Endurgjaldið

Endurgjaldið

Þú leitar mín því að þú elskar mig og vilt færa mér þakkir. Hér er ég. Hér vil ég njóta þakklætis þíns.

Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt. Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann. Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen Guð er kærleikur. Þessi vitneskja er eitt af þessum grundvallaratriðum sem fylgja okkur frá vöggu til grafar. Hjá Guði eigum við foreldrahúsin og þangað leitum við aftur þegar lífi okkar lýkur. Faðirinn á himnum gengur við hlið okkar. Við þurfum ekki annað en að rétta út höndina til þess að hún lykist í lófa hans. Og þessi faðir okkar á himnum segir við okkur hvert og eitt í guðspjalli dagsins: Komið til mín allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar og ég mun veita yður hvíld.“

Eitt sinn óskaði drengur sér að eignast úr. Hann bað um það allan liðlangan daginn og líka þegar hann var að dreyma. Að lokum eignaðist hann fallegt úr. Hann setti það á úlnliðinn á sér og var mjög hamingjusamur með það og sýndi það öllum vinum sínum. Einn daginn kom stór strákur og reyndi að stela úrinu. Drengurinn hljóp í burtu og þorði ekki framar að ganga um göturnar og hélt sig heima. Hann hafði áhuga á því að spila fótbolta en þorði því nú ekki vegna þess að hann var hræddur um að úrið myndi falla af sér í hita leiksins og eyðileggjast. Úrið var þannig orðið honum að byrði. Ýmislegt getur virkað íþyngjandi á okkur, t.d. máttur auglýsinganna í fjölmiðlum. Fyrirliði íslenska handbotlalandsliðisins er að auglýsa hafragrjón fyrir alla keppnisleiki í sjónvarpinu og sjóða sér hafragraut þótt mörgum þyki hafragrauturinn hreint ekkert góður. Svo segja auglýsingar stundum að við séum hreint ekkert með ef við kaupum ekki tiltekna merkjavöru handa okkur sjálfum og börnum okkar. Jesús spyr eiginlega í guðspjalli dagsins: Hvað skiptir þig raunverulega máli þegar upp er staðið? Viltu verða áreiti umhverfisins að bráð eða viltu hjálpa mér að bera mínar byrðar því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt, heilsusamleg og fagnaðarrík. Ég elska þig eins og þú ert. Ég vil gefa þér hugarró svo að þú getir staðist áreiti hversdagsins og hjálpað mér að auðsýna náunganum kærleika í orði og verki. Sá sem þekkir þennan kærleika og trúir á hann á vissulega allt sem hann þarf til fullkominnar gleði, hvernig sem annars fer um örlög hans. Er þetta ekki fagnaðarerindið? Hið sanna fagnaðarerindi? Er þetta ekki allt sem við þörfnumst hvernig sem fer og hvert sem okkur ber? ,,Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér....“ Vissulega er þetta nóg. Sá sem þekkir þennan kærleika og trúir á hann á vissulega allt sem hann þarf til fullkominnar gleði, hvernig sem annar fer um örlög hans. Að sönnu sækir efinn að okkur þar sem við véfengjum kærleika Guðs. Að þessu leyti heyjum við stundum sálarstríð og baráttu einkum þegar þjáningin sækir okkur heim í kjölfar veikinda eða ástvinamissis. Við véfengjum líka kærleika Guðs þegar náttúruhamfarir verða í heiminum, t.d. af völdum jarðskjálfta eða fellibylja eins og nú síðast á Filipseyjum.

,,Guð er kærleikur.“ Hvort lætur hærra, þessi þrjú orð eða raddirnar sem spyrja: ,,Hvar er sá kærleikur, hvar sést hann? Ekki bera náttúruhamfarirnar vitni um kærleika Guðs.“Við höfum fylgjst með þeirri angist sem hefur gripið um sig hjá örvæntingarfullu fólki á Filipseyjum sem á um sárt að binda í kjölfar náttúruhamfaranna þar nýverið.

Í dag er alþjóðlegur dagur þar sem fórnarlamba umferðarslysa er minnst og við biðjum í kirkjubæninni á eftir fyrir þeim sem hafa látist eða slasast í umferðarslysum og aðstandendum þeirra. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Það á einnig við um heilsuna til líkama og sálar í kjölfar umferðarslysa. Minnumst þeirra allra í almennu kirkjubæninni í dag.

