Eitrað fyrir trú og efa

Eitrað fyrir trú og efa

Þau, sem hafa trúarsannleika uppá vasann eru hættuleg sjálfum sér, samfélagi sínu og líka heimsbyggðinni. Þegar hroka er blandað í trúarvissu þá verður afleiðingin verri fyrir mannkynið en skelfilegasta fuglaflensa. Hroki í bland við allar gerðir af trú framkallar svartadauða meðal fólks. Vandinn er ekki trúin heldur hrokinn, sem fer svo illa með og í trú.

Um kvöldið þennan fyrsta dag vikunnar voru lærisveinarnir saman og höfðu læst dyrum af ótta við Gyðinga. Þá kom Jesús, stóð mitt á meðal þeirra og sagði við þá: Friður sé með yður! Þegar hann hafði þetta mælt, sýndi hann þeim hendur sínar og síðu. Lærisveinarnir urðu glaðir, er þeir sáu Drottin. Þá sagði Jesús aftur við þá: Friður sé með yður. Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður. Og er hann hafði sagt þetta, andaði hann á þá og sagði: Meðtakið heilagan anda. Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar, eru þær fyrirgefnar. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar, er þeim synjað.

En einn af þeim tólf, Tómas, nefndur tvíburi, var ekki með þeim, þegar Jesús kom. Hinir lærisveinarnir sögðu honum: Vér höfum séð Drottin.

En hann svaraði: Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa.

Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: Friður sé með yður! Síðan segir hann við Tómas: Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar, og kom með hönd þína og legg í síðu mína, og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður.

Tómas svaraði: Drottinn minn og Guð minn!

Jesús segir við hann: Þú trúir, af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð og trúa þó.

Jesús gjörði einnig mörg önnur tákn í augsýn lærisveina sinna, sem eigi eru skráð á þessa bók. En þetta er ritað til þess að þér trúið, að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þér í trúnni eigið líf í hans nafni.Jóh 29.19-31

Skaftáhlaup

Skaftá hleypur þessa daga og er mikið sjónarspil. Ég bjó eitt sinn á bakka Eldvatnsins þar sem megnið af hlaupvatninu geysist fram. Áin er jafnan mikil en verður ógurleg þegar hún umhverfist í hlaupum, verður svargrá ófreskja, sem urrar og nagar. Flaumurinn er vel tenntur og grefur jarðveg og laust efni undir Skaftáreldahrauni og svo detta stór hraunstykki í fljótið. Einu sinni féll m.a.s. brúin við Ása.

Norðan brúarinnar var lengi fallegur hólmi í Eldvatni, státinn og stoltur, grösugur, öruggur hvíldarstaður og varpstaður fugla. Svo kom eitt hlaupið og flóðið skall á hólmanum góða og hlífði ekki. Hann minnkaði, æði vatnsins jókst og að lokum hvarf síðasta torfan. Hann var farinn, búinn, dáinn. Aldrei yrði þar feginn fuglsfótur meir. Hólminn góði varð mér þá íhugunarefni um mannlífið. Hvernig reiðir okkur af þegar við lendum í álagi í lífinu? Hver er festa okkar þegar flóð skellur á okkur? Á hvað trúum við þegar efinn nagar og grefur hið innra með okkur? Allt þetta rifjast upp þegar hlaupið geisar og varðar líka texta dagsins.

Efaefnin

Er eitthvað í Biblíunni, sem þú átt erfitt með að kyngja? Hvernig túlkar þú kraftaverk, meyjarfæðingu eða lífgun látins manns? Finnst þér að þú sért kannski ekki nógu trúuð eða trúaður til að taka það allt gott og gilt? Hver er trúarskilningur þinn? Á trúin að vera klár annaðhvort-eða afstaða? Hvað með það, sem virðist stríða gegn vísindaþekkingu, almennri dómgreind eða bara gegn reynslu þinni? Finnst þér, að efinn geti þrifist í sambúð við trú? Eða á trúin að úthýsa efanum? Er efinn óvinur trúarinnar – eða kannski tvíburi hennar?

