100 ára afmæli kirkjunnar. Textar: Jes. 12:2-5; 1. Jóh. 1:2-4; Jóh. 3:22-36.
Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
Hin helga hátíð nálgast og í dag er hátíð hér í kirkjunni þegar þess er minnst að 100 ár eru liðin frá vígslu kirkjunnar. Til hamingju með kirkjuna ykkar kæri söfnuður og afmælið hennar. Í eina öld hefur fagnaðarerindið verið prédikað hér, börn verið borin til skírnar, ungmenni játað því að vilja leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins, hjón játast hvort öðru frammi fyrir altari Drottins, ástvinir kvatt þau sem á undan eru farin í ljóssins heim. Margar minningar eru tengdar þessu húsi. Sjálf á ég nokkrar minningar héðan, af skírnum og giftingum en sú sem upp úr stendur er þó það þegar ég gerðist organisti hér fyrir margt löngu við messu eina. Þá var annað messuform. Mér fannst presturinn vera búinn að tala nóg og ákvað því að fara í næsta sálm. Presturinn stóð víst við altarið og hélt ég myndi átta mig og reyndi að hefja lesturinn. Pi, pi, sagði hann en lengra komst hann ekki því sálmasöngurinn barst af kirkjuloftinu. Ég áttaði mig á mistökum mínum þegar presturinn hafði svo lesið guðspjallið og sagðist þá ætla að lesa pistil dagsins.
Sóknarnefndarfólk hefur lagt sig fram um að hér skuli allt til reiðu svo athafnir geti farið fram í hlýju og fallegu húsi og viðbyggingin með safnaðarheimili og skrifstofum er sérlega vel hönnuð bygging sem fellur vel að hinu aldna húsi.
Það er margir sem hafa komið við sögu þessa safnaðar og þessarar kirkju. Kærar þakkir fyrir alla ykkar þjónustu, launaða sem ólaunaða, í áranna rás. Það hefur sýnt sig í sögu Kirkjunnar að fólk vill hafa stað í nærumhverfi sínu til að koma saman á til að iðka trú sína og næra hana. Hafnarfjörður hafði fengið kaupstaðarréttindi nokkru fyrir byggingu kirkjunnar og kirkjan er ein þeirra kirkna er byggðar voru hér á landi í upphafi síðustu aldar. Rögnvaldur Ólafsson teiknaði þær nokkrar, meðal annars þessa kirkju. Saga kirkjunnar hefur verið tekin saman í riti í tilefni af afmælinu og er það þakkarvert.
Nú er dimmasti tími ársins en sólin fer að hækka á lofti með hverjum deginum og gerir það næstu sex mánuðina. Ljósið er því að sigra myrkrið, sem getur verið ansi svart þessa dagana bæði í eiginlegum og óeiginlegum skilningi.
Á þessum árstíma kvíða margir fyrir hátíðinni sem í hönd fer og þó kvíði búi ekki í hjörtunum þá er þessi árstími, tími breytilegra tilfinninga hjá mörgum. Það er því gott til þess að vita að samkennd Íslendinga er enn fyrir hendi og viljinn til að hjálpa öðrum mikill. Um það vitna fréttir síðast liðna daga. Hjálparstarf kirkjunnar og félagasamtök hafa einnig minnt okkur á þau sem ekki hafa nóg og hvetja okkur til að hjálpa þeim að hjálpa öðrum.
Boðskapur Krists minnir okkur á þau sem standa höllum fæti. Að þau sem hafa það betra gefi af sínu til þeirra er minna hafa. Sá boðskapur verður áberandi í verkum á aðventunni, þeim tíma kirkjuársins er við undirbúum okkur fyrir fæðingarhátíð frelsarans. Í bók sem tileinkuð er móður Teresu stendur í íslenskri þýðingu: „ Margir halda að maður verði hamingjusamur af því að eiga peninga. Ég held að það sé erfitt að vera hamingusamur ef maður er ríkur, vegna þess að það getur verið svo erfitt að koma auga á Guð, það er svo margt annað að hugsa um. En hafi Guð gefið þér gjöf auðsins, notaðu hana þá til að þjóna markmiðum hans – hjálpa öðrum, hjálpa þeim fátæku, skapa vinnutækifæri, veittu öðrum vinnu. Sóa ekki auði þínum. Matur, heimili, virðing, frelsi, heilsa, menntun, allt eru þetta gjafir Guðs. Þess vegna þurfum við að hjálp þeim sem ekki eru eins vel sett og við.“
Aðventan er tími eftirvæntingar og vonar. Sumir lifa í sífelldri eftirvæntingu um betra veraldargengi. Alltaf er það framundan sem breytir öllu, á næsta leiti er það sem skiptir sköpum, gerir lífið bjart og heilt og gott. En þannig er lífið sjaldnast; jafnan er við margt að glíma. Viðfangsefnin eru fjölbreytt, með skini og skúrum sem skiptast á. Og veður skipast líka stundum skjótt í lofti. Stundum á fólk erfitt með að líta á það sem eðlilegan hluta af lífinu að við dagleg verkefni sé að glíma. Það líf er ekki til að ekki þurfi að hafa fyrir því. Taka ákvarðanir, velja leiðir að fara, fitja upp á verkefnum og halda þeim fram. En hvað svo sem lífið bíður og hvert sem það leiðir okkur þá er kúnstin sú að lifa í núinu. Njóta þess sem er, biðja um leiðsögn í glímu lífsins og treysta því að hvað sem fram undan er, er það allt í hendi Guðs.
