Spámaðurinn María

Spámaðurinn María

Unga stúlkan María frá smábænum Nazaret var kölluð til þjónustu við Guð. Hún var ekki viljalaust verkfæri, hún spurði og hugleiddi og tók ákvörðun.

Hvað fór í gegnum huga Maríu þegar hún stóð við krossinn rúmum 30 árum síðar? “Hásæti Davíðs” – “á ríki hans mun enginn endir verða” – voru það ekki orð engilsins sem boðaði fæðingu drengsins hennar, frumburðarins, sem hét Jesús.

Þetta fór allt á annan veg? Hvað brást? Var það hún? Þau Jósef?

Hvað getur móðir sagt sem horfir á barnið sitt sem fullorðinn einstakling velja leið sem hlýtur að enda illa? Sífellt að ögra yfirvöldum. Ekki einu sinni kurteis við prestana. Er hann að velja réttu leiðina – þessa sem færir þeim sigur – endurreisir Davíðs ríki – svo að hann fá hásætið eins og engillinn hafði boðað. Frelsa lýðinn undan oki Rómverja eins og þjóðin vænti. Var þetta kannski allt misskilningur?

Guði er enginn hlutur um megn, sagði engillinn. En hvernig mátti það vera fyrst sonur hennar hékk á krossi, þjáður og hæddur. Var það ekki hin endanlega uppgjöf?

María hefur verið mærð og lofuð meir en nokkur önnur kona í Vestrænni sögu, svo mikið að ef til vill er erfitt að sjá hana sem venjulega manneskju – svona að því marki sem allir eru venjulegir, þó allir séu um leið einstakir. En móðirin María var af hold og blóði. Sonurinn var blóð af hennar blóði. Hún var mannleg, með mannlegar tilfinningar, vonir og væntingar, efa, sorg. Hún var óttaslegin þegar engillinn vitjaði hennar. Og þegar hún stóð við krossinn, þá nísti sorgin hjartað.

----- Kaflinn sem lesinn var frá altarinu áðan og oft er kallaður Boðun Maríu, er framarlega í Lúkasarguðspjalli. Hann fylgir í kjölfar annarrar sögu af kraftaverki tengdu barnsfæðingu – þegar engillinn Gabríel boðar Sakaría presti að kona hans, rígfullorðin óbyrja, yrði brátt barnshafandi og sonurinn ætti að heita Jóhannes. Til þessa kraftaverks er svo vitnað í frásögninni um Maríu. Engillinn segir: Elísabet, frændkona þín, er einnig orðin þunguð að syni í elli sinni og þetta er sjötti mánuður hennar sem kölluð var óbyrja. En Guði er enginn hlutur um megn.

Og skömmu síðar lagði María á sig langt ferðalag upp í fjallabyggðir Júda þar sem Elísabet bjó og sannreyndi þar orð engilsins. -- Allir sem lesa guðspjöllin fjögur vita að þau segja ekki á sama hátt frá ævi og starfi Jesú. Þau eru þó öll að miðla sama boðskap en til ólíkra hlustendahópa. Við könnumst öll við það hvernig saga getur verið sögð frá ólíkum sjónarhornum og veldur þá hver segir og hver tilgangurinn er. Guðspjöllin miðla öll þeim boðskap að Jesús hafi verið Guðs son, Messías – sá sem þjóðin beið eftir. Þau takast öll á við spurninguna hvers vegna hann varð ekki veraldlegur konungur sem leysti þjóðina undan oki Rómverja, heldur leiðtogi sem var “krossfestur, dáinn og grafinn”. Þau eru öll skrifuð í ljósi upprisunnar. Á máli bókmenntafræðinnar má segja að upprisan sé túlkunarlykill guðspjallanna. Við sem lesum þau, sjáum atburðina í ljósi upprisunnar en þau sem lifðu atburðina gerðu það ekki.

