Láttu hug þinn aldrei eldast eða hjartað

Láttu hug þinn aldrei eldast eða hjartað

Í nútímanum er mikið talað um hamingjuna. Öll viljum við jú, lifa hamingjuríku lífi. Eftir því sem ég sjálf verð eldri er ég sannfærð um það að jákvætt hugarfar hafi mikil áhrif á líðan okkar svona dags daglega.

Prédikun á uppstigningardag 13. maí 2010. Mk. 16.14-20.

Við skulum biðja:

Lát þitt helga líf mig næra, lyfta mér og nær þér færa, láttu kærleikslogann þinn lífga hug og sál og vilja minn. Amen.

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður okkar og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Uppstigningardagur er þýðingarmikill dagur í kirkjuárinu. Það er sá dagur sem markar endalok í ákveðinni atburðarrás frá fæðingu Jesú til þess tíma er hann steig upp til himna.

Uppstigningardagur er 40 dögum eftir páska. Og þá hefst undirbúningur þriðju stórhátíðarinnar nefnilega Hvítasunnu. Jesús steig upp til himna, ekki til að yfirgefa þennan heim og þessa jörð, heldur til að geta verið alls staðar nálægur. Jesús sagði: Ég mun vera með ykkur alla daga, allt til enda veraldar. Já, Jesús er hjá okkur öllum alla daga, alls staðar.

Uppstigningardagur hefur í seinni tíð verið helgaður öldruðum í kirkjunni. Sá dagur er í dag. Aldraðir hafa tekið þátt í starfi kirkjunnar allt frá fyrstu árum frumkirkjunnar og einmitt á þeim tíma þegar kirkjan var að mótast og vaxa. Enda býr eldra fólk yfir mannauði og visku. Mörg af þeim sem eldri eru búa yfir víðsýni og reynslu sem leiðir til þess að þau sjá oft farsælar leiðir til lausnar.

Ég var að spjalla við aldraðan vin minn sem sannarlega hefur lifað fjölbreyttu og margan hátt mjög innihaldsríki lífi. Ég sagði honum frá því að ég væri að undirbúa prédikun og messan væri einmitt á degi aldraðra í kirkjunni. Hann spurði mig þá : Segðu mér, hvað segir Biblían, sú helga bók til að mynda um aldrað fólk? Samtalið varð síðan til þess að ég fór að skoða sérstaklega hvað Biblían segir um aldraða. Í Gamla testamentinu kemur glöggt fram að það er mikil virðing borin fyrir þeim sem eldri eru. Reyndar kemur orðið aldraður ekki oft fyrir í Ritningunni sjálfri heldur er oftar sagt frá gömlum mönnum og gömlum konum. Í einu af ritum Gamla testamentisins lýsir Jósúa sjálfum sér, en hann var eftirmaður Móse, þannig að hann sé gamall og aldurshniginn.

Gamla testamentið notar gjarnan myndmál þegar verið er að lýsa einstaklingi sem kominn er til ára sinna. Myndmál eins og að vera grár fyrir hærum, eða viðkomandi sé saddur lífdaga. En það sem einkennir umfjöllun Gamla testamentisins er að það eigi að bera virðingu fyrir þeim sem eldri eru. Sú hugsun að á langri ævi öðlist manneskjan lífsreynslu, andlegan þroska og visku. Í Jobsbók segir: “Hjá öldruðum mönnum er speki og langir lífdagar veita hyggindi”. Við eigum að sjálfsögðu að hafa þetta í huga að viska og reynsla þeirra sem eldri eru, berst kynslóð fram af kynslóð og er samfélagi okkar sannarlega dýrmædd. Ég held samt sem áður að okkur hætti til að vanmeta það. Í okkar samfélagi höfum við verið of upptekin af æskudýrkun og æskuljóma. Hagsæld er ekki það sama og farsæld, eins og svo margir hafa haldið á undanförnum árum, sérstaklega þau sem yngri eru. En kannski er þetta að breytast nú í ljósi aðstæðna og breyttra tíma. Nú þurfum við að horfa til gömlu gildanna. Þetta heyri ég víða í dag. Gildanna sem eldri kynslóðir hafa lagt upp úr, eins og heiðarleika, hófsemi, visku og hugrekki. En það er til ágætur málsháttur sem segir: “Ungir til dáða, gamlir til ráða. Ég sagði áðan að það kemur fram í Gamla testamentinu að það er borin virðing fyrir þeim sem eldri eru. En virðing er auðvitað þýðingamikil í öllum mannlegum samskiptum. Við þurfum að rækta með okkur virðingu vegna þess að það er forsenda góðs samfélags. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að virðing er ekki meðfæddur eiginleiki heldur numin eins og aðrar dyggðir.

