Þessi þekkta fullyrðing Karls heitins Marx kom upp í huga mér laugardaginn 15. nóvember þar sem ég var staddur á mótmælafundi á Austurvelli í Reykjavík ásamt um 8000 samlöndum. Veðrir var hryssingslegt eins og gjarnan vill verða í miðborg Reykjavíkur á þessum árstíma, en enginn tók eftir því. Þarna var fólk af margskonar sauðahúsi, kátir unglingar, virðulegar húsmæður, alvarlegir karlar, börn í þykkum vetrargöllum, mæður, feður, afar,ömmur. Allt ósköp venjulegir Íslendingar. Það óvenjulega við aðstæðurnar var að þessir venjulegu Íslendingar voru á mótmælafundi. En yfirleitt láta Íslendingar ekki draga sig á slíka fundi. Við erum þolinmóð þjóð, vön að bíta á jaxlinn og bölva í hljóði, vön að standa af okkur eldgosin, harðindinn og yfirvaldið, vitandi það að öll él styttir upp um síðir.
En nú virðumst við sem sagt vera búin að fá nóg. Og þess vegna hljóma mótmæli um götur og torg, mótmæli gegn yfirvaldinu, mómæli gegn því upplausnarástandi sem ríkir. Umfram allt mótmæla menn spillingunni. Spillingunni sem hefur gegnsýrt íslenskt samfélag. Sem er reyndar nokkuð skondið, því erlendir könnuðir hafa gefið Íslandi þá einkunn að hér sé engin spilling. En það er vegna þess að hin íslenska spilling er svo ólík þeirri erlendu að útlendingar sjá hana ekki. Hún smýgur um öll hólf samfélagsins.
Hin íslenska spilling er spilling klíkunnar.
Spilling sem veldur því að í æðstu metorðum um allt kerfið situr fólk sem ráðið er vegna frændsemi, ættartengsla, flokksbanda. En ekki vegna hæfileikaog dugs. Og það á ekki bara við í stjórnmálum, heldur á öllum sviðum.
Þessi spilling hefur leitt okkur á glötunarleið sem samfélag.
Og gegn þessari spillingu rís nú þjóðin, seinþreytt til vandræða.
En hvað kemur þetta allt Karli Marx við og trúnni og þar með kirkjunni? Í þeim þrengingum sem nú steðja að og þeirri uppreisn gegn spillingunni sem nú hristir samfélagið, hefur kirkjan hvatt fólk til að halda utan um hvort annað, til að huga að hinum mjúku gildum, til stillingar og bæna.
Sem er auðvitað gott í sjálfu sér.
Því bænin friðar sálina og stillir hugann.
Rétt eins og ópíumið hans Marx gamla.
En kirkjan er ekki ópíumsali.
Og því þarf hún að ganga lengra. leita uppruna síns.
Boðskapur kristinnar trúar er ekki deyfilyf. Þvert á móti. Kristin trú er grundvölluð á hinni spámannlegu hefð, þeirri hefð sem Jesús stóð á traustum fótum. Spillingin og órétturinn eru andstæð vilja Guðs. Kirkjan sem samfélagið er gengur fram undir krossinum á að hafa forystu, ganga fram fyrir skjöldu, í baráttunni gegn spillingunni og fyrir réttlætinu. Hún á að vera hvati til umbreytinga á samfélaginu. Hún á að standa fremst í flokki á mótmælafundum dagsins. Hún á að krefjast réttlætis og hafa réttlætið að leiðarljósi.
Ef hún vill vera kirkja Drottins.
Því eins og Drottinn segir fyrir munn Jesaja spámanns:
Hvað varða mig yðar mörgu sláturfórnir? spyr Drottinn. Ég hef fengið of mikið af brennifórnum hrúta og feiti alikálfa, í blóð úr nautum, lömbum og geitum langar mig ekki. Þegar þér lyftið höndum yðar í átt til mín loka ég augunum og þótt þér biðjið margra bæna heyri ég ekki. Þvoið yður! Hreinsið yður! Lærið að gera gott, leitið réttarins, hjálpið hinum kúgaða. Rekið réttar munaðarleysingjans. Verjið mál ekkjunnar.