Biblían og risaeðlurnar

Biblían og risaeðlurnar

Risaeðlurnar ganga enn um hér á jörðinni. Þær er að finna bæði meðal trúaðra og vantrúaðra. Því trúað fólk hefur líka stundum dottið í þá gryfju að halda að Biblían sé ekki bara trúarrit heldur líka fræðibók í náttúruvísindum.

Þá sagði Jesús: „Svo er Guðs ríki sem maður sái sæði í jörð. Hann sefur síðan og vakir, nætur og daga, en sæðið grær og vex, hann veit ekki með hverjum hætti. Sjálfkrafa ber jörðin ávöxt, fyrst stráið, þá axið og síðan fullvaxið hveiti í axinu. En þá er ávöxturinn er fullþroska lætur hann þegar bera út sigðina því að uppskeran er komin.“

Og Jesús sagði: „Við hvað eigum við að líkja Guðs ríki? Með hvaða dæmi eigum við að lýsa því? Líkt er það mustarðskorni. Þegar því er sáð í mold er það smærra hverju sáðkorni á jörðu. En eftir að því er sáð tekur það að spretta, það verður öllum jurtum meira og fær svo stórar greinar að fuglar himins geta hreiðrað sig í skugga þess.“ Mrk 4.26-32

I.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í dag er Biblíudagurinn. Orðið Biblía er komið úr grísku. Biblon á grísku er bók og biblia er fleirtalan. Orðið Biblía merkir því í grunninn bækur, enda Biblían safn 66 bóka, sem ritaðar voru á löngum tíma af ýmsum höfundum. Rit Biblíunnar eru ólík að formi til og innihaldi. Þarna eru ættartölur og lagatextar, ástarljóð, dæmisögur og líkingar, einnig spádómar og opinberanir, predikanir og sögulegar frásagnir. Í grunninn er þetta saga Ísraelsþjóðarinnar og hvernig Guð opinberaðist henni í gegnum tíðina.

En þetta er ritað til þess að þið trúið að Jesús sé Kristur, sonur Guðs og að þið í trúnni eigið lif í hans nafni. Þannig farast Jóhannesi guðspjallamanni orð þegar hann útskýrir tilganginn með riti sínu. Og kollegi hans, Lúkas segir af sama tilefni: Kæri Guðs vinur, nú hef ég ritað fyrir þig samfellda sögu, svo að þú megir ganga úr skugga um sannindi þeirra frásagna, sem þú hefur fræðst um. Biblían er sem sagt skrifuð til að glæða trú manna á Guð og lífið, sem hann gaf okkur.

II.

Ég hef gaman af bókum. Það var mikil upplifun þegar ég fór í fyrsta skipti ungur að árum á bókamarkað og fékk að kaupa mér bækur. Þá náði ég mér í tvö hefti með myndum og texta. Annað var sögur af Bakkabræðrum og hitt var þjóðsagan um hana Búkollu. Síðan þá hef ég alltaf haft gaman af því að koma inn í bókabúðir. Fyrir einhverjum árum síðan var ég staddur inni í bókabúð í útlöndum og sá þá barnabækur á standi og fyrir tilviljun greip ég litla bók og fór að skoða hana. Hún var sögð eftir sjö ára gamlan dreng, Jonathan, sem var þarna að skrifa um risaeðlurnar sínar. Sjálfsagt hafði faðir hans eitthvað hjálpað honum með textann. Og svo hafði útgefandinn fengið einhvern til að teikna myndir. Ég keypti þessa bók því mér fannst hún svo sniðug og seinna notaði ég hana hér í barnastarfinu og las upp úr henni og varpaði nokkrum myndum úr henni upp á tjald. Þetta er nefnilega svolítið kostuleg bók. Þarna er til dæmis mynd af risueðlu með síma og undir stendur: Risaeðlurnar notuðu ekki síma. Þær þurftu þess ekki því þær gátu kallað svo hátt. Bókin endar á orðunum: Risaeðlurnar þekktu ekki Guð en Guð þekkti þær því hann hafði búið þær til.

Stundum held ég að börn sé klárari en fullorðið fólk, - líkt og H.C. Anderson bendir okkur á í ævintýrinu um nýju fötin keisarans. Og stundum finnst mér jafnvel að sumt fullorðið fólk sé risaeðlur og ég fæ þetta einstaka sinnum á tilfinninguna þegar fólk fer að tala við mig um Biblíuna.

