Hafin er róttæk menningarbylting á Íslandi sem á sér upptök í Ráðhúsinu glæsilega við Tjörnina í Reykjavík. E.t.v. á róttækt útspil Mannréttindaráðs borgarinnar um að hreinsa skólann af trúarbrögðum að skapa hugarró og vellíðan meðal borgarbúa á erfiðum tímum og gera þá hæfari til að takast á við lífsvandann sem að steðjar, að minsta kosti börnin sem nýju tillögurnar beinast að. En hér er um um samfélags- og menningarmál að ræða því ef hið nýja prógram kæmi til framkvæmda í smáatriðum mundi það skapa menningarlegt siðrof og alls ekki víst hvað fyllti það tómarúmu sem af hlytist. Í hnitmiðuðum og nútímalegum kanselístíl, sem á að bera keim af mannréttindayfirlýsingum fjölþjóðlegra samtaka eins og Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna, er tilkynnt að ekki megi syngja sálma í skólum borgarinnar, ekki stunda myndlist sem hefur trúarlegar skýrskotanir og ekki skipuleggja vettvangsheimsóknir í kirkjur og bænahús. Börnin gætu nefnilega smitast og farið að syngja eitthvað trúarlegt og mála krossa, stjörnur, engla og jesúbarnið – Guð minn góður.
Samkvæmt þessu eru ættjarðarljóðin auðvitað á gráu svæði með allar sínar vísarnir í Guð sem gaf þjóðinni landið og gerði það svo fallegt sem það er. Jónas Hallgrímsson er sótsvartur í þessari birtu mannréttinda Reykjavíkurráðsins því að hann leyfir sér að segja um fjallið fagra og klettana á Þingvöllum: „Gat ei nema Guð og eldur, gjört svo dýrlegt furðuverk.“ (Fjallið Skjaldbreiður.)
Þá er samkvæmt þessu best að sýna börnunum ekki heldur englana og maddonnurnar í myndum listamanna borgarinnar eins og Kjarvals og Schevings og flíka ekki álfamyndunum því að þær spretta upp úr þjóðtrúnni. En hvað með vængjuðu sveitakonurnar hans Schevings? Sumar eru með geislabaug! Best að fjarlægja þær líka því að þær gætu ruglað börnin í náttúrufræðitímum og komið inn hjá þeim skökkum hugmyndum um móðurhlutverkið.
Og nú mega ríki og kirkja fara að vara sig fyrir mannréttindaráði Reykjavíkurborgar, svo og ráðuneyti, skólastjórar, foreldrafélög og forstöðumenn allra trúfélaga á Íslandi. Svo virðist sem ráðið telji best að slíta sambandi kirkju og þjóðar með því að færa þjóðkirkjuna og önnur trúfélög alfarið inn á heimili meðlimanna, ef þau eiga endilega að vera til í framtíðinni. Og alls ekki má fara með börnin í heimsókn í alþingi Íslendinga sem er rétt hjá Dómkirkjunni, steinsnar frá Ráðhúsinu, né heldur horfa á útsendingar frá fundum þess því að það er nefnilega svo að það er trúartákn í þjóðfánanum sem er á fánastöng við sæti forseta þingsins. Að vísu er það bót í máli að hann lafir hreyfingalaus (fáninn) niður með stönginni svo upprisutáknið ógurlega, krossinn, í hvítu og rauðu sést ekki. En ef nú kæmi gola inn um glugga eða þá að svo mikið gustaði kringum þingmenn í deilum um orsakir hrunsins að loftið færi á hreyfingu og fáninn þendist út? Þá myndi kross Krists blasa við öllum sálum og valda sárum skaða.
Ekki má færa börnum trúarlega texta. Ritningarnar Nýja testamentið og Kóraninn eru lagðar að jöfnu í tilskipunum ráðsins í nafni íslensks menningararfs og grundvallargilda. Í nafni jafnréttis á heimsvísu hafa þessi rit sjálfsagt haft jafn „skaðvænleg“ áhrif á íslenska hugsun yfirleitt. Nú, svo eru Davíðssálmar fordæmdir því að þeir voru bæna- og sálmabók gyðinga, þar á meðal Jesú frá Nasaret. Best er að viðurkenna að þetta sálmakver fylgir með þeirri útgáfu Nýja testamentisins sem Gídeonfélagið, vill halda áfram að gefa skólabörnum.
Það má náttúrulega ekki fréttast að þjóðsöngurinn sé ortur út af 90. sálmi þessa „óþarfa“ ljóðasafns og það af prestinum Matthíasi Jochumssyni (jafnvel best að taka allt eftir hann úr sýnisbókum íslenskra bókmennta fyrir öll skólastig). Það eru svo margir þjóðsöngvar sem geta komið í stað Ó Guð vors lands, t.d. Yfir kaldan eyðisand : - )