Tjöldum því sem til er!

Tjöldum því sem til er!

Það er í félagsskapnum, félagsskapnum við Guð og hvert annað sem við finnum tilgang lífsins. Í samfélaginu við trúsystkin okkar birtist Jesús Kristur okkur og lyftir okkur upp í hinu hversdagslega – ekki yfir hversdaginn heldur í honum miðjum.

Upprisni Kristur, Þú sem varst með lærisveinum þínum á fjallinu og slóst í för með þeim á göngunni. Vertu okkur við hlið á vegi trúarinnar. Vertu með okkur á lífsleiðinni og vek með okkur vilja til þess að taka við öllum sem á vegi okkar verða og hlusta á frásagnir þeirra. Styrk með okkur þrá til að boða orð þitt. Megi það upplýsa okkur og veita okkur einlægan vilja til að bera þér vitni. Megi Heilagur andi þinn kenna okkur að útskýra orð ritningarinnar svo að augu manna opnist og þeir þekki þig. Gef okkur næmleika til þess að bræður okkar og systur megi skynja þig í okkur og við skynja þig í þeim. Amen.

Bæn úr efni alþjóðlegrar samkirkjulegrar bænaviku fyrir einingu kristninnar 2010, lítillega breytt MÁ.

Í alþjóðlegri samkirkjulegri bænaviku fyrir einingu kristninnar hefur kristið fólk víða um heim komið saman um bænir og hugleiðingar út frá 24. kafla Lúkasarguðspjalls. Þar segir meðal annars frá tveimur lærisveinanna sem eftir upprisu Jesú fóru til þorpsins Emmaus. Í för með þeim slóst maður sem þeir þekktu ekki og sá útskýrði fyrir þeim alla þá atburði sem höfðu átt sér stað dagana á undan. Að þetta var hinn upprisni Jesús Kristur vissu mennirnir ekki fyrr en hann settist til borðs með þeim, tók brauðið, þakkaði Guði, braut það og fékk þeim. Þá þekktu þeir hann.

Í framhaldi af þessari frásögn segir frá því þegar Jesús kom til lærisveinanna og fólksins sem var með þeim í Jerúsalem og þau gáfu honum fisk að borða. Skilja má af lýsingunni að þetta atriði, að Jesús neytti matar frammi fyrir fólkinu, varð til þess að þau trúðu því að hann væri raunverulega upprisinn.

Gestrisni Báðar þessar upprisufrásögur snúast um að gefa að borða. Í þeirri fyrri er Jesús í hlutverki gestgjafans sem brýtur brauðið en í þeirri síðari er hann gesturinn sem þiggur stykki af steiktum fiski. Út frá þessum frásögum erum við hvött til að hugleiða gestrisni sem hluta þess að bera trú okkar vitni. Þegar við bjóðum fólki heim erum við gestum okkar Kristur, rétt eins og presturinn í altarisgöngunni. Og þegar við þiggjum viðurgjöring á heimilum vina okkar eða hér í kirkjunni finnum við til samsömunar með Jesú sem er við hlið okkar við borðið og þegar við krjúpum við altarið.

Þetta fyrirbæri, gestrisni, leiðir líka huga okkar að því hvernig við tökum á móti fólki sem af einhverjum ástæðum þarf á því að halda að búa á Íslandi um lengri eða skemri tíma. Falleg var myndin af litla barninu sem fæddist á dögunum á Íslandi, fyrsta barn fólksins frá Palestínu sem fluttist á Akranes fyrir örfáum misserum.

Höfum við hugsað út í það að í hvert sinn sem við tökum við einhverjum með vinsemd eigum við í samskiptum við Jesú sjálfan? Og í hvert skipti sem við vísum manneskju frá okkur með kulda eða kæruleysi erum við þar með að vísa Jesú á bug. Gleymið ekki gestrisninni því að vegna hennar hafa sumir hýst engla án þess að vita, segir í Hebreabréfinu (13.2).

Fjallganga Í guðspjalli dagsins, Matt. 17.1-9, segir frá fjallgöngu. Jesús tók þá Pétur, Jakob og Jóhannes með sér upp á hátt fjall. Fjallganga er, eins og það að borða saman, eitthvað sem maður yfirleitt tekur sér fyrir hendur með vinum sínum. Og hafi fólk ekki þekkst fyrir er næsta öruggt að sú reynsla að klífa fjall saman tengi það órofaböndum.

