Fyrirmyndin

Fyrirmyndin

Ef veggirnir gætu talað hefðu þeir frá mörgu að segja. Þeir gætu þulið sögurnar úr Biblíunni. Þeir gætu sagt frá stórum stundum í lífi einstaklinga og þjóðar. Þeir gætu sagt frá sorginni sem hér hefur fengið útrás á kveðjustundum og gleðinni sem ríkir þegar brúðhjón ganga út undir marsinum í lok giftingarathafnarinnar. Þeir gætu rifjað upp ótal skírnarathafnir og þann kærleika sem skín úr hverju andliti þegar lítið barn er borið til skírnar.

Esk 37.1-14; Kól 1.9b-14 (15-20); Matt 9.18-26

Við skulum biðja:

Vertu Guð faðir, faðir minn í frelsarans Jesú nafni. Hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni. Amen.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Það heyrast orgeltónar í útvarpstækinu sem stendur í glugganum í borðstofunni. Tónarnir koma frá orgelinu hér í Dómkirkjunni. Tónlistin frá Dómkirkjuorgelinu barst um allt land og gerir enn þegar messunni er útvarpað. Reyndar var það svo á síðustu öld að jarðaförum var líka útvarpað og fannst sumum afleitt af missa af þeim útsendinum. Hversu mörg af kynslóðunum sem uxu upp eftir að útvarpið kom til sögunnar og fram yfir miðja síðustu öld, eiga ekki slíkar minningar?

Klukkurnar hringja og aftansöngurinn hefst kl. 18 á aðfangadagskvöld hér í Dómkirkjunni. Margar fjölskyldur láta þessa beinu útsendingu í útvarpi allra landsmanna hringja inn jólin sín.

Dómkirkjan, húsið sjálft, starfið og þjónustan sem hér fer fram hefur haft áhrif langt út fyrir raðir sóknarbarnanna. Dómkirkjan er fyrirmyndin af mörgum kirkjubyggingum víða um land, guðfræðin sem hér hefur verið iðkuð og prédikuð hefur mótað kirkjuna og umræðuna í samfélaginu og tónlistin sem hér hefur verið flutt hefur vakið eftirtekt og áhuga. Organistarnir landsþekktir.

Pétur Guðjohnsen var fyrsti organisti Dómkirkjunnar og sama ár og hann kom heim frá námi í Danmörku kom fyrsta orgelið í kirkjuna. Það var árið 1840. Það hefur verið hamingjudagur í kirkjunni þá enda ekki á hverjum degi sem þeirrar tíðar fólk átti þess kost að heyra spilað á hljóðfæri og það af menntuðum manni á því sviði. Pétur Guðjohnsen lagði mikið til tónlistar í kirkjunni. Hann lagði sig fram um að útbreiða sönglistina og gaf út sálmasöngbók þar sem sálmarnir voru útsettir fyrir þrjár raddir. Að þessum arfi búum við enn í dag í kirkjunni því þúsundir manna syngja í kirkjukórum víðs vegar um land.

Dómkirkja. Kirkja er guðshús kristinna manna. Orðið sjálft er komið af gríska orðinu kyriakón, sem þýðir það sem tilheyrir Drottni eða hús Drottins. Dómkirkja er kirkja þar sem biskup hefur aðsetur. Íslenska orðið Dómkirkja er komið af latneska orðinu domus sem merkir hús. Á ensku heitir dómkirkja cathedral. Það orð er fengið úr latínu, þar sem cathedra merkir stóll eða sæti. Cathedral merkir því í raun biskupsstóll og lýsir vel hlutverki dómkirkjunnar. Kirkjan hér við Austurvöll hefur alltaf verið dómkirkja, en líka sóknarkirkja. Fyrst allra Reykvíkinga, nú vesturbæjarins í hundrað og einum Reykjavík.

Biskupsstóllinn var fluttur til Reykjavíkur úr Skálholti. Reyndar var það svo að ákveðið var að sameina biskupsstólana tvo í Skálholti og á Hólum þannig að einn biskup væri yfir öllu landinu, sem sæti í Reykjavík. Hafist var handa við byggingu Dómkirkjunnar sem var eins og fram hefur komið vígð árið 1796. 220 ára afmælis Dómkirkjunnar hefur verið minnst með ýmsum hætti þetta ár.

Ef veggirnir gætu talað hefðu þeir frá mörgu að segja. Þeir gætu þulið sögurnar úr Biblíunni. Þeir gætu sagt frá stórum stundum í lífi einstaklinga og þjóðar. Þeir gætu sagt frá sorginni sem hér hefur fengið útrás á kveðjustundum og gleðinni sem ríkir þegar brúðhjón ganga út undir marsinum í lok giftingarathafnarinnar. Þeir gætu rifjað upp ótal skírnarathafnir og þann kærleika sem skín úr hverju andliti þegar lítið barn er borið til skírnar. Já, það eru margar athafnirnar sem hér hafa farið fram og margt fólkið sem hér hefur gengið út með blessun Guðs.

Hér var þjóðsöngurinn frumfluttur, hér var guðsþjónusta haldin við stofnun hins íslenska Biblíufélags. Hér hafði slökkviliðið aðsetur fyrir margt löngu og hér hafa klukkur hringt inn til helgra tíða.

En fyrst og fremst hefur Guðsorðið verið haft um hönd, bænir beðnar og blessun veitt. Trúin á Guð kristinna manna boðuð og Jesú sögurnar mörgu og djúpu verið útlagðar.