Ungur nemandi spurði kennara sinn: Hvernig sýnum við öðrum virðingu? Kennarinn svaraði: Virðing felst í því að hafa jafnmikinn áhuga á velferð annarra og sinni eigin. Er þetta kannski sú dyggð sem við þurfum að minna hvert annað á, í nútímanum? Við eigum að bera umhyggju fyrir hvert öðru. Minna hvert annað á það að við erum öll sköpuð í Guðs mynd. Sömuleiðis í bréfum Nýja testamentisins, sérstaklega í svokölluðu hirðisbréfum, má finna nokkra staði þar sem ellin er til umræðu. Eins og í Gamla testamentinu er sá hugsunarháttur að það eigi að bera virðingu fyrir þeim sem eldri eru.

Og í Síraksbók sem er eitt af spekiritunum segir: Vanvirtu ekki neinn sem elli beygir, ýmsir af oss munu einnig eldas(8.6).

Ég hef í starfi mínu sem prestur á Hrafnistu í Reykjavík og á Vífilsstöðum kynnst mörgu heimilisfólki sem hefur sannarlega upplifað ótrúlegar breytingar á flestum sviðum mannlífsins. Aldrei áður hefur atburðarrás Íslandssögunar, verið svo hröð sem í okkar samfélagi. Sum hver eru fædd áður en fyrri heimsstyrjöldin skall á. Á þessum tíma var Ísland án flestra þeirra lífsþæginda sem okkur þykja svo sjálfsögð í dag. Lífgæði og lífsþægindi voru með allt öðrum hætti en við þekkjum. Eins og t.d. rafmagni, vatnsveitu, skolplagna, eða vélknúinna ökutækja, hvað þá flugvéla eða tölvutækninnar. Á þessum tíma dreymdi menn og konur dagdrauma um að leggja járnbrautir á Íslandi og skeggræddu um það hvort stofna skyldi ritsíma. Ef fólk vildi ferðast landleiðina hér áður fyrr var einungis um tvo möguleika að ræða, annað hvort var ferðast um á hestbaki eða á “hestum postulanna”, það er að segja á tveimur jafnfljótum. Samgöngur milli landa átti aldeilis eftir að breytast þegar flugvélar komu til sögunnar.

Eftirminnilegt er samtal sem ég átti við aðstandendur sem áttu góðar minningar um kærleiksríka foreldra. Þau sögðu frá því að foreldrar þeirra höfðu sennilega farið í sína fyrstu utanferð fyrir rúmri hálfri öld. Það háttaði þannig til að foreldrar þeirra flugu utan ásamt systrum og mágum. Reyndar var það þannig að eiginmennirnir flugu út í sömu flugvél síðan komu eiginkonurnar saman og flugu út daginn eftir. Eins og þið heyrið tortryggði fólk á þessum tíma flugsamgöngurnar. Það þótti ekki heppilegt á þeim tíma að hjón færu saman í flugvél ef eitthvað myndi koma fyrir, þá yrðu börnin sem heima voru, bæði föður og móðurlaus. Síðan sigldi hópurinn heim á sama skipi. Ég spurði afkomendurna hvort að foreldrar þeirra hafi þá ekki haft áhyggjur af því að vera samskipa. Svarið sem ég fékk var: Nei, þau voru jú öll synd! Eins og þið heyrið var húmorinn í þessari fjölskyldu í hávegum hafður. Húmorinn er ótrúlega mikið afl og lækningarmáttur hlátursins er mikill og við eigum aldrei að vanmeta kímnina. Ég heyrði einu sinni sagt að hláturinn væri eins og smyrsl á sálina. Það er mikilvægt að geta hlegið saman, séð spaugilegar hliðar hversdagsleikans og einnig það að hafa gaman af ólíku fólki. Allt verður svo miklu auðveldara ef okkur tekst að eiga gleðistund á hverjum degi og sjá hinar broslegu hliðar mannlífsins.

Upprisan er merki vonarinnar. Hún markar upphaf að nýjum tíma. Við getum skilið hana í ljósi samtíma okkar sem skilaboð um endurreisn og endurnýjun. En það eru þessi hugtök sem við heyrum mikið talað um í dag. Ástandið sem við búum við ítrekar mikilvægi orðsins samkenndar. Við, sem manneskjur eigum að standa saman. Við eigum mörg falleg orð í okkar íslensku tungu sem byrja á forskeytinu sam, eins og samstarf, samhyggð, sameiginlegt, samhjálp, samvinna, samkennd og samlíðan. Og samlíðan er fallegt orð sem felst í því að geta sett sig í spor annarra, gleðjast með glöðum og finna til með öðrum manneskjum. Páll postuli lagði áherslu á það við samferðafólk sitt að kærleikurinn væri mestur og að kærleikurinn muni aldrei falla úr gildi.

