Biskupinn og óháðu söfnuðirnir

Biskupinn og óháðu söfnuðirnir

Söfnuðir kirkjunnar eru því með sönnu „óháðir“, þeir njóta reglulegra tekna en væntingum um virkni þeirra og framlag er ekki fylgt eftir með skilvirkum hætti. Erfitt, eða jafnvel vonlaust er að hafa bein áhrif á stefnumótun og daglegan rekstur innan sóknanna.

Margt bendir til þess að sögulegir tímar bíði þess biskups sem tekur við embætti í júní. Fyrr eða síðar verður sú kyrrstaða rofin sem lengi hefur ríkt á hinu kirkjulega sviði. Breytingar munu eiga sér stað og þær kunna að hafa varanleg áhrif. Ástæðan fyrir þessu liggur bæði í umhverfi kirkjunnar og í innviðum hennar. Hið síðarnefnda er einkum til umfjöllunar í þessum pistli.

Séríslenskt fyrirkomulag

Starfshættir kirkjunnar byggja m.a. á þeirri forsendu að söfnuðirnir og embættin eigi að búa við sem mest sjálfstæði. Er sú hugsun rótgróin innan þjóðkirkjunnar og liggur til grundvallar skipulagi hennar. Sóknarnefndirnar fá til ráðstöfunar nánast öll þau sóknargjöld sem safnast innan sóknarinnar, en engar reglur eða viðmiðanir eru um það hvernig því fjármagni skuli varið. Þetta er að öllum líkindum einsdæmi. Í nágrannalöndunum byggja söfnuðirnir á víðtæku samstarfi undir stjórn og eftirliti kirkjulegra yfirvalda. Fyrirkomulag það sem er í Danmörku kemst líklega næst því sem er hjá okkur, en það hefur staðið í veginum fyrir ýmsum breytingum og er unnið að því að breyta því fyrirkomulagi. Víðast hafa menn þó horft til gerólíkra leiða en við höfum farið. Söfnuðir mótmælenda í Þýskalandi hafa sameinað sóknir, eða tekið upp víðtæka samvinnu þeirra á milli undir virkri stjórn prófastdæmanna. Hið sama gildir í Svíþjóð og Noregi svo dæmi sé nefnd.

Ekki þarf að undra þótt systurkirkjur okkar hafi fetað aðra leið í þessum efnum. Það fyrirkomulag sem er við lýði á Íslandi veldur því að erfitt að greina hver ber ábyrgð og hvar eftirlitið liggur. Þá er lítt hugað að fræðslu þeirra sem með fjármagnið fara, þótt upphæðin séu hálfur annar milljarður á ári. Hið rígbundna fyrirkomulag skilur eftir sáralítið svigrúm til námskeiða og símenntunar. Loks eru allar stefnubreytingar nánast óframkvæmanlegar, eins og vikið verður nánar að hér á eftir.

Óháðu söfnuðirnir

Söfnuðir kirkjunnar eru því með sönnu „óháðir“, þeir njóta reglulegra tekna en væntingum um virkni þeirra og framlag er ekki fylgt eftir með skilvirkum hætti. Erfitt, eða jafnvel vonlaust er að hafa bein áhrif á stefnumótun og daglegan rekstur innan sóknanna. Það sýna dæmin, en tilraunir undanfarinna ára til þess að hafa slík áhrif hafa lítinn árangur borið. Má þar nefna stefnumótunina sem samþykkt var árið 2004 og „Innri samþykktirnar“ frá árinu 2010. Hugmyndir um samstarfssvæði eru að sama skapi óljósar og munu vart hafa mikil áhrif í óbreyttri mynd þótt þær séu í grunninn tímabærar. Vissulega má horfa til þess hvernig stefnumál hafa verið kynnt og hugað að samskiptunum við hina dreifðu söfnuði og embættin sem þeim þjóna. Hvað sem því líður þá er sjálfstæði safnaðanna slíkur þröskuldur að samþykktir kirkjuþings af þessum toga rista grunnt.

