Fyrirgefningin er ekki tímavél

Fyrirgefningin er ekki tímavél

fyrirgefningin er náð Guðs í mannlegum samskiptum, þar sem fyrirgefning á sér stað milli manna rís Kristur upp frá dauðum, þess vegna er fyrirgefningin aðal uppspretta trúar
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
05. september 2011
Flokkar

Manstu hvernig þér leið þegar þú gerðir fyrstu stóru mistökin í lífi þínu? Manstu skelfinguna, hvernig þú reyndir að greina útgönguleið úr aðstæðunum og hvernig hugurinn vann hratt við að finna skýringar og afsakanir sem gætu lágmarkað skaðann og dregið úr skömm þinni. Ég þekki þessa tilfinningu svo ótrúlega vel, ég get nánast lýst henni og samt kemur það mér alltaf jafn mikið á óvart hvað hún er megn og vond eins og heiftarleg magakveisa, hvernig máttleysið leiðir upp fæturnar og breiðir úr sér við brjóstkassann þannig að hver andardráttur verður að verkefni. Þetta er ekki ósvipað þeirri reynslu og að vera lítill og týnast í mannmergð eða vera foreldri að leita barni við sömu aðstæður, máttleysi og þungi. En svo þekki ég líka léttinn þegar aðstæður skýrast, þegar sannleikurinn rennur upp eins og sól að morgni og fyrirgefningin leikur um mann eins og hlýjir geislar hennar. Það er mesta frelsi sem manneskjan getur fundið, að hljóta fyrirgefningu, fyrirgefningin er náð Guðs í mannlegum samskiptum, þar sem fyrirgefning á sér stað milli manna rís Kristur upp frá dauðum, þess vegna er fyrirgefningin aðal uppspretta trúar. Það er góðst viti að þrá fyrirgefningu, sá sem þráir hagstæða niðurstöðu mála án fyrirgefningar hefur ekkert lært en sá sem þráir fyrirgefningu án vitundar um hverjar afleiðingar gjörða hans verða, er Guðs barn. Öll Guðs börn gera mistök. Fyrirgefningin er ekki tímavél, hún tekur ekki til baka misgjörðir okkar heldur gerir okkur fær um að draga ályktanir af þeim, halda áfram að lifa sem breyttar en betri manneskjur, fyrirgefningin er hrokasuga eins og ryksuga og hún gerir aðra sem á vegi okkar verða heppnari í samskiptum við okkur, vegna þess að við höfum lært til að greiða fyrirgefningunni braut inn í framtíðina. Mesta mein mannkynsins er hugsanlega skortur á sjálfsþekkingu, guðspjall dagsins sýnir okkur slíkan skort, þar kynnumst við faríseanum Símoni sem býður Jesú til máltíðar í húsi sínu og þar sem þeir sitja að borðum kemur kona sem hefur einhverra hluta vegna brotna æru og hún kemur til Jesú með dýrindis smyrsl og hún nemur staðar að baki hans, hún grætur og tárin drjúpa á fætur Jesú en hún þerrar þá með hári sínu, kyssir og smyr svo með ilmandi smyrslum, þessi lýsing er ein af mínum eftirlætis myndum guðspjallanna, þetta er eins og ljóð, svo stór veruleiki í fáum orðum, litla Biblían er nefnilega víðar en í Jóhannesi 3.16, þessi lýsing er líka kjarni fagnaðarerindisins. Við sjáum samfylgd Guðs og manns í þessari mynd, við sjáum mannkynið allt endurspeglast annars vegar í konunni og hins vegar í faríseanum, hver einasta manneskja er þessi kona og þessi farísei, en til þess að geta fundið Guð skynjað nærveru hans, snert fætur hans, fundið ilminn af hörundi hans, þá þurfum við að ganga fram sem þessi kona. Hún var hugrökk, hún átti trú og hún gekk fram í sama anda og Jesús Kristur þegar hann mætti fólki, styrkleiki hennar var fólginn í því að kannast við vanmátt sinn og sýna iðrun í verki. Sumir ritskýrendur hafa túlkað gjörning hennar sem svo að hún hafi ekki haft burði til að orða iðrun sína og þess vegna sýnt hana í verki en ég get ekki tekið undir þau sjónarmið enda ljóst að öll höfum við tilefni til að þjóna náunganum í verki og sýna þannig vilja okkar til verða betri manneskjur. Frásögn Lúkasar sker sig frá frásögnum hinna guðspjallamannanna af þessum atburði, hinir guðspjallamennirnir tengja atburðinn hinstu för Jesú til Jerúsalem og þannig er kjarni sögunnar sá að konan er að smyrja Krist hinstu smurningu og búa hann undir þá þjáningu sem er framundan á krossinum, Markús endar frásögn sína á orðum Jesú þar sem hann segir við nærstadda, sannlega segi ég ykkur; „hvar sem fagnaðarerindið verður flutt, um heim allan, mun og getið verða þess sem hún gerði og hennar minnst;“ ritskýrendur úr hópi kvenna hafa bent á að frásögn Markúsar lyfti upp konunni og gjörningi hennar þar sem hún kemur fyrst og fremst fram sem gerandi en ekki þiggjandi á meðan Lúkas leggur áherslu á að Kristur hafi leyft syndugri konu að snerta sig með jafn ástríðufullum hætti og guðspjall dagsins lýsir. Vissulega sé ég munin á túlkun guðspjallamannanna, munin á konunni sem gengur fram í styrkleika sínum og hinni sem kemur í veikleika og félagslegri afhjúpun en samt talar frásögn Lúkasar mjög sterkt til mín sem manneskju, kannski af því að ég er alltaf að berjast við veikleika mína og vanmátt já og hreinlega vantrú. Ég bað fésbókarvini mína að skrifa hvaða gildi fyrirgefningin hefði í þeirra lífi og hvers hún sé megnug, mér datt í hug að varpa þessari spurningu hér fram í kirkjuna en fólk þarf líka tíma til að hugsa og melta og þess vegna er netið oft ágætt til þess þó svo að það hafi líka sínu augljósu annmarka eins og ég hef áður fjallað um í ræðu og riti. En viðbrögð vina minna létu ekki á sér standa enda fyrirgefningin ein af grunnstoðum sálarinnar. Einn vinur sagði og ég hef það orðrétt eftir: Ég gat ekki sagt orðið ,,fyrirgefðu" fyrr en fyrir ellefu árum. Í staðinn bakaði ég köku eða keypti gjöf handa þeim sem ég hafði sært. Al anon kenndi mér að fyrirgefa og það hefur gjörbreytt lífi mínu. Núna hringi ég í þá sem ég tel mig hafa sært og biðst fyrirgefningar frá hjartanu og það þýðir að sál mín er miklu rólegri og mér líður í alla staði miklu betur. Fyrirgefning er lækning sálarinnar.

