En hann sagði þessa dæmisögu: Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að spilla jörðinni? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár, þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp. Lúk. 13:6-9
Gamlárskvöld. Áramót. Gamalt ár og nýtt mætast. Hið gamla geymir söguna, og allt sem við vorum, hið nýja býr yfir framtíðinni, sem enginn veit neitt um. Við erum svo hér í kvöld og maður er eitthvað undarlegur innan um sig á slíkri stundu, þegar áraskiptin nálgast. Spennan í loftinu er af því að okkur líður þannig. Við þurfum svolítinn sprengikraft til þess að losa um og ganga mót nýjum tíma, nokkrar rakettur og púðurskot. En það er líka undarlegt að yfirgefa eitt ár enn, skilja það eftir, brenna það upp og segja, þá er það búið. En þetta er víst ekki svona einfalt. Maður hleypur ekki frá neinu. Tíminn verður ekki yfirgefinn. Hann fylgir okkur og við honum. Ef til vill er ekkert jarðneskara en tíminn. Tíminn mælir hvert fótmál, hvern hjartslátt, hvert andartak og við reynum að ganga í takt við hann. Stundum er eins og hann ætli aldrei að líða og fyrir litlum barni, sem bíður jólanna er hann býsna hægfara. Fyrir þeim, sem þýtur um í erli dagsins, er háð kapphlaup við tímann og það er eins og ekki náist neitt vald yfir honum; við spennumst upp. En hvort heldur sem er, bið eftir eftirsóknarverðri gjöf eða spretthlaup eftir ávinningi lífsbaráttunnar þá fer tíminn sinn gang og telur yfir okkur ár og daga, allt þar til yfir lýkur. Og hvenær verður það?
‘Hví andvarpar maðurinn alla ævi?’ er spurt í Harmljóði dagsins.
Dulúð þessa kvölds liggur í því að við skynjum aldrei betur, að allt hefir sinn tíma og allt hefir sín takmörk. Jafnvel hinn fullfríski, fulltíða, sterki einstaklingur, sem hefur allt, - heilsu, menntun, möguleika, skilur að allt er takmörkum háð. Það er skrýtin tilfinning og áleitin.
Texti þessa kvölds, þar sem Jesús tekur okkur með sér að einu vesælu fíkjutré er nokkuð sláandi svo ekki sé meira sagt. Við stöndum þarna í kring um hann og lítum á lifandi tré, sem á óvissa framtíð fyrir sér. Spurt er: Á það skilið að lifa? Við erum sett í dómarasæti með honum og við horfum á það, höfum þær upplýsingar að í tilvist sinni hefur það ekki borið mikinn ávöxt og það er spurning um framhald. Skal hér öxin dregin fram og það höggvið eða er önnur leið til? Jesús líkir sjálfum sér við tré og í hans munni erum við greinar á því tré. Tréð er þá táknmynd eigin lífs. Þannig talar Jesús gjarnan í dæmisögum sínum og líkingasögum. Í þessari dæmisögu er hann þá líklega að stilla okkur upp frammi fyrir eigin lífstré, eigin mynd, eigin sögu. Allt er það sett undir mæliker, spurt er um ávöxt og spurt um framtíð. Er þetta á setjandi?
Það er mikil blessun, að Jesús skuli gefa því eitt ár enn. Í því felst slíkt lausnarorð, að við megum bæði gleðjast og þakka. Sjálfsagt er Jesús að minna okkur á að allt er af Guði gefið, allt er frá honum komið og við sitjum uppi með þá ábyrgð að finna þeirri gjöf framgang og láta hana bera ávöxt í sjálfri sér. En sá ávöxtur blasir ekki við. Hér þarf sérstaka skoðun, aðhlynningu, umönnun. Þetta einstaka tré þarfnast næringar, umhyggju og þeirrar alúðar, eins og allt það sem lifir kallar á.
‘Rannsökum breytni vora og prófum...’ segir Harmljóðið.
Það er stundum freistandi að höggva, fella tré. Þá er það úr sögunni og veldur ekki neinum vandræðum meir, sýgur ekki meiri næringu úr jörðinni frá hinum trjánum, skyggir ekki lengur á sólina og varnar ylsins. Já, það er freistandi að fella erkiþrjót eins og Saddam Hussein og það hefur verið tiltölulega auðvelt að sannfæra viðkomandi ráðamenn um að það sé hið besta ráð. En samkvæmt því sem Jesús segir, er hjálpræðið ekki fólgið í því. Heimurinn batnar ekki af því að fella skúrkana. Hann batnar aðeins, ef okkur tekst að hjálpa skúrkunum, eins og öllum öðrum mönnum, til að verða betri einstaklingur en hann er, með því að hann fái kjark til þess að ganga í sig og þori að mæta sjálfum sér og iðrast. Hér þarf einhver að koma til. Og það er haft í eintölu af ásettu ráði, vegna þess að allt veltur á einum hverjum. Kennarinn er áhrifamikill, læknirinn einnig, sálfræðingurinn kann ýmsar aðferðir. Þjóðfélagið býr vel að menntuðu fólki og það er mikil von um betri framtíð fólgin í því. En hver vill taka að sér skúrkinn? Hver vill breyta heiminum. Hver vill ganga á bak við rimlana og leita uppi ávaxtalaust fíkjutré, veita að því vatninu, færa því svölun og andlega næringu. Hver vill fara suður í Togo og leita uppi foreldralaus börn og gefa þeim von, eitt ár enn? Hver vill breyta heiminum á eigin forsendum, á eigin verðleikum? Efniviðurinn er nægur, atgerfið fullnægjandi, viljinn, já viljinn er til staðar, en traustið á framganginn er veikt.
