Þegar Jón Páll kom í heimsókn

Þegar Jón Páll kom í heimsókn

það var einmitt á þeirri stundu sem ég fékk þá stórbrotnu hugmynd, sjö ára gömul, 30 kíló með skólatösku og blautu handklæði, að fara í mjólkurþambskeppni við sterkasta mann heims
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
20. mars 2011
Flokkar

Einu sinni kom Jón Páll heitinn Sigmarsson heim í Laufás, það var árið 1985 og ég var 7 ára. Það kom til af því að Ómar Ragnarsson sjónvarpsmaður var að gera Stikluþátt um staðinn og á hlaðinu framan við gamla torfbæinn er mikill hestasteinn en eins og nafnið gefur til kynna var hann notaður til að tjóðra við hesta aðkomufólks sem átti erindi á prestssetrið í gamla daga. Mörg hreystimenni reyndu sig við steininn en bestum árangri hygg ég að Jóhann bóndi Bessason á Skarði hafi náð í því að lyfta honum frá jörðu, já gott ef hann tók steininn ekki alla leið í fangið. En meðan á upptökum Stikluþáttarins stóð, fékk Ómar þá hugmynd að fá kraftajötuninn og þá sterkasta mann heims til að koma og lyfta steininum og skrifa þannig nýja sögu íslenskra hreystimanna sem hafa jú verið eftirtektaverðir í gegnum tíðina. Ég hugsa að það hefði ekki haft meiri áhrif á mig þó að þeirri hugmynd hefði verið hrint í framkvæmd að fá sjálfan páfann í heimsókn til að messa í litlu kirkjunni eða Móður Teresu til að blessa staðinn, Jón Páll Sigmarsson var nefnilega mitt idol, ég hafði einhvern undarlegan áhuga á kraftakeppnum og meðan flestir hefðu gert ráð fyrir að Hólmfríður Karlsdóttir væri stolt mitt og yndi þá var það Jón Páll og hans frækna frammistaða á alþjóða kraftlyftingamótum sem fyllti mig fölskvalausu stolti, fyrir utan það hvað hann var skemmtilegur og elskulegur í allri sinni framgöngu. Og nú lá s.s. fyrir dyrum að Jón Páll kæmi heim til mín að lyfta steininum sem við systkinin vorum oft búin að reyna okkur við, með dapurlegum árangri og af því að þetta var á þeim árum sem allt tók lengri tíma og menn gáfu sér líka meiri tíma þá var ljóst að Jón Páll myndi snæða í vorum húsum. Mamma steikti fisk í raspi eins og enginn væri morgundagurinn, að vísu eldaði hún alltaf eins og von væri á Jóni Páli í mat en það er önnur saga og hún sauð náttúrulega fjall af rauðum kartöflum ný uppteknum úr Laufáshólmum og með þessu var dýrindis Gunnars majónes og nokkrir lítrar af blárri mjólk en þetta var líka á þeim tímum sem annar hver maður var ekki með bráðdrepandi mjólkuróþol og mjólkin var talin hin heilnæmasta fæða. Og svo var sest að borðum, Jón Páll sat við endann af því að upphandleggirnir hans gerðu ekki ráð fyrir sessunautum og ég fékk að sitja við hornið hjá honum, þar sem ég fylgdist með hverri hreyfingu, hverjum munnbita og mjólkurglasi og það var einmitt á þeirri stundu sem ég fékk þá stórbrotnu hugmynd sjö ára gömul, 30 kíló með skólatösku og blautu handklæði, að fara í mjólkurþambskeppni við sterkasta mann heims. Hann vissi reyndar ekki af keppninni meðan hún fór fram en í hvert sinn sem hann hellti sér í glas fylgdi ég fast á eftir og þambaði í takti við massaða hálsvöðvana hans, barkakýlið í honum var örugglega stærra en lungun í mér og svona gekk þetta þangað til að barnið með grænt í vöngum hellti skjálfandi í sjöunda glas