Há-tíð tilfinninganna

Há-tíð tilfinninganna

Jólin hafa verið kölluð ýmsum nöfnum: Hátíð barnanna, fjölskylduhátíð, hátíð ljóss og friðar, hátíð kærleikans. Ef til vill mætti einnig nefna þau hátíð tilfinninganna. Orðið há-tíð merkir veisla, mikill viðburður og ber með sér jákvæðar og kröftugar fylgjur. Sé orðið hins vegar skoðað hlutlaust gæti það þýtt einfaldlega þann tíma sem eitthvað stendur hæst eða ber mikið á. Í þeirri merkingu mætti tala um jólin sem há-tíð tilfinninganna, bæði þeirra sem verkjar undan og eins hinna, sem létta lund. Hvorar tveggja, hin erfiða sem hin ánægjulega, geta orðið til göfgunar sálinni og er þá takmarki há-tíðarinnar náð.

Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.

Þegar englarnir voru farnir frá þeim til himins, sögðu hirðarnir sín á milli: Förum beint til Betlehem að sjá það, sem gjörst hefur og Drottinn hefur kunngjört oss. Og þeir fóru með skyndi og fundu Maríu og Jósef og ungbarnið, sem lá í jötu. Þegar þeir sáu það, skýrðu þeir frá því, er þeim hafði verið sagt um barn þetta. Og allir, sem heyrðu, undruðust það, er hirðarnir sögðu þeim. En María geymdi allt þetta í hjarta sér og hugleiddi það. Og hirðarnir sneru aftur og vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það, sem þeir höfðu heyrt og séð, en allt var það eins og þeim hafði verið sagt. Lúk 2.14-20

Gleðilega hátíð.

Jólin hafa verið kölluð ýmsum nöfnum: Hátíð barnanna, fjölskylduhátíð, hátíð ljóss og friðar, hátíð kærleikans. Ef til vill mætti einnig nefna þau hátíð tilfinninganna. Orðið há-tíð merkir veisla, mikill viðburður og ber með sér jákvæðar og kröftugar fylgjur. Sé orðið hins vegar skoðað hlutlaust gæti það þýtt einfaldlega þann tíma sem eitthvað stendur hæst eða ber mikið á. Í þeirri merkingu mætti tala um jólin sem há-tíð tilfinninganna, bæði þeirra sem verkjar undan og eins hinna, sem létta lund. Hvorar tveggja, hin erfiða sem hin ánægjulega, geta orðið til göfgunar sálinni og er þá takmarki há-tíðarinnar náð.

Hvaða tilfinningar bærðust í brjósti mennskra hluttakenda hinna fyrstu jóla?

  • María – hin unga og óreynda stúlka, sem andi Guðs snart svo, að himinn og jörð mættust í lífi hennar.
  • Jósef – smiðurinn, sem Guð kallaði til að annast ungu stúlkuna, verðandi móður af Guðs völdum.
  • Gistihúseigandinn – sem átti ekkert afdrep fyrir konu komna að fæðingu annað en bústað dýranna, þó hlýjan og þurran.
  • Hirðarnir – sem eignuðust einstæða lífsreynslu við sína vanabundnu og vanmetnu iðju.
  • Vitringarnir – þeir lögðu að veði fjármuni sína og starfsheiður vegna fullvissu sinnar um einstæða merkingu þessa náttúruundurs, Bethlehemsstjörnunnar.
  • Heródes – fulltrúi illskunnar, ofurmagns valdhafanna, sem vilja útrýma lífi saklausra borgara.

Við fáum nokkra innsýn í tilfinningalíf þeirra flestra. Óttinn er þar áberandi stef; angist vegna yfirþyrmandi aðstæðna og kvíði framtíðarinnar, en líka eftirvæntingin, gleðin, lotningin, traustið.

* * *

Tilfinningum Maríu er lýst á nokkrum stöðum í Biblíunni. Hún verður hrædd við ávarp engilsins sem boðar henni fæðingu sonar Guðs fyrir hennar meðgöngu, hrædd og hissa. Hún undrast yfir því hvernig þetta megi verða, en sú tilfinning þróast yfir í traust til Guðs: “Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum” (Lúk. 1.38). Að óskir engilsins og Elísabetar frændkonu Maríu henni til handa rætast, óskir um að hún megi vera bæði heil og sæl, sést í lofsöng hennar: “Önd mín miklar Drottin og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum” (Lúk. 1.46).