Annar sagði: Það má ekki gleyma að fyrirgefning er ekki það sama og að samþykkja. Fyrirgefning er fyrir fólk ekki atburði! Kona getur fordæmt gjörð en á sama tíma fyrirgefið þeim sem hana framdi. Þetta á bæði við það sem maður sjálfur gerir og aðrir. Fyrirgefning er frelsun andans og ef andinn er ekki frjáls þá lifum við ekki því lífi sem við vorum sköpuð til. Og enn annar sagði: Fyrirgefningin veitir frelsi... og getur þannig orðið upphafið að einhverju nýju og öflugu .

Ég á sannarlega hugsandi og gefandi facebookvini sem sanna að það er hægt að tala um sammannlega hluti á netinu, þetta viðfangsefni, fyrirgefningin er líka þess eðlis að við förum inn í innsta kjarna mennsku okkar þar sem kærleikurinn býr og er uppsretta alls þess góða. Orðin í Jóhannesarguðspjalli 3.kafla, 16.versi sem kölluð hafa verið litla Biblían og eru “ því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf” eru orð fyrirgefningarinnar, ástæðan fyrir því að Guð brá á þetta ráð var sú að hann vildi frelsa heiminn undan sekt og skömm, hann vildi verða maður og ganga þér við hlið svo þú hefðir kjark til að koma og gráta við fætur hans eins og konan í guðspjallinu, hún var búin að fatta þetta en ekki faríseinn, þess vegna mun hennar svo sannarlega verða minnst hvar sem fagnaðarerindið er flutt í þessum heimi. Holdtekning Guðs á sér stað þar sem fólk viðurkennir vanmátt sinn og iðrast, þess vegna eru al anon samtökin svona dýrmæt eins og einn facebookvinur minn kemur inn á, þau hafa kennt fjölda fólks að fyrirgefa og biðjast fyrirgefningar, fyrirgefningarinnar vegna, ekki til að fyrirgefa atburði heldur manneskjum eins og annar vinur bendir svo réttilega á, fyrirgefning er svo sannarlega fyrir fólk, ég sé á þessu að ég er heldur heppnari með vini en Job kallinn í Gt, hér eru engar ásakanir né réttlætingar í gangi. Og svo er þetta með frelsið eins og margir bentu á í svörum sínum, Guð kom einmitt inn í þennan heim til að frelsa, þess vegna var Jesús Kristur alltaf að tala um fyrirgefninguna, manstu söguna sem hann sagði um skulduga þjóninn? Hann gat ekki borgað konunginum skuldir sínar sem voru 10 þúsund talentur og hann féll til fóta lánadrottni sínum sagði “haf biðlund við mig og ég mun borga þér allt” og konungurinn kenndi í brjóst um hann og gaf honum upp skuldina en þegar þjónninn kom út hitti hann samþjón sinn sem skuldaði honum hundrað denara og hann greip hann, tók um kverkar honum og hótaði honum öllu illu ef hann borgaði ekki strax og lét síðan varpa samþjóni sínum í fangelsi, þessi saga er dæmi um það þegar fyrirgefningar er ekki beðið fyrirgefningarinnar vegna heldur til að sleppa undan ábyrgð, fyrri þjónninn hafði engar ályktanir dregið og kunni því ekki að greiða miskunnseminni veg. Það er eins og að segjast vera trúaður en láta sig samt ekki annað fólk varða, segjast vera trúaður en þora aldrei að takast á við breyttar aðstæður og annan tíðaranda þar sem ný viðfangsefni, ný mannréttindi og ný samfélagsviðmið verða. Mér þykir vænt um guðspjall dagsins, það er frelsandi. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen