Þetta fólk er þjóð þín

Þetta fólk er þjóð þín

Eftir hrunið er íslenskt þjóðlíf í uppnámi, reiði, tortryggni og ósætti ræður ríkjum sem aldrei fyrr. Græðgin og dýrkun efnislegra gæða hefur nagað lífrót menningar og siðgæðis þjóðarinnar. Þjóðin er með grátstafinn í kverkunum og biður um leiðtoga sem geta þjónað.
fullname - andlitsmynd Pétur Pétursson
20. mars 2011
Flokkar

Predikun í Seltjarnarneskirkju 20. mars 2011 Texti: Markús 10:46-52

Kæri söfnuður, kæru landsmenn!

Jesús er á leið út úr Jeríkóborg á síðasta áfanga predikunarferðar sinnar. Páskahátíðin er á næsta leyti og þá verður mikið um dýrðir í Jerúsalem. Hann er líklega þreyttur og vonsvikinn því að hann er nýbúinn að stilla til friðar í þrætu lærisveinanna um það hver þeirra sé mestur og hver eigi skilið að fá að sitja næst honum þegar hann tekur við völdum í ríki sínu. Hann reynir að leiðbeina þeim og ræðir við þá um bikarinn beiska og alvöru skírnarinnar. Það er urgur í lærisveinahópnum en Jesús notar tækifærið og fer yfir helstu atriði leiðtogafræði kirkju sinnar og segir: „Þér vitið að þeir sem teljast ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar.“ (Mk 10:42-43.)

Ferðinni er heitið upp til Jerúsalem þar sem nýr kafli tekur við í ævisögu Jesú, hápunktur hennar nálgast með innreiðinni í Jerúsalem. Þá mun lýðurinn fagna honum,og hann predika í musterinu og hreinsa það, hann verður handtekinn, fólkið mun snúast gegn honum, hann hrakinn milli öldungaráðsins, Pílatusar og Heródesar og svo endar píslargangan á Golgata.

Það er við upphaf þessarar ferðar sem hann gengur fram á Bartímeus, blinda beiningamanninn sem hrópar á miskunn. Ef til vill er það vegna þess hve leiður Jesús er orðinn á lærisveinunum að hann heyrir rödd Bartímeusar í skarkalanum við veginn. Blindi maðurinn veit hver Jesús er og hann treður sér fram fyrir og kallar á hann og hann sinnir því ekki þótt honum sé sagt að hafa sig hægan. „Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér.“

Jesús tekur eftir honum og lætur kalla á hann. Blindi maðurinn bregst skjótt við og kastar af sér betlikuflinum og er mættur frammi fyrir Jesú og ber fram bæn sína. Jesús segir: „Trú þín hefur bjargað þér.“ Það er athyglisvert að hann segir ekki: trú þín hefur gefið þér sjónina aftur. Það er líka athyglisvert að Bartímeus hverfur ekki aftur inn í Jeríkóborg til að sjá allt sem þar er til að skoða og njóta. Nei, jafnskjótt og hann fær sjónina fylgir hann Jesú og lærisveinunum á ferðinni upp til Jerúsalem.

En sagan af Bartímeusi þessum er ekki öll úti enn. Þótt hann sé ekki nefndur aftur á nafn er líklegt að hann sé einmitt ungi maðurinn, sem sagt er frá í 14. kafla Markúsarguðspjalls og fylgdi Jesú en flúði ekki eins og læriveinarnir eftir að Júdas sveik hann og herflokkur æðstu prestanna kom til að handtaka hann. Ungi maðurinn var í línklæðum einum saman, sem bendir til að hann hafi verið nýbúinn að taka skírn. Hermennirnir þrifu til hans, en hann sleit sig lausan og lét eftir línklæðin og flýði frá þeim nakinn.

Ritskýrendur hafa auk þess leitt að því líkum að þetta sé sami maðurinn og sá sem konurnar sáu þegar þær litu inn í gröf Jesú á páskadagsmorgun. Hann hann vitnaði um upprisuna og benti á staðinn þar sem líkami Jesú hafði verið lagður. Þessi ungi maður var í hvítum klæðum sem vísar til þess að hann hafi sjálfur þá þegar átt hlutdeild í upprisufagnaðinum með himneskum hersveitum. Konunum sagði hann að láta lærisveinana vita og það að Jesús myndi birtast þeim í Galíleu þar sem boðun hans og starf hófst. Ef þetta var Bartímeus guðspjallstextans þá er ljóst að honum hefur nýst sjónin vel.

