Á siðbótardegi

Á siðbótardegi

Við fengum nýlega að heyra að 3.500 fjölskyldur á landinu okkar ættu 100 milljónir króna eða meira. Þetta eru góð tíðindi sem sýnir að efnahagur okkar hefur vænkast. Það er gott að búa við fjárhagslegt öryggi og frelsi eins og flest okkar dreymir um.
fullname - andlitsmynd Kjartan Jónsson
30. október 2005
Flokkar

Þá sagði Jesús við Gyðingana, sem tekið höfðu trú á hann: Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.

Þeir svöruðu honum: Vér erum niðjar Abrahams og höfum aldrei verið nokkurs manns þrælar. Hvernig getur þú þá sagt: Þér munuð verða frjálsir?

Jesús svaraði þeim: Sannlega, sannlega segi ég yður: Hver sem syndina drýgir, er þræll syndarinnar. En þrællinn dvelst ekki um aldur í húsinu, sonurinn dvelst þar um aldur og ævi. Ef sonurinn gjörir yður frjálsa, munuð þér sannarlega verða frjálsir. Jóh. 8. 31-36

Við fengum nýlega að heyra að 3.500 fjölskyldur á landinu okkar ættu 100 milljónir króna eða meira. Þetta eru góð tíðindi sem sýnir að efnahagur okkar hefur vænkast. Það er gott að búa við fjárhagslegt öryggi og frelsi eins og flest okkar dreymir um. Fjármálastofnanir hvetja okkur til að eyða í reglulegan sparnað og sýna fyrirhyggju og þær hafa skapað þau skilyrði að hægt er að byggja upp sjóði og skapa sér örugga framtíð og jafnvel svigrúm til að fara á eftirlaun fyrr en lög gera ráð fyrir og njóta efri áranna á meðan heilsan er enn þá góð. Mörg okkar leggjum hart að okkur við að koma undir okkur fótunum, eignast húsnæði og annað sem okkur þykir tilheyra nútímalífi. Í þessu birtist þrá okkar til að skapa okkur betra líf og góða framtíð.

Því miður búa ekki allir íbúar þessa lands við slíkt fjárhagsöryggi og -frelsi, hvað þá að geta undirbúið sig fjárhagslega fyrir efri árin. Talað hefur verið um að þjóðfélög Vesturlanda séu svo kölluð ¾ hluta samfélög þar sem ¾ hluti íbúanna býr við ágæt kjör en ¼ heyr harða baráttu fyrir tilveru sinni frá degi til dags. Því miður virðist þetta einnig vera staðan í okkar góða landi. Kjör aldraðra hafa verið mjög í sviðsljósinu að undanförnu og okkur blöskrar aðbúnaður og kjör sumra þeirra. Við segjum yfir kaffibolla að allir geti haft það gott á landinu okkar og meinum það en svo tekst ekki betur til en raun ber vitni. Hvers vegna er þetta svona? Eigingirnin er grunnsynd mansins. Hún er söm við sig og birtist í misskiptingu og óréttlæti sem fyrirfinnst í þjóðfélaginu. Það er eins á okkar landi og í öllum samfélögum á öllum tímum að sumir eru jafnari en aðrir, sumum tekst að koma ár sinni betur fyrir borð en öðrum og skara meiri eld að sinni köku en öðrum. Spámenn Gamla testamentisins áminntu þjóð Guðs sífellt um að auðsýna réttlæti í þjóðfélaginu. Sérstaklega vöruðu þeir við því að halla rétti hinna varnarlausu, ekkna, munaðarleysingja og útlendinga. Amos segir einum stað: „Ég hata, ég fyrirlít hátíðir yðar og hefi enga unun af hátíðasamkomum yðar. Þótt þér færið mér brennifórnir, þá hefi ég enga velþóknun á fórnargjöfum yðar. …Lát heldur réttinn vella fram sem vatn og réttlætið sem sírennandi læk“ (Jer. 5,21-22;24).

