Kirkjuþing 2016 er sett !

Kirkjuþing 2016 er sett !

Því má spyrja að ef uppskeran ætti að vera meiri, hverju þurfum við þá að breyta til þess að fá betri uppskeru? Kannski fyrst og fremst okkur sjálfum, viðhorfum okkar og hugmyndum.
Magnús Eðvald Kristjánsson
06. nóvember 2016

Kirkjuþing 2016, 53. kirkjuþing hinna íslensku þjóðkirkju er sett.

Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin á kirkjuþing, kirkjuþingsfulltrúar, starfsmenn og gestir. Hér í upphafi máls míns vil ég geta þess að innanríkisráðherra, frú Ólöf Nordal hafði þekkst boð um að koma og vera með okkur hér í dag en vegna alvarlega veikinda hennar gat ekki orðið af því. Við sendum henni okkar bestu óskir og batakveðjur héðan af kirkjuþingi um leið og við biðjum góðan Guð um vernda hana, lækna og styrkja.

Sjá, ég geri alla hluti nýja. Þetta fyrirheit í opinberunarbókinni hefur verið mér ofarlega í huga undanfarið því í samfélaginu er víða kallað eftir breytingum, breyttum vinnubrögðum, breyttu samtali, breyttri umgengni. Oft finnst mér að það sé kallað eftir breytingum og einhverju nýju án þess að það fylgi hvernig á að breyta. Mér finnst oft áherslan vera frekar að fólk vilji fara frá einhverju ástandi fremur en að fara að einhverju. Stundum virðist vanta leiðsögn, sýn, lausnir og leiðir. Í öðrum tilfellum er skýr sýn á úrbætur og ný vinnubrögð.

Kallað er eftir gegnsæi og krafan um fyrirmyndarvinnubrögð er víða uppi. Þessu er mætt með ýmsum hætti. Kópavogur hefur t.d. tekið upp opið bókhald sem þýðir að almenningur getur skoðað bókhald sveitarfélagsins og fylgst með öllum útgjöldum. Ekki er ólíklegt að fyrr en seinna verði opið bókhald sjálfsagt hjá sveitarfélögum og stofnunum. Er kannski sjálfsagt að þjóðkirkjan og sóknir hennar taki upp opið bókhald?

Mikið er rætt um hvernig góður leiðtogi eigi að vera og hvernig eigi að stýra verkefnum. Nú um helgina er The Global Leadership Summit á Íslandi. Þessi merkilega ráðstefna sem Willow Creek samtökin standa að og hefur verið haldin hér á landi frá 2009 virðist dafna og stækka með hverju árinu. Fjöldi stjórnenda sækir ráðstefnuna og það er ánægjulegt að fólk úr safnaðarstarfi þjóðkirkjunnar sækir hana einnig til að læra hvernig má breyta, bæta og styrkja kirkjustarf. Á kirkjan að stuðla að frekari þjálfun og endurmenntun fólks sem sinnir ábyrgðarhlutverkum innan hennar?

Mörg fyrirtæki og stofnanir mæla hve ánægt fólk er með þjónustuna sem veitt er. Sumir birta jafnvel niðurstöðu slíkra kannana óháð því hver niðurstaðan er. Eru slíkar kannanir eitthvað sem við ættum að taka upp?

Víða eru standar með litríkum brosandi og sorgmætum andlitum. Fólk er beðið að láta í ljós hve vel væntingum þeirra var mætt með því að velja andlit á takkaborðinu. Mundi fara vel á því að slíkir standar væru í kirkjum?

Þetta gert af því það er talið eðlilegt að stofnanir og stjórnendur sé ábyrgir gagnvart almenningi, notendum þjónustunnar. Eftir því sem vinnubrögð af þessu tagi verða almennari verður mikilvægara fyrir kirkjuna að gera eins, þó betur færi á því að mínu mati að hún hefði forgöngu í því að innleiða fyrirmyndar vinnubrögð.

Ég er þeirrar skoðunar að það verði sífellt mikilvægara fyrir þjóðkirkjuna að vita hversu vel þjónusta hennar uppfyllir þarfir fólksins. Hvað finnst fólki hún gera vel, hvað er ekki í lagi, hverju þarf að breyta, hvað er það sem á að gera meira af?

Það er fólkið sem þiggur þjónustuna og tekur þátt í starfinu sem á að meta hversu vel kirkjunni tekst til. Það eru þarfir þeirra sem okkur ber að sinna og þeirra væntingar sem við eigum að uppfylla.

