Þvertrúarlegt samráð á Íslandi

Þvertrúarlegt samráð á Íslandi

Japanskir hrísgrjónaréttir, súrt slátur, rúllupylsa og rófustappa, ostakökur, franskar bökur og fleira fínerí var á borðum í húsnæði Bahá´ía á Öldugötunni á mánudagskvöldið.

Matargestir á mánudagskvöldi

Japanskir hrísgrjónaréttir, súrt slátur, rúllupylsa og rófustappa, ostakökur, franskar bökur og fleira fínerí var á borðum í húsnæði Bahá´ía á Öldugötunni á mánudagskvöldið. Þar var samankominn góður hópur fólks frá fjölbreyttum bakgrunni í tilefni af Alþjóðlegri sáttaviku trúarbragða, sem nú stendur yfir. Fólk af m.a. persneskum uppruna, japönskum, frönskum, þýskum, breskum og íslenskum ættum snæddi saman og kynnti sig hvert fyrir öðru, ekki síst út frá trúar- og lífsskoðun. Óhætt er að segja að sátt og gleði hafi einkennt þennan hóp fulltrúa ólíkra trúarbragða á Íslandi.

Hér á landi hefur verið starfandi Samráðsvettvangur trúfélaga og lífsskoðunarfélaga um trúarleg efni frá því í nóvember 2006. Sextán félög stóðu að stofnun vettvangsins og fleiri hafa bæst í hópinn síðan. Markmið samráðsvettvangsins er að „stuðla að umburðarlyndi og virðingu milli fólks með ólík lífsviðhorf og af ólíkum trúarhópum og trúarbrögðum og standa vörð um trúfrelsi og önnur mannréttindi“ (úr Stefnuyfirlýsingu samráðsvettvangs trúfélaga frá 2006). Sótt hefur verið um styrk til Innanríkisráðuneytisins til að halda málþing um mannréttindi og trúfrelsi á þessu ári, en áður hafa verið haldin mörg slík þing, m.a. um trúarlegt húsnæði, afstöðu ungmenna til trúar og atferli við andlát.

Alþjóðleg vika sátt um milli trúarbragða, World Interfaith Harmony Week, er nú haldin í þriðja sinn að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna. Við stofnun hennar var lagt til grundvallar að gagnkvæmur skilningur og samtal milli trúarbragða væri mikilvægur liður í friðarmenningu og eflingu sátta og samstarfs milli fólks, óháð trúarafstöðu. Sameinuðu þjóðirnar hvetja öll aðldarríki til að styðja við boðun sem miðar að velvild og sáttargjörð á milli trúarbragða í kirkjum, moskum, samkunduhúsum, musterum og öðrum tilbeiðslustöðum í samræmi við hefðir og sannfæringu á hverjum stað.