Þögnin býr yfir sannleika

Þögnin býr yfir sannleika

Maður kynnist nefnilega fólki einna best með því að þegja með því, þá heyrir maður best hljóminn í sálarlífi þess. Við erum svo einkennilega hrædd við þögnina og samt býr þögnin oft yfir mesta sannleikanum.

Þessi saga af systrunum í Betaníu er ótrúlega margslungin, við fyrstu sýn virðist hún nefnilega vera svo lítil og saklaus og dæmalaust hversdagsleg, sögusviðið er heimboð, pirruð kona í eldhúsinu eitthvað að fást við mat, gremjulega sérhlífin systir í stofunni sem ekki má missa af einu orði sem þar er sagt. Gæti verið myndbrot úr æsku hverrrar manneskju, ekki satt? En svo kemur í ljós að þessi saga er ekki vitund lítil né saklaus, heldur fangar hún stóran og mikilvægan veruleika eins og allar sögurnar sem koma frá eða eru um hann Jesú. Þessi saga er í látleysi sínu einhver mesta kvenfrelsissaga Biblíunnar en til þess að koma auga á þá staðreynd verðum við að byrja á því að horfa á Jesú. Hann er karlmaður í rótgrónu karlaveldisþjóðfélagi þar sem konur áttu ekkert undir sér nema það að vera markmið karlmanna, þær voru í raun til fyrir karlmenn en ekki fyrir sig sjálfar. Enginn koma auga á þeirra verk, jafnvel þó þau hafi haldið samfélaginu gangandi, þær voru alltaf í bakgrunni samfélagsins. Og þarna kemur þessi karlmaður sem var orðinn þekktur fyrir visku sína og magnaða nærveru þannig að bæði vinir hans og óvinir báru ómælda virðingu fyrir honum, jafnvel óttuðust hann og hann gengur inn í þetta hús í Betaníu en í stað þess að falla inn í karlmennskuviðmið samfélagsins og þiggja orðalaust veitingar kvennanna þá sest hann niður og samþykkir að María sé í kennslustund hjá honum. Og með því að samþykkja það ögrar hann hugmyndum Mörtu um hlutverk og stöðu kynjanna. Marta vill að hann komi fram sem hefðbundinn karlmaður, hún er ekki vön annarri framkomu, hún getur ekki ímyndað sér annan möguleika “seg þú henni að hjálpa mér” segir hún við hann, “já skipaðu henni fyrir eins og allir venjulegir karlar gera, vertu ekki að koma henni upp með að vera í einhverjum jafningjasamskiptum við þig, hún á bara að þjóna eins og ég, þú ert karlmaður, við erum konur, mundu það.” Já þessi saga spyr nútímamanninn margs, hún spyr okkur hvort við séum okkar verstu óvinir, vegna þess að enginn getur orðið okkur að liði ef við vinnum gegn okkar eigin velferð. Marta var heiðarlega samgróin sínum tíðaranda, þar þekktu konur bara eina stöðu, þess vegna er fátt sem fer meira fyrir brjóstið á mér í dag en þegar konur segjast ekki vera feministar, bæði finnst mér það ósanngjarnt gagnvart öllum þeim konum sem hafa lagt á sig ómælt erfiði við að ryðja brautina fyrir okkur ungu konurnar og eins finnst mér það opinbera ákveðið tómlæti gagnvart stöðu kvenna í heiminum. Hvernig í ósköpunum getur kona sagt að hún sé ekki feministi þegar sú staðreynd blasir við okkur að heimilisofbeldi er stærsti heilsufarsvandi kvenna í heiminum og mansal öðru nafni kynlífsþrælkun er stundað um víða veröld m.a. hér á Íslandi. Þegar það blasir við okkur að láglaunastörfin í samfélaginu eru kvennastörf og miklu fleiri karlar eru í valdastöðum en samt eru konur í meirihluta í háskólanámi. Meira að segja í öllu atvinnuleysinu sem nú blasir við okkur velja karlar frekar að þiggja atvinnuleysisbætur en að ganga inn í láglaunuð umönnunarstörf sem þeim hefur hingað til funndist sjálfsagt að konur inntu að hendi fyrir laun á bótastigi. Og þess vegna vantar ennþá fólk inn á frístundaheimilin og leikskólana, samfélaginu til mikils miska. Nei feministi er ekki kona með lága sjálfsmynd eins og sumir sjálfskipaðir snillingar vilja halda fram, að vera feministi þýðir að vera jafnréttissinni, karl eða kona, feminsti vill fyrst og fremst að hlutur kynjanna sé jafn enda er það algjör forsenda farsæls samfélags. Samfélög sem opinberlega