi að byrja, gerðu stúlkurnar sér grein fyrir að slokknað var á ljósum þeirra og olían var búin. Hinar forsjálu voru jafnglöggar í reikningi og undirbúningi og sáu að ekki væri til skiptanna og þær olíulausu yrðu bara að fara á “bensínstöð” þess tíma til að kaupa lampaolíu. Brúðguminn kom á meðan, allir fóru í heim í veislu, dyrum var lokað og þá komu hinar óforsjálu að lokuðum dyrum, og var ekki hleypt inn.

Tvöföld höfnun Í þessari eftirminnilegu og dapurlegu brúðkaupssögu eru a.m.k tvö íhugunarlög. Annars vegar tökum við eftir tveimur ólíkum meyjahópum. Hins vegar var svo brúðguminn, koma hans og úrskurður. Óforsjálu meyjunum var eiginlega tvíhafnað. Í fyrsta lagi vildu vinkonurnar ekkert fyrir þær gera, ekki hjálpa þeim, ekki gefa þeim sopa og ekki liðka fyrir á neinn hátt. Síðan þegar þær höfðu hlaupið um allan bæ til að ná sér í slettu var þeim hafnað í annað sinn, ekki af einhverri ókunnugri brúði heldur heimilismanni og vini þeirra, sjálfum brúðgumanum. Þær fengu ekki að fara inn í veisluna á því heimili sem þær tilheyrðu. Þetta er því margföld harmsaga. Þarna var ekkert fallegt já, sem bætti upp langa bið, heldur bara hryllingur og dómur, voðalegt nei.

Dómur Nýtt kirkjuár er framundan. Við förum brátt að huga að þessum skemmtilegu og eftirvæntingarríku textum aðventu um komu lausnarans, barnsins, frelsarans. En á þessum síðustu vikum kirkjuársins eru textarnir fullir af alvöru og þunga – já eiginlega dómi. Af hverju? Má ekki bara sleppa þessu hörkulega efni? Og þá komum við eiginlega að fordómum okkar og staðalímyndum. Eins og flestum þykir mér skemmtilegra að boða þér góðar fréttir, segja þér frá elskunni, unaðinum, voninni, kærleikanum og gleðinni. En enginn lifir án áfalla eða án vonbrigða. Trú er ekki lífsflótti heldur það að gefa fólki raunsæi í lífið. Trúin er ekki utan við lífið heldur lífsmiðjan. Mannsýn Biblíunnar er um allt líf manna, líka skugga, illsku og afbrot. Getur verið að við þurfum að heyra þessa sögu um tvo hópa meyja sem brugðust ólíkt við?

Meyjar sem táknhópar Meyjarnar eru kannski táknmyndir fyrir okkur öll. Við erum stundum óforsjál, hefðum átt að búa okkur betur fyrir lífsmálin og eiga svolítið af ljósmeti fyrir myrkrið og biðina, sem við lendum í. Fólk ætlar sér ekki að lenda í vondum málum, þegar það byrjar að dufla og fer svo að halda framhjá. Það ætlar sér enginn að vera húkkaður á spítti, bara prófa. Unga fólkið, sem hefur dáið síðustu árin af lyfjamisnotkun, ætlaði sér ekki að brotlenda. Það ætlar sér enginn að lenda í fangelsi vegna tæknilegra mistaka. Það ætlar sér enginn að missa af maka og fjölskyldu með því að sjússa sig svolítið. Það vill enginn illa með því að freista gæfunnar í fjárhættunámunum. Þrátt fyrir mikla vinnu var það var alveg óvart að fjölskyldan splundraðist og börnin lentu í vondum félagsskap. Það var líka óvart að missa elskuna og fólkið í miðri neyslunni. Hlutirnir sem þið voruð búin að hafa svo mikið fyrir að vinna fyrir og kaupa svo urðu ekki límið sem dugði. Kanntu einhverjar meyjarsögur úr þínu samhengi? Sögur af fólki sem vildi vel, vildi fagna, vildi svo sannarlega vera í lagi þegar veislan átti að byrja, en bara tókst það ekki. Og það er hægt að vera vitur eftir á.

Hvernig lífi viltu lifa? Heldurðu að lífslánið gerist bara af sjálfu sér og án fyrirhafnar? Heldur þú að þetta reddist bara si svona? Nei. Hver er fyrirhyggja þín, hvernig ræktar þú þinn innri mann? Hvernig þjálfar þú siðferði þitt? Hvernig temur þú þér jafnvægi og lífsgildi? Og svo þegar dýpst er skyggnst og rýnt lengst inn í nótt biðarinnar? Hver er myndin af brúðgumanum sem þú bíður eftir? Það er myndin af lífinu, sem þú vilt lifa.

Jesús sagði þessa meyjasögu fyrir venjulegt fólk eins og okkur til að fá okkur til að staldra við og hugsa um okkar eigið líf. Og líf varðar trú og hvernig við leyfum hinu trúarlega að lifa til þroska, ábyrgðar, lífsleikni og hamingju. Sagan um meyjarnar er saga um þig og trúarlíf þitt. Hvort viltu já í lífinu eða nei? Hvort segir þú já eða nei? Ef þú bara lætur reka á reiðanum og vaknar upp með andfælum undirbúningslaust á eigin dánarbeði velur þú ljóslausan olíuskort meyjanna. Hinn eiginlegi brúðgumi veraldar vill að allir komi í veisluna.

Amen.

Neskirkja, 18. nóvember, 2012.

Lestrar næstsíðasta sunnudags kirkjuársins A-röð

Lexía: Sef 3.14-17 Hrópaðu af gleði, Síonardóttir! Fagnaðu hástöfum, Ísrael! Þú skalt kætast og gleðjast af öllu hjarta, dóttirin Jerúsalem. Drottinn hefur ógilt refsidóminn yfir þér, hann hefur hrakið fjendur þína á brott. Konungur Ísraels, Drottinn, er með þér, engar ófarir þarftu framar að óttast. Á þeim degi verður sagt við Jerúsalem: „Óttastu ekki, Síon, láttu ekki hugfallast. Drottinn, Guð þinn, er hjá þér, hin frelsandi hetja. Hann mun fagna og gleðjast yfir þér, hann mun hrópa af fögnuði þín vegna eins og á hátíðisdegi og hugga með kærleika sínum.

Pistill: Heb 3.12-14 Gætið þess, bræður og systur, að hafa ekkert illt í hjarta og láta engar efasemdir bægja ykkur frá lifanda Guði. Uppörvið heldur hvert annað hvern dag á meðan enn heitir „í dag“, til þess að enginn forherðist af táli syndarinnar. Því að við erum orðin hluttakar Krists svo framarlega sem við treystum honum staðfastlega allt til enda eins og í upphafi.

Guðspjall: Matt 25.1-13 Enn sagði Jesús: „Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. Fimm þeirra voru fávísar en fimm hyggnar. Þær fávísu tóku lampa sína en höfðu ekki olíu með sér en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum. Nú dvaldist brúðgumanum og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu. Um miðnætti kvað við hróp: Brúðguminn kemur, farið til móts við hann. Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína. En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum. Þær hyggnu svöruðu: Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður. Meðan þær voru að kaupa kom brúðguminn og þær sem viðbúnar voru gengu með honum inn til brúðkaupsins og dyrum var lokað. Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: Herra, herra, ljúk upp fyrir oss. En hann svaraði: Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki. Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.