Kyrrðardagar í Skálholti

Kyrrðardagar í Skálholti

Gengið inní ró og frið trúarhelginnar – áhrifamikið að ganga inní þögnina með bæn og íhugun á svo helgum stað.
Mynd
fullname - andlitsmynd Oddný Björgvins
21. maí 2019
Kyrrðardagar í Skálholti
Gengið inní ró og frið trúarhelginnar – áhrifamikið að ganga inní þögnina
með bæn og íhugun á svo helgum stað.

Ró og friður umlykur mann frá fyrstu stundu. Mér fannst ég horfin inn í klaustur trúarsystra sem lifðu sig inn í þjáningar Jesú Krists. Skynja ljósið í friðarboðskapnum. Hverfast í innri íhugun, listasmíð náttúru og helgiverka – hin hlýja þögn veitti hjartanu hvíld. Samspil náttúru og helgiverka vekur innri íhugun.

Í umvefjandi kyrrð skynjum við æðri mátt
Í þögn kyrrðardaganna skynjum við návist Guðs

Hverjum manni er hollt að kljúfa sig úr úr hraða, áhyggjum og fréttaflutningi. Í hversdeginum erum við undirlögð af áreiti. Ófriður geysar víða í heiminum, daglega má maður hlusta á þúsundir manna sprengda í loft upp, jafnvel saklaus börn – orð misvitra þjóðarleiðtoga. Og víða þar sem peningar koma við sögu er byrjað að svíkja, pretta og stela. Mjög sárt er að heyra um vaxandi kynslóð sækja meira í eiturlyf eða gefast upp fyrir lífinu – sækja meira í símann en hlusta á vini og fjölskyldu. Á kyrrðardögum í Skálholti má yfirvinna andlegar hindranir – kyrra hugann.
Skálholt var miðkjarni íslenskrar menningar um aldabil. Mikil auðæfi að eiga svo sagnaríkan helgistað – sem saga og trúarhelgi breiða vængi sína yfir. Helgi slíkra staða er ómetanleg. Hér má sökkva sér í náttúruna... fjarlæg fjöll, vötn og ár.

Og sjá á þessum stað var sólin án forsælu í allar áttir
Og Guð gerði Skálholt að fyrsta vígi kirkju sinnar á Íslandi

(Orð Guðmundar Kamban í bókinni Skálholt)

Sit í garðskála – horfi á Hestfjall og Hestvatn í fjarskanum, þar sem hesturinn teygir fætur sér fram í vatnið. Vörðufell framundan kirkjunni ber nafn sitt með rentu. Núna sómir Þorláksbúð sér vel við enda kirkjunnar, vitnar um gamla sagnaríka tíð. Áður var amast við uppsetningu hennar, ekki tekið tillit til söguhefðar sem hún stendur fyrir. Svona breytast lífsviðhorfin í skjóli tímans.

Kvöld- og morgunbænir gáfu kyrrðinni aukna dýpt – náttsöngur í kirkjunni gaf mikið, syngja þegar næturkyrrðin var að færast yfir á helgum stað.
Helgistundirnar voru áhrifamiklar – guðþjónusta með íhugun um fyrirgefninguna sem mörgum er erfið. Táknræn var smurningin í Betaníu í kapellu skólans – einnig íhugun um fótaþvott Jesú og handaþvott Pílatusar. Áhrifamikið var að sjá myndband af Mattheusarpassíu Bachs – sjá og heyra biskupssoninn, Benedikt Kristjánsson, syngja eitt aðalhlutverkið. Allt öðlast þetta dýpri merkingu.

Helgiblærinn yfir Getsemanestundinni eftir messu á skírdagskvöldi gaf sterka trúarinnlifun. Allir munir af altari kirkjunnar voru fjarlægðir – rafmagnsljós og kertaljós slökkt og prestarnir færðu sig úr hvítum messuklæðum. Svartar hempur þeirra í myrkri kirkjunnar juku á sorgarandrúmið. En birtan sem berst inn um litaspil glugganna vekur von.
Dásamleg tilfinning að búið sé að gera við glugga kirkjunnar – hin litríku, táknrænu listaverk Gerðar Helgadóttur. Tvær myndlistarkonur eiga snertifleti í skreytingu kirkjunnar. Frá altari blasir helgimynd frelsarans við kirkjugestum, listaverk Nínu Tryggvadóttur, ógleymanleg frá fyrsta augliti.
Ómetanlegt að tvær íslenskar listakonur skuli sameinast um listsköpun í höfuðkirkju Íslands.