Friður Guðs

Friður Guðs

Kyrrð og friður geta verið óþægileg, ekki aðeins vegna þess að fólk hefur stundum vanið sig á annað, heldur vegna þess að hávaði, ys og annir bjóða flóttaleið frá því að horfast í augu við stöðu sína í bráð og lengd. Í kyrrð erum við neydd til að vera með sjálfum okkur og skynja líðandi stundu óhjúpaða.
fullname - andlitsmynd Vigfús Ingvar Ingvarsson
31. desember 2006
Flokkar

Jesús segir: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“ Jóh. 14.27

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

Áramót eru tími upprifjunar og íhugunar um stöðu sína sem einstaklings og um stöðu þjóðfélagsins, fyrirtækja, stofnana og svo framvegis. Margir ákveða víst um áramót að taka sér tak með einhverjum hætti. Leggja af ósiði, eins og t.d. reykingar, en stunda í staðinn líkamsrækt eða aðra holla iðju. Árangur slíkra heitstrenginga er víst misjafn enda markmiðin misraunhæf og aðgerðir misvel undirbúnar. Líf okkar stjórnast auk þess oft meira af tilfinningum, innri löngunum og ótta, fremur en rökréttum ákvörðunum sem kunna að snerta lítið okkar innstu veru.

Guðspjallsversið, einn þeirra texta sem bent er á sem hugleiðingarefni síðasta kvölds ársins, fjallar um frið Guðs sem Jesús segist munu gefa. Þessi friður er eftirsóknarverður. Ekki síst á hraðfara og oft spennufylltum tímum. En vissulega gengur misjafnlega að höndla þennan frið eða opna líf sitt fyrir honum því þessi friður Guðs er gjöf.

Ýmislegt getum við þó gert til að gera okkur móttækilegri fyrir friði Guðs. Fundið okkur stundir og staði til að slaka á og það gerum við m.a. með því að virða fyrir okkur eða hlusta á eitthvað sem er fallegt og uppbyggilegt og íhuga slíkt. En stundum er svo mikil ókyrrð í lífi fólks og líkaminn fullur af spennu að fólk óttast innst inni ró og frið og er fyrr en varir búið að fylla mögulegar næðisstundir með einhverri athafnasemi. Sumir finna líka oft einhvers konar líkamleg fráhvarfseinkenni þegar þeir taka að slaka á. Viðbrögðin eru þá stundum ósjálfrátt lík og hjá áfengissjúklingnum sem drekkur til að ýta frá sér timburmönnum og leiðindum yfir ástandi sínu og hindrar þannig mögulega lækningu en gerir ástandið sífellt verra.

Kyrrð og friður geta verið óþægileg, ekki aðeins vegna þess að fólk hefur stundum vanið sig á annað, heldur vegna þess að hávaði, ys og annir bjóða flóttaleið frá því að horfast í augu við stöðu sína í bráð og lengd. Í kyrrð erum við neydd til að vera með sjálfum okkur og skynja líðandi stundu óhjúpaða. Í kyrrð og friði hlustum við á okkur sjálf og skynjun okkar verður næmari. Við komumst í samband við það sem innra með okkur býr og spurningin um hvað raunverulega er mikilvægt í bráð og lengd sækir að okkur. Í kyrrð og friði erum við opin fyrir því að þiggja þann frið sem Guð gefur. Þann frið sem er ekki einhvers konar tómleiki heldur fylltur merkingu.

Kristin trú leggur áherslu á að lifa í andrá líðandi stundar í sátt við Guð og menn en láta ekki fortíðina og óvissa framtíð eyðileggja möguleikana á að njóta dagsins í dag.

En til þess, að við getum fundið til nokkurs öryggis og sáttar á líðandi stundu og bægt frá okkur tilhneigingu til að forðast raunveruleikann, höfum við þörf fyrir að skyggnast yfir sviðið. Horfa til baka og fram á við. Auðvitað getur slík rýning vakið innri ókyrrð og jafnvel ótta sem spillir friði okkar. Það er ekki sama með hvað hugarfari við skoðum vegferð okkar, t.d. árið sem er að kveðja.

