Nú stendur jólahátíðin sem hæst. Tímabil eftirvæntingar er að baki. Aðventan er liðin með öllum sínum margbreytilegu litbrigðum. Hátíðleikinn nær alltaf hámarki á aðfangadagskvöld þegar jólaklukkurnar klingja. Gjafir hafa gengið á milli vina og kærar kveðjur lesnar. Rjúkandi krásir hafa verið bornar á borð með endalausu úrvali meðlætis. Á jóladegi eru þessar minningar lifandi í hugskoti okkar og eftir því sem árunum fjölgar í lífi okkar skynjum við það hversu mikill hluti minningarbrotin eru af okkur sjálfum. Við erum samsett úr því sem við höfum gert og upplifað og mætum ókomnum tímum með þá reynslu í farteskinu.
Mót hátíðar og hversdags
Á jóladegi hefur sitthvað gerst og sitthvað breyst frá því í gærkvöldi. Margir hafa hlýtt á hádegisfréttirnar e.t.v. á meðan þeir kláruðu tiltektina eftir veisluhöld gærkvöldsins. Þar fær umheimurinn aðeins að gæjast inn í líf okkar. Í gærkvöldi neyttum við alþjóðlegra krása í öllum sínum litbrigðum. Í dag eru margir með íslenskan mat á borðum, hangikjötið góða – og það staðsetur okkur í menginu: hluti af þjóð, sem á sér bæði sögu og framtíð. Senn heldur hversdagsleikinn að nýju inn í líf okkar. Það af honum sem mætir okkur núna, er eftir sem áður baðað þeirri helgi sem jólunum fylgir. Þannig er jóladagur eins og stefnumót hátíðar og hversdags, hins tímalausa og hins takmarkaða.
Jólaguðspjallið hefur einhvern veginn annan hljóm eftir því hvort það er lesið á aðfangadagskvöld – mitt í algleymi hátíðarinnar, eða á jóladag. Í gær drukkum við í okkur helgimyndina, þessa fallegu sögu sem við höfum svo oft heyrt, sungið um, eða séð flutta á leiksviði. Í dag tökum við ef til vill eftir öðrum einkennum þessarar knöppu frásagnar sem guðspjallamaðurinn Lúkas setur sem upphaf frásagnar sinnar af Jesú frá Nazaret. Þar leynist margt sem kallar fram myndir í huga okkar. Næturhimininn er yfir öllu. Fatnaðurinn er fábrotinn. Ryk þyrlast upp undan sandölum. Komið er að luktum dyrum. Menn sitja í nóttinni, umvafðir þykku myrkrinu. Þar býr óttinn en þar hljómar líka englasöngur. Og þarna er fjárhúsið – hvaða myndir kallar það fram? nú eða sjálf jatan?
Flóttamannsvegurinn
Á jóladag, mitt á milli hátíðar og hversdags hugleiðum við ákveðna hlið á þessari sögu. Hún fjallar um þá sem ekki fá aðgöngu. Jólaguðspjallið segir frá þeim sem eru utangarðs en þannig eru móttökurnar sem mæta sjálfum frelsaranum þegar hann kemur í heiminn. Margir þekkja þá tilfinningu að vera haldið utan við hópinn og allir þekkja til einstaklinga og hópa sem þurfa að standa utandyra því þeir eru ekki velkomnir. Skilrúmin eru víða í lífinu, allt frá skólalóðinni og vinnustaðnum, atvinnulífinu þar sem ekki er rými fyrir alla, til landamæranna sem greina á milli velsældar og örbyrgðar eftir því hvar einstaklingurinn er fæddur.
Við vitum innst inni að þar er víða hrópandi óréttlæti. Hverju fær manneskjan ráðið um það hvar hún fæðist? Við ýtum þeirri hugsun stundum frá okkur en hún sækir þá aftur að okkur. Sá er líka boðskapur jólaguðspjallsins að sjálfur Drottinn birtist okkur í þessum heimi, eins og sá sem ekki fær inngöngu.
Snorri Hjartarson lýsir því í ljóðinu Flóttaveginum, þar sem han hugleiðir hlutskipti þeirra sem flúðu Ungverjaland eftir uppreisnina þar á sjötta áratugnum. Hann lýsir hjónunum sem ganga í flóttamannaskaranum, þar sem móðirin reynir að skýla barninu fyrir næðingnum. Svo segir í framhaldi:
Og ég sagði; þið eruð þá enn sem fyrr á veginum flóttamannsveginum
en hvar er nú friðland hvar fáið þið leynzt með von ykkar von okkar allra ?
