Og Jesús sneri sér að lærisveinum sínum og sagði einslega við þá: „Sæl eru þau augu sem sjá það sem þér sjáið. Því að ég segi yður: Margir spámenn og konungar vildu sjá það sem þér sjáið en sáu það ekki og heyra það sem þér heyrið en heyrðu það ekki.“Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista Jesú og mælti: „Meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“
Jesús sagði við hann: „Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?“
Hann svaraði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“
Jesús sagði við hann: „Þú svaraðir rétt. Ger þú þetta og þú munt lifa.“
En lögvitringurinn vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: „Hver er þá náungi minn?“
Því svaraði Jesús svo: „Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. Svo vildi til að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn en sveigði fram hjá. Eins kom og Levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum og er hann sá hann kenndi hann í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meira til skal ég borga þér þegar ég kem aftur.
Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni sem féll í hendur ræningjum?“ Hann mælti: „Sá sem miskunnarverkið gerði á honum.“
Jesús sagði þá við hann: „Far þú og ger hið sama.“ Lúk 10.23-37
Náð sé með okkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.
Í gær kom ég í hér kirkjuna eftir að hafa gengið með nokkrum vinum eftir varðaðri Selvogsgötunni yfir Reykjanesskagann, forna slóð vermanna, niður Hlíðarskörðin. Við enduðum gönguna á stuttri helgistund.
Þessi pílagrímaganga okkar á rætur sínar að rekja til áheitis afa eins okkar, Helga Ingvasonar læknis, sem gekk þessa leið á þessum tíma árs ár eftir ár í bæn um líf og heilsu til handa sér og fjölskyldu sinni.
Gjáin milli trúar og læknavísinda hverfur á slíkum bænagöngum. Helgisagan um björgun sjómannanna í sjávarháska hér á Selvoginum laðar hugann að þessari kirkju sem byggð var á bakkanum fyrir ofan fjöruna þar sem skipið kom óbrotið að landi. Þeir efndu áheit sitt og þessi kirkja hefur einstakan sess í trúarvitund þjóðarinnar - og þess vegna erum við saman komin hér og nú.
Við höfum átt yndislegt sumar, margir muna ekki annað eins og á göngunni fundum við ilm blóma og grasa þegar við settumst niður til að borða nestið og aldrei hef ég á þessari leið séð eins mikið af þroskuðum berjum og nú í ár, en við göngum alltaf einmitt um þetta leyti - og aldrei hafa berin verið jafn gómsæt og einmitt nú. Við þökkum Guði fyrir þetta sumar.
Á slíkum gönguferðum eins og í gær kemst maður í beina snertingu við hina góðu sköpun Guðs, finnur hvað það er dásamlegt að tilheyra henni og njóta, verða eitt með náttúrunni. Margir vitna um að þeir finna sterkt fyrir nálægð Guðs í náttúrunni, uppi á fjöllum þar sem tilfinningin fyrir nálægð hans verður yfirþyrmandi og sameiningin við alvitundina alger.
Þessi litla kirkja á foksandinum við úthafið er sterkt trúartákn og við getum ímyndað okkur gleði sjómannanna hér úti fyrir í stormi og úfnum sjó þegar þeir sáu ljósveruna á ströndinni, sáu Landsýn, sem sennilega hefur verið María mey sem er æðst dýrlinga kaþólsku kirkjunnar. Þeir hafa líka á áþreifanlegan hátt fundið fyrir nálægt Guðs á þessum stað. Siglingin inn að Engilsvík hefur verið þeim eins konar pílagrímasigling.
Pílagrímagöngur eru nú aftur vinsælar og þessi gamli siður hefur öðlast nýtt líf. Það er ekki bara gengið til Róms eins og segir í gömlum bókum íslenskum, eða Jerúsalem, borgarinnar helgu eða Jakobsveginn til Santiago de Compostela. Nú er t.d. gengnar pílagrímagöngur til Hóla og Skálholts á hátíðum sem tengjast þessum helgistöðum.
Í þessu sambandi er hægt að tala um ytri göngu og innri göngu. Sú ytri er ákveðinn kílómetrafjöldi og tekur ákveðinn tíma miðað við veður og göngufæri – og stefnt er að ákveðnum stað í tíma og rúmi. Sú innri er andleg og persónuleg, það er lífsgangan sjálf og öll eigum við eða viljum eiga eitthvað heilagt sem við stefnum að að gera að veruleika í lífi okkar - eitthvað sem er hinn endanlegur sannleikur, við leitum eftir svörum við ítrustu spurningum tilverunnar.
Við spyrjum eins og lögvitringurinn: Hvað á ég að gjöra til að öðlast eilíft líf?
Þegar gengið er í innri þögn í góðum félagskap – þá er eins og ný vídd opnist. Óljóst fer að vakna með okkur spurningin um það hver sé afstaða okkar og ábyrgð gagnvart því sköpunarverki sem blasir við okkur á slíkum stundum.