Roger´s version

Ég hef dálæti á bókum bandaríska rithöfundarins John Updike. Ég deili þeirri gleði með mörgum öðrum guðfræðingum, því Updike er kunnáttusamur í guðfræði, las Kirkegaard á sínum tíma og vitnar gjarnan í guðfræðirisa tuttugustu aldar, Karl Barth. Af tilefni dagsins um efann og trú fór ég að rifja upp boðskap bókar Updike, sem ég las á leið yfir Atlantshafið fyrir nær tveimur áratugum. Sú heitir Roger’s Version og fjallar um samskipti gamals en líka spillts guðfræðikennara, Roger Lambert, og ungs, ákafs trúmanns og nema í stærðfræði. Sá ungi, Dale Kohler, vildi nálgast tilveru Guðs vísindalega og hafði hugmynd hvernig mætti sanna guðsveruna stærðfræðilega.

Sá gamli var búinn að fá nóg af fólki, sem hafði Guð uppá vasann, þóttist visst í öllum greinum trúarinnar og tróð á öðrum og skoðunum þeirra. Þegar velreiknandi vissutrúarmaðurinn fullyrti, að ef hægt væri að sanna Guð væri hægt að útrýma öllum áhrifum djöfulsins í veröldinni var hinum eldri nóg boðið. Hann spurði hvað Dale héldi eiginlega, að djöfullinn væri. Sá ungi svaraði: “Djöfullinn, það er efinn.” Sá gamli andmælti og sagði: “Mér sýnist nú, þegar við skoðum söguna, líka ayatollana og alla harðstjórana, að sannleikurinn sé ekki í samræmi við þína trú. Djöfullinn er einmitt þar sem efinn er gerður útlægur. Það er einmitt skortur á efa, sem rekur fólk til sjálfsmorðsárása eða að koma upp útrýmingarbúðum. Efinn truflar fólk og trúin ofsækir efann og drepur, ef hún mögulega getur.”

Hrokabland

Sagan heldur svo áfram og í ljós kemur hvorugur hafði rétt fyrir sér. Hið djöfullega getur bæði búið við efa og skort á efa. Líferni beggja var í mörgu áfátt. Hinn efalausi og efasemdamaðurinn frömdu báðir hræðilega glæpi í þessari sögu. Í ljós kemur, að það sem skilur milli lífs og dauða, hamingju og óhamingju er ekki háð því hvort menn ala með sér efalausa trú eða eru á varðbergi gagnvart trúarvissu. Lausnin er ekki heldur að reyna að blanda efa og trú í réttum hlutföllum. Trúmaðurinn efalausi og efasemdamaðurinn áttu það sameiginlegt að vera hrokagikkir. Báðir voru kokhraustir í eigin heimsmynd. Í sjálfumglaðri blekkingu voru þeir báðir sannfærðir um, að þeirra stefna væri sú eina rétta. Þeim yfirsást hið eiginlega og djúpsækna eðli trúarinnar, sem er auðmýkt og tilbeiðsluafstaða gagnvart mönnum, lífi og Guði. Auðmýkt, lotning, elska. Auðmýkt, lotning, elska.

Í þessu eru mikilvæg sannindi fólgin. Ef hroka er blandað í trú eða efa verður til blanda, sem er lífinu hættulegt eitur. Þau, sem hafa sannleikann í trúarefnum uppá vasann eru hættuleg sjálfum sér, samfélagi sínu og líka heimsbyggðinni, hvort sem það eru kristnir menn, múslimar eða telja sig til einhverrar annarrar trúar. Skautið yfir sögu mannkyns í huganum. Fer ekki saman, að miklu mannablóði hefur jafnan verið úthellt, þegar hrokanum er blandað í trúna? Það er sú blanda, sem brenglar og eitrar herskáa hrokagikki við víglínur heimsins, líka í Írak. Það eru fullvissir og efalausir vitbetrungar, sem með öllum ráðum og kostnaði ætla að koma sinni “alvitru” og “alréttu” stefnu á. Þegar hroka er blandað í trúarvissu þá verður afleiðingin verri fyrir mannkynið en skelfilegasta fuglaflensa. Hroki í bland við allar gerðir af trú framkallar svartadauða meðal fólks. Vandinn er ekki trúin heldur hrokinn, sem fer svo illa með og í trú.

