Viðmælandi dauðans og vinamót

Viðmælandi dauðans og vinamót

Þegar við tölum við Guð hefur engan tilgang að eiga orðastað við Guð með talsmáta “viðmælanda dauðans.” Að biðja er að opna lífið gagnvart lífgjafanum sjálfum, sem kemst ekki að ef við iðkum eitthvað annað en opin tjáskipti.

Bergþór Pálsson hefur skrifað góða bók um veislur og borðsiði. Hún heitir Vinamót. Bókin kom á óvart. Í henni er allt flest sem þarft er að vita um veislur og siði, hvað ber að varast og hvað þurfi að íhuga og tryggja fyrir góða veislu og fagnað vina. Bókin er grundvölluð á viti. Við blasir, að Bergþór hefur ræktað með sér mannvirðingu og hlýju, sem litar hvernig hann túlkar. Í bókinni eru líka íhuganir og speki t.d. úr skáldskap, jafnvel góð og eftirminnileg reynslusaga íslensks prests.

Það, sem ég staldraði einkum við í þessari góðu bók, er skarpskyggni Bergþórs, næmi á lífshætti, tjáningarþætti og hið góða líf. Í kafla um samræður fjallar hann m.a. um hvernig fólk hegðar sér í samkvæmum og hver vítin eru til að varast. Sumir eru hrókar fagnaðar, aðrir snillingar í samræðulist, sem leyfa fólki að njóta sín. Margir eru þægilegir viðmælendur, sem gott er að gleðjast með.

En svo er hópur, sem Bergþór kallar viðmælendur dauðans. Hverjir eru slíkir? Þeir sýna öðrum vanvirðingu með því að tala mikið um sjálfa sig, grípa fram í fyrir öðrum, skipta jafnvel um umræðuefni um leið. Þeir eyða eða gera lítið úr ef einhverjum er hrósað, atyrða stundum aðra fyrir smekk, t.d. á tónlist, bókmenntum, kvikmyndum. Þeir upplýsa jafnvel, að greiðsla eða föt fari einhverjum illa. Þessir hafa í öðru samhengi stundum verið kallaðir að vera vitbetrungur “besserwisser.”

Viðmælandi dauðans hermir eftir þeim, sem hann talar við eða apar jafnvel eftir. Hann gjammar oft, hummar, jammar eða klifar og truflar þar með þegar einhver annar talar. Hann talar gjarnan fólk í kaf með vaðli. Hann er óhreinlyndur því hann talar oft digurbarkalega um það, sem hann veit kannski lítið um. Hann oflofar þegar hann slær gullhamra og talar oft um fólk um leið og það fer.

Viðmælandi dauðans! Þetta er sláandi heiti hjá Bergþóri á sjálfhverfu fólki. Við sjáum marga þessara þátta í einhverjum sem við könnumst við eða þekkjum. En að viðkomandi sé viðmælandi dauðans er sterk tjáning, en þó líklega alveg rétt. Fólk, sem hefur eitthvað af þessum þáttum letur lífið, minnkar gleðina, slær á hamingjuna, fækkar litum mannlífsins, veitir kulda og ógn í hóp fólks. Þetta er þau, sem hreykja sér á kostnað annarra, þessi sem vilja fá og njóta alls hins besta, þumlunga sig fram á annarra kostnað, troða á öðrum til að þau sjáist betur sjálf og reyna að lækka aðra til að þau sjáist sjálf. Þetta fólk leitar í sviðsljós heimsins.

Viðmælandi dauðans, varaðu þig á honum. En gættu fyrst að hvort eitthvað er af honum í þér líka! Ekkert okkar getur flúið dauðann, en meðan við erum á lífi er skemmtilegra að lifa og tala við lifandi fólk og halda frá nálykt, nábít og násókn. Þegar við tölum er best að ræðan sé í þágu lífsins. Forðumst ljámennina! Leyfum þeim ekki að búa í okkur, hvorki sem sálarþáttum okkar né að vera of nálægt okkur hvorki í félagahópi eða vinnustað.

Og þegar við tölum við Guð hefur engan tilgang að eiga orðastað við Guð með talsmáta “viðmælanda dauðans.” Að biðja er að opna lífið gagnvart lífgjafanum sjálfum, sem kemst ekki að ef við iðkum eitthvað annað en opin tjáskipti. Guð hefur snúið baki við dauða. Guð er Guð lífsins og þyrstir í lifandi orð, vinamót.