Um hvað ertu?

Um hvað ertu?

Líklega spyr Biblían og svarar sömu spurningu um okkur: ,,Um hvað ert þú?" Það sýna frásagnirnar sem hér voru lesnar. Og hún hvetur okkur til að bera hana upp, ekki aðeins við okkur sem einstaklinga heldur við hvert það samfélag sem við tilheyrum.

 Einu sinni sat ég sveittur við að skrifa bók. Þetta var mikil ritgerð, rannsókn sem var langtum stærri en önnur sem ég hafði áður skilað af mér. Árum saman hafði þessi bók verið í kollinum á mér og stundum var hún eins og óþægilegur hnútur í maganum – það var eins og eitthvað væri fast í belgnum og neitaði að yfirgefa hann.


Um hvað er bókin?

 

Ég reyndi að bera mig vel og vildi helst ekki ræða þennan ófædda förunaut minn, þetta steinbarn sem ég óttaðist að ég myndi ganga með um ókomna tíð. Svo var það einhvern tímann að það barst í tal á mannamótum að ég stundaði þessar ritsmíðar og lítill frændi leit til mín og spurði þessarar hversdagslegu spurningar: ,,Um hvað er svo þessi bók?"

 

Í hreinskilni sagt þá átti ég í megnustu erfiðleikum með að svara þeirri spurningu. Ég hafði margsinnis rætt efnið við mér fróðara fólk en þegar átti að koma kjarna hins ókláraða verks í orð svo barnið skildi þá vandaðist málið. Og um leið áttaði ég mig á því að ef ég ætlaði að geta komið þessu í fast og áþreifanlegt form þá yrði ég að byrja því að svara þessari grundvallarspurningu á eins einfaldan hátt og auðið væri: Um hvað er bókin?


Hvað gerum við hérna?

 

Já, ykkur kann að finnast þetta kyndug staða og líklega kostulegt að höfundur geti ekki rætt inntak verksins sem unnið er að. En hvað ef við yfirfærðum nú spurninguna á líf okkar. Um hvað er það? hvert er markmið þitt? þessi fjölskylda sem sest stöku sinnum niður fyrir framan skjáinn, í bílsætin, við matarborðið – um hvað er hún? Vinnustaðurinn? já hvað gerum við þar?

 

Eru svörin nógu einföld til að hvert barn geti skilið?

 

Einu sinni heyrði ég sögu af eiganda bifreiðaverkstæðis sem bar þessa spurningu undir samstarfsmenn sina: ,,Hvað gerum við hérna í vinnunni?" Þeir komust ekki upp með að gefa hið fyrirsjaánlega svar: „Við gerum við bíla“. Það þurfti að komast út fyrir þann ramma og skýra tilganginn með olíuskiptum, herslum og stillingum svo að ljóst væri að starfsemin hefði eitthvert æðra markmið. Loksins átti einn úr hópnum kollgátuna og sagði: „Við leysum samgönguvanda fólks.“ Það var eins og stund sannleikans hafði runnið upp. Enginn gerði lengur við bíla. Allir fóru að leysa vandamál.


Köllun

 

Í textum dagsins er fjallað um málefni sem gæti vel talist vera umfjöllunarefni kristinnar trúar. Það er þetta sem Biblían nefnir að fá köllun. Mitt í hugsunarlausu amstri hversdagsins er eins og hnippt sé í okkur og okkur er kippt út úr hinu vanalega. Það er eins og við eigum stærra og merkilegra hlutverk en að þrauka í gegnum harðindin og þreyja stundirnar.

 

Í lexíunni heyrðum við af dæmigerðri köllun spámanns. Gídeon, sá sem Gídeonfélagið er nefnt eftir, fær það hlutverk að leysa fólkið sitt undan oki erlends valds: ,,Farðu í styrkleika þínum og frelsaðu þjóðina úr höndum Mídíans." Já, það sem gerir söguna dæmigerða eru viðbrögð hins væntanlega leiðtoga. Hann þráast við. Lítur á spegilmynd sína og sér ekkert nema veikleika og takmörk: „Æ, Drottinn hvernig ætti ég að frelsa Ísrael?“ spyr hann, „ætti mín er sú aumasta og ég er smæstur í ætt minni.“

 

Þetta var auðvitað upphafið að glæstum ferli – hinn naftogaði Gídeon átti eftir að rita nafn sitt á spjöld ritningarinnar og þar með sögunnar. Köllunin sem hann fékk var ekki annað en orð sem barst til hans – orð sem í raun bæði spurði og svaraði þessari grundvallarspurningu sem ég fékk þegar bókin mín var óskýr í kolli og óþægileg í maga: ,,Um hvað ert þú?"

