Um daginn spurði mig ung stúlka eftir skírnarathöfn hvað ég hafi
skírt mörg börn. Mér vafðist tunga um höfuð. Eftir smá hugarhreikning
taldist mér til að ég sé búin að skíra vel á fjórða þúsund börn og mér
finnst eins og ég hafi byrjað prestskap fyrir fáeinum misserum. „Þú
skírðir mig“ sagði stúlkan á að giska 16 ára, og brosti og skildi mig
eftir með mínar grásprengdu hugsanir.
Víst er að hin kristna kirkja hefur horft upp á margvíslegar breytingar
og margoft hefur verið sótt að henni og tilraunir gerðar til þess að
draga úr vægi hennar í samfélagi því sem hún tilheyrir á öllum tímum.
Kannski er henni aldrei meira hætta búin þegar hún siglir lygnan sjó?
Hún hefur átt sínar björtu og myrku stundir eins og lífið býður uppá.
Ábyrgðin er mikil, bæði að halda á og vera treyst fyrir. Það er ekki sjálfsagt að svo sé. Þess vegna er mikilvægt að hlúa vel að barna og unglingastarfi kirkjunnar að ekki sé talað um öldrunarstarfið.
Ekki verður frá því vikist að nefna og horfa til að veraldleg
hugmyndafræði sækir að ungu fólki í ríkara mæli í dag. Mikilvægt er að
við sem störfum innan kirkjunnar og þeir sem vilja veg hennar mestan,
leikir sem lærðir tali um starfið útávið á jákvæðum nótum. Ég
viðurkenni fúslega að stundum þyrmir yfir undirritaðan vegna þeirrar
neikvæðni og þeirri fjarlægð sem margir setja sig í gagnvart kirkjunni.
Oftar en ekki er sú neikvæðni sprottinn upp úr jarðvegi
þekkingarleysis. Staðreyndin er sú að vissulega er unnið á meðvitaðan
hátt að útiloka trú innan veggja opinbers rýmis og umræðu almennt í
nafni fjölmenningar. Við eigum ekki að hræðast það heldur mæta því með
starfi innan veggja kirkjunnar sem borið er af vel menntuðum manneskjum á
sviði barna og öldunarmála. Í mínum huga er það ekki slæmt að þurfa að
hafa fyrir að ná eyrum fólks, bara spurning á hvern hátt það er gert.
Um daginn sagði ágætur kunningi minn í góðlátlegum tón að ég hljómaði
eins og rispuð 33 snúninga plata á fornsölu - talandi um kirkjuna.
Hljómplatan er að ganga í endurnýjun lífdaga þessi misserin svo sú
samlíking sleppur alveg í mínum huga. Hljómplatan og kirkjan eiga
nefnilega býsna margt sameiginlegt. Útgefið dánarvottorð hljómplötunnar
og kirkjunnar hefur oftar en ekki verið sent til hluteigandi aðila –
fólksins og skila óútfyllt til baka.
Það er mín ósk um eilífð að allt tal um starf kirkjunnar hljómi eins
og rispuð hljómplata. Við sem erum komin um of yfir miðjan aldur munum
eftir að fara í næstu hljómplötuverslun skoða og hlusta og eftir efnum
að kaupa nýútkomna LP plötu handleika albúmið og plötuna með sínar A og B
hlið. Þegar heim var komið var heilög stund að staðetja viðkvæma
nálina á plötuna og tónar hennar fylltu hvern krók og kima. Vissulega
hljómaði innhaldið misjafnlega í eyru. Einstök lög spiluð í rispur. Ef
ég mætti velja vil ég að kirkjan og starfið innan hennar sé eins og
hljómplata með sínar rispur og tilheyrandi endurtekingar og frákast.
Heldur en sálarlaust og sviplaust digital nútímans þar sem búið er að
afmá allt sem heitir frávik, slétt og fellt og á upplýstan huga gárar
ekki.
Kirkjan og boðskapur hennar er nefnilega með sínum rispum og frávikum
eitthvað sem umfaðmar fjölbreytileikann og fær hvern þann sem á vill
hlusta sannfærast um að þar sé pláss fyrir sig með sín ör á sál og
líkama, rispur, grunnar sem djúpar, sem hafa sögur að segja. Sögur af
manneskjum sem innra með sér vita að til kirkjunnar er hægt að leita og
treysta að vel verði fyrir séð á stórum sem smáum stundum lífsins allt
eftir á hvora hlið A eða B er litið og hlustað.
Kann að vera og er reyndar mín sannfæring að stór hluti þeirra sem sækja til kirkjunnar í upphafi haldi uppi þeirri mynd af henni að hún sé aðeins B hlið og einhverju leyti ósannfærandi og hljómur hennar ekki nálarinnar virði.
Það er ekkert mál að höndla gleðina, hláturinn, gleðjast með glöðum og hlægja með viðhlægjendum. Þá er gott að vita í hvorn fótinn eigi að stíga þegar gleðin á sér ekki víst sæti í salarkynnum hugans. Kirkjan kann að vísa til sætis hvort heldur sem er að gleðin eða sorgin knýr á dyr. Við sem kirkja þurfum ekki að fyrirverða okkur fyrir það sem við erum kölluð til að vera í forsvari fyrir.