Hræðsla, undrun, traust, heilindi, sæla. Allt þetta þekkjum við af eigin reynslu, og allt fylgdi þetta Maríu samleiðina með syninum Jesú. Þegar frumburðurinn var rétt rúmlega mánaðargamall var sagt var fyrir um að sverð myndi nísta sálu móðurinnar (Símeon í Lúk. 2.35). Víst varð örvæntingin hlutskipti Maríu við ömurlegar aðstæður dauða elsta sonar hennar, en fögnuðurinn að sama skapi ríkur er hún deildi gleði lærisveinanna við upprisutíðindin.

Um Jósef segir að hann hafi verið grandvar (Mt. 1.19) og hafi því ætlað að skilja við Maríu, þ.e. slíta trúlofuninni, í kyrrþei, þegar hann komst að því að hún var þunguð, ekki af hans völdum. En honum vitraðist engill Drottins í draumi, sem bað hann að óttast ekki. Aftur er óttinn í fyrirrúmi, óttinn, sem breytist í traust við tiltal frá Guði. Jósef breytti rétt, sigraðist á hræðslu sinni við hið óþekkta, fól líf sitt og vafasamar kringumstæður Guði og uppskar þátttöku í mesta undri veraldar.

Af gistihúseigandanum segir reyndar akkúrat ekki neitt í guðspjallinu. Hann er okkar tilbúningur og oft samnefnari þeirra sem hafna Jesú, úthýsa honum úr lífi sínu. Sú mynd gefur okkur tækifæri til að minnast á sektarkenndina, eftirsjána, biturleikann vegna tækifæris sem glutrað var niður. Þannig rúmast þær tilfinningar einnig í jólaundrinu, hvort sem blessaður maðurinn er hafður fyrir rangri sök eður ei. Hafi hann – eða þau hjónin – verið góðsemin ein fáum við líka flöt útsjónaseminnar, að gera eins vel og hægt er, að finna lausn á vanda, lausn sem dugar, þó ófullkomin sé.

Fullkomleikaáráttan fær reyndar lítið fyrir sinn snúð í frásögn hinna fyrstu jóla; barn sem fæðist við bágar aðstæður, í hersetnu landi, við spillta heimastjórn, fjarri heimabæ foreldranna, lagt í matartrog dýranna. Skyldi móðirin unga ekki hafa hugsað sér fæðingu frumburðarins með öðrum hætti, nær móður sinni og vitrum konum, á heimili fjölskyldunnar við betri vist? En hún varð að sætta sig við það sem hún gat ekki breytt og gera svo gott úr því sem unnt var, með aðstoð smiðsins, mannsins síns.

Hirðarnir fá gott rými í guðspjallinu. Hve margir þeir vóru er vandi um að spá, en víst hafa þeir verið góður hópur eldri og yngri manna og e.t.v. barna, eins og sumar ævintýrasagnir gera ráð fyrir. Þar hefur verið fólk með allan tilfinningapakkann á bakinu, venjulegt fólk, sem glímdi við sorg og nauðir, átti sér deiluefni, gleðiefni, áhyggjuefni. Sumir voru hrokafullir, töluðu hátt og illa um náungann, aðrir lítillátir, ljúfir og kátir. En sammerkt áttu hirðarnir hræðsluna sem yfirtók þá þegar undrið sást á himnum; englalýsingin ógurlega, svo sem logandi stjörnuhnöttur í nánd við dimma jörð. Sem fyrr þekktu englarnir ótta mannanna barna og sem fyrr kom hvatningin: “Verið óhræddir”. Og sem fyrr var þetta ekki sagt út í loftið, heldur rökstutt með nærveru Guðs. “Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá” (Sálm. 37.5).

Hirðarnir voguðu að taka englana á orðinu, sigruðust á óttanum, líka óttanum við að verða að athlægi fyrir að hlaupa á eftir englafréttum, og komu frá undrinu í jötunni breyttir menn í lofgjörð lífs til Guðs.

