Að jötunni

Að jötunni

Skrýtið! Hér erum við saman komin, öll í okkar fínasta pússi. Og það eru margar vikur frá því að við flest skipulögðum þetta kvöld. Hvert við færum, hvar við værum og með hverjum, og hvernig við ætluðm að næra okkur. Allt í skipulagi, allt undirbúið.
fullname - andlitsmynd Bjarni Karlsson
24. desember 2004
Flokkar

Skrýtið!

Hér erum við saman komin, öll í okkar fínasta pússi. Og það eru margar vikur frá því að við flest skipulögðum þetta kvöld. Hvert við færum, hvar við værum og með hverjum, og hvernig við ætluðm að næra okkur. Allt í skipulagi, allt undirbúið. Svo erum við hér á þétt setnum bekkjum, og hvað erum við að gera? Við erum að rifja upp hrakningasögu. Sögu af fólki sem hrekst áfram í algerri óvissu. Og það sem allar persónur þessarar sögu eiga sameiginlegt er það, að hefðu þau mátt ráða, væru þau alls ekki í sögunni. Ekkert þeirra bað um hlutverk í jólaguðspjallinu.

Hvernig er það með þig og þitt líf? Hefur þú beðið um allar þínar aðstæður? Ef þú skoðar þína eigin sögu, hvort er hún líkari hefðbundnu aðfangadagskvöldi eða jólasögunni?

Hefur þú undirbúið og hannað tilveru þína, hafur þú valið þér fólk til að umgangast, séð fyrir hvaða dag og klukkan hvað helstu atburðir gerast og haft ráðrúm til að búast við? Ert þú arkitektinn að tilveru þinni, höfundur þinnar eigin sögu? Eða getur verið að verkefnum lífsins hafi meira verið svona eins og fleygt í fangið á þér? Gæti skeð að þú hafir líka einhverntíman verið í húsnæðivanda eins og ungu hjónin Jósef og María? Eða kannski gegnið í gegnum raunir í ástarsambandi eins og þau. Eða staðið í ótímabærum barneignum, eða komið að lokuðum dyrum samferðarmanna? Gæti verið að hér sé einhver sem hafi orðið að vinna erfiðar næturvaktir eins og fjárhirðarnir, eða mátt hlýða íþyngjandi skipunum yfirvalda þvert gegn vilja sínum? Gæti líka hugsast að einhvert okkar hafi mátt flýja ofsóknir?

Leiktjöldin á sviði jólaguðspjallsins eru hversdagur. Veistu það?

Þar eru yfirvöld, þar eru menn á vinnumarkaði, þar eru ung hjón í upptakti tilveru sinnar að reyna að stofna heimili. Þar er líka þetta hversdagslega plássleysi sem við bjóðum hvert öðru upp á og gripahúsið er gert að fæðingarstofu, “af því eigi var rúm handa þeim í gistihúsi.”

Já jólasagan er saga af fólki sem ekki valdi aðstæður sínar. Saga mín og þín í grófum dráttum. Saga af manneskjum sem lifa óvissu og stundum ranglæti og vita ofurvel að þau eru ekki við stjórnvölinn í lífi sínu nema að litlu leiti. En hún er líka saga af sannri ást og raunverulegum lífskjarkji. Hefði Maríu ekki verið gefinn kjarkur, þá hefði hún aldrei mælt orðin við engilinn er hann boðaði henni þungun hennar: “Sjá, ég er ambátt Drottins, verði mér eftir orðum þínum.” Hefði Jósef ekki verið gefin sönn karlmennska þá hefði hann flúið þetta samband, hann hefði yfirgefið hana Maríu. Hirðarnir voru líka avleg í sambandi. Þar voru menn sem tóku mark á lífinu og áttu eyru til að heyra kall þess. Já, þeir áttu augu til að sjá inn í himininn. Þótt þeir þyrftu að standa ömurlegar vaktir úti í haganum og vinna erfið og slítandi störf, þá voru þeir andlega vakandi og með á nótunum í eigin lífi. Vitringarnir, hverjir voru þeir í raun? Við vitum það ekki. En þeir voru alltént náungar sem voguðu svo sannarlega að víkja frá almannaleið og fylgja sannfæringu sinni.