Og við hér á Íslandi grípum til púðursins yfir svo nærgöngulum spurningum tímamótanna. Við skulum þó vera ánægð og þakklát yfir því, hvernig við notum púður og sprengiefni. Hver veit nema umheimurinn geti af því lært. Gamlárskvöld á Íslandi er lexía í því, hvernig á að meðhöndla púður. Fyrst eru keyptar púðurbirgðir til landsins, sem í öðrum löndum væru settar í stórar fallbyssur sem brjóta niður hús og drepa fólk. Við seljum þessar birgðir landsmönnum. Svo fær almenningur að nota púðrið, setur upp fjölskylduveislu og skýtur öllu saman upp í loftið til að minnast liðins árs og sjá framtíð hins næsta sem í skuggsjá. Við kveðjum hið liðna og fögnum komandi tíð. Svo söfnum við saman gróðanum og sendum hann til björgunarsveitanna, sem í öðrum löndum eru hersveitir. Þeir vösku björgunarsveitarmenn segjast lifa á púðrinu, en hér er það ekki notað í drápstól og landsmenn geta treyst því að þeir sveitarmenn muni birtast, þegar eitthvað bjátar á, til hjálpar og björgunar, og draga ekki af sér. Er það ekki næsta freistandi og eðlilegt að kaupa af þeim nokkrar rakettur. Lýsa svo upp himinhvolfið og minna okkur á mikilvægi himins og ljóss í lífi jarðarinnar.
Við kveðjum liðið ár. Leggjum það til hliðar. En það verður ekki skorið af lífssögunni og við munum aldrei geta hlaupið frá fortíðinni. Það er jafn lítið gagn í því að klippa burt söguna, eins og að skjóta skúrk. Þetta veit Jesús og enginn hefur kennt okkur meir um það, hvernig á að takast á við eigin sögu. Hvernig maður horfist í augu við sjálfan sig á jafn áþreifanlegan hátt og maður horfir á fíkjutré dæmisögunnar.
Hlýðum á stutt samtal: ‘Viltu lifa?’ “Já, ég vil lifa, en hvernig á ég að bera ávöxt í lífi mínu?” ‘Þú þarft að fara yfir söguna, skyggnast um liðið ár, eða tvö, kannski fleiri. Þá finnur þú út hvað og hverjum þú þarft að fyrirgefa.’ “Fyrirgefa? Það er erfitt. Hvernig get ég það?” ‘Fyrst þarftu að læra að iðrast.’ “Iðrast?” ‘Já, iðrast. Að iðrast er að rannsaka breytni sína, prófa sig frammi fyrir dómaranum, setja sig í rótarspor fíkjutrés, hlusta, finna fyrir því sem hrærist innra með okkur, leita þess er maður væntir, vega og meta, og skilja, að ekkert skiptir meira máli en að geta fyrirgefið, - þess vegna verður maður að breyta, breyta sjálfum sér, og þú munt komast að því að vonin verður sterkari og framtíðin bjartari.’ “Nú, lagast þá allt?” ‘Já, mjög margt mun lagast, aðallega þó þín eigin líðan og þú munt sjá, að viðmót fólks gagnvart þér mun breytast og verða bæði betra og skemmtilegra.’ “Fæ ég þá örugglega að lifa eitt ár enn, eða lengur?” ‘Því lofa ég ekki, það veit enginn, enginn nema Guð. Allt okkar líf er undir náð hans komið. En þú munt eignast meiri fullnægju í lífi þínu, finna fyrir minni kvíða, meiri gleði, minni ótta, meiri hamingju og þú munt vakna í eftirvæntingu til hvers nýs dags, af því að lífið hefur öðlast meiri tilgang og þú hefur losnað úr álögum sögunnar, -losnað úr fjötrum eigin hugsana.’ “En hvernig er það, er enginn sem biður mig fyrirgefningar?” ‘Hver veit. Kannski kemur einhver þeirra erinda. Vonandi verður þú tilbúinn að taka því.’
Við heyrum víst ekki meir af þessu samtali. Það eru ekki gerðar neinar kröfur um að þú trúir því heldur. En það er vísbending um það, hvernig við skyggnumst um sali eigin hugsana, lesum á bók atburða, horfum til samferðamanna og þreifum á verund þeirra tilfinninga, sem stríðum við.
Von morgundagsins býr í hugsun minni, en hún á allt sitt undir náð. Náð Guðs. Ég bið þess að vonin og náðin eigi samleið enn þetta ár.
Í sögunni um fíkjutréð dregur Jesús okkur inn í heim fyrirgefningarinnar. Hann þekkir þá veröld býsna vel. Hann er fyrirgefningin.
Góður Guð blessi liðið ár, liðna sögu og leiði okkur öll inn á tímaslóð nýs árs . Megi það færa okkur frið og blessun, nýjar vonir og nýja náð hvern nýjan dag. Gleðilegt ár í Jesú nafni. Amen.