Veraldarhyggja og goðsagan um hlutleysi: Vangaveltur

Veraldarhyggja og goðsagan um hlutleysi: Vangaveltur

Umræða um kirkju og skóla er ekki ný. En samhengi þeirrar umræðu er annað en áður var. Í dag er um að ræða anga af víðtækari umræðu sem lýtur að eðli íslensks samfélags. Sú umræða fer hátt í kjölfar hrunsins og þá er ekki síst spurt um stöðu kristinnar trúar á hinu opinbera sviði.
fullname - andlitsmynd Gunnar Jóhannesson
22. október 2010

1. Inngangur

Töluvert er rætt um ályktun mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar varðandi aðkomu trúfélaga og lífsskoðunarfélaga að leik- og grunnskólum borgarinnar. Nái sú ályktun fram að ganga í óbreyttri mynd virðist tryggt að kirkjan og boðskapur kristinnar trúar eigi sér ekki stað innan veggja skólanna og hafi hvorki bein né óbein áhrif á starf þeirra.

Nú er ekki dregin dula yfir það að hverjum sýnist sitt þegar kemur að tengslum kirkjunnar við skóla landsins. Í lýðræðislegu þjóðfélagi er málefnaleg umræða þar að lútandi eðlileg. En hvað sem því líður tel ég að sú umræða sé gjarnan á villugötum og þær forsendur sem fólk gefur sér misráðnar. Þannig fer hugtakið hlutleysi og trúfrelsi hátt í umræðunni. Þeir sem hæst tala gegn kirkjunni berja sér stundum á brjóst og láta eins og þeir einir séu hlutlausir og frjálsir að trú sinni. Hins vegar má ekki gleyma því að hverjar sem skoðanir fólks í þessi máli eru þá grundvallast þær ævinlega á tiltekinni heimsskoðun sem teflt er fram gegn öðrum heimsskoðunum. Allt tal um hlutleysi er því afskaplega villandi. Þá má ekki gleyma því að trúfrelsi er ekki réttur eins umfram annars. Trúfrelsi gengur ekki í eina átt.

Umræða um kirkju og skóla er ekki ný. En samhengi þeirrar umræðu er annað en áður var. Í dag er um að ræða anga af víðtækari umræðu sem lýtur að eðli íslensks samfélags. Sú umræða fer hátt í kjölfar hrunsins og þá er ekki síst spurt um stöðu kristinnar trúar á hinu opinbera sviði.

2. Veraldarhyggja og krafan um aðgreiningu hins trúarlega og veraldlega

Afhelgun íslensks samfélags hefur óneitanlega vaxið á undanförnum áratugum. Þessi afhelgun er ánægjuefni í huga margra enda telja þeir hana til marks um það umburðarlyndi og hlutleysi sem hverju samfélagi sé nauðsynlegt til að tryggja megi réttlæti og jafnræði meðal þegnanna.

Sú afhelgun, eða veraldarhyggja , eins og hana má einnig kalla, sem einkennir vestrænt samfélag í dag, á sér nokkuð langa sögu sem ekki verður rakin hér. Hins vegar má segja að með henni sé átt við það ferli sem orðið hefur til þess að trúarlegar hugmyndir, stofnanir og túlkanir hafa að miklu leyti glatað samfélagslegri merkingu sinni, gildi og áhrifum. Þótt veraldarhyggja komi fram með ólíkum hætti innan samfélagsins má segja að hún grafi í öllu falli undan samfélagslegum áhrifum trúar. Það einkennir því hið veraldarvædda vestræna samfélag að trú er ekki talin jafn sjálfsagður samfélagslegur þáttur eða áhrifavaldur og áður var – og að sumra mati er trú samfélagslegur skaðvaldur. Að sama skapi láta fleiri en áður sig trú litlu varða og sjá ekki að hún hafi mikilvægu eða nauðsynlegu hlutverki að gegna í nútímasamfélagi, ef nokkru yfirleitt. Þetta hefur vitanlega orðið til þess að þær forsendur sem liggja efahyggju og guðleysi til grundvallar hafa fundið sér æ dýpri bólfestu í formgerð samfélagsins og þar með í vitund fólks.

Íslenskt samfélag hefur vitaskuld ekki verið ósnortið af þessari þróun.

