Sannleikurinn frelsar

Sannleikurinn frelsar

Þessi orð guðspjallsins eru t.a.m. á hornsteini hússins hérna handan Sundsins, Alþingishússins. Orð Jesú Krists um það að sannleikurinn geri okkur frjáls. Á veraldlega vísu eiga orð þessi einnig við. Þeirra skal sjá stað í verkum okkar. Í lífi og löggjöf skyldi tekið tillit til réttlætis, miskunnsemi, trausts og kærleika, sem er inntak kristinnar trúar og samofið lífi kristinna manna.
fullname - andlitsmynd Hjálmar Jónsson
30. október 2005
Flokkar

Þá sagði Jesús við Gyðingana, sem tekið höfðu trú á hann: Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa. Jóh. 8: 31-32

Gleðilega hátíð

Það er afmæli hjá okkur í dag. Vígsludagur Dómkirkjunnar var 30. október fyrir 209 árum. Þá vígði séra Markús Magnússon stiftsprófastur í Görðum á Álftanesi kirkjuna. Síðan þá er Dómkirkjan búin að vera vettvangur samfunda Guðs og manna. Guðs orð hefur verið flutt, bænir beðnar, sakramentin um hönd höfð. Í gleði og sorgum safnaðar – og stundum allrar þjóðarinnar hefur Dómkirkjan verið um Guð vors lands hjá fólkinu. Á þessum 209 árum frá því kirkjan var upphaflega vígð hefur nánast allt breyst í ytri aðstæðum fólksins í landinu. Síðustu áratugir 18. aldar er eitt erfiðasta tímabilið í sögu þjóðarinnar frá því land byggðist.

Kirkjubyggingin var liður í nýrri endurreisn. Langt var í land og löngu seinna orti séra Matthías:

“Vertu oss fáum, fátækum, smáum líkn í lífsstríði alda”,

Við erum fá á alþjóðlegan kvarða þjóðanna mælt. En við erum ekki fátæk á veraldlega vísu – og okkur finnst við alls ekkert vera smá, ekki í þeim skilningi.

Mér kemur í hug sagan af íslenskum embættismanni sem var í heimsókn í Kína. Þar var spurt: Hvað eruð þið margir, Íslendingar. Íslendingurinn átti erfitt með að nefna mjög lága tölu svo hann sagði: “Við erum 250”. Og þessi Kínverji heldur sjálfsagt enn að Íslendingar séu 250 milljónir.

Já, við erum fá, en okkur búnast vel. Það væri vanþakklæti að viðurkenna það ekki. Mikil umbreyting hefur átt sér stað, efnalega mest á undanförnum áratugum. Vissulega er ekki allur vandi leystur, það verður seint, en hann ætti að vera auðveldur viðureignar miðaður við fyrri tíma vandamál. Bæði þau dægurmál sem rísa og hníga og svo réttlætismálin, jöfnuðurinn t.a.m. milli kynjanna. Þegar ég horfi hér við fermingarbörnum næsta vors í kirkjunni, þá vona ég og bið þess í Jesú nafni, að stúlkur og drengir muni eiga jafna möguleika í lífi og starfi þar sem þau láta að sér kveða í framtíðinni.

* * *

Við höldum árlegan kirkjudag á afmæli kirkjunnar og á sama tíma standa hér yfir Tónlistardagar. Núna í 24. skiptið.

Í mánaðartíma í vetrarbyrjun drögum við fram allt það besta í tónlistinni, efnum til tónlistarveislu. Kristin kirkja hefur um aldirnar fóstrað listina. Hvarvetna eru góðir hlutir að gerast. Fjölbreytnin í íslensku kirkjusamfélagi er vissulega mikil. Það er gott til þess að hugsa án þess nokkrum detti í hug að miklast af því. Mikill fjöldi fólks sinnir list og trú af mikilli alúð á vegum kirkjunnar. Og þessi þáttur kirkjustarfsins er dýrmætur landsmönnum eins og aðrir. Upphaf Tónlistardaga Dómkirkjunnar voru afar fjölsóttir tónleikar í Langholtskirkju. Þar voru kórfélagar sjálfir hlaupandi með alla tiltæka stóla fram í kirkju til að sem allra flestir gestanna fengju sæti. Allir í góðu skapi og brosandi og sögðu: Þetta er dásamlegt vandamál.