Nú voru þessir fjórir nánir vinir og ástæðan fyrir fjallgöngunni var, fljótt á litið, að þeir gætu verið saman í næði, ótruflaðir af því fjölmarga fólki sem átti erindi við Jesú. Í ljós kemur að þetta næði var ekki bara til að slaka á saman eða til að fá frið til að spjalla, svona eins og þegar við vinkonurnar förum saman í sumarbústað án barna og eiginmanna. Næðisstundin var í alveg sérstökum tilgangi: Að þessir þrír nánustu vinir Jesú fengju að sjá hann eins og hann raunverulega var – og er: Dýrðlegan Drottin. Við þekkjum muninn á púpu og fiðrildi. Þannig var ummyndun Jesú. Í gegn um mannlegt andlit hans skein hans guðdómlegi ljómi. Þarna fengu lærisveinarnir forsmekkinn af himnaríki. Þeir fengu að sjá Guð.

Hvernig væri nú að tjalda? Í gleði sinni yfir þessari einstöku upplifun, í löngun sinni til að halda í augnablikið, fékk framkvæmdamaðurinn Pétur þá frábæru hugmynd að slá upp tjöldum. Móse og Elía voru komnir þarna líka eins og til staðfestingar því að Jesús væri raunverulega Guð og nú fannst Pétri tímabært að tjalda. Hér er gott að vera, við skulum aldrei fara héðan, bara vera og njóta og finna himinn snerta jörð.

En nálægð Guðs varð sterkari og sterkari, nú sem bjart ský og þaðan hljómaði rödd, enn ein staðfestingin á guðdómi Jesú. Þá hvarf Pétri öll löngun til tjaldgerðar og hann varð yfirmáta hræddur eins og þeir Jakob og Jóhannes. Vá, Guð er hér og krafturinn slíkur að enginn fær sig hreyft.

Þannig augnablik líða einnig hjá og það næsta sem vinirnir vissu var að Jesús var þarna bara einn, engir spámenn og leiðtogar liðins tíma, ekkert ský, engin rödd, bara Jesús einn. Og hann snerti þá á sinn nærgætna hátt og bað þá um að vera ekki hrædda. Við tjöldum ekki hér, vinir mínir, þessi reynsla var fyrir ykkur til að þið mættuð vita hver ég er og segja frá því síðar, en nú er mál að koma sér niður aftur, snúa aftur til veruleikans hér og nú.

Varanleg áhrif Ekki kom til tjaldgerðar á fjallinu. En lífsreynslan sem þremenningarir höfðu fengið í nesti breytti lífi þeirra. Ýmislegt átti eftir að ganga á en í pistli dagins, 2Pét 1.16-21, heyrðum við vitnisburð Péturs um það sem hann hafði verið sjónarvottur að. Hann hafði varðveitt þessa minningu eins og ljós sem skín á myrkum stað þangað til dagur ljómar. Og eftir upprisu Jesú – þegar dagur ljómaði - varð meðal annars þessi fjallganga drifkraftur lífs hans. Við það að sjá dýrð Guðs fékk líf Péturs og þeirra hinna tilgang, þann tilgang að segja frá elsku Guðs alla daga, í orði og verki.

Ég minntist áðan á gestrisni og það hvernig Guð er sjálfur gestur við borð okkar þegar við opnum heimili okkar öðrum, ekki síst þeim sem virkilega hafa þörf á því að þiggja boð. Í ummyndunarfrásögninni sjáum við þetta skýrt: Jesús gekk upp á fjallið með vinum sínum, ofurvenjuleg fjallganga að því er virðist. En í því samfélagi gerðist undrið: Þeir sáu að Jesús er Guð og sú reynsla hafði varanleg áhrif á líf þeirra.

Það er í félagsskapnum, félagsskapnum við Guð og hvert annað sem við finnum tilgang lífsins. Í samfélaginu við trúsystkin okkar birtist Jesús Kristur okkur og lyftir okkur upp í hinu hversdagslega – ekki yfir hversdaginn heldur í honum miðjum. Og í víðara samhengi sjáum við Guð í náunga okkar og finnum köllun okkar til að þjóna honum.

Eining kristninnar Liðna viku höfum við beðið fyrir einingu kristninnar – að við mættum mynda sterka heild kristins fólks, trúverðugan vitnisburð um lífið í Guði, þó skipulag safnaðanna og áhersla í kenningum sé ólík. Við höfum beðið saman, gengið veginn saman, hist heima hjá hvert öðru í mismunandi safnaðarsamhengi, notið gestrisni. Og við höfum dvalið með Jesú á fjallinu, fengið að sjá dýrð hans í helgihaldinu, bænunum og lofgjörðinni og það hefur breytt okkur, fært okkur nær hvert öðru og fólkinu sem við mætum á veginum.

Nú er hafin ný vika, sunnudagurinn markar upphaf vikunnar að kristnum skilningi, fyrsti sköpunardagurinn, upprisudagurinn. Látum þennan dag verða upphaf daglegrar bænar fyrir einingu kristninnar, daglegrar umbreytingar á lífi okkar, daglega hvatningu til gestrisni og samstöðu. Tjöldum ávallt því sem til er í lífinu með Guð og hvert öðru!