Þau eru mörg sem eiga í sálarstríði í dag. Fólk getur verið sakbitið yfir einhverju sem það hefur gert rangt og dirfist ekki að leita eftir hönd Guðs. Margir hafa áhyggjur vegna veikinda sinna eða annarra vandamanna og vina. Fólk hefur áhyggjur vegna afkomu sinnar og bíður árum saman eftir úrræðum ríkisstjórnarinnar í niðurfellingu húsnæðislána að hluta til.

Hvað sem okkur kreppir og angrið sker. Þá er þetta samt satt: ,,Guð er kærleikur“ Einmitt nú í margræðu stríði dagsins þá heyrum við þetta eins og aldrei áður. Faðirinn, ,,hann elskaði okkur að fyrra bragði. Hann renndi ekki til okkar blíðum velvildaraugum úr fjarska, sendi okkur ekki góðlátlegt bros með vilyrði fyrir hjálp einhvern tíma. Hann elskaði okkur, stóðst ekki fjarlægðina og aðskilnaðinn, skaut engu á frest. Hann kom til okkar þangað sem við vorum í dimmum dal, gaf sjálfan sig, afklæddist dýrðinni, steig niður í neðsta djúp jarðneskrar neyðar, tók að sér fólkið í munaðarleysi þess, tók að sér mig og þig. Þetta er kærleikur hans. Og sá kærleikur heitir Jesús Kristur. Í honum eigum við allan kærleikann. Guð hefur ekkert undan dregið, hann gaf okkur Jesú Krist alveg og gerðist þar með að fullu og öllu faðir okkar sem réttir út hönd sína og umlykur útrétta hönd okkar. Það er ekkert lengur til sem við verðum ein að bera. Engin sekt er til sem við getum kallað okkar sekt því að faðirinn á himnum ber hana með okkur. Jesús tók líka allan kvíða og sálarstríð okkar á sig. Skyldum við dirfast að segja það hvíla á herðum okkar sem Guð hefur tekið frá okkur í kærleika sínum og ber fyrir okkur? Skyldum við vilja heimta það af herðum hans á okkar herðar aftur? Í Nýja testamentinu er dregin upp mynd af Guði sem föður og syni. Ef þið eigið erfitt með þessa mynd af Guði þá minni ég ykkur á orðin í spádómsbók Jesaja í lexíu dagsins þar sem spámaðurinn dregur upp kvenlega mynd af Guði sem huggar. Þar segir hann: ,,Eins og móðir huggar barn sitt, eins mun ég hugga yður.“ Það er varla hægt að draga upp fallegri mynd af Guði en þessa því að móðurástin er svo sterk. Það finnur hver einasta móðir. Við karlmenn ættum að vera konunum þakklátir fyrir alla þá ást og óendanlegan skilyrðislausan kærleika sem þær auðsýna börnum sínum.

Í fyrra Jónannesarbréfi segir postulinn: ,,Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð stöðugur í honum. Kærleikurinn leitar okkar, við styðjumst við hann, byggjum á honum og leitumst við að verða ekki viðskila við hann. Ef við erum ekki stöðug í kærleika Guðs, stöðug í trúnni á kærleika hans sem ber okkar byrði þá nær óttinn tökum á okkur að nýju. Við höfum þá brotið þá brú sem kærleikur Guðs hefur lagt til okkar. Verum því stöðug í vissunni um að Guð er okkar Guð í Jesú án skilyrða og að við eigum að elska hann á móti. Guð elskar okkur eins og hann elskar son sinn. Þá verður óttinn að engu, óttinn sem leitar á hugann öðru hverju þegar við verðum skyndilega berskjalda vegna áfalla sem við höfum orðið fyrir. Vissulega verður sorgin og þjáningin og dauðinn áfram til. En af því að hjörtu okkar þekkja Guð og láta ekki skelfast af þessu þá getum við sagt með auðmýkt postulans: ,, Ef Guð er með okkur, hver er þá á móti okkur?“ Í þessu ljósi getum við gengið til dómsins fagnandi því að við vitum að hann ,,mun gefa okkur allt með honum,“ eins og við erum minnt á í pistli dagsins þar sem sagt er frá englum Guðs spilandi á hörpur og syngjandi og lofandi Guð eftir að hafa unnið sigur á dýrinu sem er táknmynd hins illa í þessum heimi. Í textanum er horft til framtíðar, til þess tíma þegar allir verða að standa skil á sínum gjörðum frammi fyrir Guði. Áheyrandinn athugi það.