Sko, segir fólkið, jörðin var ekkert sköpuð á sjö dögum, það tók milljónir ára. Já, og höggormar geta ekki talað!

Þetta er auðvitað hárrétt. Höfundar Biblíunnar þekktu ekki kenningar Darwins um þróun tegundanna eða kenningar vísindamanna um upphaf lífsins á jörðinni. Kenninguna um mikla hvell, The big bang theory er hvergi að finna í Biblíunni. En þá kemur bókin hans Jonathans mér til hjálpar og ég hugsa um myndina af risueðlunni, sem er að tala í símann eða hina, sem er á háhæluðum skóm og ég segi á móti: Heyrðu, veistu af hverju það er ekkert minnst á farsíma í Biblíunni? Og veistu af hverju það er ekkert minnst á sjónvarp heldur í Heilagri ritningu?

Við þessar gagnspurningar klerksins kemur stundum hik á fólkið, svona risaeðluhik, því risaeðlurnar voru víst lengi að hugsa. Og auðvitað rennur það að lokum upp fyrir fólki að bílar, tölvur og farsímar eru eitthvað, sem tilheyra nútímanum og voru ekki til í gamla daga, - og alveg örugglega ekki til fyrir 2-3 þúsund árum en það er svo langt síðan Biblían var skrifuð. Auðvitað gildir hið sama um ipad-tölvur og nútíma þekkingu í vísindum; hvorugt var til á dögum Biblíunnar. Og maður ætti gera sér grein fyrir því að höfundar Biblíunnar höfðu engar forsendur til að skilja kenningar Einsteins í stjörnufræði. Hefði engill skrifað í sandinn fyrir þá að e væri sama og mc í öðru þá hefðu þeir örgugglega miskilið það gjörsamlega. Já, og hefði engillinn sagt við Móse að úr þessum kísilsandi, sem hann var að skrifa í, væri hægt að búa til kísilflögur og kísilkubba, sem væru gangverkið í tölvum og snjallsímum, þá hefði Móse líklega bara sagt: Ha!

Biblían er ekki vísindarit þar sem spurningum vísindanna er svarað. Hún er heldur ekki símaskrá ef út í það er farið. Þeir, sem ætla að finna símanúmer prestsins í Biblíunni eru komnir í geitarhús að leita sér ullar.

Risaeðlurnar ganga enn um hér á jörðinni. Þær er að finna bæði meðal trúaðra og vantrúaðra. Því trúað fólk hefur líka stundum dottið í þá gryfju að halda að Biblían sé ekki bara trúarrit heldur líka fræðibók í náttúruvísindum. Frægasta dæmið þar upp á er líkega svonefnd Aparéttarhöld í smábænum Dayton, Tennessee, þar sem framhaldsskólakennarinn John Scopes var ákærður og dæmdur fyrir að kenna þróunarkenninguna í opinberum skóla. Í raun tókust þar á bókstafstrúarmenn, sem töldu að Biblían væri Guðs orð og hún væri óskeikul í öllum efnum, líka að því er snerti mannlega þekkingu. Í hinum hópnum voru frjálslindir og víðsýnir menn, sem álítu að þróunarkenningin og önnur vísindaleg þekking bryti ekki í bága við Biblíuna. Heimsmynd og þekking nútímas væri vissulega önnur og öðru vísi en hún var á þeim dögum þegar Biblían var rituð. Enda væri Biblían trúarit, skrifað til að flytja fólki ákveðinn trúar- og siðferðisboðskap.

III.

Við eigum að lesa Biblíuna eins og um bókmenntir væri að ræða og spyrja okkur að því hver sé boðskapur textans. Hver er boðskapur sögunnar um Adam og Evu í Paradís? Er þetta ekki saga um mannlegan breyskleika, um það hvernig við manneskjurnar erum, hvernig við gerum stundum það sem við megum ekki og vitum að er rangt? Það held ég. Það er mikill sannleikur í sögunni af syndafallinu en lesandinn fer algjörlega á mis við hann ef hinn talandi og tælandi höggormur er það eina, sem kemst að í huga hans