Á sama tíma verður vart unnt að samræma störf þessara ólíku eininga sem söfnuðirnir eru. Sóknarnefndir eða jafnvel fámennar framkvæmdanefndir taka ákvarðanir sem þurfa ekki að vera í neinu samræmi við vilja kirkjuþings eða stefnumótun þess. Dæmi eru um að söfnuðir hafi safnað til mikilla skulda, jafnvel svo að tvísýnt er að unnt verði að standa straum af greiðslu afborgana. Þar ber þó enginn ábyrgð. Stjórnir safnaðanna geta sagt af sér og nýir einstaklingar taka við erfiðum eða jafnvel óleysanlegum verkefnum á sviði rekstrarins. Slík dæmi þekkja flestir sem hafa kynnt sér málefni kirkjunnar. Hitt blasir þó síður við, hvernig öðrum verðmætum er ráðstafað og raðað í forgang í starfsemi hvers safnaðar.

Þetta sundurlausa fyrirkomulag birtist í margvíslegri mynd, m.a. verður erfitt að  fá upplýsingar um það hver staða kirkjunnar raunverlega er. Vissulega lækkar hlutfall þjóðkirkjufólks frá ári til árs, en sú staðreynd gefur þó ein og sér takmarkaðar upplýsingar. Einnig þarf að horfa til aldurssamsetningar meðlimanna og beinnar þátttöku þeirra í helgihaldi og safnaðarstörfum. Ekki hefur verið lagt hlutlægt mat á það hversu árangursríkt starf safnaðanna er eða hvernig það mun skila sér til framtíðar. Slíkir mælikvarðar hafa verið settir með mikilli fyrirhöfn, ræddir á ýmsum vettvangi og svo samþykktir.

Ýmislegt gefur þó vísbendingu um það hvert leiðin liggur. Samtökin Siðmennt hafa t.d. undanfarin ár boðið upp á þjónustu, sem er sambærileg kirkjulegum athöfnum. Undanfarin ár hefur verið jafn og stígandi vöxtur í s.k. „borgaralegum fermingum.“ Hleypur hann á tugum prósenta. Þetta eitt ætti að hringja viðvörunarbjöllum. Fermingarstarfið er einn burðarásinn í þjónustu kirkjunnar og árangurinn á því sviði í nútímanum veitir innsýn í stöðu kirkjunnar á komandi tímum. Hið sama gildir vitaskuld um barnastarfið. Ef það er í lamasessi á kirkjan ekki bjarta framtíð, það má teljast nokkuð ljóst.

Sofandi risi

Kirkjuyfirvöld hljóta að líta þessa þróun alvarlegum augum en viðbrögðin bera þess merki hversu óskilvirkt núverandi fyrirkomulag er. Söfnuðirnir óháðu hafa ekki langa framtíðarsýn enda gefur skipulag þeirra ekki tilefni til slíkrar íhugunar. Tölurnar tala sínu máli. Mitt í þeirri kreppu sem kirkjan stefnir í varðandi barna og unglingastarf, hafa margir söfnuðir á þéttbýlissvæðum sagt upp æskulýðsfulltrúum og hefur þeim stöðugildum fækkað umtalsvert síðustu árin. Vatnaskógur gegnir mikilvægu hlutverki í fermingarfræðslunni, en þar hefur ný álma staðið ókláruð um nokkurra ára skeið þar sem ekki fæst fjármagn til þess að ljúka framkvæmdum. Taki þjóðkirkjan þá ákvörðun að styðja við þær framkvæmdir myndi það efla fermingarstarfið til mikilla muna. Heildstætt fermingarefni hefur ekki verið samið frá því á 10. áratugnum og hafa ýmsir söfnuðir fyrir vikið búið til sitt eigið efni. Í þessu framtíðarverkefni ber kirkjan öll einkenni sofandi risa sem ætlar seint að rumska.

