Jólin alla daga

Jólin alla daga

Nú ganga jólin yfir enn einu sinni, þau koma með miklum hraða og áður en vitum af er þau yfirstaðin og eftir stöndum við og göngum frá. Boðskapur jólanna gengur ekki yfir á sama hátt. Jesús kom ekki aðeins sem lítið bara hin fyrstu jól. Hann kemur alla daga...

Náð sem með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Guð gefi þér gleðileg jól!

Nú gengur jólahátíðin enn á ný yfir. Aðventan eða jólafastan sem er hinn eiginlegi undirbúningstími jólanna hefur þotið hjá. Hvort sem að jólahreingerningunni, bakstrinum eða pakkainnkaupunum hafi verið lokið í tæka tíð þá hafa jólin samt komið með allri sinni gleði og öllum sínum fögnuði. Og nú fáum við að njóta jólafriðarins eftir stress og asa undirbúningsins.

En hann er ekki allstaðar mikill friðurinn þegar líður að jólum. Hún er góð sagan um eiganda raftækjaverslunar sem hugðist veita viðskiptavinum sínum jólaglaðning á Þorláksmessu. Verslunareigandinn auglýsti að á Þorláksmessu skyldu valdar vörur verða seldar með allt að 90 prósenta afslætti. Snemma Þorláksmessumorgun, löngu áður en opna átti verslunina, var komin löng biðröð verslunina. Þegar styttist í að opna ætti verslunina kom lágvaxinn maður gangandi að þessari löngu röð og reyndi hvað hann gat að komast fram fyrir röðina. Hann bað aðra um að víkja frá en uppskar ekki annað en fúkyrði og blóðnasir. Hann hélt áfram og reyndi að troðast í gegnum mannmergðina en ekkert gekk honum að komast fram fyrir röðina. Marinn og aumur kallaði hann hátt svo allir heyrðu: „Ég reyni einu sinni enn að komast að dyrunum, annars opna ég ekki búðina í dag!“

Eitthvað var hann lítill friðurinn þar. Vonandi hefur þú á þessum jólum ekki brugðist við hinum sanna boðskap jólanna með sama hætti og kaupóðu viðskiptavinirnir. Vonandi hefur þú getað íhugað boðskap jólanna og tekið á móti honum. Boðskapinn sem englarnir kunngjörðu fjárhirðunum á Betlehemsvöllum hina fyrstu jólanótt:

„Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.“ (Lúk 2.11)

Stórkostlegur boðskapur, sem fyrst var kunngjörður einföldum fjárhirðum, ekki tignarmönnum við hirð Heródesar heldur alþýðufólki, fátækum fjárhirðum, sem í myrkri næturinnar gættu hjarðar sinnar. Guð valdi þá til að vera vottar að því að hann hafði uppfyllt loforð sitt! Loforð um að hann myndi senda sárþjakaðri þjóð sinni frelsara. Það loforð var uppfyllt á þessari nóttu fyrir um 2000 árum síðan. Ísraelsþjóð hafði svo lengi gengið í myrkri og beðið lausnar sinnar í trausti til þeirra loforða sem gefin höfðu verið í spádómsbókum Gamla testamentisins. Eitt þeirra var lesið hér frá altarinu áðan:

„Sú þjóð, sem í myrkri gengur,sér mikið ljós. Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna skín ljós. Þú eykur stórum fögnuðinn, gerir gleðina mikla. […] Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn.…“ (Jesaja 9.1-2, 5)

Það hafði mikið gengið á í sögu þessarar þjóðar ris hennar og fall var hátt og niðurlæging hennar mikil. Í heimi fornaldar voru guðir þjóðanna metnir eftir velgengni þjóðanna og þegar þjóð var sigruð af annarri þjóð þýddi það að guð þjóðarinnar hafði tapað. Ísraelsríki hafði verið gjörsigrað af erlendum stórveldum og það þýddi að Guð Ísraels væri sigraður. Staðan þjóðarinnar virtist allt að því vonlaus og framtíðarhorfur voru ekki beint öfundsverðar. En Guð þjóðarinnar var ekki gjörsigraður , Guð Biblíunnar hafði ekki tapað hann hafði lausn.