Þetta er saga um að allt mannkyn eigi sér sameiginlegt upphaf, eigi sér sameiginlega forfeður. Boðskapur Biblíunnar er sá að við mennirnir séum öll bræður og systur, séum sömu tegundar, sömu gerðar, séum öll með mannlegar tilfinningar og svipaðar þarfir og þrár. Biblían segir að allir menn séu skapaðir í Guðs mynd. Allar manneskjur eru dýrmætar, Guði hjartfólgnar. Við erum öll Guðs börn, sem Guð hefur gefið lífið, sem gengur áfram í gengum kynslóðirnar, sem allar hafa það hlutverk að yrkja jörðina og láta frið, kærleika og réttlæti ríkja manna á meðal.

En hvað þá með sjö dagana? Vissulega mætti svara þessu með því að benda á aðra ritningarstaði eins og 90. Davíðssálm þar sem sagt er að fyrir Guði sé einn dagur, sem þúsund ár. Þjóðsöngurinn okkar íslenski er reyndar ortur út frá þessum sálmi.

En sjö dagarnir eru mikilvægir. Þeir eru sérstakt áhersluatriði í fyrsta kafla Genesis. Þeir eru aðalpunkturinn. Og þú þarft að vera svolítil risaeðla til að fatta það ekki. Ég ætla að segja ykkur þessa sögu:

Á fyrsta degi skapaði Guð ljósið en án ljóss væri ekkert líf í þessum heimi. Á öðrum degi gerði Guð himinfestinguna. Á þriðja degi gerði hann jörðina og lét gróður vaxa á henni. Á fjórða degi komu sólin, máninn og stjörnurnar, árstíðirnar. Á fimmta degi urðu vötnin og hafið kvik af fiskum og fuglar flugu um loftin blá og dýrin fóru um jörðina. Á sjötta degi skapaði Guð manninn, hann gerði þau karl og konu. En enn var kóróna sköpunarverksins samt eftir. Það var sjöundi dagurinn, dagurinn þegar Drottinn hvíldist af öllu sínu verki. Og þetta er áherslupunktur sköpunarsögunnar; sjö daga vika. Þarna er verið að segja að til sé ákveðinn alheimsrythmi, ákveðinn taktur tímans, sem sé sá að skipta tímanum upp í sjö daga hrinur, vikur. Maðurinn eigi að gera eins og Guð, vinna í sex daga en hvíla sig þann sjöunda. Nota þann dag til andlegrar endurnæringar. Og vitið þið, þetta er merkasta framlag Gyðingaþjóðarinnar og nágranna þeirra til heimsmenningarinnar. En um alla veröld notast fólk við þetta skipulag að hafa 7 daga viku. Að vísu var gerð tilraun í frönsku stjórnarbyltingunni til að taka upp 10 daga viku en sú breyting náði ekki að festa sig í sessi.

Sjö daga vika! Það er punkturinn. Biblían fjallar nefnilega alltaf um okkur og það líf, sem við lifum. Og þannig eigum við að lesa hana. Þegar við lesum söguna um miskunnsama Samverjann þá er þetta ekki saga um eitthvað, sem einu sinni gerðist. Nei, þetta er saga með boðskap um að við eigum að elska náungann og náungi okkar er hver sá, sem við mætum á lífsins göngu og þarf á okkar hjálp að halda. Við eigum að feta í fótspor miskunnsama Samverjans og hjálpa þeim, sem hafa lent í hremmingum.

Hann Jonathan skrifaði um það í bókinni sinni að hann þyrfti ekkert í alvörunni að óttast risaeðlurnar, enda þótt þær væru stórar og hræðilegar því þær væru útdauðar. Þessi fornaldardýr eru útdauð, önnur hafa að vísu komið í staðinn eins og kródíllinn, slangan og nashyrningurinn. En menn skyldu gæta þess að verða ekki sjálfir eins og slík dýr, grimmir, óútreiknanlegir, óskynsamir og heimskir eins risaeðlur. Það er syndin. Þegar illskan og fáfræðin taka völdin þá breytumst við í risaeðlur. Og til þess er Biblían skrifuð; að forða okkur frá þeim háska og þeirri glötum.

En þetta er ritað til þess að þið trúið að Jesús sé Kristur, sonur Guðs og að þið í trúnni eigið lif í hans nafni.

Dýrð sé Guð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.