Söfnuðirnir óháðu eiga sér þó marga talsmenn sem verja þetta fyrirkomulag með þeim rökum að það sé bæði lýðræðislegt og ríkur hluti af hinum lútherska arfi. Sú vörn stenst þó ekki ef vel er að gætt. Ólíkt fyrirkomulag hjá öðrum lútherskum kirkjum ætti t.d. að taka af öll tvímæli um það. Margt í fari íslenskra safnaða ber að sama skapi ekki vott um gagnsæi og valddreifingu. Aðalsafnaðarfundir eru að jafnaði fásóttir og vart eru dæmi um að barist sé um sæti í sóknarnefndum. Færri og færri gefa kost á sér til þeirra viðamiklu vinnu sem felst í því að fara fyrir sóknarnefndum. Ekki hefur enn verið tekið á þeim vanda innan íslenskra safnaða þar sem áhugafólki er falið að vinna störf fagfólks. Fólk sem er á lágum launum hefur vart efni á því að sinna slíkri sjálfboðavinnu. Þeir sem sinna formennsku eða gjaldkerastöðu í fjölmennum söfnuðum standa frammi fyrir verkefnum sem eru flóknari og erfiðari en svo að fólk ætti að sinna þeim í frítíma sínum. Starfsmannamál, fjármál og framkvæmdir ættu að vera á hendi fagfólks sem er þá hægt að kalla til ábyrgðar ef illa fer. Leikmenn ættu á hinn bóginn að sinna skapandi störfum, hugmyndavinnu, stefnumótun og jafnvel óformlegu eftirliti með störfum þeirra sem launin þiggja. Í raun er það mun meira í anda lýðræðis að frelsa sóknarnefndarmenn undan daglegu amstri og íþyngjandi verkefnum. Um leið myndu miklir kraftar losna úr læðingi við skapandi vinnu og sjálfboðna þjónustu.

Á kirkjusögulegum tímum

Allt bendir því til þess að næsti biskup muni horfa fram til tíma sem verða ólíkir þeim sem við þekkjum. Stöðugleiki er ekki valkostur á tímum ytri þjóðfélagsbreytinga og biskupsefni verða að hafa það í huga að öllu hrakar og hnignar sem ekki er unnið með og endurnýjað. Víst verður umhverfið ekki hagstæðara á komandi tímum, takist ekki að vinna á því meini sem er svo rótgróið inn í kirkjuna. Hinar sögulegu aðstæður sem slíkur biskup mun horfa fram til verða ekki góðar. Verður þjóðkirkjufólk komið í minnihluta? Tapar kirkjan stöðu sinni sem fyrsti kosturinn þegar kemur að athöfnum á tímamótum árs og mannsævi? Færist hún út á jaðarinn og munu aðrir hópar fylla þau skörð sem hún skilur eftir sig? Í stefnulausri kirkju, óháðra safnaða sem engum reglum lúta, kann þetta að vera raunhæf framtíðarmynd.

Biskup á að vera leiðtogi

Vissulega verður biskup að geta komið fyrir sig orði í ræðu og riti. Vilji hann hins vegar hafa áhrif á framtíðina verður hann að ráðast gegn skráðum og óskráðum reglum sem hafa fært kirkjuna af réttri braut. Biskup þarf að vera leiðtogi og sem slíkur þarf hann að hafa þessa eiginleika:

·        Skýra framtíðarsýn. Biskup þarf að vita hvert stefnt er. Afstaða hans verður að byggja á reynslu hans af störfum innan kirkjunnar þar sem hann hefur með sönnu tekið þátt í uppbyggingu og krefjandi breytingarferli. Dæmin um slíkt eru blessunarlega mörg þrátt fyrir það sem hér hefur verið sagt. Hann þarf að þekkja bresti hennar af eigin raun og hafa kjark til þess að nefna vandamálin sínu rétta nafni. Hann þarf að hafa kynnt sér skipulag kirkjunnar erlendis, ekki síst í umhverfi þar sem söfnuðirnir búa ekki við það skjól sem hið opinbera veitir. Slíkur veruleiki kann að bíða íslenskra safnaða.

·        Traustan siðferðislegan grunn. Biskup þarf að búa að ríkri siðferðiskennd sem birtist ekki eingöngu í predikun hans, heldur miklu fremur í hátterni, samskiptum og líferni. Hann þarf að endurspegla kærleiksboðskap Jesú Krists í forystu sinni og þjónustu. Sjálfur þarf hann að vera fyrirmynd þeirra sem þjóna innan kirkjunnar og gagnvart samfélagi sem sjálft hefur gengið í gegnum alvarleg skipbrot.

