Hvað sérðu?

Hvað sérðu?

Og þegar við göngum út – hvað sjáum við þá? Sjáum við bílastæði, bíla, götur, hús og garða eða sjáum við lífið og allt sem það býður okkur. Sjáum við anda guðs að verki í sköpun, í rigningu, í sól, í vexti jurtanna, í tísti fuglanna, í leik barna, í önnum fullorðinna. Hvað sjáum við?

Í gullinskini

fyrir allar aldir

hann er kominn

að skapa líf

 

Birtan er djúp

og kyrrðin kyrr

hann elskar að elska

að verða ljós  

 

Þannig yrkir trúarskáldið Ísak Harðarson sem við kvöddum hér í kirkjunni í liðinni viku. Skáldið sér í morgunbirtunni á ströndinni morgun allra tíma, fyrir allar aldir, þegar skapari alls kveikti ljós, var ljós, til sköpunar sem er ást hans. 

 

Gjöf skáldanna og listamanna almennt til okkar er oft þetta – að sjá hlutina á annan hátt og miðla þeirri sín til okkar. Fá okkur til að hugsa á annan hátt um það sem við tökum sem gefnu þegar við þeytumst um í amstri dagsins. 

 

Hvað sjáum við þegar við lítum í kringum okkur? Sjáum við öll það sama? Munið þið eftir deilunni (og skemmtuninni) fyrir nokkrum árum um kjólinn sem netmiðlar birtu myndir af og fólk sá ýmist sem hvítan og gylltan eða svartan og bláan. Ég man að við hjónin sáum alveg sitt hvorn litinn, sem segir mér bara eitt: Hann var hvítur og gylltur, eins og mér fannst. Eða ekki. Eitthvað veldur ólíkri sýn. Ég leitaði hann uppi aftur núna við predikunarskrifin og sýndist hann enn hvítur og gylltur ef ég horfði og hallaði mér gat ég séð örlítinn bláma í hvíta litnum.

 

Mér varð hugsað til kjólsins þegar upp risu deilur og gýfuryrði heyrðust í vegna leiðtogafundar Evrópuráðsins hér um daginn. Þetta snérist um mynd af forsætisráðherra Íslands, Katrínu, að heilsa forsætisráðherra Ítalíu, Giorgiu Meloni. Þær voru brosandi. Þetta fór illa í suma vegna pólitískra skoðana Meloni. Einhverjum þótti ekki rétt að vera alúðlegur við slíkt fólk. Nú er það þannig með myndir að þær fanga aðeins eitt augnablik. Við getum túlkað það augnablik en það segir okkur svosem ekkert um augnablikið á undan en eftir. Þegar ég sá myndina tók ég eftir tvennu: Meloni hélt báðum höndum utan um lófa Katrínar og Katrín hallaði sér frá henni. Líkamsstaðan gat þess vegna alveg gefið skilaboð ákveðinnar fjarlægðar um leið og það að taka alveg utan um lófa annarrar manneskju getur þýtt ómeðvitað kannski að þú ætlir að stjórna henni. Ég túlkaði myndina því sem svo að Katrín heilsaði af kurteisi en hafnaði því að láta Melóní stýra ferðinni. Og það má alveg lesa út úr myndinni. Hvað veldur hvað við sjáum? Afstaða okkar fyrirfram skiptir örugglega máli, fyrri reynsla, til dæmis af því að taka þátt í fundum þar sem fólk greinir á um grundvallaratriði; pólitísk afstaða og persónuþættir – ég finn til dæmis til samstöðu með lágvöxnum konum sem brosa mikið – af einhverjum ókunnum ástæðum. 

 

Allt sem við höfum lært í lífinu, meðvitað og ómeðvitað, ræður því hvernig við sjáum umhverfið, hvernig við túlkum það sem við sjáum og hvernig við bregðumst við. Þess vegna sjáum við ekki alltaf það sama. Ekki heldur þegar við lítum í kringum okkur hér í kirkjunni á fólkið, á orgelið, á altarið. 


Hvítasunna er kölluð hátíð heilags anda, og iðulega er lesin frásögnin úr postulasögunni þegar heilagur andi kom yfir lærisveinana í musterinu í Jerúsalem eins og  eldtungur sem hrísluðust um og þeir töluðu tungum. Þá var það einmitt svo að viðstaddir brugðust ólíkt við: Útlendingar á staðnum heyrðu tungutalið sem væri það þeirra eigið mál og fannst þetta kraftaverk en aðrir viðstaddir heyrðu ekkert slíkt og sögðu Þeir eru fullir! 