***

Hver var hann þessi Bartímeus? Skiptir það máli? Markús nefnir ekki þá á nafn sem Jesú læknaði nema í þetta skipti. Tímeus er grískt nafn en forskeytið Bar þýðir sonur á arameisku. Tímeus er nafn á einni þekktustu bók gríska heimspekingsins Platons sem var uppi á fjórðu öld fyrir Krist. Timeus er einnig nafn á heimspekingi og stjórnmálamanni sem á að hafa lifað og starfað í grísku borginni Locri. Í bókinni sem við hann er kennd lætur Platon hann taka þátt í samræðum um stjörnuhimininn, uppruna alheims, samsetningu hans,uppruna mannsins, siðgæði, fegurð og leiðina að hinu góða lífi. Þar er m.a. kennt að sálir manna fæðist af stjörnunum og fari þangað aftur þegar þær losna við líkamann. Hin æðsta speki er samkvæmt bókinni fólgin í því að laga hugsun sína að reglum og rökfræði himintunglanna sem litið er á sem goðmögn. Þau snúast um samræmi og stöðugleika allra fyrirbæra en sjónin er mikilvægasta skilningarvitið til að öðlast þessa þekkingu og á henni byggir heimspekin. Við þurfum að sjá sannleikann, með því að sjá sannfærumst við. „Komdu og sjáðu“ segum við þegar við viljum sanna eitthvað og sannfæra aðra.

En þessi þekking Timeusar var ekki fyrir hvern sem var, það var ekki nóg að vera með sjónina í lagi. Spekin var aðeins fyrir útvalda, ekki fyrir konur, ekki fyrir fátæka og smáa. Timeus var þekktasta rit Platons um uppruna og eðli heimsins og vel þekkt um allan hinn hellenska menningarheim. Heimsfræði Tímeusar naut sömu virðingar á ritunartíma Markúsarguðspjalls og þróunarkenning Darwins og afstæðiskenning Einsteins gera í dag. Hjá Timeusi má enn finna skarplegar ályktanir svo sem þá að tíminn og heimur himintunglanna hafi orðið til samtímis og þess vegna megi reikna með að leysist himnanir í sundur þá hætti tíminn að vera til. Sá sem ritaði Markúsarguðpjall hefur þekkt ritið og þýðingu þess fyrir heimsmynd og trú hins menntaða heims, einnig aðrir sem rituðu helga texta Biblíunnar enda er athyglisvert að bera saman kenningu Timeusar um himintunglin og spádóma Biblíunnar um endalok tímans og endurkomu Krists. Þá mun jörðin skjálfa, björgin klofna, stjörnurnar hrapa og sólin myrkvast. Þannig bregðast himnarnir og jörðin við þegar Jesús gefur upp öndina á krossinum. Hinn vel skipulagði heimur Timeusar hrynur. Eins og snjöllum rithöfundi sæmir hefur Markús séð sér leik á borði og tengt söguna af opinberun Guðs skapara heimsins í Jesú Kristi við alheimsfræði og heimspeki síns tíma. Hann veit að hin vel skorðaða heimsmynd Timeusar riðlast í ljósi nýrrar heimssýnar fagnaðarerindisins um Guð skapara himins og jarðar. Um Guð sem elskar heiminn og sendir son sinn Jesúm Krist. Um Guð sem stýrir stjarna her og grípur inn í rás tímans. Um rödd sem lýkur upp himnunum og segir: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hefi velþóknun á.“

Bandaríski fræðimaðurinn Gordon Lathrop prófessor við Lútherska guðfræðiháskólann í Fíladelfíu bendir á að það geti vart verið tilviljun að blindi maðurinn sé sagður vera sonur Timeusar. Þó er ekki rétt að álykta að Bartímeus hafi verið af ætt Timeusar eða afkomandi. Hér er um táknsögu að ræða. Harmleikurinn verður enn átakanlegri þegar við vitum að sonur heimspekingsins liggur blindur við veginn þegar sonur Davíðs – Messías – á leið hjá.

Jesús skynjar þjáningu Bartímeus og um leið trú hans og lætur kalla á hann til sín. Bartímeus fær nýja sjón og þar með nýja sín á lífið og tilveruna og sköpun Guðs og hann fær persónulega að upplifa kærleika og kraft Guðs sem var áður honum jafn fjarlægur og stjörnurnar. Guð hafði kallað hann til sín. Jesús kallar á hann líkt og lærisveinana áður og Bartímeus fylgir honum ferðina á enda.

