Trúin í boltanum og trúin á boltann

Trúin í boltanum og trúin á boltann

Fótboltinn birtist okkur nú sem vettvangur trúarlegs atferlis í almannarými. Í ljósi þess hversu margir fylgjast með, er óhætt að segja að óvíða veki bænir, signingar og önnur tjáning jafn mikla athygli og á fótboltavellinum.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
25. janúar 2020

Í nýútkominni bók sinni, Að ná áttum, ræðir Sigurjón Árni Eyjólfsson þá kunnu kenningu Wittgensteins að skilgreiningar lúti sínum takmörkum eins og flest annað. Sem dæmi nefnir að að sé ekki unnt að skilgreina hugtakið „leikur“.

 

Torskilið hugtak

 

Að baki því búi fremur svip- eða ættarmót sem við getum fundið með þeirri margvíslegri iðju sem við kennum við leiki. Hið sama kann að eiga við um trúna, segir Sigurjón Árni og vísar þar í þýska guðfræðinginn Bernhard Lohse. Er hún ekki jafn óræð eins og leikurinn? Ber ekki að forðast að festa hana í þröngar ólar skilgreininga en skoða hana fremur sem samnefnara yfir hugmyndir og ástundan þar sem manneskjan tengist einhverju því sem er henni æðra?

 

Erindi mitt fjallar um leik og trú. Mig langar að skoða stefnumót þessara tveggja vídda tilverunnar, bæði þar sem afraksturinn verður hvoru tveggju til vaxtar og svo líka hitt þar sem árekstrar verða. Slík rannsókn varpar ljósi á tilvist okkar og atferli, sýnir hvernig það breytist og þróast í tímans rás og verður þar með spegill á samtímann.

 

Það er messa klukkan tvö

 

Íslensk íþrótta- og kirkjusaga geymir frásagnir af slíkum samskiptum. Til er saga af metnaðarfullum ungum presti sem í í byrjun sjöunda áratugarins hafði verið vígður til prestsþjónustu í sjávarbyggð úti á landi. Hann var mótaður af séra Friðrik Friðrikssyni, sem kemur við sögu síðar í þessu erindi, og í þeim anda hóf hann öflugt æskulýðs- og tómstundastarf. Hann var vakinn og sofinn í þeirri viðleitni sinni að efla ungmennin í sókninni og ávann sér virðingu bæjarbúa og þakklæti. Svo var það eitt sinn á sunnudegi að efnt var til fótboltaleiks á íþróttavelli í bænum. Heimamenn öttu þar kappi við lið nágrannabæjar og áhorfendur fylgdust með. Þegar leikar stóðu sem hæst, sparkaði einn leikmannanna boltanum út af og endaði hann við fætur þessa unga prests sem stóð þar álengdar. Klerkur beygði sig rólega niður eftir boltanum og gekk með hann í burtu á leið til kirkju. Hann var enn í kallfæri við söfnuðinn er sneri hann sér við og sagði stundarhátt: „Það er messa núna klukkan tvö.“

 

Horn í síðu

 

Saga þessi geymir ákveðin stef í samspili trúar og íþrótta. Frá klassísku rétttrúuðu sjónarhorni er ekki sjálfgefið að tuðruspark og aðrar íþróttir séu af hinu góða. Í það minnsta hefur margur haft varann á sér í þessum efnum eins og klerkurinn í sögunni. Því er ekki að neita að kirkjuleiðtogar hafa margir haft horn í síðu íþrótta. Á það einkum við í kjölfar siðbreytingarinnar þegar það viðhorf var algengt að íþróttir lettu fólk frá því að iðka trú sína. Púrítanar á Englandi á 16. öld töldu íþróttir leiða af sér ofbeldi og ef einhverjum datt í hug að efna til kappleikja á helgum dögum, eins og í sögunni hér að framan, þá þurfti hann að borga sektir í sjóði konungs.

 

Þessi tortryggni á sér ýmsar ástæður. Lúther var fylgjandi alþýðuskemmtun og almennri glaðværði. Hann brýndi þó fyrir fylgjendum sínum að brjóta ekki fyrsta boðorðið, að tilbiðja ekki aðra Guði en sjálfan skaparann. Slíkt hlyti að leiða til alls kyns afbrota og afglapa. Þegar peningar, kynlíf, völd eða sterkir leiðtogar verða andlag einhvers konar tilbeiðslu, steypir það fólki í glötun. Lúther talaði í hinu biblíulega samhengi um skurðgoð og falsguði en á okkar dögum myndu flestir fremur leiða hugann að fíkn og stjórnleysi. Þetta er líklega einn og sami hluturinn, svo í þeim skilningi hafa varnaðarorð hans elst vel.