Til marks um það má nefna þá kröfu sem oftar heyrist að allt sem trúarlegt er verði skilið frá hinu opinbera sviði samfélagsins, krafa sem kristallast í umræðunni um kirkju og skóla. Það þýðir með öðrum orðum að trú og trúariðkun skuli einskorða við einkasvið lífsins eða hið persónulega svið. Það sem hefur með trú að gera skal samkvæmt því vera ósýnilegt og hvorki hafa bein né óbein áhrif á hið opinbera svið samfélagsins. Á hinu opinbera sviði verði að gæta fyllsta hlutleysis enda sameiginlegt rými allra. Þú getur verið trúaður heima hjá þér, í einrúmi einkalífsins, innan trúarsamfélags þíns, í kirkjunni þinni, en þar fyrir utan verður þú að skilja þennan þátt lífs þíns við þig.(1)

Slík krafa kemur víða fram – í blaðagreinum, á bloggsíðum, hjá félagasamtökum og stjórnmálahreyfingum. Nærtækt dæmi er stefnuskrá Siðmenntar, félags siðrænna húmanista, þar sem segir á meðal annars:

• Siðmennt lítur svo á að sannfæringarfrelsi, trúfrelsi og tjáningarfrelsi teljist til almennra lýðréttinda. Þau skuli ná til allra og þau megi hvorki afnema né skerða undir neinum kringumstæðum.

• Félagið telur að hið opinbera (ríkið, stjórnkerfið, þingið, dómskerfið, mennta- og heilbrigðiskerfið) eigi að starfa eftir veraldlegum leikreglum og án merkimiða einstakra trúar- eða lífsskoðunarfélaga.

Þessar yfirlýsingar er að finna í einni og sömu greininni en er hér skipt niður til hægðarauka. Þessi yfirlýsing Siðmenntar er líklega lýsandi fyrir viðhorf margra í dag – m.a. mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar að því er virðist. Í því samhengi er athyglisvert að varaformaður Siðmenntar á einmitt sæti í mannréttindaráði Reykjavíkur. En hvað sem því líður er þess virði að skoða þessa yfirlýsingu nánar.

3. Mótsagnakennd krafa

Hvað fyrrnefnda atriðið varðar skal tekið undir það – og enn frekar í ljósi kristinnar trúar. Að sjálfsögðu ber ekki að setja frelsi fólks til skoðana, hugsunar og tjáningar skorður, að svo miklu leyti sem það sé ekki til skaða. Í raun má segja að hér sé um að ræða samfélagslega tjáningu þeirrar sömu virðingar og umhyggju fyrir einstaklingnum og kveðið er á um í tvöfalda kærleiksboðorðinu (Mk 12.30-31) þar sem við erum hvött til að elska náunga okkar eins og okkur sjálf. Það ætti að vera öllum keppikefli að tryggja samfélagslega umgjörð sem gerir fólki kleift að ræða tæpitungulaust kosti og galla ólíkra og mismunandi skoðana og sjónarhorna til lífsins og tilverunnar öllum til hagsbóta.

En þegar litið er til síðarnefnda atriðisins úr stefnuyfirlýsingu Siðmenntar sem hér er vitnað til – þar sem segir í reynd að hið opinbera svið eigi að mótast af „veraldlegum leikreglum“ og vera ósnortið af, þ.e. ekki merkt, einstaka lífsskoðunum og trúarviðhorfum – þá er ekki að sjá að það sé félaginu keppikefli að tryggja slíka umgjörð. Í raun tel ég vandséð hvernig þessi tvö atriði, eins og þau eru sett fram, geti farið saman.

Að standa vörð um og leggja áherslu á rétt fólks til trúfrelsis en setja það því næst á bás einkalífsins er afar einkennilegt, enda eru trúfrelsinu með því settar skorður og það takmarkað að verulegu leyti. Þetta jafngildir því að segja að fólki sé frjálst að iðka frelsi sitt til trúar en einungis innan þeirra marka sem því eru sett. En það er þá vitanlega ekki frjálst í réttri merkingu. Þegar sagt er „Þú ert frjáls en aðeins upp að því marki sem ég segi“ er um mótsögn að ræða. Trúfrelsi felur ekki eingöngu í sér rétt til að tjá og iðka trú sína á hinu persónulega sviði einkalífsins heldur einnig á vettvangi hins opinbera lífs.

4. Enginn maður er án trúar

Hér komum við einnig að mínu mati að rótum þess hvers vegna guðleysingjar eru svo mótfallnir því að viðhorf þeirra séu álitin trúarleg í nokkrum skilningi. Þeir telja að það sem eigi við um trúaða eigi ekki við um sig enda séu þeir ekki trúaðir þar sem „Guð“ eða „hið yfirnáttúrulega“ eigi sér engan stað í lífsviðhorfi þeirra. Þeim séu því ekki sömu skorður settar og þeim sem trúaðir eru. Þegar sagt er að hinn trúaði maður þurfi að fara í felur með viðhorf sín á opinberum vettvangi er látið að því liggja að guðleysinginn hafi ekkert að fela og megi koma til dyranna eins og hann er klæddur. Að vera ekki trúaður er því nokkurs konar núllpunktur sem allt skal miðað við og lagað að.