 

Og í pistli dagsins heyrum við eina lýsingu á einmitt þessu – að forsendurnar skipta máli til skilnings: 

„Enda segjum við það ekki með orðum sem mannlegur vísdómur kennir heldur með orðum sem andi Guðs kennir og útlistum andleg efni á andlegan hátt. Jarðbundinn maður hafnar því sem andi Guðs boðar, honum er það heimska. Hann getur ekki skilið það af því að andinn veitir skilninginn.“

 

Frásögnin í postulasögunni – þessi með eldtungunum - reyndar ekki eina vísunin í heilagan anda í Biblíunni – og annars staðar er andinn oft mun blíðari. Í Jóhannesarguðspjalli segir Jesú einfaldlega: Meðtakið heilagan anda og andar á lærisveina sína – þessi táknræna gjörð  sem fylgir orðum hans minnir okkur á að á hebresku er orðið yfir anda Rúah, og þýðir líka vindur, eða blær. Í konungabók er frásögn af spámanninum Elía sem beið Drottins: 

Drottinn svaraði: „Far út og gakk fram fyrir auglit Drottins uppi á fjallinu.“ Þá gekk Drottinn þar hjá. Gífurlegur stormur fór fyrir Drottni, svo öflugur að hann molaði fjöll og klauf kletta. En Drottinn var ekki í storminum. Eftir storminn varð jarðskjálfti. En Drottinn var ekki í jarðskjálftanum. Eftir jarðskjálftann kom eldur. En Drottinn var ekki í eldinum. Eftir eldinn kom þytur af þýðum blæ.

Það var einmitt í þessum þýða blæ, í þytinum af þýðum blæ, sem Elía mætti Drottni. 

 

--

 

Rétt eins og vindur getur verið þýður andvari eða öflugur stormur finnum við ólíkar lýsinga á anda Guðs í frásögnum biblíunnar. En alls staðar eru þær þó tengdar lífi, sköpun, krafti gjöfum visku og máttar. Og heilagur andi er andi huggunar – huggarinn, sá sem styður og styrkir og veitir kraft.

 

Við sjáum skáldin lýsa honum á ýmsan hátt. Honum er lýst sem náttúrukrafti eins og er orðað svo vel í upphafssálminum í dag. 

 

Nú dregur arnsúg ofar tindum.

Guðs andi fer í sumarvindum

um heiðageim, um fjöll og fjörð

að frjóvga landsins ríku jörð.

 

En andinn er líka  sem umvefjandi kraftur kærleiks og hlýju í lífi okkar

 

Geisla þú, sál, mót sól þíns lífs og fagna,

sjá, það er vor á jörð sem Drottinn gefur,

vittu það, barn, og vakna þú sem sefur,

vitjar þín andi Guðs og skín um þig,

andar nú sinni elsku inn í þig.

--

Allt sem við höfum lært í lífinu, meðvitað og ómeðvitað, ræður því hvernig við sjáum umhverfið, hvernig við túlkum það sem við sjáum og hvernig við bregðumst við. Trúin hefur þar áhrif – andinn hefur áhrif. Hvað sjáum við þegar við horfum í kringum okkur hér inni? Slangur af fólki – veggi, glugga? Skírnarfont, orgel altari? Eða sjáum við samfélag fólks sem kemur saman til að fagna og til að taka þátt í táknrænni máltíð sem tengir það atburðum sem urðu fyrir 2000 árum – sem tengir það gengnum kynslóðum sem einnig komu saman til slíkrar máltíðar, ár eftir ár, öld fram af öld. 

 

Og þegar við göngum út – hvað sjáum við þá? Sjáum við bílastæði, bíla, götur, hús og garða eða sjáum við lífið og allt sem það býður okkur. Sjáum við anda guðs að verki í sköpun, í rigningu, í sól, í vexti jurtanna, í tísti fuglanna, í leik barna, í önnum fullorðinna. Hvað sjáum við? 

 

Andi Guðs gaf lærisveinunum kjark og kraft fyrir 2000 árum til að bera út boðskapinn um Krist. Andinn veitti þeim nýja sýn á lífið – og á dauðann. Lærisveinarnir, karlar og konur, sáu andann að verki í lífi sínu og umhverfi. Bæn þeirra var að andinn lýsti þeim, auðgaði líf þeirra, veitti þeim leiðsögn – hjálpaði þeim að sjá líf sitt í ljósi Guðs og mæta öðru fólki í sama ljósi. 

 

2000 árum síðar orti trúarskáldið Sigurbjörn Einarsson sálminn sem við sungum áðan og endaði hann á bæn um að þessi andi, sem umvefur allt opni líka augu okkar og verði okkur kraftur.

 

Lýstu mér, sólin hvíta, heita, bjarta,

heilagi andi Guðs og Krists, hans sonar,

uppspretta ljóss og friðar, lífsins vonar,

ljúk mér upp, kom þú, streym þú yfir mig,

anda nú þinni elsku inn í mig.