Í vonleysi sínu hrópaði þjóðin:

„Drottinn hefur yfirgefið mig, hinn alvaldi hefir gleymt mér!“

Og Guð svaraði:

„Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu, að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt, þá gleymi ég þér samt ekki. Sjá, ég hefi rist þig á lófa mína.“ (Jesaja 49:14-16a)
Þeir fluttu þjóðinni vonarboðskapinn: „Guð hefur ekki gleymt þér, hann er ekki sigraður og hann er í þann mund að gera eitthvað sem mun kollvarpa tilveru þinni...“ Það á allt eftir að breytast og ekkert verður eins á ný því: „Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.“

Guð hafði lausn og lausnin var falin í Jesú. Jólasagan snertir okkur flest mjög djúpt. Það er eitthvað svo stórkostlegt, svo magnað að hugsa til þess að Guð elski okkur hvert og eitt svo mikið að hann stígur úr hásæti sínu á himnum og gerist maður í sinni varnarlausustu mynd. Hann kemur til þín sem barn. Svo mikið er Guði í mun að koma til þín, kalla til þín, vekja athygli þína á stöðu þinni og tilgangi allrar tilverunnar, að hann kemur sem lítið hjálparlaust barn. Kallar til þess alls sem innst er í þér, kallar þig til sjálfs þíns, til þess sem þú ert skapaður, til þess sem þú ert sköpuð til það vera. Guð vill tala við þig, eiga fund með þér, hann kemur aftur og aftur og talar við þig um hver jól og kallar fram eitthvað undarlegt, sem þú nærð ekki að skýra eða skilgreina.

Spurningin „Hvers vegna?“ hlýtur að bærast í brjóstum okkar þegar við íhugum boðskap jólanna. Hvers vegna valdi Guð sem er skapari alls, að koma til okkar? Er nokkurt vit í því?

Hvers vegna? Hvers vegna velur Guð að koma til okkar mannanna, sem erum ekki svo stór í samanburði við hann, okkar sem erum tæpast jafningjar hans? Svarið er kannski ekki svo flókið því þegar Guð skapaði manninn, jörðina og himinhvolfin leit hann yfir sköpun sína og sá „...allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var[mjög] gott.“. (1. Mós. 1:31) Þegar við lítum í kringum okkur í dag er oft erfitt að greina það sem er gott í heiminum og öllu auðveldara er að sjá það sem er vont. Það er ekki alltaf einfalt að sjá hvað sé svona „gott“ við náunga okkar eða við okkur sjálf. En Guð sér það og hann gefst ekki upp á sköpun sinni þótt hún bregðist honum aftur og aftur. Hann gefst ekki upp á okkur, jafnvel þó að við bregðumst honum. Boðskapur jólanna er einmitt sá að Guð gefst ekki upp á sköpun sinni hann býður lausn og lausnin eða öllu heldur lausnarinn er Jesús.

Það er ekkert vit í því að Guð skuli elska okkur svo takmarkalaust. Enginn maður myndi láta þetta yfir sig ganga aftur og aftur. En Guð er meiri en svo að við í okkar mennsku getum skilið hann. Það er ekkert vit í því og allra sérkennilegast er þó boðskapurinn um að Guð velji að koma í mynd barns við þær erfiðu og niðurlægjandi aðstæður sem jólaguðspjallið greinir frá. Og í þessu er fólgin þverstæða jólanna. Konungur konunganna var ekki sonur jarðnesks konungs og móðir hans var ekki drottning í stórri höll, heldur ung fátæk alþýðukona sem fékk hvergi inni og fæddi barn sitt í fjárhúsi. Nú ganga jólin yfir enn einu sinni, þau koma með miklum hraða og áður en vitum af er þau yfirstaðin og eftir stöndum við og göngum frá. Boðskapur jólanna gengur ekki yfir á sama hátt. Jesús kom ekki aðeins sem lítið bara hin fyrstu jól. Hann kemur alla daga, hann kemur til þín og mætir þér alls staðar, þegar þú átt samskipti við fjölskyldu, vini og samstarfsfólk, þegar þú tekst á við erfiðar aðstæður daglegs lífs, þegar þú heyrir hróp eftir hjálp þá er Kristur þar einnig að koma til þín, að kalla til þín. Jólin eru ekki einangraður árlegur atburður því Guð kemur til þín á hverjum degi. Jólin eru því alla daga, Guð er ávallt nálægur í blíðu og stríðu.

Guð gefi þér og þínum gleðilega jólahátíð.