En ekkert er auðvitað jafn fjarri lagi eins og allir sjá þegar þeir hugsa um það. Guðleysi felur ekki í sér eitthvert tómarúm, viðhorfsleysi eða afstöðuleysi.

Staðreyndin er sú að allir hafa tiltekna sannfæringu sem þeir byggja líf sitt á. Allir hafa tiltekna heimsskoðun (e. worldview) eða lífsskoðun. Allir leitast við að svara þeim grundvallarspurningum sem lífið vekur í huga og hjarta sérhvers manns – spurningum um uppruna og tilgang, merkingu og siðferði, örlög og afdrif. Í gegnum þau svör mótar fólk sér heimsskoðun sem hefur grundvallaráhrif á allt líf þess. Fólk getur haft litla sem enga hugmynd um eigin heimsskoðun og hún getur verið illa ígrunduð, en það breytir því ekki að allir, hvort sem þeir vita það eða ekki, hafa tiltekna heimsskoðun. Í raun getur fólk ekki annað en haft heimsskoðun. Heimsskoðun er eins og gleraugu sem við setjum á okkur og virðum og túlkum lífið og tilveruna með. Í gegnum heimsskoðun okkar sækjum við skilning okkar á lífinu og túlkum upplifun okkar og reynslu af því. Heimsskoðun getur verið af margvíslegum toga en grundvallandi þáttur í hverri heimsskoðun er sú afstaða sem tekin er til Guðs eða hins yfirnáttúrulega, þ.e. til hinsta eðlis veruleikans. Á grundvelli þess hvernig við svörum spurningunni um Guð byggjum við svör okkar við öllum öðrum spurningum lífsins. Heimsskoðun er því annað hvort veraldleg, þ.e. guðlaus, eða byggð á einhverskonar guðstrú.

Og hvort tveggja, guðstrú og guðleysi, er „trú“ í eiginlegri merkingu enda er í báðum tilvikum um að ræða „sannfæring[u] um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá“, svo gripið sé til biblíulegs orðalags (sbr. Heb 11.1), og það sem fólk leggur traust sitt á og lagar líf sitt að. Spurningin hvort sé stutt betri og skynsamlegri rökum, guðstrú eða guðleysi, er svo önnur spurning sem nauðsynlegt er að spyrja og svara þótt ekki verði það gert í þessari grein.

En í þessu ljósi má sjá hversu fráleitt það er að ætlast til að kristið fólk skilji við sig þann hluta mennsku sinnar sem trú þess er og láti sem hún sé ekki til utan vébanda einkalífsins. Það er eins og að banna fólki að horfa, hlusta, tala, og hugsa. Þú getur allt eins hugsað þér að líta í spegil og sjá þar enga spegilmynd. Heimsskoðun fólks og innsta sannfæring, það sem gefur lífi þess merkingu og gildi, er ekki einn aðskilinn þáttur af mörgum í lífi þess heldur það sem rammar inn allt lífið og fellir það saman í eina merkingarbæra heild. Það á jafnt við um guðleysingja og guðstrúarmenn.

5. Viðhorf sem fellur um sig sjálft

Hvað sem öðru líður ætlast guðleysingjar ekki til hins sama af sjálfum sér og fólki sem er guðstrúar. Við hljótum að spyrja hvort sú krafa, að „hið opinbera (ríkið, stjórnkerfið, þingið, dómskerfið, mennta- og heilbrigðiskerfið) eigi að starfa eftir veraldlegum leikreglum og án merkimiða einstakra trúar- eða lífsskoðunarfélaga“, sé runnin af rótum tiltekinnar heimsskoðunar? Að sjálfsögðu er hún það! Og hér er henni teflt fram á kostnað annarra heims- eða lífsskoðana. Er sú krafa sem fram kemur í stefnuyfirlýsingu Siðmenntar til marks um hlutleysi? Nei. Að sjálfsögðu er hún grundvölluð á tiltekinni sýn á lífið og tilveruna, ákveðinni afstöðu eða viðhorfi, þ.e. heimsskoðun eða lífssýn, rétt eins og allt sem við hugsun og segjum. Öll stefna Siðmenntar grundvallast á tiltekinni heimsskoðun sem er í eðli sínu veraldleg, þ.e.a.s. heimsskoðun sem hafnar hinu yfirnáttúrulega. Eins og segir í stefnuyfirlýsingu félagsins grundvallast starfsemi þess á „lífsviðhorf[i] óháð trúarsetningum“.(2) Og eftir þeim „leikreglum“ skal starfa á hinu opinbera sviði, eftir því sem segir í yfirlýsingu félagsins.

