Gaman og Guðsnánd

Gaman og Guðsnánd

Hvaða merkingu lífið fær er þér ekki óviðkomandi, frelsið er þitt. Lfshamingjan er á okkar mál. Koma Guðs var ekki aðeins fyrir einhverja fáa útvalda í fortíðinni, heldur hefur Guð útvalið þig til að heimsækja. Leo Tolstoy skrifaði góða sögu um Guðsnánd. Í prédikun á jólanótt 2004 var sagan endursögð og spurt um gamanmálin.
fullname - andlitsmynd Sigurður Árni Þórðarson
24. desember 2004
Flokkar

Þá er búið að hafa gaman af því! Miklar veitingar, hávaði, hróp, hlátrar, pappírshrúgur um alla stofu. Gjafir, sumar óvæntar, margar ótrúlega hugvitssamlegar og gefnar af hugulsemi - svo kossar og strokur. Það er hægt að hafa gaman af því.

Hvað er gaman? Hvernig verður þér við jólunum? Eru jólin þér gleðigjafi eða er kannski einhver skuggastrengur sem læðist að? Sækir að þér söknuður? Hættir þér til að detta fljótt út úr ljósgeisla ánægjunnar? Stundum gaman hjá okkur

Ég kynntist einu sinni miklum gleðimanni, sem vildi bæði vera glaður heima og heiman. Sonur hans sagði mér síðar, að hann hefði jafnan brugðist við kvörtunum og barlómi annarra með því að minna á gamanefnin. Þegar einhver kom með allar heimsins áhyggjur á herðum og í huga og sagði hann við þann sem nöldraði: “Það er nú stundum gaman hjá okkur!” Viðmælandinn fékk þannig netta bendingu um að þetta væri nú ekki alveg svona svart.

Merkingartilegg okkar

Hvað er gaman? Þú átt þér fólk, viðfangsefni og tómstundaefni sem gleðja stundum. En gamanið er ekki aðeins fólgið í hinu ytra, heldur líka í því hvernig þú bregst við. Þú leggur alltaf þinn skerf til gamansins. Hinar bestu og undursamlegustu aðstæður verða þér einskis virði, ef hugurinn er dapur og þú hrífst ekki. Þú velur hvað gleður og hvað ekki. Því er svo mikilvægt að temja sér jákvæðni, búast við hinu skemmtilega og æfa sig í lífsundrinu. Dæmin sanna að fólk getur lifað af erfiðar aðstæður ef það temur sér að sjá spaugið, hið skemmtilega og kátlega jafnvel í hinum skelfilegustu aðstæðum. Hin öldruðu hafa í allt haust verið að minna mig á lífskúnstina og sagt: “Ég er ekkert að velta mér upp úr sjúkdómum og vandræðum. Ég reyni að sjá það jákvæða. Það er nóg af hinu.”

Jesús í heimsókn

Pétur er kaupmaður á horninu. Hann er í ágætu vinfengi við himininn, tekur trú sína alvarlega og er að auki mikill draumamaður. Eina desembernóttina dreymdi hann alskýran draum. Engill tilkynnti honum, að guðleg vera myndi koma til hans fyrir jól. Hann vaknaði við drauminn og varð tíðhugsað um merkingu hans. Svo komu nokkrir viðskiptavinir í búðina til hans og hvísluðu að honum: “Hann kemur á Þorláksmessu.” Pétur spurði hvað þau ættu við. Öll svöruðu þau með sama móti. “Draumurinn um guðlega heimsókn rætist á Þorláksmessu.” Pétur vildi fá að vita hver það yrði, en fékk bara bros sem svar og sannfærðist um að það væri Guðssonurinn sjálfur.

Kaupmaðurinn lagði mikið á sig og til að undirbúa komuna sem best. Svo rann Þorláksmessa upp með erli og önnum. Alltaf þegar einhver kom inn í búðina bjóst Pétur við að þar kæmi Jesús. En í staðinn var stöðugur straumur fólks með körfur sínar, sem þaut um búðina, borgaði við kassann og fór svo í bíla sína. Inn kom gömul, fjárvana kona, sem var þegar í skuld við kaupmanninn. En Pétur kenndi í brjósti um hana og gaf henni hangikjötslæri. Svo kom drengur, sem hafði flúið erjur og fyllirí heima og vildi skjól. Hann fékk að vera í barnahorninu og borðaði svo með starfsfólkinu, fékk vel Chili-kryddaða kjúklingabringu úr grillofninum! Pétur sendi starfsmann með fatlaða manninum í nágrannahúsinu. Sá átti erfitt með að bera vörurnar og þáði aðstoð með þökkum.

