Góðverkadagatalið

Góðverkadagatalið

Aðventa er jólafasta - tími til að fasta, íhuga og biðja. Tími til að minnast boða Krists og gera gott. Í fyrra tók ég upp nýjan sið til að vekja heimilisfólk til umhugsunar um þetta og breytti jóladagatalinu í góðverkadagatal.

Jóladagatölin eru komin í búðir. Í Kirkjuhúsinu fást falleg dagatöl með helgimyndum, í Rúmfatalagernum fjölnota dagatöl með vösum fyrir nammi eða annað, í matvöruverslunum súkkulaðidagatöl með tannkremstúbu í kaupbæti.

Ég man hvað mér fannst spennandi að opna glugga á dagatalinu fyrir jól þegar ég var barn. Við vorum þrjú systkinin og því opnaði ég aðeins þriðja hvern dag. Sá sem var síðastur í röðinni og yngstur fékk að opna á aðfangadag. Það var tvöfaldur gluggi og sýndi mynd af Jesú í jötunni, Maríu og Jósef. Stundum breyttum við röðinni svo að aðrir fengju að opna á aðfangadag, því að það var auðvitað aðal myndin.

Synir mínir hafa löngum verið ginnkeyptir fyrir súkkulaðidagatölum. Sjálf er ég ekki hrifin af því að börn borði súkkulaði fyrir morgunmat og gróf því fyrir nokkrum árum upp gamalt, heimagert dagatal þar sem gert er ráð fyrir að "gjafir" hvers dags séu hengdar upp fyrir 1. desember og síðan klipptar niður.

Aðventa er jólafasta - tími til að fasta, íhuga og biðja. Tími til að minnast boða Krists og gera gott. Í fyrra tók ég upp nýjan sið til að vekja heimilisfólk til umhugsunar um þetta og breytti jóladagatalinu í góðverkadagatal. Hver dagur, hver "gluggi" á dagatalinu, færir nýtt verkefni til góðs. Ekki mjög stór, eitthvað sem við ráðum við, en samt nóg til þess að við þurfum að leggja okkur fram við að gera það.

Drengirnir mínir, sem nú eru hálfir á unglingsaldrinum, tóku þessu vel og kvörtuðu bara nokkrum sinnum yfir því að fá ekki súkkulaðidagatal. Í staðinn gaf hver morgunn færi á að rifja upp nauðsyn þess að lifa í samræmi við boðskap Krists, eins og Sigurbjörn Einarsson orðaði svo vel í sálmi 374:

Að létta bróður böl og bæta raunir hans, að seðja, gleðja, græða mein sé gleði kristins manns.