 

Þegar við mærum íþróttir og leiki, vitnum við gjarnan í rómverjana sem töluðu um ,,heilbrigða sál í hraustum líkama“. Slíkt má til sanns vegar færa en þessi speki hrekkur þó skammt til að lýsa ýmsu því sem einkennir íþróttalíf samtímans. Við þekkjum það hversu nærri íþróttafólk gengur heilsu sinni í síharðnandi samkeppni. Meiðslalistinn er uggvekjandi og neysla ólöglegra lyfja leikur marga kempuna grátt. Og á meðan barist er á leikvöngum, sitja milljónir áhorfenda hreyfingarlausar í sófanum heima eða á kránni og raða í sig óhollustu!

 

Í seinni tíð hefur svo gagnrýnendum nútíma íþrótta bæst tilefni enn frekari ávirðinga þar sem keppnislið velta sér upp úr fjármunum, auðmenn kaupa íþróttafélög og hvergi verður þverfótað fyrir auglýsingum og vörumerkjum stórfyrirtækja. Þá kemur þessi iðnaður ekki vel út frá sjónarhorni vistfræðinnar. Einnota umbúðir mynda fjall af rusli að loknum leikjum. Liðsmenn fljúga á einkaþotum, jafnvel til nálægra borga sem eru í þægilegu ökufæri. Og í vor, þegar tvö ensk lið kepptu til úrslita í Champions League fór leikurinn fram í Madrid. Þau voru mörg vistsporin þegar tugir þúsunda áhangenda beggja liða flugu frá Englandi til Spánar til að vera viðstaddir þessa skemmtun sem stóð yfir í fáeinar klukkustundir. Hefði ekki verið nær að keppa á Wembley?

 

Sitthvað í gagnrýni guðfræðinga finnur sér svo annan farveg í nýjum tíðaranda. En við skulum ekki að sinni sökkva okkur dýpra í þessar hugleiðingar. Ég ætla ekki að sigla undir fölsku flaggi. Fótbolti er eitt af því fáa sem ég hrofi á í línulegri dagskrá sjónvarps. Trúin og leikurinn hafa líka fyrir löngu slíðrað sverðin. Talsverð breyting varð á trúarlífi í Evrópu á 19. öld í kjölfar upplýsingar og svo með rómantísku stefnunni. Þá slaknaði það tak sem trúarleg yfirvöld höfðu á tómstundum fólks. Afstaða kirkjunnar manna mildaðist og má segja að í kjölfarið hafi íþróttum vaxið ásmegin. Það var einmitt á tíma rómantíkurinnar þegar Ólympíuleikarnir voru endurvaktir og það í sjálfri Aþenu. Þeir leikar höfðu í upphafi trúarlegt eðli og er enn vísað til þess í siðvenjum sem tengjast leikunum.

 

Stuðningur við íþróttir

 

Andstaða snerist upp í stuðning og mörg íþróttafélög eiga rætur í trúarlegu starfi. Séra Friðrik Friðriksson stofnaði Val og Hauka og séra Bragi Friðriksson er guðfaðir Stjörnunnar í Garðabænum. Á Englandi, vöggu fótboltans eiga nokkur sögufræg lið rætur að rekja til kirkjulegs safnaðarstarfs. Ástæða þess að Southampton eru kallaðir dýrlingarnir er sú að það var kristinn söfnuður sem stofnsetti liðið í lok 19. aldar. Fulham og Manchester City urðu líka til í tengslum við kirkjulegt safnaðarstarf. Félagsskapurinn Muscular Christianity, og við getum þýtt sem „stæltur kristindómur“ voru kristin mannræktar og líkamsræktarsamtök um þetta leyti. Þau bera ábyrgð á margvíslegu öðru framtaki af þessum toga. Loks má nefna að það voru meþódistar sem stofnuðu knattspyrnufélagið Everton. Skammt frá Goodison park, heimavelli liðsins er kirkja heilags Lúkasar og félagið hefur það fyrir reglu að spila ekki leiki á messutíma á sunnudögum. Þá get ég þess af augljósum ástæðum að gyðingar stofnuðu bæði Tottenham og Ajax.

