Náungahyggja

Náungahyggja

Við getum kallað hana þjónustu umhyggjunnar. Við erum kölluð að bregðast við hungri og þorsta, til að veita húsaskjól og klæði, til að hjúkra og til að vitja. Til að sinna um grunnþarfir manneskjunnar.
fullname - andlitsmynd Árni Svanur Daníelsson
26. nóvember 2008

Morgunlestur þessa miðvikudags fjallar um dyr.

„Kostið kapps um að komast inn um þröngu dyrnar," segir Jesús. Það er ekki hægt að ryðjast gegnum þær. Það þarf að hafa fyrir því að komast á þann áfangastað sem þær standa fyrir. „Kostið kapps," segir hann.

Það komast ekki allir um dyrnar – og enginn kemst þangað án fyrirhafnar, án þess að leggja eitthvað á sig.

„Kostið kapps um að komast inn um þröngu dyrnar,“ segir Jesús í morgunlestri dagsins og undanskilið er kannski:

Núna! Strax! Það er ekki eftir neinu að bíða!

En hvernig nálgumst við dyrnar?

Í kærleika, með þjónustu við náungann.

Og hvers konar þjónusta er það?

Við getum kallað hana þjónustu umhyggjunnar. Umhyggju fyrir hinum minnstu systrum og bræðrum eins og þar væri Kristur. Við erum kölluð að bregðast við hungri og þorsta, til að veita húsaskjól og klæði, til að hjúkra og til að vitja. Til að sinna um grunnþarfir manneskjunnar.

Eins og Kristur hvetur til í guðspjalli síðasta sunnudags: Þú skalt reynast systir og bróðir – náungi – þeirra minnstu og þjáðu sem þau væru ég.

Og ef einhvern tímann var þörf á að ekki bara hugsa heldur starfa þannig þá er það núna. Því nú þurfum við að leggja einstaklingshyggjunni. Í hennar stað skulum við taka upp það sem kalla mætti náungahyggju. Og þótt við kunnum að ganga ein að eða jafnvel um þrönga hliðið þá göngum við tvö og tvö eða fleiri upp frá því.

Hlið við hlið. Saman.

Gerum það.

Það er áminning og hvatning dagsins.

Lagt út af Lúk 13.22-30