 

Hann þráaðist við og sagðist í raun ekki vera um neitt: Ég er bara lítið peð til einskis nýtt. En það var ekki rétt svar því knúinn áfram af anda Guðs átti hann eftir að uppfylla þessa köllun.


Stigið út úr örygginu

 

Sagan sem við hlýddum á í guðspjallinu kallast sannarlega á við þessa hugsun. Við heyrum þessa textabúta eina og afmarkaða frá samhengi sínu og textaumhverfi. Þar er heldur betur talað um köllun, tilgang og hlutverk. En áður en Jesús flutti þessa ræðu hafði hann sagt dæmisögu af nokkru því sem við getum sagt að Biblían fjalli um – nefnilega himnaríki. „Líkt er um himnaríki og dýrlega kvöldmáltíð sem boðið var til“ segir í upphafi þeirra orða.

 

Og hvað gerðist þegar boðskort höfðu verið send út? Jú, enginn mátti vera að því að mæta. Allir voru uppteknir við sínar hversdagsskyldur og hvunndagsamstur. „Ég er ekki um neitt“ svaraði hver á fætur öðrum þegar spurningin var borin upp. „Já, um hvað ertu?“ Og loks bauð gestgjafinn hverjum þeim sem varð á veginum inn í húsakynnin en hinir urðu eftir í kuldaum.

 

Hérna er sagan útskýrð nánar. Þessi texti er í raun dæmi sem margur andstæðingur kristinnar trúar hefur notað sem dæmi um öfgafullan boðskap. Þarna er vissulega stigið fast til jarðar og talað um að afneita fjölskyldu sinni og uppruna fyrir köllun sína. En hér er í raun talað út frá samhengi fyrri frásagnar og þeirrar afstöðu sem kemur fram að enginn geti þjónað tveimur herrum.

 

Hér er með öðrum orðum stillt fram þessum andstæðum – líf þæginda og öryggis annars vegar og svo hins vegar tilvera sem er rík að tilgangi, merkingu og inntaki.


Um hvað ertu?

 

Sjálfsagt hafa þessar andstæður sjaldan haft viðlíka merkingu fyrir nokkrar kynslóðir en þær eru nú eru uppi. Sinnuleysið er helsta vopn þeirra sem vinna gegn mannréttindum og stunda rányrkju á takmörkuðum gæðum jarðar. Fela má áganginn með sífelldum klið afþreyingar og framsetningu hálfsanninda en öðru fremur nautnum hins hversdagslega þegar aldrei er spurt um æðri markmið og tilgang.


Þegar við lítum í kringum okkur sjáum við líka að fólkið sem rís upp gegn ofureflinu er reiðubúið að færa fórnir.

 

Og það verður sjálfsagt hlutskipti okkar ef við viljum vinna að framgangi þeirra gilda sem Kristur boðar okkur að fylgja.

 

,,Um hvað er bókin sem þú ert að skrifa?" spurði barnið. Ég sá að til þess að einhver skriður kæmist á verkið þyrfti ég að geta svarað því. Þegar það lá fyrir, var eins og stífla brysti og verkinu miðað áfram af áður óþekktum hraða! Þannig er það líka í lífi okkar. Um það fjalla þessir mörgu textar Biblíunnar sem lýsa því þegar manneskja fær köllun í lífi sínu.


Og Biblían?

 

Já um hvað er Biblían? Hvernig svara ég barni sem spyr slíkrar spurningar?

 

Líklega spyr Biblían og svarar sömu spurningu um okkur: ,,Um hvað ert þú?" Það sýna frásagnirnar sem hér voru lesnar. Og hún hvetur okkur til að bera hana upp, ekki aðeins við okkur sem einstaklinga heldur við hvert það samfélag sem við tilheyrum. Og ef við náum ekki að svara henni, ef svarið vefst fyrir okkur, þá þýðir það ekki að það sé ekki þarna. Biblían geymir jú ótal frásagnir af fólki sem í fyrstu stóð á gati þegar það var spurt að þessu. En þar með lauk ekki þeim sögum því mestu leiðtogar kristninnar eru einmitt þau sem gáfust ekki upp og héldu áfram að spyrja. Loks þegar niðurstaðan lá fyrir, þá unnu þau meiri þrekvirki en þau hafði nokkru sinni órað fyrir að þau ættu eftir að vinna.

 

Sú kann að vera raunin með okkur líka.