Það er sorglegra en tárum taki þegar kirkja Krists missir sjónar á hlutverki sínu og verður að valdastofnun er beitir óréttlæti og stundar óhæfuverk í krafti veraldlegs valds. Dæmi um það er kirkjan á miðöldum og misnotkun hennar á rannsóknarréttinum alræmda. En kirkjan á þeim tíma, undir forystu páfa, sveigði boðskap Krists um fyrirgefningu syndanna á þann veg að hún fór að selja hana fyrir fé til að afla fjár m.a. til byggingarframkvæmda, t.d. vegna Péturskirkjunnar í Róm. Aflátssalan gekk út á það að góðverk guðhrædds fólks vógu þyngra en syndir þeirra og því var til afgangur fyrir aðra sem var til sölu. Ýmsir aflátssalar voru mjög óprútnir en Tetzel er án efa frægastur þeirra sem á m.a. að hafa sagt: „Jafnskjótt og gullið í hirzluna hrekkur, til himins upp sálin úr eldinum stekkur“ og átti þá við að sálin fengi styttri vist í hreinsunareldinum ef fólk keypti sér aflátsbréf. Hallarkirkjan og háskólinn í Wittemberg í Þýskalandi sem Lúther starfaði við fengu fágætt leyfi páfa til aflátssölu sem átti að verða tekjustofn fyrir rekstur þessara stofnana. Lúther gerði sér grein fyrir að þetta stefndi heilbrigðu trúarlífi sókanarbarna hans í voða þar sem sum þeirra höfðu keypt slík bréf annars staðar og töldu að eftir það skipti guðrækni og vandað líferni ekki svo miklu máli því að búið væri að kaupa fyrirgefningu syndanna fyrirfram. Hann talaði gegn þessu í prédikunum og uppskar reiði ráðamanna. 31. október 1517, kvöldið áður en tilkynna átti að aflátssala myndi hefjast í Wittemberg, negldi hann skjal á hurð kirkju sinnar, þar sem hann mótmælti því í 95 greinum að hægt væri að selja fyrirgefningu syndanna. Þetta vakti að vonum mikla athygli og fréttin barst eins og eldur í sinu um allt Þýskaland og það gerðist sem hann hefði aldrei órað fyrir: Hreyfing fór af stað sem síðar hefur verið kölluð siðbót og er upphaf okkar kirkjudeildar og hafði mikla þýðingu fyrir tilurð annarra kirkjudeilda mótmælenda. Við minnumst þessa í dag, en siðbótardagurinn er á morgun. Þessi aðgerð Lúthers átti eftir að raska allri framtíð hans og stofna lífi hans hvað eftir annað í hættu. Hreyfingin sem hann hratt af stað lagði áherslu á að sérhver maður eigi beinan og milliliðalausan aðgang að Guði og hefur lagt mikið af mörkum til að Biblían yrði þýdd og gefin út á þjóðtungum heimsins svo að fólk gæti tileinkað sér boðskap hennar milliliðalaust. Það liðu ekki nema 23 ár frá því Lúther hengdi mótmælaskjal sitt á hurð kirkjunnar í Wittemberg og þar til prentun íslenskrar þýðingar Odds Gottskálssonar á Nýja testamentinu lauk í Kaupmannahöfn. Biblían hefur síðan verið þýdd á allar helstu höfuðtungur heimsins.

Boðskapur Lúthers var í stuttu máli sá að grundvallarvandi mannsins sé að hann hefur orðið viðskila við Guð. Það er syndin. Sambandið við Guð hefur rofnað. Aðeins Jesús Kristur getur brúað það og komið því aftur á. Það er alveg sama hvað við gerum, við getum aldrei yfirunnið aðskilnaðinn við Guð, hvorki með peningagjöfum, vönduðu líferni, fórnum eða pínslum. Við getum aðeins eignast þetta samband sem gjöf frá Jesú Kristi, í trúnni, er við setjum traust okkar á hann. Þess vegna urðu orð Páls í 1. kafla Rómverjabréfsins svo mikilvæg fyrir Lúther: „Hinn réttláti mun lifa fyrir trú.“ Þetta er náðin, eitthvað sem við fáum ókeypis, óverðskuldað. Boðskapur Jesú í guðspjallinu í dag er sá sami: „Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.… Ef sonurinn gjörir yður frjálsa, munuð þér sannarlega verða frjálsir.

Jesús er orð Guðs, boðskapur föðurins til okkar manna, hann er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Hann getur opnað okkur aðgang að Guði, leyst okkur undan valdi syndarinnar, yfirunnið sundrungina og framandleikann við Guð. Þegar Jesús kemur til sögunnar í lífi okkar opnar hann fyrir lífið frá Guði, kærleika hans, gleði, fyrirgefningu og sigur lífsins yfir dauðanum og illskunni. Í lexíunni segir að Guð muni leggja lögmál sitt í brjóst síns fólks og að allir muni þekkja hann. Jeremía spámaður fær hér að skyggnast inn í eilífðina þegar allir munu þekkja Guð og allur framandleiki hefur verið yfirunninn. Boðskapur Nýja testamentisins er sá að eilífðin sé hafin í kirkju Krists. Guð er nálægur okkur í Heilögum anda. Hann býr í okkur og vinnur nú þegar að markmiðum eilífðarinnar í lífi okkar, sem eru endurreisn, lækning og fullkomnun, en markinu verður ekki náð fyrr en sigur hans verður algjör við endurkomu hans.

