Að njóta ástar Guðs

Að njóta ástar Guðs

María guðsmóðir var manneskja eins og ég og þú. Engu að síður er hún okkur fyrirmynd. Hún er fyrirmynd í því hvernig hún tekur á móti Orði Guðs inn í líf sitt, opnar líf sitt bókstaflega fyrir veru Guðs. Við, eins og hún, njótum náðar Guðs, erum heil vegna þess að Drottinn er með okkur. Lærum með henni að njóta ástar Guðs, bera Hann næst hjartanu, fæða Hann fram, út til fólks með vitnisburði lífs okkar.

Margir dagar eru tileinkaðir Maríu guðsmóður í kristinni hefð. Í okkar evangelísk lúthersku kirkju höfum við þennan eina dag kenndan við Maríu, Boðunardag Maríu. Hann er reyndar 25. mars en ávallt haldinn fimmta sunnudag í föstu. Þá tökum við okkur hlé á föstunni, syngjum dýrðarsöng englanna og skýrðum altari og hökul hvítum lit gleðinnar. Hvítur er líka litur Krists, enda er í dag Kristshátíð, hátíð mennsku hans, holdtekningar Guðs, angan jóla.

Hvaða merkingu hefur það að Guð gerðist maður? Hvað þýðir það fyrir okkar líf? Við getum nálgast svarið með því að skoða andstæðuna. Hvað ef Guð hefði ekki komið inn í hið mannlega, hvað ef hann væri bara fjarlægur, ópersónulegur máttur, eins og sumir ætla? Og hvað ef Jesús hefði ekki verið Guð, aðeins maður, að vísu góður maður, kröftugur leiðtogi, gæddur óvenjulegum hæfileikum, en þó aðeins takmörkuð manneskja eins og við hin? Jesús Kristur, Guð og manneskja Mér finnst alltaf jafn merkilegt að megin kennisetningar kristinnar trúar, svo sem þrenningarlærdómurinn, skuli liggja til grundvallar trúarlífi um tveggja milljarða manna um heim allan. Þriðjungur mannkyns játar kristna trú á einn eða annan hátt, en það felur í sér að tilbiðja þríeinan Guð, föður, son og heilagan anda. Það segir mér að hann er sannur, vitnisburður kristinnar trúar um Guð sem í senn er fjarri og nærri, voldugur en þó viðkvæmur, hátt upp hafinn en samt einn af okkur. Hann er Guð og maður.

Persónur guðdómsins eru allar til staðar í guðspjalli dagsins. Það er Guð faðirinn, uppspretta lífsins, sem sendir Gabríel engil sinn til meyjarinnar Maríu í Nasaret. Boðin sem engillinn ber eru um Guð soninn, sem á að heita Jesús, það er Guð frelsar. Og þetta skyldi gerast fyrir Guð heilagan anda, sköpunarkraftinn sjálfan. Lífið hjúpað ást Guðs Fyrir mig merkir þetta að uppspretta lífsins er nærri mér hvert augnablik, ekki sem ópersónulegur kraftur heldur sem endurleysandi og endurlífgandi ávarp inn í aðstæður mínar. Guð talar – og það verður. Ef guð (og þá með litlum staf) væri einungis einhvers konar óbreytanlegt afl í órafjarlægð myndi það ekki snerta líf mitt hið minnsta. Og ef Jesús væri ekki Kristur, Sonur Guðs, vera Guðs, ást Guðs í mannlegum klæðum, myndi tilvist hans ekki breyta neinu fyrir tilvist mína.

Undur holdtekningar Guðs felst í því að þar sýnir Guð ást sína, að hann lætur sér annt um manneskjuna, eins og hún er. Við þurfum ekki að verða litlir guðir til að Guð samþykki okkur. Líf okkar þarf ekki að vera fullkomið. Líf mitt er hjúpað ást Guðs, eins og það er, viðurkennt af lífskraftinum sjálfum, sem einn megnar að breyta því sem þarf að breyta. En grundvöllurin er þessi: Guð virðir manneskjunar eins og hún er. Meyfæðingin segir okkur það. Meyfæðing Skilaboð meyfæðingarinnar eru að Guð finnur sér farveg inn í mannlegt líf einmitt í gegn um mannlegt líf, líf ósköp venjulegrar ungrar stúlku. Hún var forsenda þess að kærleikur Guðs gat komið til heimsins á áþreifanlegan hátt. Það er vegna Maríu að Guð varð maður. Þannig gerir Guð sig háðan mennskunni til þess að geta sýnt hinn ítrasta kærleika.

Og það er sköpunarkraftur Guðs, heilagur andi hans, sem í upphafi skapaði líf úr engu, sem á undursamlegan hátt finnur sér leið inn í mannheim. Að hingaðkoma Jesú hafi orðið einmitt með þeim hætti sem lýst er hjá Lúkasi guðspjallamanni hefur aldrei vafist fyrir mér, ekki frekar en ég efast um kraftaverk Jesú eða upprisu hans í krafti heilags anda.

Við treystum á leyndardómsfulla verkan Guðs í sakramentunum, skírninni og heilagri kvöldmáltíð. Hvernig náð Guðs miðlast fyrir þau meðöl getum við ekki útskýrt nákvæmlega. Það er heilagur leyndardómur. En við treystum því og trúum að heilagur andi Guðs sé að verki og miðli þar ást Guðs í gegn um vatn, brauð og vín. Á sama hátt var heilagur andi að verki í þeirri frásögu sem við heyrum í dag, miðlandi ást Guðs á einstakan hátt inn í þurfandi heim.

María guðsmóðir María guðsmóðir var manneskja eins og ég og þú. Engu að síður er hún okkur fyrirmynd. Hún er fyrirmynd í því hvernig hún tekur á móti Orði Guðs inn í líf sitt, opnar líf sitt bókstaflega fyrir veru Guðs. Við, eins og hún, njótum náðar Guðs, erum heil vegna þess að Drottinn er með okkur. Lærum með henni að njóta ástar Guðs, bera Hann næst hjartanu, fæða Hann fram, út til fólks með vitnisburði lífs okkar.

Dr. Pétur Pétursson segir um Maríu í ritgerð frá 2002 að hún hafi borið af öðrum að þreki, þori og áræði og að kirkjan hefði vart orðið til án Maríu (Pétur Pétursson (2002) …kynslóðir munu mig sæla segja… Nokkur Maríustef í menningu og listum. Reykjavík: Háskólaútgáfan). Það er alveg rétt. María þorði að játast kalli Guðs, hafði kjark til að taka á móti heilögum anda inn í líf sitt og hélt út allt til síðustu stundar Guðssonarins. Hún var við krossinn þegar hann dó og meira en það, hún var einn stöpull þeirrar kirkju sem reis af upprisukrafti páskamorguns. María sýndi á sterkari hátt er nokkur önnur manneskja að saman fer auðmýkt og áræði, hlýðni og hugrakkur vitnisburður.

Það lærum við af Maríu að Guð er sannarlega mikill og hátt upp hafinn en þó nær okkur en ástin í eigin barmi. Það megum við lifa með Maríu að finna Guð fæðast inn í mannlegt líf okkar, líða með okkur á erfiðleikatímum, ganga með okkur inn í dauðann og síðan út úr honum aftur.