Stór hópur glaðværra stúlkna mætir manni þegar komið er til framhaldsskólans fyrir stúlkur í Propoi í Pókothéraði, Keníu. Skólaganga þeirra gefur þeim nýja von og tækifæri í samfélagi sem mótast hefur af hugsun og ráðandi stöðu karlanna um langt skeið. Þær eru þakklátar fyrir tækifæri til náms sem áður var óhugsandi.
Hundruð unglinga sækja nú nám í sex framhaldsskólum sem hafa verið og eru í byggingu fyrir íslenskt fé frá Þróunarsamvinnustofnun Íslands og velunnurum kristniboðsins. Auk þess hafa tugir þúsunda barna notið menntunar í 70 grunnskólum sem byggðir voru með stuðningi frá Íslandi og Noregi. Þetta er aðeins ein hlið margþætts starfs kristniboðsins sem unnið er á vegum lúthersku kirkjunnar í Keníu og Eþíópíu .
Þjóðkirkjan leggur þríhliða áherslu í starfi sínu og vill vera biðjandi, boðandi og þjónandi. Það er köllun hennar.
Kristniboð er biðjandi, boðandi og þjónandi kirkja í verki. Sem boðandi er fagnaðarerindið boðað. Sú ábyrgð nær út fyrir landsteinana og þess vegna stundar kirkjan kristniboð. Starf kristniboðanna hefur alltaf verið borið uppi af fyrirbæn. Kirkjan er kölluð til að biðja fyrir öllum öllum mönnum, bæði nær og fjæri. Karl Sigurbjörnsson biskup segir í bréfi til presta í tilefni kristniboðsdags: „Kristniboðið er málefni kirkjunnar allrar.“
Kærleiksþjónusta hefur ávallt verið hluti af starfi kristniboðanna. Auk skólastarfs og lestrarkennslu, hafa þeir unnið ötullega að bættu heilsufari með rekstri spítala og heilsugæslu. Úrbætur í landbúnaði sem miða að sjálfbærum búskap, trjárækt, vatns- og umhverfisvernd eru einnig mikilvægir þættir í þróun samfélaganna. Kennsla um hreinlæti, byggingu kamra og ofbeldi sem felst í umskurn kvenna er hluti af starfinu.
Kristniboðarnir eru vel undirbúnir undir að starfa í framandi menningarheimi og gera sér far um að kynnast menningu þess fólk sem þeir búa á meðal þess og læra tungumál þess. Kærleiksþjónusta kristniboða og samstarfskirkna þeirra er öllum veitt án skilyrða s.s. manngreinarálits þjóðfélagsstöðu eða trúar.
Burðarás kristniboðsstarfsins er öflugt boðunar- og fræðslustarf sem miðar að því að byggja upp og efla innlendar kirkjur undir stjórn heimamanna. Troðfullar kirkjur þar sem söfnuðurinn er virkur í gleðisöng og gleðidansi við trommuslátt og klapp ber vitni um hversu öflugur sá þáttur starfsins er. Íslensk kristni hefur margt að læra af bræðrum og systrum okkar í Afríku. Eftirsóknarvert er fyrir íslenska söfnuði að kynnast og tengjast eldinum í suðri. Hollt er fyrir okkur öll að komast nær fólkinu sem á sér von og lífsgleði þrátt fyrir viðvarandi efnahagsþrengingar. Um það bera sjö íslenskir prestar vitni sem nýlega komu heim úr kynnisferð til safnaðanna í Pókothéraði.
Þótt þokunni hafi ekki létt í efnahagsmálum hér heima þarf að standa vörð um kristniboðsstarfið. Margir hafa lagt mikið af mörkum til þess á erfiðum tímum á liðinni öld. Stundum var með öllu óvíst að gjaldeyrir fengist til að senda suður á bóginn. En áfram var haldið. Öflugar kirkjur, tugþúsundir sem hafa notið menntunar, víðtæk heilsugæsla, vaxandi sjálfræði og bættur hagur á mörgum sviðum í Kína, Eþíópíu og Keníu er öflugur vitnisburður um að starfið hefur borið ríkulegan ávöxt. Því verki ber að halda áfram. Leggjumst á árarnar af enn meiri krafti en áður.
Kristniboð – já takk.