En víkjum aftur að samtíð Lúthers. Okkur blöskrar að fulltrúar kirkjunnar á miðöldum skuli hafa reynt að selja fyrirgefningu syndanna. En þegar grannt er skoðað komumst við að því að ekkert er nýtt undir sólinni. Sumir samtímamenn Jesú höfðu svipað hugarfar. Í guðspjallinu sjáum við að þeir töldu að mál sín gagnvart Guði væru í góðu horfi vegna þess að þeir væru afkomendur Abrahams og því hluti af þjóð Guðs sem hlyti að merkja að hann tæki þá fram yfir aðrar þjóðir og hefði velþóknun á þeim. Jesús sagði að þetta væri falskt skjól því að aðeins hann gæti komið málum þeirra í rétt horf gagnvart Guði. Ýmsir íbúar Afríku kaupa sér verndargripi dýrum dómum sem þeir telja að geti forðað þeim frá voða. Bílsstjórar með slíka gripi halda t.d. að þeir geti brotið allar öryggisreglur í umferðinni af þeim sökum og aka óábyrgt, yfirfylla bíla sína til að auka tekjurnar og trassa að láta gera við þá. Afleiðingarnar eru oft skelfilegar. Við erum áminnt í dag um að rannsaka hjörtu okkar og spyrja hvort við skákum nokkuð í fölsku skjóli af einhverju tagi og teljum að málum okkar gagnvart Guði sé borgið án þess að Jesús komi þar nærri t.d að við séum í kirkjunni, sækjum guðsþjónustur eða lifum vönduðu lífi? Í pistlinum segir að allir hafi syndgað og skorti Guðs dýrð. Allir hafa orðið viðskila við Guð og allir þurfa að eignast samband við hann. Enginn getur komið því á nema sonurinn, Jesús Kristur, aðeins hann getur veitt okkur náð Guðs, fyrirgefningu syndanna og á sekt vegna erfiðrar fortíðar. Við berum ábyrgð á sambandi okkar við Guð hvert fyrir sig. Við höfum beinan aðgang að honum í bæninni.

Jesús segir í guðspjallinu í dag: „ Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ Mér og konunni minni finnst þetta svo mikilvæg orð að við létum letra þau inn giftingahringana okkar. Kennari minn við erlendan háskóla vann í mörg ár við Biblíuþýðingar á Kyrrahafseyjum. Hann lýsti því hvað það hafði mikla þýðingu að fólk fengi Biblíuna eða hluta hennar á sitt móðurmál. Hann starfaði á meðal mannæta sem herjuðu á fólk af nágrannaþjóðflokkum sínum. Þetta var þeim fullkomlega eðlilegt og það hvarflaði ekki að þeim að eitthvað væri athugavert við það. Eftir því sem Biblíuþýðingunni vatt fram var textinn lesinn fyrir fólkið sem hlustaði af gaumgæfni á það sem bók Guðs hafði að segja. Smám saman rann það upp fyrir því að Guð hafði skapað alla menn og einnig fólkið af nágrannaþjóðflokkunum og mannátið lagðist smám saman af. Fólkið gerði sér grein fyrir að það væri andstætt vilja Guðs að gera þessu fólki mein. Orð Guðs skapar eins og í árdaga sköpunarinnar.

Saga þjóðar okkar vitnar um þetta sama. Áhrif Guðs orðs, kristninnar, gegnsýrir allt þjóðlífið. Frá orði Guðs er sú hugmynd komin að allir séu jafnir, að kjör karla og kvenna eigi að vera þau sömu á sem flestum sviðum þjóðfélagsins, að okkur beri að hugsa um þá sem eru minni máttar. Þannig er málum ekki alls staðar háttað. Nýleg könnun sem Gallup gerði fyrir þjóðkirkjuna sýnir að enn þá eru áhrif kristinnar trúar sterk á meðal þjóðar okkar. Yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem spurðir voru sögðust biðja sjálfir, með börnunum sínum, hafa tekið þátt í barnastarfi kirkjunnar eða farið með börnin sín þangað. 78% játuðu trú á kærleiksríkan Guð og 76% játuður kristna trú. Meira en helmingur þjóðarinnar sækir kirkju a.m.k. einu sinni á ári og kirkjusókn hefur aukist á undanförnum árum. Þetta eru ágætar niðurstöður en á sama tíma eru þeir háværari sem afneita kristinni trú. Í dag erum við áminnt að umgangast og nota orð Guðs og láta það vinna sitt verk í lífi okkar og leiða okkur til sáluhjálpar. Við erum einnig hvött til að vinna að því með djörfung eins og Lúther að láta það hafa þau áhrif í íslensku þjóðfélagi að enn fleiri eignist trúna og að réttlætið nái fram að ganga fyrir alla, einnig þá sem minna mega sín. „Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“

Guðspjall: Jóh. 8, 31-36. Lexía: Jer. 31,31-34; pistill: Rm. 3,21-28.