Hvað er æðruleysi? Það er óttaleysi, hugarró. Með öðrum orðum: Trú, traust á að það er fast undir fótum, hlý og styrk hönd við hlið, hughreystandi rödd og birta framundan, þrátt fyrir allt. Við getum ekki endurgoldið Guði en við eigum að þakka honum. Þakkirnar látum við í ljós gagnvart náunga okkar. Það er vilji Guð og fyrirmæli frelsarans.

Ef við viljum andsvar gjalda elsku Guðs í Jesú Kristi þá hylur hann sig í náunga okkar sem hjá okkur stendur og segir: ,,Þú leitar mín því að þú elskar mig og vilt færa mér þakkir. Hér er ég. Hér vil ég njóta þakklætis þíns. Gaf ég þér ekki eftir tíu þúsund talentur? Hvar eru peningarnir sem þú getur greitt og átt að greiða? Gef mér þá. Hef ég ekki með líkama mínum og blóði frelsað þig frá dauða af hungri og þorsta? Hvar er munnbitinn, hvar er svaladrykkurinn sem ég þarfnast? Gef mér hann. Ég elskaði þig með kærleika frelsarans og gerðist bróðir þinn. Hvar er bróðurkærleikur þinn til náungans? Gef mér hann. Tók ég ekki á mínar herðar alla þá þungu byrði sem á þér hvíldi? Hér er mitt ok og það er indælt, hér er mín byrði og hún er létt, en þú átt að bera þetta. Þegar þetta er gert get ég trúað því að þú elskir mig og þá skaltu huggast og fagna yfir því að ég hef elskað þig og elska þig.

Við ættum að gefa því gaum hvernig Kristur vill vekja og lífga söfnuð sinn svo að við týnum ekki hvert öðru heldur höfum augun hvert á öðru. Látum Jesú Krist um allar áhyggjur okkar og erfiðleika en tökum í staðinn bróðurpartinn af erfiðleikum og áhyggjum annarra bræðra og systra í fyrirbæn og fórn. Það fylgir því leyndardómsfull blessun að færa fórnir í þágu meðbræðra okkar og systra. En við fáum margfalt til baka það sem við höfum reitt af hendi með ýmsum hætti. Við færum fórnir í þágu þeirra sem eiga um sárt að binda í kjölfar náttúruhamfaranna á Filippseyjum. Við færum fórnir í þágu þeirra sem hafa ekki aðgang að hreinu vatni í Afríku. Við erum stolt afvinnuframlagi fermingarbarna á landinu sem gengu í hús í nóvember í 14. sinn. Fyrir þeirra framlag eiga fjölmargir aðgang að hreinu vatni í Afríku þar sem náunga okkar er líka að finna. Við færum fórnir í þágu náungans þegar við verjum fé til að styrkja margvísleg þörf og góð málefni. Þjóðkirkjan safnar nú fyrir nýjum línuhraðli fyrir Landspítalann Það er sannarlega þörf á því að endurnýja tækjakost spítalans. Við vitum ekki nema við þurfum sjálf á þjónustu spítalans að halda í framtíðinni og þá viljum njóta góðrar þjónustu. Með þessum góðu verkum okkar þá þökkum við Guði fyrir kærleika sinn í okkar garð frá vöggu til grafar. Góðar stundir Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Lexía: Jes 66.10-13 Gleðjist með Jerúsalem og fagnið í henni,allir þér sem elskið hana,fagnið með henni og kætist,allir þér sem eruð hryggir hennar vegna svo að þér getið sogið og saðst af huggunarbrjósti hennar, svo að þér getið teygað og gætt yður á nægtabarmi hennar. Því að svo segir Drottinn: Ég veiti velsæld til hennar eins og fljóti og auðæfum þjóðanna eins og bakkafullum læk. Brjóstmylkingar hennar verða bornir á mjöðminni og þeim hossað á hnjánum. Eins og móðir huggar barn sitt, eins mun ég hugga yður,í Jerúsalem verðið þér huggaðir.

Pistill: Opb 15.2-4 Og ég leit sem glerhaf eldi blandið. Þeir sem höfðu unnið sigur á dýrinu og líkneski þess, og létu töluna sem táknar nafn þess ekki villa um fyrir sér, stóðu við glerhafið og héldu á hörpum Guðs. Þeir sungu söng Móse, þjóns Guðs, og söng lambsins: Mikil og dásamleg eru verk þín, Drottinn Guð, þú alvaldi, réttlátir og sannir eru vegir þínir, þú konungur aldanna. Hver skyldi ekki óttast þig, Drottinn, og vegsama nafn þitt? Því að þú einn ert heilagur, allar þjóðir munu koma og tilbiðja frammi fyrir þérþví að réttlátir dómar þínir eru opinberir orðnir.