Það sem Siðmennt er að fara fram á, – líkt og aðrir sem eru sömu skoðunar – enda þótt það sé ekki sagt með beinum hætti, er að hið opinbera svið eigi eingöngu að bera vitni um þá heimsskoðun sem félagið sjálft stendur vörð um. Það sem svífa skal yfir vötnum samfélagsins er fyrst og fremst hin þögla ásjóna guðleysis og/eða efahyggju. Hið trúarlega skal ekki fá neitt rými. Við hljótum að spyrja hvað standi eftir þegar hinu trúarlega hefur verið útilokað af hinu opinbera sviði? Í raun er verið að segja: Opinberlega á samfélagið að bera svip af „okkar“ viðhorfum. Það eru „okkar“ viðhorf sem eiga að móta og hafa áhrif á hið opinbera svið og þar með allar opinberar stofnanir, ekki síst skóla landsins. Það skal steypa samfélagið í það mót sem „okkur“ líkar og fellur best að „okkar“ skoðunum. Þessu er haldið fram í kjölfarið á ítrekun þess efnis að „sannfæringarfrelsi, trúfrelsi og tjáningarfrelsi teljist til almennra lýðréttinda“ sem „ná[i] til allra“ og megi ekki skerða undir neinum kringumstæðum. Þegar allt kemur til alls virðast þau réttindi ekki jafn almenn og látið er liggja að; enda skal farið í felur með allt trúarlegt þegar kemur að hinu opinbera sviði og láta sem það sé ekki til. En ef það er gert hvert verður þá yfirbragð samfélagsins? Hlutleysi? Jafnrétti? Umburðarlyndi? Nei, sannlega ekki. Samfélag sem lágmarkar eða útilokar opinberan sýnileika trúar er alls ekki hlutlaust samfélag heldur einfaldlega samfélag sem lágmarkar opinberan sýnileika trúar, og ber þess í stað óhjákvæmilega vitni um veraldlega heimsskoðun hvort sem það er yfirlýst ætlun þess eða ekki.

En í ljósi þess að krafa Siðmenntar er um að hið opinbera svið sé ósnortið af einstaka lífsskoðunum á það vitanlega einnig við um þá lífsskoðun sem Siðmennt byggir starfsemi sína og kröfur sínar á. Siðrænir húmanistar geta ekki undanskilið eigin heimsskoðun hvað það varðar. Að öðrum kosti eru þeir í mótsögn við sjálfa sig. Að segja að opinberlega skuli samfélagið vera veraldlegt í eðli sínu en jafnframt óháð lífsskoðunum er merkingarleysa. Þetta sýnir vitanlega að krafa Siðmenntar fellur um sig sjálfa. Í henni felst í raun að Siðmennt hefur engan rétt til að krefjast þess að kristin trú verði útilokuð af hinu opinbera sviði. Krafa Siðmenntar reynist merkingarlaus hvort sem fallist er á hana eða ekki. Á hvorn veginn sem er á veraldleg heimsskoðun – eða leikreglur, eins og það er orðað – ekkert sérstakt tilkall til hins opinbera sviðs.

6. Frelsi hverra?

Hverju sem þessu líður er það auðvitað svo að það samfélag er óhugsandi sem ekki ber vitni um einhverja eða einhverskonar lífsskoðun sem byggt er á, hvort sem hún fer leynt eða ljóst. Hún getur verið veraldleg, trúarleg eða blanda af því tvennu, ógreinileg eða samsett úr ólíkum þáttum úr ólíkum áttum. En samfélag sem endurspeglar ekki viðhorf þeirra sem samfélagið samanstendur af, þ.e. fullkomlega hlutlaust samfélag, er blekking. Að gera kröfu um að samfélag endurspegli enga heimsskoðun er fráleitt. Við getum eins reynt að sjá fyrir okkur samfélag manna án andlits, án orða, án hugsana, án tilfinninga – einskismannssamfélag, ef svo má segja.

Hvar stöndum við þá?

