Vinátta af lífi og sál

Vinátta af lífi og sál

Sönn vinátta felst í viljanum að gefa af tíma sínum, að gefa af sjálfum sér þegar við í raun höfum lítið aflögu. Fórnfús kærleikur gagnvart öðrum kostar bæði tíma og þolinmæði en er vel þess virði í ljósi alls þess góða sem við fáum í staðinn; kærleika frá öðrum, traust, virðingu og ævarandi vináttu. Ómetanlegir hlutir sem skipta meira máli en öll verðmæti heimsins.
fullname - andlitsmynd Íris Kristjánsdóttir
06. maí 2007
Flokkar

Grunnskólakennari nokkur bað bekkinn sinn að skrifa niður myndræna skilgreiningu á því hvað væri vinur eða vinkona. Svörin voru mismunandi, hér koma nokkur: Vinur er faðmlag þess sem hefur engar hendur ; Vinur er hlý sæng á ísköldu kvöldi ; Vinur er lifandi polka á leiðinlegum tónleikum ; Vinur er falleg rós í miðri eyðimörk ; Vinur er heitt bað eftir 30 kílómetra göngu á rykugum strætum.

Hvað er vinur fyrir þér? Hvert er einkenni sannrar vináttu? Vinskapur við aðra er eitt það besta sem við fáum upplifað, en jafnframt er sannur vinskapur ekki svo algengur. Sumir segja okkur konur eiga auðveldara með að eignast vini eða vinkonur – kannski er það rétt, kannski vegna þess að við höfum meiri þörf á að tala við aðra en karlmenn, það segja amk margir karlmenn! Staðreyndin er sú að það er oft erfitt að mynda vinatengsl, bæði fyrir karla og konur, því vinskapur þýðir að við verðum bæði að gefa af okkur sjálfum og þiggja það sem vinur okkar eða vinkona hefur fram að færa. Stundum er það bara alls ekki svo auðvelt. Í Biblíunni voru kristnir menn kallaðir vinir löngu áður en þeir voru kallaðir kristnir. Það var fyrst í Antíokkíu á tímum postulannaað lærisveinar Jesú Krists voru kallaði kristnir, þó nokkuð eftir dauða og upprisu Krists. Sjálfur kallaði Jesús lærisveina sína vini. Hvað átti hann eiginlega með því? Að vera vinur er líklega ekki það sama og að vera vinur. Það sem ég á við er að fólk kallar ýmis sambönd vinskap þó ólík séu. Kannski eru þau sem við köllum vini í raun kunningjar okkar, vinnufélagar, nágrannar eða önnur sem við umgöngumst en eigum ekki náin samskipti við. Sannir vinir eru þeir sem sýna vináttu sína einmitt þegar við þurfum á aðstoð að halda vegna erfiðleika, storma í lífi okkar. Þeir eru þess megnugir að staldra við þegar það eina sem við þurfum er nálægð þeirra, kærleikur og skilningur. Jesús sá mikilvægi þessa vinskapar gagnvart lærisveinum sínum. Hann vissi að það er ekkert alltaf auðvelt að sýna öðrum vináttu, okkur mistekst oft er við reynum. Jesús upplifði hvort tveggja af lærisveinum sínum sem einmitt voru samt bestu vinir hans. Þeir stóðu með honum í erfiðleikum, en þeir brugðust honum einnig á ögurstundum. En þrátt fyrir það voru þeir vinir hans og hann leiðbeindi þeim um sanna vináttu, hann vissi að framtíð þeirra væri háð því hvernig þeir kæmu fram hver við annan og sæju hvern annan í ljósi þess fagnaðarerindis sem þeir tóku þátt í að boða. Í guðspjalli dagsins er að finna boðskap Krists um vináttuna. Hann leggur áherslu á að lærisveinar hans sýni hver öðrum þann kærleika sem á upphaf í honum. Frá kærleika hans fáum við það sem við þurfum til að skilja annað fólk, fyrirgefa öðrum og iðrast þess sem við sjálf brjótum gegn honum. Það er kærleikur hans sem breytir gjörðum okkar á þann veg að viðhorf okkar og skilningur í samskiptum við aðra tekur nýrri og betri stefnu.