Aðventan er undirbúningstími jólanna. Það er gott að kveikja á aðventukransinum fyrsta sunnudag í aðventu og hefja gönguna til hátíðarinnar og minnast um leið fæðingar barnsins sem markaði djúp spor í sögu mannkyns. Spádómanna, fæðingarstaðar hans, fyrstu áheyrenda fréttarinnar og boðbera hennar. Kertin fjögur minna á þetta og draga nöfn sín af því.
Aðventan fer á undan til að búa okkur undir komu frelsarans í heiminn. Á aðventunni draga guðspjallstextarnir fram fyrirrennara Jesú, Jóhannes skírara, þann er kom á undan honum til að búa okkur undir komu hans. Jóhannes skírði frænda sinn Jesú í ánni Jórdan og í guðspjalli dagsins eru menn ekki vissir um hver er hvað. Jóhannes tekur af allan vafa og segir: „Ég er ekki Kristur heldur er ég sendur á undan honum“. Hlutverk Jóhannesar var að vera brautryðjandi, hann boðaði komu Messíasar, en það er nafn sem notað er um Jesú. Það er Jóhannesi nóg að hafa rutt brautina fyrir komu Jesú og er hann því reiðubúinn að draga sig í hlé. Jóhannes skírari vitnar um trú sína og býður trúuðum allra tíma að gera slíkt hið sama. Köllun Jóhannesar var að beina sjónum fólks til Jesú.
Það er einnig köllun kirkjunnar, að beina sjónum fólks til Jesú. Greiða Orðinu veg þannig að Jesús og boðskapur hans nái eyrum fólks. Þannig fetar hún í fótspor Jóhannesar skírara. Trúin er boðuð í orði og í verki. Á það erum við minnt, sérstaklga á aðventunni, að trú er ekki aðeins boðuð í orði heldur einnig í verki.
Þjóðkirkjan er ekki bara stofnun sem tryggir að fagnaðarerindið sé boðað um land allt heldur er kirkjan miklu fremur þau sem tilheyra henni og játa trú á Jesú Krist. Ef svo væri ekki hefði ekki verið þörf á að byggja þessa kirkju. Hér í þessu húsi fer margs konar starfsemi fram. Tónlistin er í hávegum höfð og starf með öllum aldurshópum fer fram. Samnefnari þessa alls er þó Jesús sem Jóhannes skírari benti á og við eigum að líta til. Jóhannes skírari orðaði það þannig, samkvæmt guðspjalli dagsins: „Hann á að vaxa en ég að minnka.“ Fæðingardaga þeirra Jesú og Jóhannesar er minnst á fornum sólstöðuhátíðum samkvæmt ákvörðun Rómarkirkjunnar fyrir margt löngu. Daganna er minnst í kringum stysta og lengsta dag ársins á norðurhveli jarðar. Samkvæmt Nýja testamentinu fæddist Jóhannes um það bil sex mánuðum á undan Jesú og er Jónsmessan 24. júní og jólin 25. desember eins og kunnugt er. Fæðing Jesú er í svartasta skammdeginu, rétt þegar daginn tekur að lengja og táknar þá von sem Jesús færir okkur mannfólkinu. Fæðing Jóhannesar, fyrirrennara Jesú er hins vegar í kringum lengsta dag ársins þegar daginn tekur að stytta. „Hann á að vaxa en ég að minnka“ sagði Jóhannes. Við komum saman í húsi hans til að lofa hann, hlusta á Orðið hans, nærast af því og uppbyggjast af því. Við fáum hér blessun og förum með hana út í heiminn til að láta gott af okkur leiða. Ekki til að upphefjast af verkum okkar, heldur til að þau megi benda á þann sem Jóhannes vitnaði um þegar hann sagði: „Hann á að vaxa en ég að minnka.“
Við komum saman til fundar við hann um leið og við þökkum þeim er undirbúið hafa þessa afmælishátíð sem og öllum þeim er lagt hafa hönd á plóg í sögu safnaðar og kirkju. Guð blessi ykkur öll og verk ykkar og helgi og blessi minningu þeirra sem farin eru.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verða mun um aldir alda. Amen.