Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi –
Guð gefi okkur öllum gleðilegan Þjóðhátíðardag.
Á sólríkum sunnudagsmorgninum fyrir viku síðan fór ég sem oftar í hjólatúr eftir Ægissíðunni og naut þess að horfa út á sjóinn á fuglalífið í algleymi sumarsins og ekki síst litlu æðarungana sem voru í óða önn að læra að bjarga sér. Þá sé ég hreyfingu bak við gluggana þar sem Ættfræðiþjónustan er til húsa og grunaði að frændi minn og vinur Oddur Helgason væri þar sjálfur mættur að sýsla við fræði sín. Ég gekk því upp til hans, og jú þarna sat hann niðursokkinn yfir tölvunni sinni dálítið undrandi að sjá mig svona snemma á sunnudagsmorgni.
Ég bar upp erindið sem var að fá úr því skorið hvort sameiginleg ætt okkar, eyfirsk, Hvassafellsættin, væri tengd Reykjahlíðarættinni í Mývatnssveit. Mér þótti gott að vita ef svo væri því þá ætti ég tromp sem ég mundi spila út næst þegar ég lenti í stælum við einhvern þingeyskan vin minn því þeir láta sig sjaldan í rökræðum, þótt þeir séu ágætis fólk, eins og þeir vita flestir manna best sjálfir.
Oddur var fljótur að svara og aftók að þessar ættir kæmu saman, en svo fór hann að hugsa og þylja nafnarunu mikla og endaði á Þorgeiri ljósvetningagoða. Ég er sem sagt kominn út af Þorgeiri ljósvetningagoða. Það þótti mér að sjálfssögðu ekki miður og fannst það góð tilhugsun að eiga að predika hér eftir viku. „En góði minn“, bætti Oddur við. „Það eru allir Íslendingar komnir út af honum“.
Já, við erum fámenn þjóð og gætum því auðveldlega litið á okkur sem eina fjölskyldu og fáar þjóðir þykjast å eins mikið um uppruna sinn og sögu og við.
Örlög okkar eru mjög bundin þessum stað, Þingvöllum við Öxará, og segja má að hér sé naflastrengur þjóðarinnar við landið og söguna. Þetta er helgur staður:
„Drag skó þína af fótum þér því staðurinn sem þú stendur á er heilög jörð.“
Hvergi er betur við hæfi að rifja upp úrskurð Þorgeirs ljósvetningagoða á alþingi sumarið 1000 og bergveggurinn í Almannagjá geymir enn úrskurð hans um að í landinu skuli ríkja kristin siður sem grundvöllur lagana.
Það er heiðríkja yfir nafni Þorgeirs sem kenndi sig við ljós og vatn. Hér er um trúarleg skírskotun að ræða, hið lifandi vatn og ljós lífsins. Það er óhugsandi annað en að Þorgeir hafi vitað vel hvað kristinn siður fól í sér og líklegt að Kristur hafi sjálfur birst honum þar sem hann lá undir feldinum og íhugaði framtíð lands og þjóðar fyrir 1012 árum síðan.
Kristján 9. Danakonungur kom hingað tilefni af 1000 ára afmæli Íslands byggðar „með frelsisskrá í föðurhendi“, stjórnarskrána sem nú er í endurskoðun. Af því tilefni orti séra Matthías kvæði til hans og ávarpar hann þannig:
„Kom heill, kom heill að hjarta Fróns.“
Matthías beinir svo ljóði sínu til konungsins, fyrst með spurningu:
„Hvar sástu fegri frelsismerkin – Eldsteyptu virkin, vötnin blá? Hjer gjörðust vorar hetjusögur; Hjer viknar sjerhver Íslands mögur: Altari þetta gjörði Guð!“
Við kusum að segja okkur frá þessu konungsembætti 70 árum seinna, en halda stjórnarskránni sem hann færði okkur og velja forseta lýðveldis. Þannig hefur þetta verið í tímans rás, menn og embætti koma og fara, nýtt skipulag tekur við af því sem úreldist, en yfir okkur vakir enn sem fyrr einn höfuðsmiður himins og jarðar, sem skóp þennan stað.
Þjóðhátíðardaginn okkar, 17. júní ber að þessu sinni upp á helgan dag í kirkjuárinu, sem er annar sunnudagur eftir þrenningarhátíð – á tímamótum í sögu þjóðarinnar, líklega einum erfiðustu tímum sem komið hafa yfir þessa þjóð frá því lýst var yfir fullu sjáfstæði.
Stjórnarskráin úrelt plagg, segja margir. Tiltrú þjóðarinnar á opinberar stofnanir og embætti er í lágmarki, almenn tortryggni og reiði ríkir. Gagnrýni og endurskoðun víða. Nýtt fólk býður sig fram í leiðtogastöður. Spurt er um grundvallargildi. Við finnum að þörf er á að endurnýja sáttmálann við þann Guð sem hér hefur verið boðaður frá því er menn stigu fyrst fæti sínum á þetta land. Þjóðin kallar eftir leiðtogum sem hafa kærleikann og réttlætið sem leiðarstjörnur í störfum sínum. Á tímamótum er horft aftur til fortíðar um leið og reynt er að ráða í framtíðina.
***
Við vitum að á undan landnámi norrænna manna voru hér írskir munkar, paparnir, sem sungu tíðir byggðar á sálmum Davíðs. Þeir fluttu hér bænir, predikuðu og blessuðu. Hver veit nema þeir hafi gert sér altari eða reist kross þar sem þessi kirkja stendur nú. Sú stjórnarskrá sem þeir komu með var bæn Drottins, Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, tilkomi þitt ríki, verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni. Þessi bæn er rót og festa sem íslensk menning byggir á.