* * *
Þjórsárver eru líka helgistaður, gróðurvin undir Hofsjökli umkringd grjótauðn, eyðisöndum og ísköldum jökulbreiðum og þar var haldin helgistund á sunnudegi fyrir viku á biskupsþúfunni í fjallasalnum og þar skynjuðum við nálægð Guðs í helgidóminum engu síður en í kirkjunni. Fararstjórinn, einn virtasti náttúrufræðingur þessa lands, leiddi okkur í allan sannleikann um náttúrufarið og baráttu gróðursins við eyðingaröflin; harðgerðar plöntur teygja sig inn í auðnina þar sem nokkur jarðvegur finnst og vatn sem vökvar. Síli og pöddur í tjörnum, fulgar sem flögra og gæsir á beit.
Guðspjall náttúrunnar var túlkað og lagt út og við fórum með ljóðið þekkta eftir náttúrufræðinginn og trúarskáldið góða Jónas Hallgrímsson – og guðfræðinginn, því Jónas var stúdent frá Bessastaðaskóla og það gaf honum rétt til að sækja um prestsembætti sem hann og gerði, þótt hann fengi ekki. Hann yrkir:
„Smávinir fagrir, foldarskart,/fífill í haga, rauð og blá/brekkusóley, við mættum margt/muna hvort öðru að segja frá./Prýðið þér lengi landið það,/sem lifandi guð hefur fundið stað/ástarsælan, því ástin hans/ allstaðar fyllir þarfir manns.“
Trúarskáldið orðar tilfinningu okkar frammi fyrir hinni góðu sköpun guðs og kemst að kjarna málsins um þann Guð sem talar til okkar í sköpun sinni. Það er sá Guð sem við játum í fyrstu grein trúarjátningarinnar: Ég trúi á Guð, föður skapara himins og jarðar. Jú hann er lifandi Guð kærleikans sem er frumaflið í sköpuninni:
„Ástarsælan, því ástin hans, allstaðar fyllir þarfir manns.“ Þetta vissu sjómennirnir í neyð sinni þegar þeir báðu til Guðs hér úti fyrir Strönd. Þetta vissi líka Davíð konungur sem orti sálma sína fyrir 3000 árum eða einhver í hans nafni og við þekkjum svo vel. Það er sama grunnhugsunin í ljóði Jónasar og í 23. þriðja sálmi Davíðs:
„Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta, á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta. Hann hressir sál mína og leiðir mig rétta vegu .. Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekket illt, því þú ert hjá mér.“
Það var yndislegt að vera upp í Þjórsárverum í sumar, en það hefur verið hræðilegt að vera þar á vetrum. Náttúran getur vissulega verið ógnvekjandi, - stórsjóir og brimgarðar eru sambærilegir að því leyti við blindbyli í óbyggðum - og þannig er það auðvitað á stundum í mannlífinu einnig - í okkar innri göngu.
Í Þjórsárverum sáum við td. jarðhýsi útilegumannanna Höllu og Eyvindar - og ætli þau hafi ekki beðið til Guðs eins og sjómennirnir hér úti á Voginum. Erum við ekki stundum í sporum þeirra Höllu og Eyvindar eða sjómannanna?
Hvernig skyldi það vera að vera pílagrímur í óbyggðum að vetrarlagi? Þau hljóta sannarlega að hafa farið um dimman dal. Hver leiddi þau um réttan veg?
Leiðsögumaðurinn útskýrði vel hin ýmsu tilbrigði í landslaginu og gróðurfarið, en hann var einnig vel að sér í virkjunarmálum svæðisins þar sem Þjórsá og hliðarár hennar hafa verið virkjaðar með skurðum og stíflum og sumar virkjanirnar eru neðan jarðar og mala þar gull eða ál sem er ein af undirstöðum velmegunar okkar.
Nú varð landslagið allt í einu pólitískt, hvar á að virkja og hvar ekki? Guðspjallamaðurinn reyndist vera spámaður. Hvert er sambandið milli ábyrgðar okkar gagnvart sköpun Guðs sem við eigum að vernda og skila til næstu kynslóða og kröfunnar um að nýta náttúruauðlindirnar og skapa velmegun fyrir okkur sjálf, börn okkar og náungann, tryggja velferð og réttlæti?
Hver eru okkar áheit í þessu sambandi? Og við vitum að sitt sýnist hverjum. Stjórnmál dagsins snúast um þetta.
Hvað segir kjarni kristindómsins – kjarninn í boðskap Jesú Krists okkur um þetta?
Hvað segir guðspjall dagsins? Við sögðum: Guð er kærleikur, sköpunarafl tilverunnar er kærleikurinn, sem vonar allt, þolir allt og fellur aldrei úr gildi.
Kristin trú gengur út á það að við tökum þetta alvarlega, treystum því, gerum það að mælisnúru í daglegu lífi okkar í pólitíkinni jafnt sem í samskiptum okkar við okkar nánustu og náungann. Það er þetta sem Jesú lagði áherslu á þegar lögvitringurinn lagði fram sína stóru spurningu fyrir meistarann og hann kunni reyndar sjálfur svarið þótt hann væri óviss í sinni sök: „Elska skalt þú Drottin , Guð þinni af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig.“
Þegar við nálgumst það stóra verkefni að vega og meta hvenær við verndum náttúruna og hvenær við nýtum öfl hennar til að skapa lífsgæði og velmegun verðum við að hafa þetta tvennt að leiðarljósi, þetta tvennt sem er í raun einn og sami kjarninn í fagnaðarerindi Jesú Krists.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda, amen.