Ertu Mörtutýpa, Maríutýpa eða hvort tveggja í senn?

Ertu Mörtutýpa, Maríutýpa eða hvort tveggja í senn?

Þú getur hlustað á ræðuna með því að fara á heimasíðu höfundar undir þessari smellu.

Ungu brúðhjónin voru glæsileg á brúðkaupsdaginn, veislan var stór og fjölmenn. Skrifað var um þau í blöðum að þau væru bæði efnileg og fjölhæf og komin með háskólagráðu hvort í sínu fagi. Nú, 14 árum síðar eiga þau 3 yndisleg börn sem búa hjá þeim í stóru og fallegu einbýlishúsi. Útlend kona kemur vikulega og þrífur. Börnin eru í góðum skólum. Hjónin fara um svipað leyti að morgni dags til vinnu, hvort í sínum bíl. Á leiðinni í vinnuna þurfa þau að sinna mörgum samtölum í farsíma enda stjórna þau bæði fyrirtæki. Þeim gengur mjög vel en það hefur kostað sitt. Þau eru þrælar tíðarandans og væntinganna sem störfin gera til þeirra. Oft þurfa þau að mæta í veislur og atburði og vera með „rétta“ fólkinu jafnvel þegar þau langar mest að vera heima. Konan hefur lesið um það að konur sem áður var síður hætt við að fá hjartaáfall en karlar séu nú að færast ofar á samanburðarskalanum og líklega verður jafnræði með kynjunum innan einhverra ára í þeim efnum. Hvar er hægt að tala um áhyggjur sínar og streitu í heimi samkeppni og framapots? Er ekki varasamt að gefa höggstað á sér og segja frá vanlíðan sinni? Og hvað gerist ef ekki er hægt að opna sig um vanlíðan sína? Streitan nær þá tökum, fyrst í sálinni en læsir síðan klóm sínum í líkamann með tilheyrandi vöðvabólgu og hnút í maganum.

Alltof sjaldan hafa þau hjónin tíma fyrir hvort annað, laus undan álagi starfanna. Börnin eru orðin að verkefni til að stjórna í staðinn fyrir að vera fólk sem þau verja tíma sínum með. Og kannski fara þau bara á námskeið í verkefnastjórnun!

Nýverið barst kvörtun frá skólanum varðandi elsta barnið. Hvernig getur það gerst hjá barni sem hefur erft bestu eiginleika tveggja frábærra foreldra? Kannski hafa þau bara fengið tæki í stað tíma, tól en ekki tilfinningar, leikföng en ekki ljúfar samverustundir með mömmu og pabba.

Stundum sækja að hjónunum efasemdir um að líf þeirra sé ekki á réttu róli enda þótt allt virðist slétt og fagurt á yfirborðinu. Þeim finnst þau oft vera á barmi tilfinningalegs hyldýpis en bægja þeirri tilfinningu gjarnan frá með enn meiri vinnu. Vinnan bjargar manni oft en aðeins um stund frá því að horfast í augu við vandann sem vex og stækkar hið innra í sálarlífinu.

Þessi saga er nútíma dæmisaga um svipaða hluti og Jesús ræddi um í guðspjalli dagsins. Jesús hafði kíkt í heimsókn til vina. Hann leit inn hjá Mörtu og Maríu, systrum Lasarusar, sem Jesús vakti upp frá dauðum. Við þekkjum svo vel þetta samtal Jesú og Mörtu sem mæddist í mörgu. Hún var upptekin við að þjóna til borðs og sinna heimilisverkunum en María systir hennar sat bara hjá meistaranum og hlustaði. Marta skildi ekkert í þessu háttarlagi og bað Jesú að grípa inn í og segja Maríu að hunskast til að hjálpa sér.

Svar Jesú kom á óvart eins og flest hans svör í NT. Hann bendir Mörtu á að María hafi valið góða hlutskiptið sem ekki verði frá henni tekið.

Þessi saga virkar eitthvað svo saklaus og ljós þegar við skoðum hana nú á þessum tímum en í reynd er hér um að ræða frásögn af byltingarkenndum atburði. Hvorki meira né minna. Okkur finnst það ósköp hversdagslegt að fólk hittist yfir veitingum heima fyrir. Eða kannski er það annars orðið úrelt. Fínu heimilin eru ekki lengur boðleg fyrir fólk að hittast í kaffi því nú verða allir að fara á kaffihús! Hvað um það. Þau eru þarna þrjú á spjalli yfir veitingum sem er svo hversdagslegt í okkar augum. En ef við skoðum söguna í sínu samhengi, tímalega samhengi, þá er Jesús staddur í húsi systra og hann er lærimeistari Gyðinga eða hefur í það minnst mikla virðingu sem vitur maður og á þeim tíma sátu lærimeistarar gjarnan og við fætur þeirra lærisveinar, karlar, bara karlar og ekkert nema karlar. Konur, sem voru eign karla eins og úlfaldar og annað búfé, máttu kannski hlusta í fjarska en ekki sitja við fætur meistarans. Og þarna situr hún María og hlustar á Jesú. Það er eins og hún láti sig engu varða hvað fólk hugsar. Hún er komin til að hlusta af því að hún veit að það sem hann segir skitir öllu máli í lífinu. Marta hafði ekki einu sinni hugarflug til að stíga yfir þessi ósýnilegu en vel vörðu landamæri milli karla og kvenna. Og hún hneykslaðist á systur sinni. En hún skammaði ekki Maju systur, hins vegar ávítaði hún nánast meistarann sjálfan. „Drottinn, hirðir þú eigi um það að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér. En Drottinn svaraði henni:

„Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.“

Og nú situr þú hér eins og María forðum og hlýðir á Jesú tala til þín í guðspjalli dagsins og útleggingu prestsins, í ritúali kirkjunnar og á eftir í brauði og víni þegar hann gefur sjálfan sig þér, kemur í heimsókn, gefur þér elsku sína, gefur þér hlutdeild í líf sínu – og dauða sínum. Og meira en það, hann gefur þér hlutdeild, hann gefur þér veð í upprisu og eilífu lífi. Hugsaðu um þetta! Hann gefur þér veð í upprisu sinni og eilífu lífi. Þú átt þetta veðbréf og tekur það með þér í gegnum dauðann þegar þar að kemur.

Að sækja kirkju er að sitja við fætur Jesú og gera það sem er öllu mikilvægara. Það er mikilvægt að mennta sig. En ég hef vissar áhyggjur af því í nútíma þjóðfélagi að menntunin sé orðin svo sérhæfð, að menntafólk eigi jafnvel ekki lengur sameiginlegan grunn. Af hverju hrundi þjóðfélag okkar? Er það vegna þess að það vantaði sameiginlegan grunn? Og þið, kæru, ungu háskólanemar, gætið ykkar á þessu, á sérhæfingunni, maður getur nefnilega einangrast og misst sjónar á heildarmyndinni. Það var einhver trúaður poppari sem söng á sínum tíma og sagði:

You can go to your college You can go to your school, But if you ain’t got Jesus You’re an educated fool.

Já, gætum okkur á því, hver sem við erum, að við verðum ekki menntaðir bjánar.

Hjónin sem ég sagði frá í byrjun eru fulltrúar margra í samtímanum sem æða um í eirðarleysi og endalausri leit að hamingjunni en leita á vitlausum stöðum. Friðlaust fólk í friðlausum heimi, fjarlægt öllu sem er heilagt og hollt, týnt í tómhyggju og taumleysi eins og gasfyllt blaðra sem barn hefur misst og svífur upp í háloftið þar til hún springur og dettur niður sem tætlur og spottim, dauð til jarðar.

Ertu Mörtutýpa eða Maríutýpa? Eða ertu hvort tveggja í senn? Kannski er Marta í okkur öllum og María líka. Jesús hafði ekkert á móti gestrisni Mörtu og vinnusemi, öðru nær, en hann benti á mikilvægi þess að forgangsraða, að taka sér fyrst tíma til að biðja og íhuga, sitja við fætur meistarans og fylla líf sitt innri friði og tilgangi og forgangsraða svo í daglegu lífi út frá hagfræði himinsins. Fordæmi Maríu er stórkostlegt því hún er fyrirmynd kvenna sem mennta sig og sýna að þeim eru allir vegir færir eins og körlum. Bæði karlar og konur þurfa að forgangsraða og mun að hlusta á himininn. Já, Jesús var langt á undan sinni samtíð en við náum honum aldrei á sviði réttlætis, friðar og elsku. Svo magnaður umbótamaður var hann í hugsun og hegðun. Hann galt fyrir það með lífi sínu en dauðinn hélt honum ekki. Hann lifir og við lifum í nafni hans. Við sitjum við fótskör hans og lærum af honum um lífið, um daglegt líf, um viðbrögð við hruninu og lífinu í öllum sínum fjölbreytileika. Páll postuli varð lærisveinn hans eftir að hafa verið andstæðingur Jesús og fylgjenda hans um tíma. Hann snerist og lífið kenndi honum alveg nýja lexíu. Páll segir í pistli dagsins:

„ . . . ég hef lært að láta mér nægja það sem ég hef. Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort. Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.“

Þessi orð ættuð þið að klippa út úr biblian.is og líma á ísskápinn heima:

„Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.“

Og ég get tekið undir þessi orð að breyttu breytanda og sagt: ég hef lifað á tímum hafta og peningaskorts, verðbólgu og gengisfellinga, á tímum uppgangs og innflutningsfrelsis, frjálshyggju og skorts á eftirliti, og nú hef ég upplifað hrun efnahagslífsins og gengisfellingu gildanna, hinna himnesku gilda sem menn köstuðu og sögðu að væru orðin úrelt. Og þá skipta lokaorð postulans mig enn meiru en fyrr:

„Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.“

Við erum Mörtur og Maríur sem þurfa að forgangsraða.

Jesús Kristur er í heimsókn. Tökum eftir og hlustum.

Usssssssssssssss . . .

Hlustum (hvíslað)

Amen (hvíslað).