Efahyggjan er skárri en trúarofstæki því hún hvetur ekki til herferða, manndrápa og kúgunar með sama hætti. En hrokafull efahyggja er systir hrokafullrar trúar, að því leyti að hún smættir tilveruna, er í grunninn bókstafshyggja, sem ekki umber aðrar skoðanir, getur ekki unnt öðrum, að skilgreina litríki veraldar með öðrum hætti en skv. sinni forskrift. Kynnið ykkur boðskap þeirra, sem eru herskáir guðleysingjar. Þar finnið þið ekki þroskaða vitmenn, heldur hrokagikki, sem hæða og níða. Herskáir guðleysingjar eru bókstafstrúarmenn. Hjá slíkum er jafnan stutt í ofbeldið.

Páskabróðir og Tómas tvíburi

Fyrsti sunnudagur eftir páska, dagurinn í dag, hefur stundum verið kallaður hinu skemmtilega nafni páskabróðir.[i] Í frumkristni voru páskarnir stórhátíð og guðsþjónustur voru sóttar alla daga páskavikunnar. Þau, sem voru nýskírð, voru íklædd hvítum klæðum og vikan af því tilefni nefnd hvíta vikan. Síðast voru hin skínandi klæði notuð á sunnudegi eftir páska og dagurinn því oft líka kallaður hvíti sunnudagur.

Það er ljómandi að hafa hið bjarta og elskulega nafn í huga, þegar rætt er um persónu dagsins, Tómas, lærisvein Jesú. Hann kemur ekki oft við sögu í guðspjöllunum fremur en margir aðrir vinir Jesú. Kannski er hann frægastur fyrir að neita að trúa orðspori um, að dáinn maður hafi birst. Nei, hann hafði engan áhuga á uppvakningum, draugagangi, og beitti efa gagnvart því sem normal og vel upplýst fólk gæti skýrt með heilbrigðri dómgreind.

Trú og efi.

Tómas er áhugaverður. Hann gengur undir viðurnefnunum tvíburi, sem reyndar kemur fram í texta dagsins. Reyndar þýðir nafnið Tómas tvíburi. Hans eiginlega nafn hefur horfið, sem er áhugavert. En svo eru til miklar og merkilegar sögur um kristniboð Tómasar austur á Indlandi og söfnuð, sem hann stofnaði þar. Hann hefur því líka verið nefndur postuli Indlands.

Af guðspjöllunum virðist mega draga þá ályktun, að hann hafi alls ekki verið neinn vingull, heldur stefnufastur, einlægur maður með trausta skaphöfn. Þegar Jesús ætlaði að fara norður til Júdeu í sjúkravitjun hvatti Tómas félaga sína til að fylgja meistaranum þótt ferðin væri bæði erfið og hættuleg. Einlægni Tómasar kom fram við síðustu kvöldmáltíðina, þegar hann sagði, að hann vissi ekki hvert Jesús ætlaði að fara og því síður hver vegurinn þangað væri. Jesús sagði þá við hann hin kunnu orð, að hann sé vegurinn, sannleikurinn og lífið. Jesús opinberaði sem sé Tómasi köllun sína og veru. En áleitnari verður svo myndin af Tómasi, þegar hann neitaði að trúa upprisusögunum. “Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa.”