***

Í heimi trúarinnar er það hin innri sjón sem gildir, innra ljós og í því ljósi sjáum við sannleikann sem olli byltingu í menningar- og menntaheimi fornaldar. Þennan sannleika sá Pílatus ekki þótt hann stæði frammi fyrir honum. Bartímeus sá hann aftur á móti. Guð var kominn í heiminn sem maður, sannur maður og um leið sannur Guð.

Jesús talar um blindu sem tengist völdum og auði og þessari blindu var Pílatus sleginn. Predikun Jesú um að hinn eini sanni Guð sé kærleikur gengur fyrst og fremt út á þetta. „Vei yður blindu leiðtogar“, segir hann. Vei yður fræðimenn og farísear sem fremjið ranga eyða, sem etið upp heimili ekkna. „Blindu heimskingjar hvort er meira gullið eða musterið sem helgar gullið.“ (Mt 23:17.) Guð er einn. „Ég er drottinn Guð þinn og þú skalt ekki aðra Guði hafa“,segir í fyrsta boðorðinu. Um leið og þetta er ekki lengur ljóst eru aðrir guðir farnir að ráðskast með okkur mennina og þeir hafa óteljandi leiðir til að fegra hlutina og leynast undir fölsku flaggi. Auðveldast fyrir þá er að höfða til hrokans, ágirndarinnar og sjálfselskunnar. Þetta vissi Móse sem fékk það hlutverk að leiða þjóð sína út úr þrælahúsinu í Egyptalandi og hann bað áhyggjufullur til Guðs: „Minnstu þess að þetta fólk er þjóð þín.“

***

Eftir hrunið er íslenskt þjóðlíf í uppnámi, reiði, totryggni og ósætti ræður ríkjum sem aldrei fyrr. Græðgin og dýrkun efnislegra gæða hefur nagað lífrót menningar og siðgæðis þjóðarinnar. Þjóðin er með grátstafinn í kverkunum og biður um leiðtoga sem geta þjónað, leiðtoga sem leita ekki síns eigin, leiðtoga sem vilja og geta staðið í senn vörð um einstaklingsfrelsið og hagsmuni heildarinnar.

Einn af þeim mörgu sem hafa tjáð sig skynsamlega um ástand þjóðarinnar er listamaður sem árum saman hefur búið í fjarlægri heimsálfu. Hann talar um taumlausa ásókn í efnisleg gæði og óheilindi sem menn hika ekki við að beita í því skyni að réttlæta ást sína á fjármagninu. Þessi einkenni hafa breiðst út eins og sjúkdómur meðal þjóðarinnar. Næmur á mikilvægi tískunnar í listum og á ýmsum sviðum öðrum sagði þessi listamaður að það þyrfti að komast í tísku á Íslandi að vera heiðarlegur og nægjusamur og standa við orð sín.

Það sem hann er að tala um hér er í raun ekkert nýtt því að það hefur löngum verið kallað vakning, trúarvakning. En þá er spurt, af hverju er þessi vakning ekki löngu orðin hér á Íslandi. Er ekki búið að predika Guðs orð yfir þessari þjóð í þúsund ár?

Fulltrúar ólíkra kenningakerfa og hugmyndafræði liggja blindir við veginn. Nú er það nýfrjálsyggjan svonefnda og fyrir tuttugu árum var það sovétkommúnisminn. Bæði eru altæk hugmyndakerfi sem afneita fyrsta boðorðinu annað hvort með því að afneita Guði eða með því að telja að hægt sé að þjóna Guði og Mammoni samtímis. Eyðimerkurfeðurnir í öndverðri kristninni tóku undir með blinda manninum við veginn með Jesúbæninni: „Jesús Kristur, sonur Guðs og frelsari mannanna, miskunna þú mér.“ Þessa bæn endurtóku þeir í sífellu þangað til ásókn djöfulsins linnti og þeir skynjuðu hið eilífa ljós Guðs innra með sér.

Í kirkjum og klaustrum endurómar miskunnarbænin. „Drottinn miskunna þú mér. Kristur miskunna þú mér.“ Ef til vill þurfum við sem predikum og kennum um kristna trú að fara sjálf út í eyðimörkina til að leita að Guði og finna hann – til að eflast og endurnærast, til að geta komið til baka og boðað fagnaðarerindið hans af meiri trúverðugleika en áður.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verða mun um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með okkur öllum. Amen.