Það er ekki bara að maður verði var við ákall um breytingar í þjóðfélaginu heldur einnig þörf og þrá hjá fólki að gera eitthvað nýtt í sínu lífi. Bækur um leitina að hamingjunni seljast vel og fjöldinn allur af “gúrú-um” bjóða fram þjónustu sína. Sumir þeirra segja að einstaklingar geti breyst á augabragði og að allt verði nýtt og betra á eftir. Ég hef verið á slíkum samkomum í London og Róm. Þar var heilmikil stemming og margt athyglisvert að sjá. Það sem mér fannst merkilegast var sú mikla þrá sem fólk hafði á því að breyta, sættast við fortíð og takast á við lífið með nýju hugarfari áhuga og ástríðu.

Við þekkjum vel bók þar sem er sagt frá fólki sem breytist gjörsamlega á einu augabragði. Símon Pétur var ekki kjarkmaður fyrr en eftir gjöf heilags anda og Sál varð nýr maður eftir atvikið á veginum til Damaskus. Trúað fólk hefur lengi vitnað um að það hafi frelsast, endurfæðst á augabragði.

Í haust kynntist ég blindum manni sem heitir Miles Hilton Barber. Hann missti sjónina þegar hann var 21 árs og lifði í þunglyndi þar til hann var fimmtugur. Þá ákvað hann að horfa ekki á það hvað hann gæti ekki gert heldur einbeita sér að því sem hann gæti gert. Miles hafði alltaf haft áhuga á því að fljúga og hafði ætlað sér að verða flugmaður þegar hann var unglingur. Augnsjúkdómurinn batt enda á þann draum. Eftir þessa miklu viðhorfsbreytingu þegar hann varð fimmtugur, ákvað hann að fljúga fisflugvél frá London til Sidney í Ástralíu. Fisflugvélin hans var eitthvað sem virtist samsett úr tveimur borðstólum, segli og sláttuvélamótor. En á þessu flaug hann til Sidney. Síðan hefur Miles afrekað margt ótrúlegt sem jafnvel mun yngra fólk með fulla sjón myndi ekki hafa kjark til að gera. Mér fannst saga Miles svo stórkostleg að ég fékk hann hingað til lands nú í október þar sem hann flutti 12 fyrirlestra. Ein eftirminnilegasta myndin sem Miles sýndi okkur var af honum blindum að ýta vini sínum fótalausum í hjólastól á botni Rauðahafsins. Þegar hann var spurður af hverju þeir hefðu farið að kafa í Rauðahafinu svaraði hann: Af því blindur maður og fótalaus maður höfðu aldrei gert þetta fyrr. Það þurfti að sýna fram á að þetta væri hægt. Það sem fólkinu sem sótti fyrirlestrana fannst svo aðdáunarvert við þennan mann var hve glaður hann var og hamingjusamur. Skilaboð Miles eru sígild. Það eru engar hindranir til nema þær sem við sættum okkur við.

Getum við sem berum mikla ábyrgð í íslensku þjóðkirkjunni lært eitthvað af Miles Hilton Barber? Gæti verið skynsamlegt fyrir okkur að tileinka okkur þá hugsun að það séu engar hindranir nema þær sem við sættum okkur við? Að allt gangi betur ef viðhorfið er jákvætt og við erum glöð? Að horfa til þess sem við getum gert í stað þess að vera stopp við það sem við teljum að ekki sé hægt? Mitt svar er já við getum lært mikið af þessum manni. Er ekki stórkostlegt að eftir að hafa lifað undir oki þunglyndis í 29 ár þá endurfæðist maðurinn og ákveður að verða ævintýramaður sem lætur drauma sína rætast? Jafnvel þó honum sé sagt að eitthvað sé ekki hægt þá svarar hann: Víst er það hægt, það hefur bara ekki verið gert áður!

Frá því ég fór að taka þátt í starfi kirkjunnar fyrir u.þ.b. 10 árum hef ég oft verið að fást við erfið mál og of oft óþarfa leiðindamál. Stundum verið að reyna að leysa ágreining og sætta fólk sem ekki hefur alltaf verið þakklátt starf. Innan kirkjunnar hef ég orðið vitni að baktali og undirmálum sem eiga auðvitað ekki heima í kristinni kirkju. Ég velti því þess vegna fyrir mér hvort okkar eigin viðhorf séu kannski að hamla því að kirkjan og safnaðarstarfið, sem okkur þykir öllum vænt um, er ekki enn öflugra.

Ég hef því verið að hugsa um það hvort við getum ekki eins og Miles; varpað af okkur okinu, ákveðið að breyta, vaxa og bæta og gengið glöð í takt til móts við spennandi framtíð. Sagði ekki einhverntíma einhver; “vilji er allt sem þarf”?