 

Í þessu sambandi má svo rifja upp kostulega ákvörðun sem tekin var í tengslum við Kristnitökuhátíðana á Þingvöllum árið 2000. Ef mig misminnir ekki gengu skipuleggjendur þannig frá dagskránni að hægt yrði að horfa á úrslitaleikinn í Evrópukeppninni í Fótbolta sem fór fram í Rotterdam í Hollandi, á sama tíma. Lengra verður vart gengið í jákvæðninni í garð knattspyrnunnar.

 

Drápu Liverpool aðdáendur Guð?

 

Fótboltinn birtir okkur margar þverstæður. Sá beitti pistlahöfundur Halldór Armand hefur þá skilgreiningu á Íslendingum eftir frænda sínum, að þeir séu trúleysingjar sem haldi með Liverpool. Hann snýr út úr þekktustu setningu Nietzsches og segir: „Guð er dauður og við Liverpool aðdáendur drápum hann.“ Hér litlu síðar verður einmitt fjallað um það hvernig fótboltinn hefur tekið sér trúarlegt hlutverk. En það er meira en það og mögulega er hann margslungnari en svo að þessi yfirlýsing Halldórs hitti í mark. Fótboltinn birtist okkur nú sem vettvangur trúarlegs atferlis í almannarými. Í ljósi þess hversu margir fylgjast með, er óhætt að segja að óvíða veki bænir, signingar og önnur tjáning jafn mikla athygli og á fótboltavellinum.

 

Í jólakveðju sinni til áhangenda Liverpool lýsir þjálfarinn Jurgen Klopp lýsir andrúmsloftinu andartökin fyrir leik. Þar segir meðal annars í minni þýðingu:

 

„Búningsklefinn okkar endurspeglar það hversu dásamlegt það er þar sem margbreytileg menning, ólíkar hefðir, bakgrunnur og átrúnaður mætast hjá samstarfsmönnum sem eru líka vinir. Allir eiga þeir sameiginlegt markmið. Það er hreint ótrúlegt að verða vitni að slíku.“

 

Við sem tókum kveðjuna til okkar, höfum vafalítið flest sett þessa frásögn í samhengi við það sem birtist á skjánum þegar leikir fara fram. Hegðun margra leikmanna er einhver sýnilegasta tjáning átrúnaðar í okkar svokallaða afhelgaða heimi.

 

Trúin í boltanum

 

Gárungarnir kalla tvo markhæstu leikmenn Liverpool, bræðralag múslíma enda láta þeir enni snerta jörð eftir að þeir hafa skorað mark. Þeir eru að sama skapi virkir í mannúðarstarfi í heimalöndum sínum, Egyptalandi og Senegal og ólíkt betri fyrirmyndir en margur kappinn sem sló í gegn á grænum grundum fótboltans hér fyrr á árum. Paul Gascoine, Tony Adams, George Best of fleiri, héldu beint á krána eftir leiki og gula pressan myndaði þá góðglaða á öldurhúsum. Þessir drengir snerta ekki vín og verja frítíma sínum í uppbyggilegri iðju. 

 

Í veftímaritinu The Athletic var sagt frá því nú á dögunum þegar Alisson, markvörður Liverpool skírði sóknarmann sama liðs, Firmino inn í söfnuðinn sem hann er hluti af. Það er hvítasunnuhreyfingin, Hillsong sem hefur vaxið ævintýralega á síðustu árum og hefur laðað að sér marga fjársterka og fræga einstaklinga. Eftir að sigur var í höfn á fyrrnefndum úrslitaleik síðastliðið vor og liðsmenn fögnuðu í sínum rauðu búningum, var Alisson í hvítum bol með tákni samtakanna: Krossi, jafnaðarmerki og hjarta.

 

Sjálfur talar þjálfarinn, Jurgen Klopp, á hreinskilinn hátt um mótmælendatrú þá sem hann aðhyllist. Hann lýsir því hvernig það mótar viðmót sitt og hugmyndir innan vallar sem utan. „Það að Jesús skyldi deyja fyrir syndir okkar er stærsti áfanginn í sögu mannkyns“, segir Klopp. „Það breytti öllu, nú þurfum við ekki að gjalda fyrir syndir okkar.“ Þegar við sjáum skjannahvítt bros hans getum við hugleitt áhrifamátt þessara orða.