Mannshugurinn er ákaflega flókinn og öflugur, miklu meir en við gerum okkur grein fyrir, samt stjórnast líf okkar af því hvernig við hugsum. Við getum á margan hátt haft vald á hugsunum okkar og einmitt þessi hæfileiki gerið okkur að manneskjum. Er það ekki líka þannig að hamingjusamir eru þeir einir, sem beina hug að öðru marki en hamingju þeirra sjálfra? Munum eftir því að hver dagur er gjöf frá Guði og við höfum möguleika til að gefa þá gjöf áfram til annarra og einnig að þiggja eins af öðrum.

Jesús sagði: “Því hvar sem fjársjóður yðar er, þar mun og hjarta yðar vera. “ Það er mikilvægt að við sem manneskjur opnum hjarta okkar, því fyrr getum við ekki snert hjörtu annarra. Í bókinni um Litla prinsinn sem sannarlega á erindi við okkur í dag, segir refurinn við drenginn: Hér er leyndarmálið. Það er mjög einfalt: maður sér ekki vel nema með hjartanu. Það mikilvægasta er ósýnilegt augunum. Sagan um litla prinsinn er saga um vináttu og söknuð. Í þessari stuttu sögu liggur mikil speki sem auðvelt er að hrífast af. Boðskapurinn í bókinni um litla prinsinn sem lagði á sig ferðalag frá litlu plánetunni sinni til jarðar, hittir lesandann í hjartastað.

Oft veltum við fyrir okkur hvert sé gildi lífsins? Í nútímanum er mikið talað um hamingjuna. Öll viljum við jú, lifa hamingjuríku lífi. Eftir því sem ég sjálf verð eldri er ég sannfærð um það að jákvætt hugarfar hafi mikil áhrif á líðan okkar svona dags daglega. Vinkona mín sem er vitur kona og hefur átt langa ævi, segir að hamingjan sé eins og ferðalag. Við höfum val hvort að njótum blómanna sem eru á leið okkar eða við getum haldið áfram að hlaupa í æsingi til að komast að gullpottinum við enda regnbogans sem reynist síðan vera tómur. Skilaboðin eru þessi að við eigum að reyna að njóta góðra stunda sem hver dagur býður. Fegurðin felst í því að kunna að meta það sem maður á og þakka það.

Allar frásögur guðspjallanna segja frá því þegar Jesús birtist lærisveinum sínum og segir við þá: Farið út um allan heim og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni. Jesús hvetur á sama hátt bæði þig og mig til að segja frá hinum upprisna Kristi Jesú.

Í bókinni Nærveru segir sr. Sigfinnur Þorleifsson sjúkrahúsprestur frá lítilli stúlku sem hafði teiknað mynd af Guði. Á teikningunni mátti sjá risavaxna fætur ganga niður í gegnum þykkan skýjabakka og tylla tánum á jörðina. Væntanlega hefur fullorðna fólkið verið undrandi á svipinn þegar það skoðaði myndina. En litla stúlkan útskýrði myndina sína og sagði: “Þetta er Guð”. Hún sagðist loka augunum og eina sem hún sæi væru fæturnir. Og er það ekki einmitt þannig að við sjáum aðeins brot af leyndardóminum en síðar munum við, sjá dýrð Guðs augliti til auglitis. Ég held mikið upp á vísu sem skáldið Stephan G. Stephansson orti. Vísan hljóðar svona: Láttu hug þinn aldrei eldast eða hjartað. Vinur aftansólar sértu, sonur morgunroðans vertu.

Munum eftir því að hugurinn er eins og hver annar vöðvi í líkamanum. Við eigum að efla hugann og næra á sama hátt og líkamann. Vinkona mín sem hefur alltaf svo skemmtilega sýn á lífið sagði: Ef við teljum okkur ekki hafa tíma til að leggja rækt við huga okkar og efla hann, það er bara eins og að segja: Við höfum ekki tíma til að stoppa og setja bensín á bílinn okkar vegna þess að við erum of upptekin af því að aka. Við vitum jú öll, hvað gerist ef bílinn verður bensínlaus. Hann stoppar einfaldlega og fer ekki lengra. Það látum við ekki henda okkur. Jesús sagði gjarnan samferðafólki sínu dæmisögur og vísaði þá í hið daglegt líf sem fólk þekkti. Eins og dæmisöguna um sáðmanninn sem fór út að sá og sumt féll á meðal þyrna. Dæmisagan var um manneskjur sem heyra Guðs orð en kafna síðan undan áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins. Jesús minnir okkur á það að við eigum að hlúa að góðum og jákvæðum hugsunum. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar það dynja á okkur neikvæðar fréttir alla daga. Í helgistund bæði á Hrafnistu í Reykjavík og á Vífilsstöðum biður heimilisfólk og hjúkrunarfólk oft um það að við syngjum saman fallega blessun sem er í sálmkverinu okkar góða. Förum með okkur inn í daginn þessa blessun en hún hljóðar svona: Megi gæfan þig geyma, megi Guð þér færa sigurlag. Megi sól lýsa þína leið, megi ljós þitt skína sérhvern dag. Og bænar bið ég þér, að ávallt geymi þig Guð í hendi sér.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.