Að vera eða vera ekki — fríkirkja

Að vera eða vera ekki — fríkirkja

Um þessar mundir eru 110 ár liðin frá stofnun Fríkirkjunnar í Reykjavík. Af því tilefni er öllum félögum hennar óskað til hamingju. Í tilefni af afmælinu gaf Fríkirkjan út myndarlegt hátíðarrit sem víða hefur farið og gefur tilefni til umræðu um skipan kirkjumála í landinu. Skal það tækifæri þakkað.
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
21. nóvember 2009

Um þessar mundir eru 110 ár liðin frá stofnun Fríkirkjunnar í Reykjavík. Af því tilefni er öllum félögum hennar óskað til hamingju. Söfnuðurinn hefur gegnt mikilvægu hlutverki í kirkjulífi Reykjavíkur en einnig í lýðræðisþróun í landinu. Munar þar mest um fyrstu áratugina þegar söfnuðurinn var farvegur aukinna félagslegra umsvifa nýrrar millistéttar í ört vaxandi höfuðstað. Í tilefni af afmælinu gaf Fríkirkjan út myndarlegt hátíðarrit sem víða hefur farið og gefur tilefni til umræðu um skipan kirkjumála í landinu. Skal það tækifæri þakkað.

Að vera eða vera ekki ...

Í hátíðarritinu lætur forstöðumaður safnaðarins þá skoðun í ljós að 62. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um að evangelísk-lútherska kirkjan skuli vera þjóðkirkja hér á landi sé ekki virt þar sem Fríkirkjan njóti ekki sambærilegs stuðnings ríkisvaldsins og Þjóðkirkjan. Hér virðast aðstæður túlkaðar á misvísandi hátt og raunar gefið í skyn að Fríkirkjan ætti að hverfa frá fríkirkjuhefðinni á 110 ára afmælinu.

Þegar Fríkirkjan í Reykjavík var stofnuð var tekist á um hvert samband ríkis og kirkju skyldi vera í framtíðinni. Fríkirkjuhugsjónin átti miklu fylgi að fagna. Ýmsum, þar á meðal stofnendum Fríkirkjunnar, þótti þó miða hægt og völdu að nota stjórnarskrárvarinn rétt sinn til að stofna frjálsa, lútherska kirkju án tengsla við ríkisvaldið og þar með án stuðnings þess.

Af þessum sökum klofnaði lútherska kirkjan á Íslandi í tvö aðskilin trúfélög og síðar bættust fleiri við. Þjóðkirkjan hélt tengslunum við ríkið og gekkst undir þær skyldur að starfa um land allt, veita öllum þjónustu án tillits til trúfélagsaðildar og viðurkenna umtalsverð afskipti ríkisins af málefnum sínum sem að vísu hefur dregið úr frá 1997. Hin lúthersku trúfélögin nutu hins vegar og njóta enn fulls frelsis frá ríkisvaldinu.

Óheppileg þýðing

Sú ályktun að 62. gr. stjórnarskrárinnar áskilji öllum evangelísk-lútherskum trúfélögum stuðning og vernd ríkisins byggist á því að 3. gr. dönsku stjórnarskrárinnar frá 1849 var þýdd með óheppilegum hætti við undirbúning þjóðfundarins 1851. En þar stefnu dönsk stjórnvöld að því að stjórnarskráin frá 1849 yrði lögfest hér. Í dönsku frumgerðinni segir í orðréttri þýðingu: Evangelísk-lútherska kirkjan er hin danska þjóðkirkja og er sem slík studd af ríkisvaldinu.

Þessu ákvæði var ætlað að lýsa raunverulegum aðstæðum og byggja réttarstöðu trúfélaga á þeim. Í landinu starfaði ein lúthersk kirkja og nokkur önnur trúfélög sem eingöngu náðu til fólks af erlendum uppruna. Á þessum tíma var trúarhefð Dana því lúthersk og ríkinu var ætlað að styðja hana. Sá stuðningur grundvallaðist ekki á því að um lútherska kirkju væri að ræða heldur hinu að með þessu naut trúarlíf alls þorra dönsku þjóðarinnar stuðnings hins opinbera.

Frá því um 1850 hefur íslenska þýðingin á þessu ákvæði verið orðuð svo að hin evangelísk-lútherska kirkja „skuli vera“ þjóðkirkja á Íslandi. Það orðalag er auðvelt að skilja svo að ríkisvaldið hafi ætlað sér að styðja öll lúthersk trúfélög einmitt vegna þess að þau væru lúthersk. Slíkt er kerfisbundin mismunun trúfélaga sem að öllum líkindum hefur aldrei verið stefnt að hvorki af hálfu danskra né íslenskra stjórnvalda og er vart við hæfi að kalla eftir nú eins og forstöðumaður Fríkirkjunnar virðist í raun gera. 62. gr. íslensku stjórnarskrárinnar hefur að líkindum aldrei verið ætlað annað hlutverk en dönsku fyrirmyndinni, þ.e. að áskilja því trúfélagi nokkurn stuðning sem þjóðin öll tilheyrið í fyrstu og síðar mikill meirihluti hennar — og veita því um leið nokkurt aðhald.