Fyrir þeim sem stóðu við krossinn á þeim tíma var hann tákn um algeran ósigur. Fyrir lesendur og hlustendur guðspjallanna var hann tákn um algeran sigur.

-- Þegar Lúkas segir frá vitjun engilsins til Maríu eru fleiri lyklar faldir í frásögninni. Sagan kallar fram í huga hlustenda aðrar sögur af vitrunum engla og boðskap um að barni sé ætlað mikið hlutverk. Þannig var það hjá Hagar, móður Ismaels. Og óbyrjur urðu þungaðar eins og ættmóðirin Sara, og móðir hins sterka Samsonar og Hanna, móðir Samúels spámanns.

Þessi áhersla á Maríu sem móður hefur fylgt henni í gegnum söguna. María hefur fengið sérstaka stöðu í kristni sem móðir Krists og þannig fyrirmynd mæðra og sem móðir allra. Hún er fyrir mörgum meðalgangarinn – sem móðir getur hún borið bænarefni til sonarins. Af því að góðir synir hlusta á mæður sínar.

Kaþólskur prestur sem hingað kom til starfa varð undrandi á því hvað þetta frekar lútherska land héldi nafni Maríu á lofti. Honum þykir staða Maríu sterk í vitund þjóðarinnar, sem kemur meðal annars fram í fjölda Maríukvæða sem eru þekkt og vinsæl sönglög. Og það er rétt. Það eru til fjölmörg Maríukvæði sem eru vinsæl til söngs, bæði á tónleikum og á helgistundum. Á okkar tungu var Lilja ort, miðaldakvæðið um Maríu sem allir vildu kveðið hafa. Og 20. öld orti Halldór Laxness Maríukvæði, sem við heyrum á eftir, við undurfagurt lag Atla Heimis Sveinssonar. Þar birtist María okkur einmitt sem móðir Krists, en jafnframt móðir allra: “Leiddu þennan litla svein, líkt og son þinn forðum.” segir í kvæðinu. Og “Móðir Guðs sé móðir mín og móðir þjóða, móðir allra þjóða.”

---

En það eru fleiri lyklar sem ljúka upp sögunni af boðun Maríu. Framsetning Lúkasar kallar líka fram aðra skíra mynd og mótív sem er vel þekkt úr Gamla testamentinu. Það er myndin af köllun spámannsins. María er kölluð sem spámaður. Slíkar sögur fylgja gjarnan ákveðnu munstri og þær sjáum við í hér. Engillinn birtist og heilsar Maríu, hún verður hrædd, er hvött til að óttast ekki og sagt að Guð ætli henni mikið verkefni. Þá kemur efi eða neitun þeirrar sem kölluð er sem svarað er með frekari hvatningu og tákni til staðfestingar. Hjá Maríu var táknið það að óbyrjan Elísabet var orðin þunguð í elli sinni. Og María bregst við með því að ákveða að gera eins og Drottinn biður.

María er spámaður. Við heyrum ekki margt af hennar eigin orðum en hún ber í heiminn orð Guðs, Orðið sem varð hold. -- Hlutverk spámanna var aldrei auðvelt. Þeir voru boðberar orðs Guðs. Og fyrir það þurftu þeir oft að líða.

María ber orð Guðs. Fæðir soninn og kallar hann Jesú, eins og engillinn sagði. Og þau María og Jósef ala hann upp því að eins og allir foreldrar vita byrjar vinnan fyrst fyrir alvöru þegar barnið er fætt.

Við getum alveg sett okkur í spor foreldranna. Gleðina yfir barninu, fyrsta brosið, fyrstu orðin, fyrstu skrefin. Vel gefinn drengur sem virtist hafa köllun frá unga aldri. “Vissuð þið ekki að mér bera að vera í húsi föður míns”.