Dagurinn leið, komið var að lokun um kvöldið. Pétur var orðinn viss um að hann hefði annað hvort látið plata sig eða að meistarinn hefði farið hjá, kannski bara gleymt honum. Að lokum kom einn af þessum sendiboðum, sem höfðu sagt að kaupmaðurinn væri útvalinn til að taka á móti guðlegum gesti. Pétur sagði sár við hann. “Það var ekki mikið að marka þetta sem þú sagðir.” En sendiboðinn brosti og spurði: “Kom ekki hingað gömul kona, hræddur drengur og fatlaður maður? Svo spurði hann um alla hina, sem höfðu komið í verslunina um daginn. Jú, það var alveg rétt. Þá fékk kaupmaðurinn að vita, að Jesús Kristur hefði verið með þeim öllum. Þú tókst alltaf við honum opnum örmum og brást vel við öllum beiðnum. Manstu ekki eftir þessum boðskap. “Það sem þið gerið mínum minnstu bræðrum, það gerið þið mér.” Jú, Pétur þekkti Jesúræðurnar vel og tók gleði sína á ný.

Geta má nærri að hann mun gera vel við alla sína kúnna eftir þetta![i] Pétur hefur fengið skilning á hvernig Guð kemur í heiminn.

Þetta eru lyktir sögunnar um kaupmanninn á horninu. En í henni er fólgið merkingarflóð úr himinsjóði jólanna. Í fólki er hægt að sjá kúnna, sem kaupa og borga, - eða sjá í þeim guðleg verkefni. Í litlum börnum í aðkrepptum heimilisaðstæðum er hægt að heyra kall Guðs um hjálp. Í fötluðu fólki er guðleg áskorun um samábyrgð.

Betlehemsjól og Jesúkoma hversdagsins

Við veljum hvernig við bregðumst við lífinu. Við getum séð allt í ópersónulegum verkefnum, sem koma okkur ekki að öðru leyti við, en að við leysum þau með einhverjum tæknilegum aðferðum. Eða - við getum séð í þeim guðlega nánd. Tilveran er ekki aðeins það sem skilgreinir okkur heldur er afstaða okkar það sem skapar verulegan hluta merkingar, alla vega fyrir okkur sjálf. Guð skapar ramma og forsendur en við veljum.

Jólanótt, ytri aðstæður eins ömurlegar eins og hugsast getur, en þá kemur boðskapur að ofan um að Guð komi inn í myrkur, baráttu og amstur veraldar. “Sjá ég boða yður mikinn fögnuð.” Þá er öllu snúið við. Síðan er lífið breytt, veröldin önnur og frelsið til gleði og gamans ærið.

Jólin eru tvíþætt

Við getum sagt að til séu jól Jesúsbarnsins í Betlehem og jól Jesúkomu hversdagsins. Koma Jesúbarnsins er ekki aðeins í mynd lítils barns á hinum fyrstu jólum. Mál jólanna er að hann kom en kemur líka, alla daga. Guð kemur til þín, talar við þig, mætir þér alls staðar, þegar þú hefur samskipti við samstarfsfólk, í vinnunni, í glímu við siðferðiskrísur, á álagstímum og þegar þú heyrir einhver neyðaróp. Þá er Kristur á ferð, þá er Jesús Kristur að koma til þín. Jólin, koma Guðs til manna, eru því sístæð.

Jólin eru veraldarbylting, sem er fólgin í að lífið er ekki lengur tilviljanalausar hendingar, ópersónuleg efnaferli í alheiminum, heldur er allur heimur, efni og líf þrungin komu Guðs. Þetta er það sem við köllum heilagleika. Þar sem fegurðin ríkir er Guð. Þar sem mismunun og kúgun lama þar kallar Guð. Þar sem gamanið blómstrar þar er Guð að leika sér. Lífið er fallegt og fagnaðarríkt. Þegar menn sjá Guð í vatni, smábörnum, gamalmennum, skrítnum aðstæðum og einkennilegu fólki fer gamanið heldur betur að glæðast. Jólaboðskapurinn er því ekki aðeins fyrir börn heldur fyrir alla.

Gamanið áfram

Þá er búið að hafa gaman af því. Já, en það má vera gaman áfram. Guð fæddist ekki aðeins á fyrstu jólum, heldur vill fæðast í þér þetta kvöld. Vill gjarnan hvísla að þér að Guð sé tilbúinn að liðsinna þér í því sem þú ert að glíma við, í gleði þinni og sorgum, í verkefnum og vinnu. Þegar þú hlýðir á sönginn í kirkjunni er það söngur himinsins. Þegar þú ferð út úr kirkjunni mætir þér kæla, sem hvíslar að þér elsku skapara síns. Þegar þú finnur hjarta þitt slá er þar umhyggjusamur sláttur sem bergmálar kirkjuklukkur himins.

Líf heimsins er ekki bara það sem gerist utan við þig heldur máttu bregðast við. Koma Guðs var ekki aðeins fyrir einhverja fáa útvalda, heldur hefur Guð útvalið þig til að heimsækja. Ef þú bregst vel við getur þú sagt alla daga: Það er alltaf gaman hjá okkur. Guð kom til mín!

[i] Þessi frásaga er byggð á sögu Leo Tolstoy um Panov skósmið. Persónur og saga er breytt, en boðskapur sögunnar hin sami.