Kæruherferð Vantrúar greind í Ritinu, tímariti Hugvísindastofnunar

Kæruherferð Vantrúar greind í Ritinu, tímariti Hugvísindastofnunar

Ritið, tímarit Hugvísindastofnunar, hefur nú birt stóra grein eftir Guðna Elísson prófessor við Íslensku- og menningardeild HÍ sem ber heitið „Fúsk, fáfræði, fordómar? Vantrú, Háskóli Íslands og akademísk ábyrgð“.
Bjarni Randver Sigurvinsson
19. desember 2014

Ritið

Ritið, tímarit Hugvísindastofnunar, hefur nú birt stóra grein eftir Guðna Elísson prófessor við Íslensku- og menningardeild HÍ sem ber heitið „Fúsk, fáfræði, fordómar? Vantrú, Háskóli Íslands og akademísk ábyrgð“. Greinin, sem alls er 55 síður að lengd, fjallar um kæruherferð Vantrúar á hendur mér á árunum 2010-12 og tekur þar sérstaklega fyrir hvernig vantrúarfélagar skipulögðu hana og fylgdu henni eftir og hvernig stjórnsýsla háskólans og siðanefnd brugðust við í kærumáli nr. 1/2010 en óháð rannsóknarnefnd háskólaráðs og Félag prófessora við ríkisháskóla áttu síðar eftir að fella þungan áfellisdóm yfir þeirri málsmeðferð. Öll kærumálin fimm vann ég að lokum með ótvíræðum hætti.

Þessi úttekt Guðna Elíssonar og þær skýringar sem hann setur þar fram veita góða innsýn í málið sem ætti að nýtast öllum þeim sem láta áhrif þrýstihópa á háskóla, stjórnsýslu og störf siðanefnda sig varða. Markmiðið með greininni er ekki síst það að fyrirbyggja frekari mistök innan háskólasamfélagsins af þeim toga sem átti sér stað í þessu máli og gerði það að verkum að það varð að einni allsherjar flækju með tilheyrandi tjóni fyrir Háskóla Íslands og kæruþola.

Þetta er önnur tveggja greina sem Guðni Elísson birtir um málið í ritrýndum fagtímaritum um þessi áramót en áður hefur hann birt eina grein um málið í Tímariti Máls og menningar, hefti 4 2012, sem ber heitið „Í heimi getgátunnar: Kærur Vantrúar, glæra 33 og Egill Helgason“. Hin greinin sem birtast mun innan tíðar í Ritröð Guðfræðistofnunar ber heitið „„Britney fokkíng Spears“: Kærur Vantrúar og innihaldsgreining í hugvísindum“. Í báðum þeim greinum bregst Guðni við kærum Vantrúar og sýnir fram á hvernig ásakanir vantrúarfélaga fái ekki staðist en allar voru þær byggðar á getgátum þeirra um hvað ég sem guðfræðingur gæti hafa sagt eða látið ósagt um félagið í tengslum við fáeinar glærur í einni kennslustund sem enginn þeirra var viðstaddur.

Með þessum nýju greinum í Ritinu og Ritröð Guðfræðistofnunar er Guðni Elísson að svara gagnrýni vantrúarfélagans og heimspekingsins Ásgeirs Bergs Matthíassonar sem hélt því fram að Guðni hefði sniðgengið margar af helstu athugasemdum Vantrúar úr kæruherferðinni í grein sinni í Tímariti Máls og menningar. Af því tilefni þrýsti Ásgeir Berg mjög á Guðna að standa fyrir svörum en tók eins og aðrir vantrúarfélagar ekkert tillit til þess að sjálfur hafði ég margsvarað þessum atriðum ítarlega. Svör Guðna og greining hans eiga þó tvímælalaust erindi til allra sem áhuga hafa á þessu máli sem hefur víðar skírskotanir og varðar stöðu og sjálfstæði háskóla í nútímasamfélagi, fagleg vinnubrögð í stjórnsýslu, styrk akademískrar umræðu á Íslandi, o.s.frv.