viðurkenna feðraveldi, eru í dag stríðshrjáð samfélög, vegna þess að þau byggja vald sitt á kúgun og mismunun, mismunun tækifæra, skerðingu málfrelsis og þau ala á ótta þjóðfélagsþegnanna gagnvart valdhöfum. Þær konur sem taka það sérstaklega fram að þær séu ekki feministar af þvi að þær hafi persónulega aldrei fundið fyrir því að vera kona í atvinnulífinu, þær myndu varla óska þess að lifa í slíku samfélagi. Nei við verðum að gæta þess að skoða veröldina í víðara samhengi, þín persónulega reynsla þarf alls ekki að endurspegla hinn stóra veruleika. Jesús er ekki að vanþakka umhyggju og þjónustu Mörtu í frásögn dagsins, hann er að undirstrika það að konur hafa val af því að þær eru einfaldlega jafningjar karla. Virk hlustun er fullkomlega vanmetið fyrirbæri, það er merkilegt hvað við leggjum mikla áherslu á hana í skólakerfinu og alls staðar þar sem börn og unglingar eiga í hlut, jafnvel þó að þau hafi í raun minna úthald til þess að staðnæmast og hlusta, frá náttúrunnar hendi. En þegar að kemur að samskiptum fullorðinna þá virðist þessi krafa eiga lítið upp á pallborðið, nærtækast er að kveikja á sjónvarpinu á kvöldmatartíma þegar stjórnmálamenn og aðrir málsmetandi aðilar eru að skiptast á skoðunum, sjö ára sonur minn á afskaplega erfitt með að skilja þær samskiptareglur sem þar eru viðhafðar og ég á líka gríðarlega erfitt með að útskýra þær fyrir honum. Virk hlustun er vanmetin, að hlusta til að heyra, til að nema, til að skilja. Veistu hvað gerir manneskju að góðum listamanni? Það er ögunin í að hlusta, geturðu ímyndað þér tónskáld sem ekki gefur sér tíma til að hlusta? Eða leikara, hvernig á að hann að geta túlkað margskonar manngerðir ef hann hefur aldrei gefið sér tíma til að hlusta á fólk? Að ég tali nú ekki um rithöfundinn, hvaða rithöfundur getur skapað trúverðugar og áhugaverðar persónur ef hann hefur aldrei gefið sér tíma til að hlusta? Ég hef mjög nærtæka sönnun fyrir þessu því ég á bróður sem er myndlistarmaður og hann talar bara ef hann hefur eitthvað sérstakt að segja annars getur maður lent í því að þegja með honum í dágóðan tíma, sem er raunar mjög hvílandi. Maður kynnist nefnilega fólki einna best með því að þegja með því, þá heyrir maður best hljóminn í sálarlífi þess. Við erum svo einkennilega hrædd við þögnina og samt býr þögnin oft yfir mesta sannleikanum. Gamalreyndur kennari sem jafnframt er mikill útivistarmaður hafði einu sinni á orði við mig að hann skildi ekki allt þetta fólk sem annaðhvort gengi eða hlypi út í náttúrunni með gargandi tónlist í eyrunum þegar öll hljóðin í náttúrunni væru til þess fallinn að undirstrika fegurðina í umhverfinu. Ég samsinnti með roða í kinnum þegar ég hugsaði til allra Michael Jacksons slagarana sem ég keyri í botn í hvert sinn sem ég hleyp um Laugardalinn, ég er sem sagt ekki að hlusta á sálma þegar ég er að hlaupa eins og eitt sóknarbarnið hélt, ég kemst bara ekki nema á sálmahraða úr sporunum. En þetta sem kennarinn gamli sagði vakti mig til umhugsunar um það hversu fjarlæg við erum orðin lífshljóminum, það er helst þegar við heyrum hjartsláttinn í fóstrinu í fyrsta sinn sem við stöldrum við og þá verðum við svo gagntekin að ekkert annað skiptir máli á þeirri stundu. Við þurfum einmitt að öðlast þessa gagntekningu oftar vegna þess að hún er grundvöllur sköpunar, listamaðurinn verður gagntekinn af því sem hann heyrir og sér í umhverfi sínu og það verður til þess að hann skapar list sem túlkar og skýrir veruleikann og ýtir þannig undir þroska samfélagsins. Og við þurfum á þessu að halda, við þurfum að finna okkur geta skapað vegna þess að í sköpunarferlinu felst svo mikil og góð og sönn lífsfylling, alvöru lífsfylling. Og það er það sem okkur vantar svo tilfinnanlega í dag. Þetta var held ég það sem María skildi. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.