 

Og Klopp er ekki aðeins innblástur fyrir leikmenn og áhorfendur. Slík er útgeislunin, sannfæringin, umhyggjan og leiðtogasýnin að menn tala nú í fullri alvöru um að leiðin frá Liverpool komi jafnvel til með að liggja til einhverra annarra sviða en íþróttanna. Staðreyndin er sú, að í samtíma okkar standa sárafáir einstaklingar upp úr fjöldanum sem raunverulegir leiðtogar. Þjóðríki, alþjóðleg samtök og stórfyrirtæki – lítið virðist fara fyrir æðri hugsjónum þegar við metum þau sem eru þar í fararbroddi. Skyldi Klopp enda sem kanslari eða verður frami hans á vegum Sameinuðu þjóðanna? Hvað myndi það segja okkur um allt um lykjandi hlutverk fótboltans á okkar tímum?

 

Meira en líf og dauði

 

Klopp er líka í góðum félagskap leiðtoga í hlutverki sínu. Einn forvera hans, Bill Shankly, komst svona að orði: „Some people believe football is a matter of life and death, I am very disappointed with that attitude. I can assure you it is much, much more important than that.”

 

Og þá kemur einmitt að þriðju víddinni í þessari yfirferð. Trúin gegn boltanum og trúin í boltanum hafa verið rædd. Loks er það trúin á boltann. Því var fleygt hér í upphafi að trúin væri jafn sleip og leikurinn, torvelt væri að reyna að ná á þeim tangarhaldi skilgreiningarinnar. En við getum þó talað um svipmót í þessu sambandi. Trúarhugtakið getur fallið undir það sem gefur tilverunni gildi, sem það afl er fær einstaklinginn til þess að stíga út fyrir sín mörk og taka á móti reynslu sem hafin er yfir hina hversdagslegu tilveru.

 

Hér erum við komin á slóðir guðfræðingsins Pauls Tillichs. Í hans augum er trú samheiti yfir það sem skiptir okkur mestu máli – „ultimate concern“ og trúariðkun er það að stunda það sem okkur varðar mestu um. Metsöluhöfundurinn kunni Yuval Noah Harari telur að í þessari færni, að geta tengst huglægum þáttum sterkum böndum, leynist yfirburðir mannsins gagnvart öðrum tegundum. Það gerði honum kleift að þeytast á leifturhraða upp fæðukeðjuna. Sameiginlegar sögur geri okkur kleift að mynda stærri og öflugri hópa sem stefni í sameiningu að ákveðnu marki. Í hans huga verður alls kyns hugmyndafræði og tengsl að þessum huglæga hlutveruleika og þar með talin trúarbrögðin og fylgsipekt við íþróttafélög.

 

Sé litið á breiðan skara knattspyrnuáhangenda kemur á daginn að margir þeirra lifa fyrir lið sitt. Gengi þess hefur áhrif á líðan þeirra og lundarfar. Þeir stunda margvíslegt, og oft mjög tímafrekt, „ritúal“ í tengslum við stuðning sinn. „Pílagrímsferðir“ á alþjóðleg knattspyrnumót eru fastur liður hjá stuðningsmönnum. Þá sýna þeir liðinu óbilandi hollustu.

 

Þegar illa gengur og aðrir finna sér nýtt lið til fylgdar heldur þessi hópur tryggð við sína menn. Kærleikann til liðsins má því kalla „skilyrðislausan“. Loks er stemmningin á áhorfendabekkjunum líkust vakningarsamkomu. Með sama hætti er illskan og bölið á sínum stað þar sem áhorfendur kyrja bölbænir andstæðingum síns liðs. Í sinni myrkustu mynd birtist þetta í ofbeldisverkum sem leiða jafnvel til mannvíga.

 

Það er ekki eins og menn séu að pukrast með þessi líkindi. Þeir á Stöð tvö kalla fótboltaþætti sína, messuna og tákn hennar er fótbolti með geislabaug. Bikarar sem sigursæl íþróttafélög geyma í glerskápum upp um alla veggi, eiga að sumra mati sér fyrirmynd í kaleiknum sem Kristur bar lærisveinum sínum við síðustu kvöldmáltíðina. Og nú í vor fjölmenntu Liverpool aðdáendur í Seljakirkju og báðu fyrir sigri í deildinni. Þeir uppskáru sigur í Evrópukeppninni sem er ekki síðra hnoss, þótt hinn kaleikurinn sé vissulega langþráðari.

