Kirkjan segir nei!

Kirkjan segir nei!

Enn sameinast konur og minna á að baráttumál sín. Í þetta skipti er kastljósinu beint að ofbeldi gegn konum. Þó að mikið hafi áunnist í baráttunni gegn kynferðisofbeldi á síðustu áratugum þá er ennþá mikið starf óunnið.
fullname - andlitsmynd Arnfríður Guðmundsdóttir
23. október 2010

Vaknið konur!

Það hefur ýmislegt breyst á síðustu 40 árum, eða frá því að íslenskar konur sýndu samstöðu sína með því að leggja niður vinnu og fara út á stræti og torg til að mótmæla. Annað eins hafði aldrei sést, hvorki hér á landi né annars staðar í heiminum. Kvennafrídagurinn á Íslandi hefur þess vegna orðið að eins konar táknmynd kvennabaráttunnar, sem oft er notuð í umræðunni um baráttu kvenna fyrir bættri stöðu. Og enn á ný boða a íslenskar konur aðgerðir. Þær ætla að ganga út frá vinnu sinni á mánudaginn kl. 14:25, sem er táknrænt fyrir þann launamismun sem enn er á milli karla og kvenna.

Enn sameinast konur og minna á að baráttumál sín. Í þetta skipti er kastljósinu beint að ofbeldi gegn konum. Þó að mikið hafi áunnist í baráttunni gegn kynferðisofbeldi á síðustu áratugum þá er ennþá mikið starf óunnið. Á sunnudaginn kemur verður alþjóðleg ráðstefna um kynferðisofbeldi haldin í Háskólabíó, þar sem fyrirlesarar frá öllum heimsálfum munu segja frá reynslu sinni og starfi. Þarna gefst okkur einstakt tækifæri til að heyra um það sem er að gerast í heiminum á þessum vettvangi.

Efni ráðstefnunnar kallast á við yfirskrift ritsins Kirkjan mótmælir ofbeldi gegn konum sem kom út á vegum Lútherska heimssambandsins og gefið út hjá Skálholtsútgáfunni í íslenskri þýðingu árið 2003. Tilgangurinn með þessu riti var að hvetja kirkjufólk um víða veröld til þess að taka eindregna afstöðu gegn ofbeldinu og leggja sitt að mörkum í baráttunni gegn því. Um leið er kirkjan hvött til þess að kannast við það ofbeldi sem konur hafa verið og eru enn beittar í skjóli kirkju og kristni. Ísland er þar því miður engin undantekning. Það ætti að vera okkur hvatning til að leggja enn meiri áherslu á það í orði og athöfn að ofbeldi er alltaf í fullkominni mótsögn við kristinn boðskap.

Nýstofnað Félag prestsvígðra kvenna tilheyrir Skottunum, samstarfsvettvangi kvenna, sem hefur undirbúið Kvennafrídaginn 2010 og dagskrána í aðdraganda hans. Á mánudaginn kemur mun félagið standa fyrir kvennamessu í Hallgrímskirkju. Messan hefst kl. 14 og þangað eru allar konur velkomnar, sem vilja stilla saman strengi sína áður en sjálf gangan hefst frá torginu fyrir framan Hallgrímskirkju niður á Arnarhól. Í Kvennamessunni sameinumst við í baráttunni og minnum á að kirkjan getur aldrei sagt annað en NEI við ofbeldi gegn konum. Ég hvet allar konur (og karla sem vilja vera með okkur) til að koma og mótmæla í nafni Krists og í nafni kærleikans. Hafi einhvern tímann verið ástæða fyrir okkur að láta í okkur heyra þá er það nú.

Nýtum tækifærið og stöndum saman.

Áfram stelpur!