·        Samskiptafærni og skipulagsgáfu. Ekki nægir að biskup hafi vit og vilja, hann þarf líka að búa yfir ákveðinni færni í samskiptum og hæfileikum til þess að sannfæra fólk um mikilvægi þeirra breytinga sem unnið er að. Orð hans hafa mikil áhrif. Hvatning byggir upp en óvarleg orð geta sært og skaðað. Hann þarf að forgangsraða verkefnum sínum. Í annasömu embætti er listinn yfir það, sem ekki á að gera jafnvel mikilvægari en sjálfur verkefnalistinn! Hann þarf því að geta deilt verkefnum út til annarra embætta. Virkja þarf vígslubiskupa og prófasta og aðra embættismenn. Úthýsa þarf verkefnum ef þess gefst kostur. Afskipti af daglegri stjórnsýslu verða að víkja fyrir hinni raunverulegu forystu sem lýtur að því að skapa einingu, auka skilvirkni, bæta gagnsæi, efla ábyrgð og koma á eftirliti með öllum þeim sem vinna með verðmæti kirkjunnar.

·        Staðfestu. Stórar breytingar kosta þjáningar og fórnir. Breytingar í stöðnuðu samfélagi geta orðið afar sársaukafullar og þar mun mæða mest á þeim sem forystunni sinnir. Biskup mun þurfa að taka mikla ágjöf og jafnvel háðung þeirra sem ekki deila skoðunum hans. Tími breytinga verður tími átaka og sundrungar. Ef vel tekst til munu hins vegar taka við tímar sáttar, uppgræðslu og markvissrar uppbyggingar. Ef svo á að vera verður biskup að geta staðið við sannfæringu sína frá upphafi til enda og fylgja þeirri sýn sem hann hefur.

Það er alls ekki sjálfgefið að allir þeir sem sækjast eftir biskupsembættinu séu slíkir leiðtogar. Kjörmenn þurfa að horfa grannt á starfsferil þeirra og spyrja sig að því hvar þeir hafa komið á breytingum, hvar reynsla þeirra liggur og hvað þeir standa fyrir. Ef leiðtogahæfileikar þeirra hafa ekki þegar komið fram, er næsta víst að þeir munu ekki vakna við það eitt að þeir klæðist biskupsskrúða. Í hönd færi þá glataður tími í kirkjunni sem kann að reynast afar dýrkeypt.

Framtíðarsýn

Hin nýja þjóðkirkja þarf að hafa burði til þess að færa fjármagnið og orkuna þangað þar sem þörfin er mest. Það gerir hún með lýðræðislegri stjórn og samhæfingu þeirra eininga sem hún samanstendur af. Margar leiðir eru þar í boði. Söfnuðir gætu t.d. sett fram starfsáætlun sem þarf að uppfylla ákveðin skilyrði til þess að þeir fái það fjármagn sem óskað er eftir. Áætlunin gæti borið merki þeirrar stefnumótunar sem unnin hefur verið með lýðræðislegum hætti og samþykkt af kirkjuþingi. Þar yrði væntanlega horft til framtíðarhagsmuna kirkjunnar t.d. með áherslu á æskulýðsstarf, kærleiksþjónustu og skapandi helgihald sem höfðar til fólks. Um leið yrði miklu fjármagni varið til menntunar þeirra sem sinna kirkjulegri þjónustu, leikum og lærðum. Slíkt er vart mögulegt við núverandi fyrirkomulag.

Ef við berum gæfu til þess að velja raunverulegan leiðtoga í hlutverk biskups munum við horfa fram til kirkjusögulega tíma þar sem kirkjan mun lúta öðrum lögmálum en hún hefur gert hingað til. Hún verður ekki lengur í hlutverki þolanda. Hún mun ekki berast með straumnum. Hún verður staðföst, virk og stefnir í átt að settu marki. Hún starfar ekki aðeins í innri sátt. Hún verður öðrum fyrirmynd að því hvernig unnið er í anda Jesú Krists að sannri uppbyggingu einstaklinga og samfélags.