Hér skal tekið undir það að hinu opinbera skal ekki vera stjórnað á tilteknum trúarlegum forsendum sem eru bindandi fyrir alla þegna. En undir þær „forsendur“ falla auðvitað ekki eingöngu heimsskoðanir eða lífsviðhorf sem byggja á guðstrú heldur einnig þær sem grundvallast á guðleysi. Slíkt samfélagslegt fyrirkomulag er í raun kristið í eðli sínu enda má lesa það út úr orðum Jesú Krists, sem sagði: „Gjaldið keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er.“ (Mark 12.17)

En af því leiðir alls ekki að „trú“ og hið „trúarlega“, eins og það er venjulega skilið, eigi ekki vera sýnilegur þáttur í samfélaginu, eða eigi ekki að fá að láta til sín taka á opinberum vettvangi þess og hafa þar áhrif.(3) Að girða „trú“ og hið „trúarlega“ af með einhverjum hætti, gera það hornreka í samfélaginu, og leitast við að þagga niður rödd þess, eins og lesa má út úr yfirlýsingu Siðmenntar (og ályktun mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar), gengur þvert á allar hugmyndir um frelsi manna til sannfæringar, skoðana, trúar og tjáningar. Slíkt er, þegar allt kemur til alls, tilraun til að svipta fólk þeim réttindum, með það að marki að gera eigin skoðunum og viðhorfum hærra undir höfði og skipa þeim í öndvegi innan samfélagsins.

7. Grundvöllur raunverulegs frelsis

Ef kristið fólk lætur ýta sér og trú sinni út af hinu opinbera sviði og lætur telja sér trú um að það sé fyrir, skapast raunveruleg hætta á að það renni saman við þau viðhorf og áhrif sem móta umhverfi þess og samfélag að öðru leyti og virðast viðtekin og sannfærandi. Afleiðingar þess eru, þegar allt kemur til alls, trú sem ristir grunnt og Kristur sem er aðeins skugginn af því ljósi sem honum ber að vera í lífi hins trúaða.

Í fjallræðu sinni minnir Kristur á að menn kveikja ekki ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku svo það lýsi öllum í húsinu. Að sama skapi ber okkur að láta ljós okkar lýsa meðal mannanna (sbr. Matt 5.15-16). Í huga kristins manns er Kristur sjálfur ljós heimsins og lífsins. Með þessum orðum er kristið fólk minnt á að trú þess á að vera hluti af lífinu öllu ekki aðeins hluta þess.

Að skorða fólk af eða takmarka það í þeim efnum getur aldrei samrýmst því viðhorfi að „sannfæringarfrelsi, trúfrelsi og tjáningarfrelsi“ teljist til almennra lýðréttinda sem beri að standa vörð um. Sú hugmynd að raunverulegt frelsi og réttindi séu til felur í raun í sér að til sé algilt siðalögmál sem standi ofar ráðandi viðhorfum og skoðunum hvers tíma. Siðferðileg sjálfshyggja getur því aldrei samrýmst lýðræði. Ef það er ekkert innbyggt siðalögmál í huga og hjarta mannsins snýr sérhvert samfélag sér einfaldlega í þá átt sem ríkjandi viðhorf benda. Og án algilds siðalögmáls hverfur grundvöllur fólks til að tefla viðhorfum sínum fram sem réttum eða sönnum.

Sú hugmynd að maðurinn hafi mannréttindi og raunverulegt frelsi og gildi fellur betur að þeirri heimsskoðun sem grundvallast á tilvist Guðs sem skapara er stendur utan og ofan við sköpun sína en hefur sett henni tiltekið lögmál, heldur en guðlausri heimsskoðun þar sem maðurinn hefur sjálfdæmi þegar kemur að góðu og illu, réttu og röngu, og mótar hugmyndir sínar um frelsi og réttindi í deiglu tíðarandans hverju sinni.

___________________________

(1) Þessi þróun er mjög langt gengin víða í Evrópu. Þannig vakti það mikla athygli árið 1999 í Bretlandi, svo dæmi sé tekið, þegar Glenn Hoddle, sem þá var þjálfari enska landsliðsins í knattspyrnu, var rekinn úr starfi fyrir að láta hafa eftir sér ummæli er lutu að trúarlegum viðhorfum hans og ýmsum þótti mjög umdeild. Annað dæmi má nefna þegar starfsmanni British Airways var bannað að láta sjást í kross er hann bar um hálsinn þegar hann var við vinnu. Starfsmaðurinn skaut máli sínu til dómstóla en tapaði.

(2) Hins vegar er það svo að Siðmennt, þótt félagið gangist sennilega aldrei við því, fylgir vissulega „trúarsetningum“, þ.e. tilteknum staðhæfingum eða viðhorfum, sem grundvalla þá heimsskoðun sem félagið byggir starfsemi sína á – m.a. þær athafnir sem það stendur fyrir.

(3) Í þessu samhengi má nefna skýrslu Evrópuráðsins frá 8. júní 2007: „State, religion, secularity and human rights“, þar sem slíkum viðhorfum er réttilega haldið til haga.