Kæru vinir. Kirkjuþing eftir kirkjuþing ræðum við málin, hvetjum, fögnum, þökkum og hörmum hitt og þetta. Sitjum hér og skiljum ekki alveg af hverju við náum ekki betri árangri, af hverju kirkjan nær ekki betur til fólks, af hverju ríkisvaldið er erfitt við okkur og af hverju þessum finnst hitt og öðrum þetta.

Því má spyrja að ef uppskeran ætti að vera meiri, hverju þurfum við þá að breyta til þess að fá betri uppskeru? Kannski fyrst og fremst okkur sjálfum, viðhorfum okkar og hugmyndum.

Getum við breyst? Viljum við breyta okkar vinnubrögðum? Ef svo er getur það gerst á augabragði. Ef við trúum Biblíunni þá er svarið já. Þar er líka öll sú leiðsögn sem við þurfum á að halda. Með bæn og í einingu andans er svo margt mögulegt.

Í Galatabréfinu er sagt að ávöxtur andans sé kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Væru þessi orð ekki góð einkunnarorð í okkar samstarfi? Verður ekki auðveldara að takast á við verkefnin í þjóðkirkjunni ef við höfum þessi orð sem leiðarstef?

Samtalið við þjóðina er mikilvægt verkefni í okkar kirkju. Á mánudaginn kl. 13.00 verður kynningarfundur um það með hvaða hætti lagt er til að unnið verði að almannatengslum af hálfu þjóðkirkjunnar. Á þriðjudaginn verður upplýsingafundur þar sem farið verður yfir stöðuna í viðræðum við ríkisvaldið um fjárhagsleg tengsl ríkis og kirkju.

Á þessu þingi eru lögð fram 24 mál. Þau eru auðvitað misjöfn. Sum stór og flókin, önnur einföld. Í öllum málum þurfum við að vanda okkur og gæta að því að öll sjónarmið fái að koma fram. Það á að mínu mati að leggja áherslu á að það sé að minnsta kosti reynt að ná góðri sátt um öll mál. Þá skiptir miklu að hafa í huga hvernig mál snerta þá sem þiggja þjónustu kirkjunnar eða taka þátt í starfi hennar. Það er mikilvægt að muna að starf kirkjunnar er borið uppi af sjálfboðaliðum sem gefa ótrúlega af tíma sínum, þekkingu og reynslu. Við megum ekki taka ákvarðanir sem gera það ólíklegra að fólki vilji starfa í sóknarnefndum af því afskiptasemi regluverksins dragi það inn í einhver leiðindi sem það hefur engan áhuga á. Regluverkið má ekki draga úr frumkvæði og starfsgleði. Ég tel mikilvægt að við höfum þetta í huga og nefni það að gefnu tilefni eftir samtal við sóknarnefndarformann og sóknarprest fyrr í vikunni.

Okkar hlutverk er að setja kirkjustarfinu ramma sem stuðlar að góðu og öflugu starfi hjá sóknum kirkjunnar út um allt land. Þar fer hið mikilvæga starf fram. Okkar er að hlúa að því og hlusta á fólkið sem þar sinnir safnaðarstarfi.

Það eru þeir sem eru á vettvangi sem skipta máli. Fáir hafa sagt þann sannleika betur en Theodore Roosevelt í ræðu við Sorbonne í Paris 23. apríl 1910. Ræðu sem hafði yfirskriftina "Citizenship in a Republic”. Þekktasti kafli ræðunnar er jafnan nefndur “The man in the Arena” og hefst á þessum orðum: “Það er ekki gagnrýnandinn sem skiptir máli. Ekki sá sem bendir á hvernig hinn hrausti hrasar eða sá sem framkvæmir gæti hafa gert betur. Hróðurinn á sá sem raunverulega er inni á leikvanginum”.

Prestarnir, sóknarnefndarfólkið, starfsmenn og sjálfboðaliðar eru fólkið sem í okkar tilfelli er inni á leikvanginum. Höfum það ávallt í huga.

Á þessu kirkjuþingi verður lagt fram mál um sóknasamlag. Ég tel þetta afar brýnt því það er svo mikilvægt að rödd sóknanna heyrist betur og að þeirra hagsmunir séu vel skilgreindir. Nota bene, skilgreindir af þeim sjálfum.

Ég vona að við eigum gott samtal saman á þessu kirkjuþingi og að góður árangur verði af starfi okkar þjóðkirkjufólki öllu til heilla.

Að lokum þetta: Það mætti vera meiri gleði hjá okkur. Því má minna á þessi skilaboð úr 118 Davíðssálmi: Þetta er dagurinn sem Drottinn gerði, fögnum og verum glaðir á honum.