Ekkja nokkur, Guðrún að nafni, var kirkjurækin kona og fór hvern sunnudag í kirkjuna sína. Hún kom þangað 20 mínútum fyrir hverja messu til að eiga persónulega bænastund, það hafði hún gert til margra ára. Einn sunnudag sat fólk fyrir aftan hana, fjölskylda sem hún hafði ekki séð áður í kirkjunni. Návist þeirra truflaði bænagjörð hennar. Hún hugsaði með sér að þau væru bara gestir í kirkjunni og kæmu örugglega ekki aftur. Hún hlyti að þola að litlir fætur spörkuðu í stólinn hennar og að leikfangabílar þytu eftir gólfinu, svona einu sinni. En henni til ama kom fjölskyldan aftur næsta sunnudag og einnig sunnudaginn eftir það. Og hún áttaði sig á því að þau voru ekkert á leiðinni í burtu. Hvað átti hún að taka til bragðs? Hún gæti fært sig og sest annars staðar í kirkjunni, en það var erfitt því hún og eiginmaður hennar sálugi höfðu setið á þessum sama stað í tugi ára. Hún gæti gefið þeim illt auga. Hún gæti sleppt bænastundinni sem hún átti í upphafi. En engir þessara valkosta voru álitlegir að hennar mati. Einn sunnudagsmorgun var ástandið verra en oft áður. Hún sneri sér við og ætlaði að hasta á börnin en sá þá að foreldrarnir virtust mjög þreyttir og reyndu eftir fremsta megni að hafa hemil á börnum sínum. Ósjálfrátt brosti hún varlega til þeirra og fékk bros frá bæði foreldrum og börnum á móti. Næsta sunnudag tók hún með sér brjóstsykursmola og gaf börnunum. Þar á eftir spurði hún um nöfn þeirra og komst að því að elsta barnið hafði gaman af hestum, það í miðið var lestrarhestur og það yngsta var með bíladellu. Viku seinna kom fjölskyldan ekki í messu og Guðrún gamla fann að hún saknaði þeirra. Messan var ekki sú saman án sparksins í stólinn og bílanna á gólfinu. Næst þegar hún hitti fjölskylduna bauð hún þeim í hádegismat eftir messu og eftir það óx vinátta þeirra og dafnaði.

Breytt viðhorf okkar og breytt sýn á heiminn í kringum okkur breytir aðstæðum til hins betra. Ef við horfum á heiminn og íbúa hans með kærleika Krists fyrir sjónum þá hefur það bæði áhrif á þau sem við umgöngumst og okkur sjálf. Það er þá sem við eigum möguleika á að byrja og móta vináttu sem eykur gæði lífs okkar og tilveru.

„Þér eruð vinir mínir,“ sagði Jesús, „ef þér gjörið það sem ég býð yður ..... Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.“ Í kærleika Krists tekst okkur betur en ella að sýna öðrum kærleika því í honum er uppspretta alls þess besta sem falist getur í vináttu. Í pistli dagsins erum við minnt á þessa uppsprettu sem fyrst og fremst birtist í kærleiksverkinu á krossinum, í lífi, dauða og upprisu Krists. Sá kærleikur sem einkenna á vinskap okkar við aðra finnst fyrst og fremst í framkomu og gjörðum okkar gagnvart öðrum, við eigum jafnvel að vera tilbúin að leggja líf okkar í sölurnar fyrir vini okkar. Jesús segir: „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.“ Sönn vinátta felst í viljanum að gefa af tíma sínum, að gefa af sjálfum sér þegar við í raun höfum lítið aflögu. Fórfús kærleikur gagnvart öðrum kostar bæði tíma og þolinmæði en er vel þess virði í ljósi alls þess góða sem við fáum í staðinn; kærleika frá öðrum, traust, virðingu og ævarandi vináttu. Ómetanlegir hlutir sem skipta meira máli en öll verðmæti heimsins.

Jesús Kristur býður okkur öllum vinskap sinn. Þrátt fyrir að við séum í þjónustu hans sem kristnir einstaklingar, þá kallar hann okkur ekki þjóna. Þrátt fyrir að hann sé sannarlega æðri okkur þá stöndum við jafnfætis honum í vinskapnum. Hann hefur valið okkur til að þiggja vináttu hans og sýna öðrum það sama. Næsta skref er okkar, hann lagði brautina, okkar er að ganga hana til móts við aðra í kærleika. Í því felst sönn vinátta.