Á liðnum vetri naut ég þeirrar gæfu að kynnast starfsemi Landspítala Háskólasjúkrahúss. Í vísitasíu minni um Reykjavíkurprófastsdæmi vestra varði ég góðum tíma á hinum fjölmörgu deildum sjúkrahússins, svo sem réttargeðdeild, líknardeild og fæðingardeild. Einnig heimsótti ég bráðadeildina, Landakot, Vífilsstaði og fleiri staði og hitti allsstaðar framúrskarandi fagfólk á sínum sviðum og voru móttökur góðar.
Páll Matthíasson forstjóri gaf sér einnig tíma til að kynna mér starfsemi og stefnu sjúkrahússins.
Manngildi og mannvirðing blasti hvarvetna við, þar sem gildi, framtíðarsýn og hlutverk sjúkrahússins miða að því að sjúklingurinn sé ávallt í öndvegi.
Skemmtilegt þótti mér að hitta starfsfólk á hinum ólíku deildum sjúkrahússins sem átti persónuleg tengsl við kirkjuna, voru í sóknarnefndum, kórum, synir eða dætur presta og þannig mætti áfram telja.
Á einum gangi vökudeildarinnar var áhugavert og upplýsandi veggspjald. Þar voru myndir af stálpuðum börnum og frískum, nöfn og fæðingardagar og upplýsingar um að öll voru þau fyrirburar, þ.e.a.s. öll höfðu þau fæðst fyrir tilsettan tíma. Ef ég man rétt voru þar einstaklingar sem fæðst höfðu eftir rúmlega 22 vikna meðgöngu en innan við 23 vikna.
Fréttir berast nú af því að Alþingi muni í næstu viku afgreiða umdeilt frumvarp um svokallað þungunarrof. Ég sendi Alþingi umsögn um frumvarpið fyrir áramót og vil birta kjarnann úr því hér, því ég tel ótækt að Alþingi samþykki frumvarpið óbreytt.
Ég styð þann hluta frumvarpsins um að konur taki sjálfar hina erfiðu ákvörðun, það eitt og sér er framför frá því sem var.
Tvennt er það helst í frumvarpinu sem ég tel sérstaklega umhugsunarvert.
Annars vegar sú breyting á hugtakanotkun sem lögð er til, þar sem hugtakið þungunarrof er nú notað í stað þess sem áður var, fóstureyðing. Hið nýja hugtak vísar á engan hátt til þess lífs sem sannarlega bærist undir belti og er vísir að nýrri mannveru. Samkvæmt kristinni trú okkar er lífið heilagt, náðargjöf sem Guð gefur og Guð tekur. Það er hlutverk mannsins að varðveita það og vernda eftir fremsta megni og bera virðingu fyrir mannhelginni, sköpuninni og skaparanum. Það er misvísandi að nota þetta nýja hugtak í þessu viðkvæma samhengi, þar sem hugtakið vísar ekki til þessa vaxandi nýja lífs.
Hins vegar sú breyting á tímarammanum sem lögð er til, þ.e.a.s. að þungunarrof verði heimilt fram að 22. viku, sbr. 4. gr. frumvarpsins. Dæmin þekkjum við þar sem börn hafa fæðst eftir það skamma meðgöngu, braggast og lifað, eins og starfsfólk Landspítalans birtir á göngum sínum.
Samfélag okkar hefur á undanförnum áratugum fundið jafnvægi á milli hinna ólíku sjónarmiða um rétt hinnar verðandi móður yfir eigin líkama og rétt fósturs til lífs, þrátt fyrir þær mótsagnir sem því fylgir. Þar sem 12 vikna tímaramminn hefur verið studdur sjónarmiðum heilbrigðisvísinda, mannréttinda og í framkvæmd sem bestri þjónustu félagsráðgjafa og annarra fagstétta við þær faglegustu aðstæður sem völ er á. Hinar nýju tillögur raska því jafnvægi, að mínu mati, og vekja jafnvel upp á ný grundvallar spurningar, sem við ættum auðvitað alltaf að spyrja okkur að varðandi mannhelgina og framgang lífs hér í heimi.
Ég kalla eftir umræðu um manngildi, mannhelgi og mannskilning. Frumvarpið vekur fjölda spurninga og verði það samþykkt óbreytt tel ég að sagan muni leiða í ljós að þar hafi samfélagið villst af leið.
Pistillinn var fyrst birtur í Morgunblaðinu laugardaginn 10. maí 2019.