Aukinn jöfnuður

Aðstæður hafa vissulega breyst frá því stjórnarskráin var sett. Fleiri trúfélög hafa rutt sér til rúms, hlutfallsleg stærð þjóðkirkjunnar hefur dalað nokkuð og umfram allt hafa tengsl ríkisvalds og trúmála raknað mjög frá því sem var á 19. öld. Í ljósi breyttra aðstæðna virðist æskilegt að jafnræði trúfélaga og raunar einnig lífsskoðunarfélaga verði aukið líkt og forstöðumaður Fríkirkjunnar kallar eftir.

Eðlileg skref í þessa átt væri að breyta lögum um skráð trúfélög á þann hátt að þau nái einnig yfir lífsskoðunarfélög á borð við Siðmennt. Annað eðlilegt skref væri að öll skráð trú- og lífsskoðunarfélög fengju fjárhagslegan stuðning hins opinbera sem færi eftir fjölda félagsmanna, fjölda starfsstöðva og því samfélagslega hlutverki sem þau gegna. Fyrirkomulag af þessu tagi mundi ekki auka ríkisútgjöld að marki þar sem ekki virðist eðlilegt að trúfélög sem aðeins starfa á einum stað, ná til takmarkaðs fjölda og ekki gegna mikilvægum samfélagshlutverkum umfram það að vera rammi um trúariðkun félaga sinna njóti hárra fjárframlaga. Með þessum orðum er alls ekki verið að lýsa Fríkirkjunni í Reykjavík.

Milljarðarnir til þjóðkirkjunnar

Í hátíðarblaði Fríkirkjunnar ríkir sá skilningur að þjóðkirkjan njóti árlega ríkisstyrkja svo milljörðum skipti. Er þetta raunar útbreidd „þjóðtrú“. Það er að sönnu rétt að fjárhagstengsl ríkis og þjóðkirkju eru óþægilega flókin hér á landi og er það einkum vegna samninga sem gerðir voru 1907. Hið sanna er að fé fer frá ríkinu til Þjóðkirkjunnar eftir þremur leiðum og verða þær nefndar hér eftir stærð og byrjað á þeirri sem minnstir fjármunir fara um.

Þjóðkirkjan fær nokkurt fé á fjárlögum ár hvert. Hér að framan er mælt með að önnur trú- og lífsskoðunarfélög fái í framtíðinni svipaðan stuðning að breyttu breytanda og á það sér víða hliðstæður a.m.k. hvað trúfélög áhrærir.

Ríkið innheimtir sóknargjöld fyrir hönd þjóðkirkjunnar, Fríkirkjunnar og annarra skráðra trúfélaga. Er það gert með þeim hætti að hverju trúfélagi er ætlað að eiga ákveðna hlutdeild í tekjuskatti þeirra sem því tilheyra. Æskilegt væri að lífsskoðunarfélög nytu sömu fyrirgreiðslu.

Er þá komið að stærsta fjárhagsliðnum en það er afgjald ríkisins af kirkjueignum sem hið opinbera tók yfir 1907 gegn ákveðnum skyldum við Þjóðkirkjuna sem nánar er kveðið á um í samningi frá 1997. Þær eignir sem hér um ræðir voru gefnar einstökum kirkjum og öðrum kirkjulegum stofnunum t.d. klaustrum þegar á miðöldum. Uppistaðan í þessu eignasafni var raunar runnin frá þeim sem upphaflega reistu kirkjurnar en ekki þjóðinni í heild nema að litlu leyti. Allt fram undir 1907 var líka litið svo á að þessar eignir væru í eigu einstakra kirkjubygginga og síðar sókna og væru ætlaðar til viðhalds byggingarinnar og framfærslu sóknarprestsins. Fram á 20. öld var það því framandi hugsun að einhver kirkjustofnun eða trúfélag ætti þessar eignir. Það voru þvert á móti eins og fram er komið einstakar kirkjubyggingar og síðar sóknir sem áttu þær.

Þau sem stofnuðu fríkirkjurnar í upphafi sögðu sig úr þjóðkirkjunni og þar með hinni staðbundnu sókn, hættu að taka þátt í starfi hennar, létu af að taka þátt í útgjöldum hennar og afsöluðu sér hlutdeild í tekjum hennar og eignum. Vandséð er að arftakar þeirra geti gert tilkall til þessara eigna nú.

Köllun fríkirkju

Fríkirkja er frjáls, óháð kirkja sem ræður sínum málum sjálf. Hún hefur því eðli máls samkvæmt aðra stöðu en þjóðkirkja sem getur verið sjálfstæð en er hvorki frjáls né óháð. Fríkirkja virðist því eðli máls samkvæmt ekki geta notið sama stuðnings hins opinbera og þjóðkirkja nema undirgangast sambærileg tengsl við ríkisvaldið. Það hefur svo þann ágalla í för með sér — frá fríkirkjulegu sjónarmiði séð — að frelsið glatast, kirkjan verður háð, fríkirkjan hætti að vera fríkirkja. Vart er það ósk Fríkirkjunnar í Reykjavík á 110 ára afmælinu. Að því er fram kemur í hátíðarblaði hennar vill hún þvert á móti njóta þess áfram að vera frjáls spámannleg rödd í íslensku samfélagi. Guð gefi að svo megi verða! Við hin þurfum á brýningu hennar að halda!