En svo er hans tími kominn. Hann predikar og læknar, - það má vera stoltur af slíku barni - hann mætir alls kyns fólki og talar við þá sem voru útskúfaðir í samfélaginu, fyrirlitnir, óhreinir. – Hann hefur gott gott hjartalag - Brýtur hefðir og venjur, ögrar yfirvöldum. – Hvað ætli fjölskyldunni hafi þótt um það?

Hvaða foreldrar kannast ekki við það – að hafa áhyggjur þegar barnið er vaxið úr grasi og hefur valið sér aðra leið en búist var við.

Og það virtist fyllsta ástæða til að hafa áhyggjur. Leið Jesú lá að krossinum, að aftöku í smán. Móðirin María fylgdi honum að krossinum og þjáðist með honum. Spámaðurinn María þurfti að líða fyrir Orðið sem hún bar í heiminn.

En guðspjallið er ritað í ljósi upprisunnar. Þar sem þjáningin og dauðinn eiga ekki síðasta orðið, heldur upprisan og lífið. Hin þungu skref að krossinum og að gröfinni voru upphafið á nýju lífi. Ósigurinn breyttist í sigur. Og María sá að orð engilsins rættust. Guði var ekkert um megn.

-- Unga stúlkan María frá smábænum Nazaret var kölluð til þjónustu við Guð. Hún var ekki viljalaust verkfæri, hún spurði og hugleiddi og tók ákvörðun. Hún vildi hlýða Drottni. Þannig lýsir Lúkas guðspjallamaður henni - sem fyrirmynd kristinna karla og kvenna á öllum tímum. Ekki vegna þess að hún var kona eða móðir, heldur vegna þess að hún gerði það sem Guð fól henni að gera.

Fyrirmynd okkar. Sem erum kölluð til að sinna ýmsum verkefnum á lífsleiðinni. Sem erum kölluð til að vera vakandi fyrir því að vinna verk Guðs, að vera hendur og fætur Guðs hér á jörð.

Siðbótarmaðurinn Marteinn Lúter kom með nýja sýn á það hvað er köllun okkar sem kristinna einstaklinga. Köllun var ekki lengur bundin við presta, munka og nunnur til að sinna sérhæfðri þjónustu helgihalds, bæna og líknarþjónustu. Sérhvert gott starf er köllun þar sem hinn kallaði notar þær gjafir sem Guð gefur, segir Lúter. Það á við öll embætti, veraldleg jafnt sem andleg – öll verkefni hvunndagsins. Köllun getur því átt við, til dæmis bæði við um störf við stjórnsýslu eða í bönkum og að sjálfsögðu í heilsugæslu en einnig um þau flóknu og mikilvægu verkefni að ala upp börn og fræða þau.

Við, sem erum kristin, eigum meta í okkar stöðu hver köllun okkar er og hvernig við nýtum gjafir okkar til að sinna henni. Erum við á réttri leið? Erum við sem störfum hjá kirkjunni til dæmis að sinna köllun okkar á réttan hátt? Erum við að mæta fólki eins og Kristur kenndi?

Og erum við öll sem kristnir einstaklingar aðhald fyrir stjórnvöld að minna á að löggjöf okkar eigi að vernda rétt hins veikari? Eða aðhald fyrir fjármálastofnanir að minna á ábyrgð þeirra sem falin er umsjón fjár annarra – að sú umsjón gagnist mörgum, ekki fáum. Þannig mætti lengi spyrja.

Að íhuga köllun sína við að sinna þeim góðu verkum sem daglega mæta okkur er æfilangt hlutverk. Og líkt og María getum við búist við að það sé ekki alltaf auðvelt að sinna kölluninni. -- Þegar við minnumst Maríu skulum við líka muna að sú stund sem henni var erfiðust og myrkust, þegar hún stóð við krossinn, þegar hún hlýtur að hafa efast um líf sitt, sú stund varð sigurstund í ljósi upprisunnar. Og sú stund átti upphaf í því að unga stúlkan ákvað að taka við því hlutverki sem henni var ætlað þegar engillinn kom til hennar í Nazaret.