 

Þótt hin fagra íþrótt eigi engin svör við því hvað gerist eftir að við höfum kvatt þennan heim þá fylgdi samt alvara orðum Shanklys þegar hann sagði fótboltann vera miklu miklu merkilegri en lífið og dauðinn. Og yfirnáttúran læðist inn í hugsun og talsmáta áhangenda. „Já, það er eins gott að jinxa þetta ekki með of bjartsýnni spá – þá getur illa farið.“ Svona komast margir að orði þótt brosað sé út í annað. Þetta minnir á örlagahyggju eða 17. aldar hugmyndir um reiði Guðs sem bitni á þeim sem tala gáleysislega um hin helgustu málefni.

 

Svo er það mínútuþögnin í upphafi kappleikja, sorgarböndin sem liðsmenn hafa á arminum, ef einhver hefur fallið frá. Athöfnin þar sem þjóðir minnast fallinna hermanna, allt gerist þetta á fótboltavellinum. Talan 96 aftan á búningi Liverpool vísar til fórnarlamba á Hillsborough vellinum sem tróðust undir. Þar höfum við píslarvottana. Og til að undirstrika fyrrnefnd tengsl kirkju og bolta í þeirri góðu borg þá var það biskupinn í Liverpool sem leiddi rannsóknina á tildrögum þeirra hörmunga.

 

Já, gegna leikvangar okkar daga því hlutverki sem dómkirkjur gerðu hér forðum? Þeir rísa upp úr íbúðarhverfum og fólk streymir þangað að úr öllum áttum. VAR tæknin og marklínumælingar skera úr í vafamálum með nákvæmni upp á millimetra, svo allt sé nú satt og rétt. Það minnir á helgisiði miðaldakirkjunnar og ofurvandvirkri meðferð hennar á sakramentum og helgum munum.

 

Pílagrímar á miðöldum fóru milli borga á ferð sinni til Róms og Jórsala. Þeim þótti það fréttnæmast á hverjum stað og skráðu í ferðabækur sínar hvar finna mætti muni tengda persónum í Biblíunni. Þessi borg átti flís úr krossi Krists, lokkur úr hári Jóhannsar skírara var í annarri borg og nögl af mærinni Maríu í þeirri þriðju. Í dag getum við sagt að Barcelona eigi Messi og Suárez, Torino eigi sinni Ronaldo, í Manchester sé Aguero og þeir Virgill og Salah séu stolt og prýði Liverpool borgar.

 

Takmörk samlíkingar

 

Já, vissulega getum við fundið margt í tengslum við þennan risavettvang sem fótboltinn er og líkist átrúnaði. En við skulum engu að síður átta okkur á takmörkum þeirrar samlíkingar. Hér er engin guðfræði. Átrúnaður verður ekki til eingöngu með samspili tilfinninga og aðgerða. Hann mótast með því hvernig ferli hugsunar og atferlis sem tengjast á ákveðinn hatt. Guðfræði kann að vera mörgu trúðu fólki fjarlæg í fyrstu, en hún er engu að síður það kerfi sem setur margvíslegar kenndir í samhengi. Þannig eru margir trúmenn innan raða íþróttanna, virkir í mannúðarstörfum. Það er gert í krafti þeirra hugsjóna sem trúin miðlar. Já, sannarlega eru snertifletirnir margir en í reynd er þó ákveðinn grundvallarmunur á trú og íþróttum. Og í anda Lúthers held ég að það sé hollt að halda þessu tvennu aðskildu.

 

Hér hefur verið farið út um víðan völl, svo sem hæfir umfjöllunarefninu. Hvað segir þessi saga okkur um rætur okkar og samtíma? Drap fótboltinn Guð eins og Halldór Armand lýsti yfir? Eða er Guð lífseigari en svo að honum verði komið fyrir kattarnef? Nútíma fótbolti birtir okkur svipmynd af mannkyni. Þar koma saman, eins og Klopp lýsti í jólakveðju sinni, einstaklingar frá öllum löndum, með ólíka lífsskoðun og bakgrunn. Æ stærri hluti þeirra á rætur sínar í þriðja heiminum þar sem vegur trúarinnar fer síst minnkandi.

 

Þrátt fyrir skuggahliðar peninga og óheftrar samkeppni, þar sem falsguðir birtast og fíknin er undirliggjandi, kynnumst við líka fyrirmyndum. Þær eiga sér líf utan vallar og hugsjónir sem ná lengra og dýpra en það að sigra næstu keppni. Framtíðin verður að leiða það í ljós en vel má vera að fótboltinn eigi eftir að bera merki trúarinnar áfram inn í nýja tíma af sannfæringu og krafti.