og drakk með klígju og viðbjóði uns maginn snerist á hvolf fór í verkfall og sendi krakkabjálfann með hraði fram á salerni og þaðan barst sú allra sorglegasta synfonía sem heyrst hefur vestan Vaðlaheiðar og það er skemmst frá því að segja gott fólk að niðurlægingin var algjör. Já það er gott að hafa sjálfstraust en það er hins vegar verra að vera blindur á sjálfan sig. Í hinstu ferð sinni til Jerúsalem þarf Jesús að fara gegnum borgina Jeríkó, þar hittir hann fyrir tvo menn sem greint er frá í guðspjöllunum, annar var lítill og hét Sakkeus hinn blindur og bar nafnið Bartímeus. Það eru allar manneskjur á einhvern hátt bæði Sakkeus og Bartímeus, ég er það og þú, öll eigum við stundir þar sem við erum ósköp lítil og hrædd í framgöngu og öll erum við á einhvern hátt blind á okkur sjálf og umhverfi okkar, að vera manneskja þýðir að vera báðir þessir menn. Sem þjóð höfum við oft lagt áherslu á styrkleikann sem felst í smæð okkar og það er vissulega mikið til í þeirri gamalkunnu yrðingu. Það er nefnilega hægt að vera mjög stór í smæð sinni en jafnframt mjög lítill í stærð sinni. Það er fátt sem heillar mig meira en hæfileikaríkt, atorkusamt fólk sem á til nóg af auðmýkt í hjarta sínu og kann að þiggja hjálp og leiðbeiningar frá öðrum. Þannig fólk myndi ég skilgreina sem viturt. Mér þykir líka alltaf jafn gefandi að segja fermingarbörnum frá samskiptum Jesú við systkinin Mörtu, Maríu og Lasarus í Betaníu og geta sagt að hann hafi leitað hvíldar og skjóls í húsi þeirra, af því að hann gerði það, þau voru vinir hans og Jesús sótti eflingu í samskiptum við þau, þannig hef ég a.m.k alltaf skynjað vináttu þeirra. Stundum finnst mér íslensk þjóð vera eins og ég þegar ég fór í mjólkurþambskeppnina við Jón Pál, kannski pínulítið krúttlegt en samt ekki þegar um afdrifaríkar ákvarðanir er að ræða. Það er gott að vera stór í smæð sinni, það er t.d. alltaf jafn dásamlegt að fylgjast með viðbúnaði íslenskra hjálparsveita þegar hamfarir ríða yfir lönd og álfur, samanber nýliðna atburði í Japan sem öll heimsbyggðin horfir á með skelfingu og sorg í hjarta. Björgunarstörf á hamfarasvæðum er eitthvað sem litla Ísland getur og kann af langri reynslu enda greinir maður aldrei einhvern rembing eða mikilmennskubrjálæði í kringum þau störf, sennilega vegna þess að baki liggur óvéfengjanleg þekking og geta og líka vegna þess að í kringum slíkar aðstæður er svo fráleitt að byggja upp einhverja glansmynd eða græðgisleg viðhorf. En ef maður kann að gefa sem þjóð, þá verður maður líka að kunna að þiggja og þá kem ég að því máli sem hefur legið eins og hafís í kringum landið undanfarin 3 ár, og það er hið margumrædda Icesavemál, sem gæti einmitt vel úlaggst á íslensku sem hafísinn, er lokar skipaleiðum til og frá landinu. Það er einhver einkennileg þrjóska eða jafnvel blinda sem byrgir okkur eða a.m.k. hluta þjóðarinna sýn á grunneðli málsins , nú er ég ekki sérfræðingur í þessu máli en það þarf samt ekki sérfræðing til að sjá að við stöndum frammi fyrir vandamáli sem þarf að leysa og við lifum í óvissu sem með tímanum gerir okkur lítil og hrædd eins og Sakkeus sem fannst best að bíða átekta í Mórberjatréi þar sem enginn átti að sjá hann. Það liggur auðvitað