Þau horfðu á mig þögul og hurfu mér sýn inn í nóttina myrkrið og nóttina
Já, við getum gert okkur það í hugarlund hvernig það er fyrir konu í barnsnauð að fá ekki aðgengi að ærlegu rúmi með sæmilega dýnu. Illa þykir okkur Suðurnesjamönnum komið fyrir fæðingardeildinni okkar, sem eitt sinn var rómuð á landinu öllu fyrir framsýni og afbragðs þjónustu. Við vitum að ekki er réttlætinu fyrir að fara að dauðlegir menn skyldu fá að höndla svo með fjölskyldusilfrið okkar að nú þarf að draga úr slíkri þjónustu. Guð blessi þá sem þar starfa og forði að skaði verði af því ástandi sem við þurfum að búa við.
Boðskapur jólasögunnar
Jólaguðspjallið setur allt á sinn stað. Það fjallar um hvað það er að sýna hluttekningu. Það lýsir því hvernig hinn almáttugi tekur á sig veikleikann og umvefur um leið hvert mannsbarn í þeirri fullvissu að það geti treyst einu þótt allt annað bregðist. Já, náðin Drottins víkur ekki né hverfur þótt heimur hafni.
Ganga þeirra eftir veginum frá Nazaret til Bethlehem á sér marga samsvörun. Það er ferðin sem Snorri lýsir, eftir flóttamannsveginum, ferðin sem er þrungin óvissu og ótta. Hvernig verða viðtökurnar þegar við komum á áfangastað? Hverjir verða þar til að taka á móti okkur? Þrúgandi hefur það verið að knýja dyra á hverjum staðnum á fætur öðrum og vera snúið á braut, í gættinni.
Hvert sækir sá huggun sem upplifir hið sama í sínu lífi? Hvert leitar sá sem er afskiptur í umhverfi sínu? sá sem leitar atvinnu en enga fær? sá sem bíður í röðinni fyrir utan matarúthlutunina? sá sem hrökklast hefur frá landi sínu og leitar aðgangs á nýjum slóðum? sá sem er einmana mitt í mannmergðinni?
Svona hefst fagnaðarerindið og með þessum hætti vindur því fram. Það boðar þeim sem líða slíkar þrautir það sem verður sem rauður þráður í lífi og dauða Jesú Krists. Hann tekur sér stöðu með þeim sem eru undirokaðir. Og hann áminnir þá sem njóta betra hlutskiptis, um það að okkar göfugasta hlutverk er að sinna þeim sem heimurinn hefur snúið bakinu við. Gangið út, já, gangið út um hliðin,
greiðið götu þjóðarinnar. Leggið, leggið braut, ryðjið grjótinu burt, reisið merki fyrir þjóðirnar.
Um leið lýsir frásögnin því hvernig hjálpin kemur stundum úr óvæntri átt. Þau leita ásjár í því umhverfi sem einkennist af því jafnvægi sem við finnum í ríki náttúrunnar. Já, hvaða hughrif eru það annars sem fjárhúsið veitir? Er það ekki öryggið, skjólið, griðarstaðurinn? Og sjálf jatan – sem ætti með réttu að vera eitt af höfuðtáknum kristinnar trúar. Hversu þrungin er hún ekki af merkingu – með vísan í tengsl mannsins við lífríkið og ábyrgð mannsins á því miðla næringu til alls þess sem lifir.
Hið náttúrulega jafnvægi
Jólaguðspjallinu lýkur í hinu fullkomna jafnvægi. Í öndvegi þess er svo hvítvoðungurinn, Jesúbarnið. Barnið flytur okkur hin djúpstæðu skilaboð mitt í ólgunni, óréttlætinu og óttanum sem við höfum fengið að kynnast. Barnið miðlar okkur hinu gagnstæða. Í því felst vonin og framtíðin, sakleysið og þessi nærvera sem barnið hefur – og getur látið menn leggja ágreiningsmálin til hliðar. Það kallar fram bros og gleði.
Gleðileg jól kæru vinir. Jólaguðspjallið birtist okkur stundum sem glansandi mynd. Í innsta kjarna sínum leynist þar ólga og öflugur boðskapur um útilokun og flótta. Erillinn í mannlífinu er mikill og allir eru á harðaspani – Bethlehem í brasi, sungu börnin hér á aðventunni í fyrra. Einhvers staðar í bakgrunninum ganga þau frá húsi til húss og allstaðar er þeim vísað á braut. Þar til þau leita skjóls hjá dýrunum í fjárhúsinu.
Jólaguðspjallið minnir okkur á það að hamingja er ekki það sama og stundarhrifning. Hún byggir á jafnvægi allra þátta tilverunnar – að gefa og þiggja, að standa með þeim sem hvergi fær inni. Það er hin sanna hamingja. Oft kemur hún í kjölfar mikilla fórna og erfiðis. Á jólunum skulum við þroska með okkur þá hugsun að hlutverk okkar kristinna manna er einmitt það að berjast fyrir rétti þeirra sem minna mega sín, okkar minnstu systkina. Og hin sanna hamingja felst í því að geta ræktað það hlutverk sem við erum kölluð til.
Algóður Guð blessi hug okkar og hjarta á helgum jólum. Amen.