Paparnir voru hálærðir menn sem kunnu að sigla eftir stjörnunum og reikna út tíma helga og hátíða. Þeir höfðu yfirlit síns tíma yfir heimssöguna og þeir helguðu þetta land og notuðu fræði sín til að merkja helga staði, fjöll, lundi og lindir. Ekki hafa þeir farið fram hjá Þingvöllum og vafalítið hafa þeir skynjað helgi staðarins og staðsett Þingvelli á landakort sitt.
Í Þingvallasveit, sem átti eftir að verða valdamiðstöð höfðingjaætta, sem röktu ættir sínar til Noregs, eru keltnesk örnefni og meðal þeirra er Ármannsfellið, en ármann þýðir hetja á gelísku. Skrifaðar heimildir hafa varðveist um að í hlíðum Ármannsfells hafi verið haldið þing fyrir Suðurland áður en alþingi var stofnað hér.
Séð frá þeim stað sem kirkjan stendur kemur sólin einmitt upp á Jónsmessu yfir Ármansfellinu fagurbláu. Þá er sólin hæst á lofti og um það bil var þingið haldið og staðurinn friðlýstur. Helgisögnin um verndarvættina í fellinu er athyglisverð. Ármanni er svo lýst að hann hafi verið stærri og fegurri en aðrir menn. Í Ármannssögu segir að hann hafi birst manni:
„í bláum kufli, mikill vexti ok elliligr, svo honum sýndist hár ok skegg hvítt fyrir hærum.“
Þessi lýsing minnir á hinn „aldraða“, sem sagt er frá í Daníelsbók (7,9). Höfuðhár hans var sem „hrein ull“, segir þar, en sú lýsing er fyrirmynd að Kristsmyndum á klassískum dómsdagsmyndum sem rekja má allt aftur til fornkirkjunnar. Kristur er sýndur þar komandi í skýjum himins til hinsta dóms. Ármann var mönnum hjálp í nauð og hann gerði kraftaverk. Hann fann t.d. sauði bóndans í Skálabrekku og bjargaði þeim og syni hans Þorsteini gálu frá tröllum. Ármann gæti táknað hinn nýja mann, hinn fyrsta mann nýrrar sköpunar og sauðirnir söfnuðinn hér í sveitinni. Ef svo er þá er Ármann enn að störfum sem verndarvættur. Um daginn var talað um að ekki hefðu orðið alvarleg slys á fólki í Almannagjá þar sem bergið slútir yfir götuna. „Ætli það sé ekki Ármanni að þakka“, varð manni að orði sem þekkir söguna vel og staðhætti hér.
Ég leyfi mér að setja það fram sem tilgátu að Ármann sé í raun og veru kristsgervingur, að kristnir menn hafi varðveitt átrúnaðargoð sitt með því að breyta sögnunum um hann í þjóðsögu sem ekki ógnaði pólitísku valdi norskrar yfirstéttar sem enn blótaði heiðin goð.
Löngum hafa samt kristnir og heiðnir lifað í sátt og samlyndi í landinu. Hvað sem um það má segja þá er Þorgeir ljósvetningagoði verðugur fulltrúi þeirra tengsla sem hér hljóta að hafa verið fyrir hendi milli heiðni og kristni þar til kirkjan var búin að ná töglum og högldum og heiðnin hafði aftur á móti hörfað á vit þjóðsagna og munnmæla.
***
Kallað hefur verið eftir allsherjar uppgjöri og sannleiksnefnd þar sem þeir sem ábyrgð báru á fjármálum þjóðarinnar og voru gerendur og þolendur í hruninu kæmu saman, þar sem andrúmsloftið væri hreinsað og nýtt upphaf mótað. Nýtt Ísland – og hvergi er betur við hæfi en strengja heit en hér á Þingvöllum.
En óskir um eina alsherjar sannleiksnefnd hafa ekki ræst – ekki enn. Þrátt fyrir það eru að störfum litlar, en of einangraðar og óskipulegar sannleiksnefndir, því hver sá einstaklingur sem gegnir skyldu sinni við lífið, þjóð sína, samfélagið og fjölskyldu sína er í sjálfu sér sannleiksnefnd. Þegar þessar sannleiksnefndir koma saman verða þær í raun samviska þjóðarinnar og þær munu um síðir eyða þeim skuggum sem nú ógna framtíð okkar í landinu okkar fagra. Þær eru mikilvægar fyrir hið unga Ísland. Mikilvægar fyrir börnin og ungu kynslóðina sem er að vaxa úr grasi á þessu vori nýrrar aldar – aldamótakynslóðina hina nýju.
Nú erum við hér á Þingvöllum og íhugum undir feldinum. Við lítum til baka og sjáum að hinn sanni kjarni boðskaparins um kærleikann og réttlætið hefur ekki náð að umskapa hug og hjarta okkar. Hvort sem við gegnum leiðtogastörfum eða ekki þá finnum að endurnýjunar og afturhvarfs er þörf. Boðskapur kristinnar trúar er hvorki þjóðsaga né munnmæli - heldur lifandi kraftur sem endurnærir og styrkir og gefur nýtt líf.
Hjarta landsins býr í hjörtum okkar, hvers og eins. Jesús Kristur líkti sér við lifandi vatn og hið eilífa ljós lífsins og hann segir nú sjálfur við okkur í guðspjalli dagsins:
„Leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður.“
Kom, Jesú Kristí trú, kom, kom og í oss bú, kom, sterki kærleiks kraftur, þú kveikir dáið aftur. Ein trú, eitt ljós, einn andi í einu fósturlandi.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verða mun um aldir alda. Amen.