Nei, persónur og leikendur jólasögunnar eru ekki flóttafólk í eigin lífi heldur manneskjur sem þora. Eini flóttamaðurinn er Herósdes. Eini aðili sögunnar sem ekki þorir, sá eini sem sannarlega er á hrakhólum í lífi sínu er þessi sem átti heima í stóru höllinni og hafði tryggt ytra öryggi sitt betur en nokkur annar. Hann einn var hræddur, og brást við samkvæmt því. Þess vegna gat Jesús engan vegin fæðst í höllinni, þar var ekkert pláss fyrir lífið. Þar voru engin vaxtarskilyrði fyrir hjálpræði Guðs. Guðs sonur gat bara fæðst í hendur fólks sem þorði að elska og taka áhættur í því sambandi. Heródes og þrælar hans voru knúnir áfram af ótta og þess vegna kom dauðinn í fótspor þeirra. Barnamorðin í Betlehem. En hjónin ungu, fjárhirðarnir og vitringarnir voru ekki knúin ótta heldur kölluð af lífinu, kölluð af Guði. Það er eðlismunur á því að lifa knúinn ótta eða kallaður í kærleika. Það er sitt hvor tegundin af lífi að vera rekinn áfram eða leiddur, og ákvörðunin er tekin hér inni!

Skoðaðu nú eitt augnablik þreytuna í líkama þínum. Lokaðu augunum og finndu þreytuna sem í þér býr. Hvaða tegund er hún? Hvort er það þreyta þrælsins eða hins frjálsa manns? Hvort lætur þú lífið reka þig áfram eða kærleikann kalla þig til verka? Hvort ertu þræll eða frjáls manneskja? Ákvörðunin þar um er tekin hér inni og ræðst ekki af ytri aðstæðum. Veistu það? Heródes hafði fullkomnar aðstæður, hann var konungur í höll. En hann var samt þræll. Hirðarnir bjuggu við verstu aðstæður, þeir voru fátækir erfiðismenn, niðurlægðir í mannfélaginu en þeir voru frjálsir menn, svo frjálsir og góðir menn að Guð kallaði þá til að koma að vitja sængurkonunnar ungu í fjárhúshellinum. Maður vill ekki hvern sem er að sænginni. Þeir fengu að sjá barnið með nýklipptan naflastrenginn og fæðingarskánina á höfðinu og angan hvítvoðungsins bar fyrir vit þeirra, af því þeir voru ekki hræddir þrælar heldur frjálsir, góðir, sterkir menn. Frjálsir, góðir og sterkir – ekki í þeim skilningi sem heimurinn kýs. Sá sem er frjáls, góður og sterkur að hætti heimsins er frjáls og sterkur vegna þess að hann er góður’ í einhverju.’ Fjárhirðarnir voru ekki góðir í neinu sérstöku. Styrkur þeirra og frelsi var ekki handa þeim sjálfum. Mörgum árum síðar útskýrði Jesús þetta sama þegar hann sagði: “Mannssonurinn er ekki kominn til að láta þjóna sér, heldur til þess að þjóna og gefa líf sitt til lausnar fyrir marga.” Heimurinn heldur að sá sé frjáls, góður og sterkur sem lætur aðra þjóna sér. Það er stóri misskilningurinn sem gerir svo marga að þrælum. “Mannssonurinn er ekki kominn til að láta þjóna sér, heldur til þess að þjóna og gefa líf sitt til lausnar fyrir marga.”

Og vegna þess að Guð elskar þig, þá kallar hann þig að jötunni í kvöld. Hann biður þig að velja það að koma, eins og allar persónur sögunnar völdu að svara boði hans í upphafi. ‘Viltu koma?’ biður hann. ‘Gerðu það, komdu og sjáðu mig í jötunni.’ ‘Sjáðu mig!’, segir hann ‘Sjáðu mig!’.

Bíddu við! Hvenær heyrðir þú þetta síðast? ‘Sjáðu mig, sjáðu mig!’ Hver biður svona? Hvenær baðst þú svona? Er það ekki svona sem börnin biðja? ‘Sjáðu mig, sjáðu mig!’ “Hver sem tekur við einu (slíku) barni í mínu nafni, hann tekur við mér!” Sagði Jesús.

Heyrir þú bænirnar í kringum þig? Hefur þú eyru til að heyra og augu til að sjá? Eða ertu kannske bara þræll? Heyrir þú lífið kalla á þig í augum og orðum barnanna sem þú umgengst? Heyrir þú tilfinningar maka þíns? Heyrir þú í foreldri þínu, ástvinum þínum, náunganum sem vonar til þín og er í raun bara að segja eins og Guð “Sjáðu mig!” ‘Getur þú séð mig?’

Eða er fólk á ferli úti í nóttinni í kringum þig komandi að læstum dyrum af því að það er ekki rúm handa þeim í gistihúsi hjarta þíns? Það þarf kjark til að vera með í jólasögunni. Þar eru bara frjálsar, góðar og sterkar manneskjur. Fólk sem þjónar í stað þess að láta þjóna sér. Fólk sem tekur áhættuna með Guði, áhættuna af því að elska.

‘Komdu að jötunni minni í kvöld’ segir Jesús Kristur. ‘Krjúptu niður í þögninni við lága stallinn. Ef þú kýst, ef þú vilt og þráir, þá máttu taka mig í fang þitt. Þú mátt taka lífið í fangið og þá verðum við saman. Þá verðum við alltaf saman.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen.