Trúaruppeldi kynslóðanna

Trúaruppeldi kynslóðanna

Orðin fylgja þeim áfram og veita þeim öryggi, auðmýkt, styrk og trú. Nærvera okkar við þessa látlausu samveru verður mynd sem gleður þau í endurminningunni um hlýju og ástúð sinna nánustu.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Karl Helgason
13. maí 2009

Ef við værum spurð hvað hefði haft mest áhrif á okkur hvað varðandi trúarlíf og trú á Guð kæmi upp hjá flestum einhver manneskja, afi okkar, amma, mamma, oftast einhver okkur nákominn.

Beðið

Afi minn sat með mér á hnjánum með dagblað í hönd og benti mér á stafina og orðin. Þá var ég fimm ára að mig minnir. Ég veit ekki hvort ég lærði að lesa hjá honum en þetta hefur eflaust hjálpað til og í endurminningunni voru þetta ljúfar stundir með afa mínum. Amma mín sem líka var inn á heimili okkar alla tíð lét mig fylgjast með í Passíusálmunum þegar þeir voru lesnir í útvarpinu. Þetta var henni og mér heilög stund. Sjálf var hún alin upp við húslestur og bar ámælda virðingu fyrir Passíusálmunum og þurfti ekki bók til að fylgjast með. Hún kunni þá vel flesta eða í það minnsta kannaðist við þá þegar þeir voru heyrðust lesnir í útvarpinu.

Við bræðurnir fórum með pabba í barnaguðsþjónusturnar þar sem hann spilaði á orgelið í kirkjunni og við sungum af kappi eins og allir aðrir sem troðfylltu safnaðarsalinn. Börnin mín voru líka dugleg að koma með mér í sunndagaskólann þegar ég var sóknarprestur og kunna efalítið marga barnasálma og bænir. Ég treysti á að í hjörtu þeirra hafi verið sáð frækorni tilbeiðslu og lotningar við skapara allra góða hluta og löngun til að feta í fótspor frelsarans. Lengra getur maður ekki gengið eða hvað?

Ég hef ekki sama aðgang að barnabörnunum mínum og amma mín gagnvart mér. Þau eru öll á sínu heimili og í umsjón foreldranna. Amma þeirra signir þau ævinlega þegar hún klæðir þau í hrein nærföt eins hún var ólst upp við og gerði við börnin okkar. „Förum saman með Faðir vor,“ segir hún þegar ef þau dvelja yfir nótt hjá okkur og þau taka öll undir sem hafa þroska til þess. Þau fara líka í sunnudagaskólann með mæðrum sínum og eru dugleg að syngja með.

Vertu nú yfir og allt um kring með eilífri blessun þinni, sitji Guðs englar saman í hring sænginni yfir minni.

Þetta fallega blessunarvers eru einföld innihaldsrík orð til að segja og leyfa litla barni að heyra sem leggst á koddann sinn og sofnar út frá þeim. Við getum sagt og kennt og sungið saman með börnum okkar og barnabörnum þetta kvöldvers, Faðir vor og sungið með þeim vers og sálma sem við þekkjum úr okkar uppeldi.

Orðin fylgja þeim áfram og veita þeim öryggi, auðmýkt, styrk og trú. Nærvera okkar við þessa látlausu samveru verður mynd sem gleður þau í endurminningunni um hlýju og ástúð sinna nánustu. Meiri blessun er vart hægt að hugsa sér fyrir komandi kynslóðir.