Vitringunum er lýst sem einörðum mönnum, óttalausum, eftirvæntingarfullum. Sagt er um þá að þeir hafi glaðst harla mjög (Mt. 2.10) þegar þeir komu á áfangastað og sáu stjörnuna staðnæmast yfir barninu. Það er því gleðin, sem er aðalsmerki þeirra, og svo lotningin fyrir hinum nýfædda konungi.

Tilhlökkunin, eftirvæntingin er líka mikilvæg tilfinning, sem við fullorðna fólkið látum allt of sjaldan eftir okkur. Við höfum svo oft orðið vonsvikin að við erum hætt að gera ráð fyrir því besta og reiknum frekar með því versta, svona eins og til að verjast vonbrigðum. Við það fletjast tilfinningarnar út; við leyfum okkur ekki að finna hæðir og lægðir hjartans, einlægnin hverfur og allir dagar verða eins. Eftirvætningin rífur okkur upp úr þessari flatneskju; við verðum hæfari til að elska og gleðjast og finna til. Vitringarnir sáu tákn, tákn um eitthvað spennandi og skemmtilegt, og létu vera að afskrifa það. Þeir fylgdu hjarta sínu, heillaðir af ljósi himinsins, lögðu land undir fót, tóku áhættu og uppskáru dýpstu sælu við lágan stall.

Einn þátttakanda verður enn að nefna til sögunnar, þó óljúft sé. Það er Heródes, hinn illi konungur, sem lét stjórnast af afbrýði sinni og valdagræðgi og tortímdi tveimur árgöngum drengja á svæðinu við Bethlehem, hjó til sinnar eigin þjóðar. Hann er fulltrúi reiðinnar, hinnar lífsafneitandi reiði, sem í blindni sinni veður yfir allt og alla og vill útrýma konungi kærleikans.

* * *

Inn í allar þessar tilfinningar kemur lítið barn, frumburður foreldra sinna, fæddur við frumstæða umgjörð, en vegsamaður frá fyrsta degi. Hvað annað en barnsfæðing megnar að vekja með okkur jafn margbrotnar tilfinningar og raun ber vitni? Við mæðurnar erum við ystu nöf, líf okkar lagt að veði, dauðinn nálægur móður og barni. Svo örfá andartök skilja í milli lífs og dauða, og stundum nær angistin yfirhöndinni. En oftar er það svo hér á Íslandi nútildags að allt fer vel, ógninni er afstýrt, óttinn snýst í fögnuð.

Þannig eru jólin há-tíð tilfinninganna. Sjálft undrið fer með okkur nútíðarþátttakendur allan tilfinningaskalann, eins og það gerði þá. Allt skerpist og skýrist á jólum; einsemdin verður átakanlegri, gleðin dýpri, sorgin þyngri, eftirvæntingin meiri. Og það er gott. Það er gott að við finnum til; það er gott að mega finna til bæði lífsins og dauðans. Bágt ættum við ef við fyndum hvorki eitt né annað. Þá er lífið lítils virði.

Fæðing Jesú veitir fyrirheit um endurfæðing heimsins, endursköpun alls sem er. Hann er lifandi fæddur sveinn, óttinn á burt rekinn, lífið sigrað dauðann. Undur jólanna hvetur okkur til að horfast í augu við eigin erfiðu tilfinningar, óttann, kvíðann, reiðina, sektarkenndina, einmanaleikann og þiggja orð Guðs inn í það allt: Hann segir við okkur eins og við Maríu og Jósef forðum: “Óttastu ekki”, og orðin til hirðanna tala inn í okkar líf: “Verið óhrædd”. Við höfum fundið náð hjá Guði sem María, föguður hirðanna er okkar, því okkur er í dag frelsari fæddur.

Leyfum okkur að finna eftirvæntinguna í brjóstinu, látum gleðina fæðast, gleðina yfir litlu barni, sem er konungur kærleikans, máttugri en reiði stríðsherrannna, voldugri en eyðileggingin, hver sem hún kann að vera. Finnum undrinu stað í hjarta okkar, undri barnsfæðingarinnar, vonarinnar, trúarinnar, kærleikans. Felum Drottni vegu okkar og treystum honum. Hann mun vel fyrir sjá.

Dýrð sé Guði í upphæðum, Og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á. Amen.

María Ágústsdóttir (maria.agustsdottir@hallgrimskirkja.is) er héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra. Þessi prédikun var flutt á jóladegi 2002, í Seltjarnarneskirkju.