Fjölbreytni og gróska er í starfi Þjóðkirkjunnar. Niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar Gallup um trú Íslendinga, kristni og kirkju eru vissulega góð vísbending. Og hún er mikilsverð hvatning. Vissulega þykjumst við, þjónar kirkjunnar, prestar og aðrir, finna þennan hljómgrunn í þjónustu okkar. Kirkjan sinnir mikilvægu og þakklátu starfi með þjóðinni. Á öllum sviðum, fyrir allan aldur, unga og gamla.

Mér fannst við sjá þetta vel í vikunni þar sem við fórum gegnum 10 ára gamla atburði með Önfirðingum. Fátt hefur sýnt betur hluttekningu allrar þjóðarinnar, samstöðu hennar bæði í orði og verki en umfjöllun og minning þeirra sem fórust - svo og líf og líðan eftirlifendanna. Sama máli gegnir að sjálfsögðu um Súðavíkurslysið. Og sama gildir um öll slys og raunir. Við eigum samúð, við finnum til og viljum leggja líkn með þraut.

Og það sannast í þessu, eins og alltaf, “að bestu blómin gróa í brjóstum sem að geta fundið til.” Og þar er Guð á vettvangi sína himnesku huggun.

Það er t.d. að sannast í dag í Dresden í Þýskalandi. Frúarkirkjan sem jöfnuð var við jörðu í lok síðari heimstyrjaldarinnar er endurvígð í dag. Og það eru Bandamenn, einkum Bretar, sem hafa lagt af mörkum til þessa. Falleg og táknræn sáttargjörð á sér stað á rústunum sem hinn mannlegi harmleikur olli.

Allt eru þetta reyndar meira en tákn. Þetta er lífið sjálft og lífsins kraftaverk. Það sem er alltaf að gerast. Hvernig er guðspjallstextinn, orð Krists á þessa leið: “Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann og sannleikurinn mun gera yður frjálsa.”

Kristur er sjálfur sannleikurinn. Vegurinn, sannleikurinn og lífið. Verum stöðug í orði hans og þiggjum frelsið sem hann býður.

Þessi orð guðspjallsins eru t.a.m. á hornsteini hússins hérna handan Sundsins, Alþingishússins. Orð Jesú Krists um það að sannleikurinn geri okkur frjáls. Á veraldlega vísu eiga orð þessi einnig við. Þeirra skal sjá stað í verkum okkar. Í lífi og löggjöf skyldi tekið tillit til réttlætis, miskunnsemi, trausts og kærleika, sem er inntak kristinnar trúar og samofið lífi kristinna manna.

Það er sannleikurinn sjálfur. Og öllum hollt að leita inn á við og spyrja í alvöru: Fyrir hvað lifi ég? Og hvernig vil ég móta líf mitt og umhverfi mitt? Enginn er áhrifalaus, allir skipta máli, eitt og sérhvert okkar hefur mikið fram að færa. Og lífið er fyrst og síðast hverjum einstökum verkefni sem hann verður sjálfur að vinna. Og þú verður að vilja finna sjálfan þig, eiga sjálfa þig. Danski heimspekingurinn Sören Kierkegaard segir það á þessa leið: “Það verður ekki mikið uppnám í heiminum þótt þú glatir sálu þinni. Sjálfið er það sem minnst er spurt um í heiminum. Hin mesta hætta, sú að glata sjálfum sér, getur gerst í heiminum svo hljótt sem ekkert væri. Ekkert annað tjón getur farið jafn hljótt. “

Það er til hjálp sem engum manni bregst sem biður um hana. Og hún er veitt skuldbindingarlaust. Og hún er hjálpræði trúarinnar. Hún er í því fólgin að tileinka sér andann og sannleikann sem Kristur boðar; standa stöðug í orði hans sem sagði: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.

Við erum hvorki fátæk né smá. En ef við týnum sjálfum okkur í heiminum, ef við höfum ekkert að lifa fyrir, engin markmið eða hugsjónir, þá getum við orðið reköld á lífsins ólgusjó.

Þegar vitundin um sannleikann sjálfan er ekki til staðar er lífið undir andlegum fátæktarmörkum.

En það er svo aftur á ábyrgð okkar allra að kraftaverkin fái að gerast í samfélagi okkar. Og þannig eru kraftar guðsríkisins að verki.

Kraftar guðsríkis í okkur öllum geta leyst margt verkefnið ef við viljum og trúum. AMEN.