Í dag var lesið úr helgri bók venju samkvæmt. Úr spádómsbók Esekíels í Gamla-testamentinu, úr Kólossubréfinu í Nýja-testamentinu og úr guðspjalli Matteusar. Guðspjallssagan segir frá veikri konu og látinni stúlku og forstöðumanninum föður hennar. Það er talað um trú og Jesú og áhorfendur sem hlógu að Jesú. Í sögunum birtist kærleiki Guðs í verki þar sem konan læknast og dóttirin rís upp frá dauðum. Konan sem hafði haft blóðlát í 12 ár var þess fullviss að Jesús gæti læknað hana, bara ef hún fengi snert klæðafald hans. Forstöðumaðurinn kom til Jesú í sorg sinni eftir dótturmissinn og var þess fullviss að Jesús gæti gefið henni lífið aftur.

Þetta eru ævagamlar sögur en enn er kona á ferð og lítil stúlka dóttir manns í góðri stöðu. Lítil stúlka sem lífið leikur við þar til dauðinn vitjar og framtíðarvonir bresta. Það eru allt of margir sem berjast við sjúkdóma sem erfiðlega gengur að lækna. Konan í sögunni hafði búið við slíkt í 12 ár. Jesú læknaði hana. Hún bar sig eftir björginni því hjá Jesú hafði hún von um lækningu og betra líf á eftir. Og hvað gera ekki þau sem berjast við sjúdóma og erfiðleika. Leita leiða til betra lífs, að minnsta kosti meðan kraftar leyfa. Það er óásættanlegt að veikt fólk þurfi að óttast það að geta ekki notið læknisþjónustu vegna peningaleysis. Nóg er nú að hafa áhyggjur af sjúkdómi og framtíð sinni þó peningaáhyggjur bætist ekki við. Það er líka óásættanlegt að veiku fólki sé synjað um nauðsynleg lyf vegna þess að kostnaðurinn rúmast ekki innan fjárlaga. Fréttir af slíkum málum hafa heyrst á árinu. Það er eitthvað rangt við forgangsröðina þegar lífið og líknin eru minna metin en peningar og steinsteypa.

Forstöðumaður var hann faðirinn í sögunnni. Það bendir til að hann hafi verið í góðri stöðu og sennilega ekki þurft að hafa áhyggjur af lifibrauði sínu. Kannski hefur lífið leikið við hann og gengið sinn vana gang. En svo gerist það sem erfiðast er hér í heimi, að missa barnið sitt. Dóttirin sem hann hefur elskað eins og foreldrar gera lá á líkbörunum. Það er ekki hægt að sætta sig við það. Hann fer til Jesú, sem hann hefur líklega heyrt af og biður um hið ómögulega. Að hann gefi dótturinni lífið aftur. Og Jesús gerði það. Hann gaf stúlkunni lífið aftur. Hún reis upp til lífsins og nýrrar framtíðar fyrir orð Jesú. Fyrir orð Jesú.

Lífið sem Jesús gefur er líf af lífi Guðs. Lífið sem gefið er í heilagri skírn. Skírnum fækkar sífellt hér á landi og um allan hinn vestræna heim. Kannski er það af því að við erum orðin svo góðu vön í þessum heimshluta að við þurfum ekki á neinu né neinum að halda. Við getum allt sjálf og við vitum allt sjálf. En yfir lífinu ráðum við ekki þó við ráðum því hvernig við lifum því að einhverju leyti. Einn daginn getum við verið í sporum forstöðumannsins eða konunnar sem hafði verið veik í 12 ár. Þau leituðu til Jesú í neyð sinni. Vitað er að erfið reynsla verður oft til þess að fólki auðnast að finna sinn Guð og leita til hans á meðan aðrir reyna hið gagnstæða.

Í nýliðinni viku var allra heilagra messa, en þá er látinna minnst. Þar sem daginn ber ekki upp á sunnudag er látinna minnst í kirkjum landsins næsta sunnudag á eftir sem erí dag. Guð blessi og helgi minningu allra þeirra sem farin eru á undan okkur héðan úr þessum heimi og gefi ástvinum huggun og styrk. Hér í Dómkirkjunni hafa margir kvatt sína nánustu hinsta sinni.

Kirkjudagur Dómkirkjunnar er í dag. Hann er ætíð sem næst vígsludegi kirkjunnar, 30. október. Tónlistardagar Dómkirkjunnar hófust líka á afmælisdeginum. Stofnandi þeirra var þáverandi organisti, Marteinn H. Friðriksson, sem lést fyrir nokkrum árum. Mikill metnaður hefur verið lagður í tónlistardagana alla tíð og er svo enn undir forystu núverandi organista.

Tónlist og trú eru vinkonur sem ganga í takt. Þær vinkonur veita gleði á hátíðarstundum, huggun á sorgarstundum, andlega næringu á lífins leið.

„Vertu hughraust, dóttir,“ sagði Jesús, „trú þín hefur bjargað þér.“ Hið sama segir hann við hvert og eitt okkar er til hans leita. Trúin bjargar, trúin á kærleiksríkan Guð. Hún hjálpar okkur á erfiðum stundum. Hún nærir okkur í dagsins önn. Hún gefur okkur líf í fullri gnægð.

Til hamingju með kirkjuna ykkar kæri söfnuður.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé með yður öllum. Amen.