Andlegt eða líkamlegt

Hvað var það, sem Tómas vildi? Ekki kenningar, vitsmunalega sannfæringu, fullvissu í heilanum, heldur sár, ummerki píslargöngunnar, götin eftir járnfleina. Jesús reyndi ekki sanna fyrir honum rökkerfi himinsins eða opinbera einhverja launhelgaspeki heldur vildi leyfa honum líkamlega snertingu, að þreifa á sárum.[ii] Jesús sagði: “Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar, og kom með hönd þína og legg í síðu mína, og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður.” Hvað merkir þetta? Jesús auglýsti ekki sigur sinna á dauðanum með því að reiða fram herfang úr ríki dauðans, ekki með stórkostlegum kraftaverkum, heldur með því að sýna sár eftir spjót, för eftir járngadda og hýtt bak. Táknmál hins slátraða og hlýðna lambs talar til þeirra, sem hafa eyru og auðmjúkan anda.

Hin vestræna menning hræðist sármerki, þolir illa að blóð renni, færir dauðann á stofnanir, felur öldrun og gamalmenni á hælum. Við Íslendingar erum á hraðferð í hóp þeirra, sem upphefja lúkkið og hræðast blóð, svita og tár, sem er raunveruleiki þorra mannkyns. Fólk, sem ekki þolir að sjá sár, forðast þjáningu og heldur að lífið eigi að vera eitt samfellt show fyllist efa og hræðist líka allt það, sem er harðsótt, djúprætt og krefst fórnar. Jesús bað engan um að vera fræðilegt ofurmenni án efa. En Jesús kallaði menn til þjónustu, til elsku við systur og bræður okkar í veröldinni. Það er að vera mennskur að sinna því kalli.

Sár og þjáningarmerki

Móðir Theresa er ein af þessum fyrirmyndum, sem við megum gjarnan líta til hvað þetta varðar. Hún var aldrei hrædd við, að snerta sár. Í þeim sá hún sár Jesú og í lækningu þeirra sá hún upprisukraft hans sömuleiðis. Þjónusta hennar var að vera fulltrúi Jesú.

Þegar Jesús gerði sér grein fyrir efa Tómasar tók hann ekki til við að rökræða við hann, heldur bauð honum að snerta sár. En Tómas vissi vel hve raunveruleikatengdur, jarðbundinn Jesús var og þekkti meistara sinn samstundis. Því féll hann fram og sagði þessa mikilvægu setningu: “Drottinn minn og Guð minn.” Þar var niðurstaðan og játningin. Efinn hvarf við sárið. Angistin hvarf við trúarjátninguna. Auðmýkt og lotning einkenndu og hroki var fjarri.

Páskabróðirinn talar um efann. Tvíburinn Tómas túlkar fyrir okkur stöðu efans en líka eðli trúarinnar. Efinn er hluti af lífinu, trúarlífinu líka. Við erum systkin Tómasar, efi býr í okkur öllum. Reynum ekki að deyða efann með því að leita að vissu á röngum stað og alls ekki í híbýlum hrokans eða sértæku kerfi hins útvalda hóps. Þá fer fyrir okkur eins og hólma í hlaupi. Leyfum efanum að mæta Jesú. En hikum svo ekki þegar meistarinn kemur til okkar, birtist okkur í messunni, talar til okkar í djúpum sálarinnar eða kallar í sálmum náttúrunnar. Þá ættum við í efa okkur að leyfa okkur að falla fram og segja: “Drottinn minn og Guð minn. Ég trúi en hjálpa efa mínum.”

Amen.

Prédikun flutt í Neskirkju 23. apríl, 2006

[i]Dagurinn hefur líka verið nefndur Quasimodo-sunnudagur. Nafnið virðist orientalskt, jafnvel japanskt!, en kemur af latnensku útgáfu vers í öðrum kafla 1. Pétursbréfs, Quasi modo geniti infantes...

[ii]Listamenn aldanna hafa leikið sér að því að uppteikna þennan atburð. Mynd Caravaggio, sem er birt með þessari prédikun, er ein af þeim áhugaverðu, sjáið hina algeru einbeitni Tómasar og elsku Jesú sem tjáð er.