fyrir að málið er ekki sök heillar þjóðar en ef við lítum á þjóðina sem fjölskyldu sem er eðlilegt að gera, þá er ljóst að við erum að verða býsna meðvirk með alkanum sem heitir Icesave og við verðum að koma honum í meðferð. Það krefst mikillar auðmýktar að ganga inn um dyr meðferðarstofnunar en um leið er það upphafið að heilbrigði en umfram allt frelsi, taktu eftir að í guðspjalli dagsins kallar hinn blindi á Jesú en hann segir ekki “heyrðu Jesús kraftakarl frá Nasaret, mig bráðvantar sjón geturðu ekki reddað þessu”! nei hann segir “sonur Davíðs Jesús frá Nasaret, miskunna þú mér” í þessum orðum felst auðmýkt og viska, vitund um að sérhver manneskja þarf á miskunn að halda, fyrirgefningu og náð, um leið kemur hinn blindi ekki fram sem fórnarlamb heldur maður sem einfaldlega veit hvað í því felst að vera manneskja og Jesús kann að meta afstöðu hans “far þú trú þín hefur bjargað þér.” Í fréttablaðinu síðastliðinn föstudag rakst ég á greinarkorn eftir hagfræðing að nafni Bolli Héðinsson, fyrirsögnin var “Hvers vegna ég styð Icesave” þar segir hann eftirfarandi og orðrétt” Jafnvel þó svo að Bretar og Hollendingar kysu að fara ekki í mál við okkur, hversu lengi viljum við vera í óvissu um hvort þeir muni gera það eða ekki? Þegar svo til málssóknarinnar kæmi, ef af henni verður, þá virðist mér með einföldum vongildismælingum að við þurfum að hafa 90 % vissu fyrir því að við vinnum málið, til að vera jafn vel sett og við erum nú.” Á öðrum stað í greininni segir Bolli jafnframt. “ Það er ódýrt að segja “látum þá bara höfða mál” eins og hópur lögmanna og fleiri hafa boðað. Þeir sem slíkt segja vita sem er að þeir munu aldrei þurfa að standa við stóru orðin, þeir verði aldrei sóttir til ábyrgðar þó að málið tapist. Þeir sem þannig tala vita að ummælin eru útgjaldalaus af þeirra hálfu.” (Fréttablaðið 18.mars 2011) Ég held einmitt að hagfræðingurinn hafi bent á mjög mikilvægan punkt í þessari stuttu en hnitmiðuðu grein, þ.e. um ábyrgð orða og yfirlýsinga, ef til vill er málfrelsi netheimsins tekið að ræna okkur vitundinni um ábyrgð orða eða þá að afleiðingar hrunsins hafi verið svo ósannfærandi að menn telji sig geta sagt það sem þeim sýnist. Forsíður dagblaðanna eru raunar til þess fallnar að styðja þennan grun, enn þiggja menn ofurlaun í skilgreindum “ofurábyrgðarstöðum” og við hin eigum bara að lúta höfði í lotningu eins og árið sé 2007 og það sem meira er að þeir sem ráðnir hafa verið til starfa við að greiða úr flækjunni í svokölluðum skilanefndum eru einnig farnir að dansa tangó við andrúmsloft góðærisins. Ég held að við þurfum að fá augun hans Bartímeusar lánuð, hann sá meira en margur þó hann hafi verið blindur, hann sá hjálpina sem felst í miskunnsemi Guðs, hann sá veginn sem liggur til Guðsríkis og er farinn með því að viðurkenna vanmátt sinn og treysta því að siðaboð Krists sé góður fararskjóti. Hann sá guðdóm Jesú, hann reis upp til trúar á hann og öðlaðist sjónina sem hann þráði svo mjög. Það er vond hugmynd hjá sjö ára písl að fara í mjólkurþambskeppni við heimsþekktan kraftajötunn, það endar auðvitað með uppköstum og látum, já og algjörri niðurlægingu. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda amen.