Í 103. Davíðssálmi standa þessi þekktu vers: „Lofa þú Drottin, sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn, lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans. Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein, ... krýnir þig náð og miskunn.“

Að rifja upp liðinn dag, ár eða æviferil í leit að þakkarefnum gefur okkur mikið. Og þá jafnframt að biðja Guð að græða þau sár sem áföll lífsins hafa valdið okkur og biðja hann að gefa sér kærleika til að geta fyrirgefið misgjörðir annarra og jafnframt að geta fyrirgefið sjálfum sér mistök og vanrækslu. Slík upprifjun samofin bæn og þakkargjörð er veigamikill þáttur í heilbrigðu og gefandi trúarlífi. „Lofa þú Drottin, sála mín, ... og gleym eigi neinum velgjörðum hans.“- segir sálmaskáldið. Að rifja upp velgjörðir Guðs er ein helsta næring trúarinnar og vonarvaki á líðandi stundu.

Við rifjum upp velgjörðir Guðs í orði hans og því sem af því er sprottið í frásögnum, sálmum og bænum. Og þetta er rauður þráður í helgihaldi kirkjunnar og það sem glæðir lofgjörð okkar í guðsþjónustunni. En við nærumst ekki nema takmarkað á trúarreynslu annarra. Frásagnir af Guði að starfi í lífi fólks fyrr og síðar hafa ekki síst það gildi að hvetja okkur til að horfa eftir Guði að starfi í lífi okkar. Því þannig mætum við Guði sem áþreifanlegum veruleika. Ekki fyrst og fremst í einhverjum frásagnarverðum kraftaverkum heldur í vitund um það að Guð hefur gengið með okkur í blíðu og stríðu og hann mun gera það framvegis. Og vitundin um Guð að verki í tilteknum atvikum eða aðstæðum lífsins glæðir skilning okkar á því að Guð er meiri en við viljum oft vera láta. Hann mætir okkur hverju og einu með tilliti til þess að við erum öðruvísi en allir aðrir. Við erum einstök. Og það að skoða líf sitt í leit að fótsporum Guðs og þakkarefnum glæðir skilning á því hvernig Guð vinnur og í hvaða samhengi hann nær best til okkar. Hvar liggja leiðir okkar greinilegast saman? Svarið við þessari spurningu, þó ekki sé það endanlegt, er mikilvægt. Hvað er það sem glæðir vitund okkar um návist og handleiðslu Guðs og opnar líf okkar öðru fremur fyrir friði hans? Og við skulum þá muna að Guð á erfitt með að ná sambandi við okkur í hávaða og ókyrrð eins og fólk á oftast erfitt með að ná til okkar við slíkar aðstæður.

Hvað er það sem greiðir för í vegferð okkar með Guði og hvað hindrar? Þetta eru mikilvægar spurningar ekki aðeins um áramót. Hver eru raunveruleg gleðiefni liðins árs sem ættu að kalla fram þakklæti til Guðs og manna? Og hvaða sáru reynslu er mikilvægt að fela honum í bæn?

Þjóðmál og heimsmál eru rifjuð upp og íhuguð um áramót –ekki skal það lastað– við erum öll kölluð til ábyrgðar í samtíma okkar og til að leggja okkar lóð á vogarskálar réttlætisins og góðum málefnum til framdráttar.

En ákvarðanir og gerðir okkar spretta úr hugskoti okkar og það er ekki síður tilfinningalíf okkar sem ræður ferðinni en vitsmunaleg rök. Þrár okkar, vitund um öryggi eða öryggisleysi, vonir og ótti, sátt eða beiskja. Þess vegna skiptir trúin svo miklu máli í daglegu lífi okkar. Ekki bara sem leiðsögn varðandi rétt og rangt heldur ekki síður sem uppspretta öryggis og friðar sem skapar sátt og tækifæri til lífsfyllingar í samfélagi við þann Guð sem er skapari okkar og elskar okkur óumræðilega mikið. Sú lífssátt glæðir góðvild og dómgreind til góðra verka og gerir okkur næmari á það sem er fagurt í mannlífinu og umhverfi okkar.